Morgunblaðið - 11.10.2019, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 11.10.2019, Blaðsíða 19
19 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. OKTÓBER 2019 Á beit Kýrnar á Rangárvöllum sem urðu á vegi ljósmyndara í vikunni sýndu myndatökunni mikinn áhuga. Þótt veturinn sé í nánd hefur veðrið verið milt og enn má rekast á kýr á beit í haga. Hari Hagfræðin er undarleg vísindi. Í raun fjallar hún um skort og útdeilingu takmarkaðra gæða. Fræðigreinin verður vart til fyrr en seint á átjándu öld, þróast á nítjándu öld og tekin í notkun á tuttugustu öld. Þó eru hagfræði- leg vandamál rædd í biblíunni. Þannig er fjallað um draum faraós í 1. Mósebók: Guð hefur birt faraó hvað hann hefur í hyggju. Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár og sjö vænu öxin merkja einnig sjö ár. Þetta er einn og sami draumur. Sjö mögru og ljótu kýrnar, sem komu á eftir hin- um, merkja sjö ár og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, merkja sjö ára hungursneyð. Þarna er fjallað um góðæri og hallæri. Þannig er eitt fyrsta hag- fræðiritið á íslensku „Mannfækkun af hallærum“ eftir Hannes biskup Finnsson í Skálholti. Adam Smith fjallar um frjáls við- skipti í riti sínu um „Rannsókn á eðli og ástæðum fyrir auðlegð þjóð- anna“. David Ricardo setti fram kennisetningu sína um hlutfallslega yfirburði þjóða, en sú kennisetning er grundvöllur utanríkisviðskipta og kollvarpaði eldri hugmynd um kaupauðgi, sem lagði fyrst og fremst áherslu á útflutning. Viðskiptasamningar og viðskiptabandalög Viðskipti á Íslandi voru til- tölulega frjáls í upphafi síðustu ald- ar. Á þriðja áratugnum og síðar voru gerðar ýmsar ráðstafanir til að vinna á afleiðingum heimskrepp- unnar, sem var aðeins kreppa í hin- um vestræna heimi. Sennilega voru viðskipti ekki mikil milli Evrópu og Kyrrahafssvæðis, nema ef vera skyldi olíuviðskipti Hollend- inga við nýlendur landsins. Fyrsta kreppu- ráðstöfunin á Íslandi var löggjöf um bann við innflutningi á óþarfa. Lög þessi eru undirrituð í Amalíu- borg 8. mars 1920 „Undir Vorri konung- legu hendi og innsigli. Christian R (L.S.)“. Eftir 1930 var hert á öllum kreppuráðstöfunum, sem aðeins framlengdi kreppuna hér á landi. Enn er hugsun margra grundvölluð á kreppuráðstöfunum þar sem að- eins gilda svokallaðir „hagsmunir Íslands“ en ekki almennar leik- reglur. Það var ekki fyrr en eftir 1960 að viðskipti á Íslandi voru löguð að eðlilegum leikreglum þar sem hlut- fallslegir yfirburðir Íslands réðu ferðinni en ekki „hagsmunir“ lands- ins. Hagsmunir Íslands komu fram af sjálfu sér með hlutfallslegum yfirburðum landsins. Þó var ekki fyllilega lokið við upptöku eðlilegra reglna í alþjóðaviðskiptum á við- reisnartímanum milli 1960 og 1970. Þar stóð fjármálamarkaðurinn al- gerlega eftir. Almennar leikreglur urðu fyrst til á Íslandi með EES- samningi. Önnur kennisetning um utanríkisviðskipti grundvallast á þyngdarlögmáli Newtons, það er að viðskipti milli landa taki mið af fjar- lægð. Því hafa orðið til svæðis- bundin viðskiptabandalög til að stuðla að hagnýtingu nándar landa. Það ruglast þó þegar viðskipti milli Íslands og Kyrrahafslanda eru at- huguð, því þar er fjarlægð mikil en viðskipti einnig mikil með ákveðnar vörur. Skýrsla um EES-samstarfið Fyrr í þessum mánuði birtist skýrsla, sem leggur mat á EES- samstarfið í 25 ár, tekin saman af Birni Bjarnasyni, Kristrúnu Heim- isdóttur og Bergþóru Halldórs- dóttur. Í skýrslunni eru settir fram nokkrir mælanlegir þættir um þró- un á þeim tíma, sem samningur um EES hefur verið í gildi. Þróun kaupmáttar launa er mjög athygli verður, hvort heldur lágmarkslauna eða ósundurgreindra launa . Kaup- máttur lágmarkslauna hefur vaxið um 149% en almenn launavísitala hefur hækkað að raungildi um 90% frá 1990. Sennilega er þetta mesta hag- sældartímabil sem yfir landið hefur gengið og minnir um margt á feitu kýrnar í draumum faraós. Hag- vaxtartölur svara til kaupmáttar- þróunar. Atvinnuleysi hefur minnk- að á tímabilinu. Útflutningsviðskipti hafa aukist mikið, sérstaklega þjón- ustuviðskipti. Aðgengi Íslendinga að vinnu- markaði á EES-svæðinu hefur batnað og starfsréttindi hérlendis njóta fullrar viðurkenningar um allt svæðið. Sine qua non Það er rétt að spyrja á hvaða sviði EES-samningurinn er alger- lega nauðsynlegur. Umfang þess hluta réttlætir töluvert. Með aðild að EES-samningnum hefur Ísland tillögurétt, málfrelsi og áheyrnarrétt að Flugöryggis- stofnun Evrópu (EASA) og Lyfja- stofnun Evrópu (EMA). Í þessum tveimur stofnunum fer fram meiri sérfræðivinna en lítið land ræður við. Þessar tvær stofnanir eru hluti af stofnanauppbyggingu Evrópusam- bandsins á fagsviðum. Ísland hefur ekki atkvæðisrétt en nýtur alls ávinnings af starfsemi þeirra á grundvelli gagnkvæmrar viður- kenningar. Aðild að EASA veitir tryggingu fyrir samræmdum reglum um flug- rekstur, lofthæfi, flugleiðsögu, flug- velli, skírteinismál flugliða og ör- yggisstjórnarkerfi. Með samræm- ingu þessara þátta hafa íslenskir flugrekendur heimildir til flugs á öllu EES-svæðinu og jafnvel að- gang að „Open Sky“-samningi Evr- ópusambandsins og Bandaríkjanna. Loftferðasamningar við önnur ríki fyrir íslenska flugrekstraraðila verða mjög einfaldir í framkvæmd á grundvelli aðildar að EASA. Aðild að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) er sömu annmörkum háð og aðild að EASA, þ.e. Ísland er án at- kvæðisréttar. Þátttaka Íslands í EMA hefur leitt til betra aðgengis að nýjum og öflugum lyfjum, auk bættra upplýsinga fyrir almenning um lyf. Markaðssetning nýrra lyfja á Íslandi verður mun fyrr en ella með þátttöku í EMA. Á sama veg veitir aðild Íslands að EMA íslenskum lyfjafyrirtækjum greiðan aðgang að evrópskum lyfja- markaði. Atkvæðagreiðsla skiptir ekki máli þegar leitað er eftir bestu tækni- legu lausn. Lífsgæði Flugöryggi og lyf eru lífsgæði. Þetta eru þættir sem almenningur má ekki fara á mis við. Sá er þetta ritar telur að aðild að þessum tveimur stofnunum réttlæti tilvist EES-samningsins, þótt án at- kvæðisréttar sé. Atkvæðisréttur er sjaldan nýttur þegar um tæknileg mál af þessu tagi er að ræða og sjaldnast er um fleiri en eina lausn að ræða. Ef um slíkt er að velja kann EFTA-dómstóllinn að skera úr um þegar EFTA-lönd EES- samningsins eiga í hlut. Það er ólík- legt að lausn með tvíhliða samn- ingum um hvert mál veitti betri nið- urstöðu en samningsbundin aðild að heildarsamningi, eins og EES- samningnum. Raunar má segja hið sama um þátttöku í samstarfi um fjármála- markað. Það sem illa hefur farið skrifast alfarið á þátt Íslendinga sjálfra vegna ásóknar í skapandi túlkun á löggjöf og reikningsskilum og eftirsókn í glæpbrjálaða hegðun á fjármálamarkaði. Hvað er að? Þeir sem eru ósáttir við skýrsl- una virðast helst ósáttir við eitthvað sem ekki er í henni. Aðgengi að nefndinni sem vann skýrsluna var mjög gott. Viðmælendur nefndar- innar voru 147. Svo virðist sem við- mælendur hafi hvort heldur getað greint frá eigin reynslu varðandi þætti sem vörðuðu samninginn eða lagt fram spurningar sem leitast yrði við að svara. Það kann að vera að fyrir þeim sem eru ósáttir sé komið eins og ósköp venjulegum Íslendingi sem getur ekki komið sér að erindinu fyrr en hann gengur út. Þingmenn þurfa ekki að fara í ham fúlla gamalmenna þegar þeir vita ekki hvað þeir vilja. Í samvinnu þjóða sannast það sem skáldið sagði: „Kannski er maður aldrei einn, kannski á maður aldrei svo bágt að ekki sé einhver annar að gráta við hliðina á manni, sýnilegur eða ósýnilegur.“ Eftir Vilhjálm Bjarnason » Sennilega er þetta mesta hagsældar- tímabil sem yfir landið hefur gengið og minnir um margt á feitu kýrnar í draumum faraós. Vilhjálmur Bjarnason Höfundur var alþingismaður. Samningur um EES, ávinningur og ágallar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.