Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans - 01.06.1972, Blaðsíða 36
kona Jónasar, átti sinn mikla þátt í því að varðveita heimilisand-
ann, og leið nemanda lá ósjaldan inn til skólastjórahjónanna.
Árekstrar milli Jónasar og nemenda áttu sér þó stundum stað, því
að kröfuharka Jónasar um fulltingi við þær hugsjónir, sem hann
taldi máli skipta, var mikil, og ýmsir þeir nemendur, sem höfðu
bein í nefi, vildu ekki þýðast leiðsögn, sem veitt var með slíku
valdi og stormi.
Jónas vildi gera Samvinnuskólann að félagslegri þjálfunarstöð,
og honum tókst það. Skólinn varð miklu meira en æfingaskóli í
verzlun. Frá honum kom fjöldi dugandi samvinnumanna, sem
ekki aðeins höfðu fengið styrk og kunnáttu til þess að sjá fyrirtæki
góðan farborða, heldur höfðu öðlazt djúpa félagskennd og mann-
lega samhjálparábyrgð. Þeir urðu vel hlutgengir í samstarfi sam-
félagsmálanna og færir um forystu langt út fyrir mörk samvinnu-
starfsins. Reynslan hefur sýnt, að margir Samvinnuskólamenn
hafa látið að sér kveða með þeim hætti, að þeir færðu samvinnu-
viðhorfin út fyrir mörk samvinnufélaganna, svo að þau hafa víða
sett svip sinn á héraðsmál og landsmál, og þessir menn hafa gert
kaupfélögin að raunverulegum aflstöðvum menningar og fram-
fara í breiðum byggðum og fært kvíarnar með þeim hætti langt út
fyrir vettvang kaupa og sölu. Þannig hefur samábyrgð og sam-
hjálparhugsjón samvinnustefnunnar mótað líf fólks og sambúð
í ríkum mæli öllum til gæfu. í þessu ræktunarstarfi er skerfur
Jónasar Jónssonar mikill, og meiri en vegið verði eða metið.
í þessari yfirborðsgrein hefur verið reynt að bregða upp nokkr-
um myndum af skólamanninum Jónasi Jónssyni og fara á stiklum
yfír helztu áfanga í hugsjónamótun hans. Hins vegar er engin
teljandi tilraun gerð til þess að meta þau varanlegu áhrif, sem þessi
hugmyndaríkasti, aðfangsmesti og stórvirkasti skólamaður þjóð-
arinnar á þessari öld hefur haft á skóla- og menntaþróun þjóðar-
innar á þessu umskiptaskeiði. Það hefur heldur ekki verið reynt
að greina sundur til neinnar hlítar skerf Jónasar og hinnar fjöl-
mennu og stórvirku samstarfssveitar hans á þessum akri. Allt það
er mikið og erfitt rannsóknarefni, sem bíður fræðavíkinga á betri
tíma. Ýmislegt er líka enn of snemmt að dæma, þótt kynlegt megi
kalla. Sagan er stundum seinlátur dómari.
Andrés Kristjánsson.
32