Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans - 01.06.1972, Blaðsíða 18
menntaferð um mörg lönd. Hann hafnaði stuttum dagleiðum
íslenzkrar skólagötu og lagði von bráðar af stað út í heim með
áræðið að farareyri, en áður en það yrði settist hann sem snöggvast
í kennarastól heima hjá Ljósvetningum og tók þar upp þráð séra
Sigtryggs Guðlaugssonar, er hann hvarf frá Ljósavatnsskóla
sínum vestur að Núpi í Dýrafirði, og kenndi Jónas þar einn vetur,
en lengur þótti honum ekki sætt að sinni í þeim áfanga.
Hugur Jónasar stóð engan veginn til þess að sækja sér menntun
í embættismannaskóla eða latínuskóla landsins. Honum þótti
einboðið að freista þess að komast út fyrir landsteina, og stefndi
hugur hans þá sem margra annarra ungra og menntafúsra manna
til dönsku lýðháskólanna. Kennaraþóknun frá Ljósavatni og
kaupamannslaun eitt sumar dugðu honum þó engan veginn sem
farareyrir. Þá brá Jónas á það ráð að leita til séra Árna á Skútu-
stöðum, sem þá var þingmaður norðursýslunnar, og biðja hann
að freista þess að útvega sér lítils háttar námsstyrk af landssjóðs-
fé. Þetta tókst séra Árna, og er lítill vafi á því, að með því hefur
hann ráðið miklum úrslitum um líf og feril Jónasar frá Hriflu.
Jónas fékk tveggja ára landssjóðsstyrk árin 1908-1909, þrjú
hundruð krónur hvort árið, með skilyrðinu: „til að stunda
kennaranám erlendis".
Þetta skilorð sýnir glögglega, að Jónas hefur þá þegar bein-
línis hugsað sér að búa sig undir kennarastarf.
Jónas var ekki eini íslendingurinn, sem leitaði til Askov á
þessum árum. Þar var að minnsta kosti hálfur annar tugur ís-
lendinga samvetra Jónasi við skólann. Askov hafði þá unnið sér
viðurkenningarsess sem frægasti lýðháskóli Danmerkur undir
stjórn eins helzta frumherja þeirrar skólastefnu, en þegar Jónas
kom að skólanum hafði Jakob Appel tekið við honum og var að
gera ýmsar breytingar á starfi hans, einkum í því fólgnar að fella
námið í fastari skorður og stefna að ákveðnari fræðamarkmiðum.
Jónas Jónsson felldi sig ekki alls kostar við þá breytingu og taldi
öfugt stefnt. Honum þótti og sem of mikil áherzla væri lögð á
stærðfræðigreinar og eðlisfræði, enda voru tveir aðalkennarar
skólans höfuðsmenn í þeim fræðigreinum.
Jónas skrifaði allýtarlega grein um skólann í Askov í Eim-
reiðina árið 1909 um það leyti sem hann yfirgaf skólann eftir
ársdvöl og hélt til kennaraháskólans í Kaupmannahöfn, þar sem
hann las hinn síðari vetur sinn í Danmörku. í þessari Eimreiðar-
grein, þar sem Jónas setur í fyrsta sinn fram mótaðar hugmyndir
og segir kost og löst á skólakerfum, kemur fram einlæg aðdáun
14