Morgunblaðið - 11.10.2019, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 11.10.2019, Blaðsíða 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. OKTÓBER 2019 ✝ IngigerðurÁgústsdóttir fæddist í Reykjavík 30. september 1923. Hún lést 28. september 2019 á hjúkrunarheim- ilinu Skjóli í Reykjavík. For- eldrar hennar voru Einar Ágúst Guð- mundsson frá Ísa- firði, f. 7.8. 1882, d. 16.3. 1965, hann starfaði lengst af sem bílstjóri, og Katrín Hreinsdóttir húsmóðir frá Kvíarholti í Holtum, f. 1895, d. 1994. Alsystir Ingigerðar er Unnur kennari, f. 1927. Hálf- systkini hennar samfeðra voru Höskuldur, f. 1905, d. 1996, Þóra, f. 1907, d. 1977, Margrét Sigríður, f. 1909, d. 1992, Stein- unn, f. 1911, d. 2002, Nanna Helga, f. 1912, d. 2011, Ágústa, f. 1914, d. 1997, Guðmundur, f. 1916, d. 1983, Bolli, f. 1920, d. 2005. Eiginmaður Ingigerðar var Steindór Reynir Jónsson flug- virki, f. 3.8. 1926, d. 2.1.2016. Þau gengu í hjónaband 4.11. andi í margmiðlun, f. 27.8. 1990. 3) Anna María þroskaþjálfi, f. 27.2. 1964. Eiginmaður hennar var Sigurður Rúnar Sæmunds- son tannlæknir, þau skildu. Börn þeirra eru: a) Steinar við- skiptafræðingur og hugbún- aðarráðgjafi hjá Rue de Net, f. 29.12. 1985, b) Tinna hjúkrunar- fræðingur, f. 10.11. 1991. Sam- býlismaður Önnu Maríu er Stef- án Erlendsson lögfræðingur, f. 29.7. 1965. Synir hans eru Helgi Róbert, Erlendur Atli og Arn- aldur Ingi. Barnabarnabörn Ingigerðar og Steindórs eru orðin tíu. Ingigerður ólst upp í Reykja- vík. Hún var tvo vetur í Héraðs- skólanum á Laugarvatni. Hún útskrifaðist ung sem saumakona og vann við kjólasaum um tíma ásamt verslunarstörfum. 1946 fór hún í húsmæðraskóla til Sví- þjóðar. Hún var síðan í einum fyrsta hópnum sem fékk form- lega menntun í uppeldisfræðum og útskrifaðist sem fóstra. Leik- skólar Reykjavíkur urðu síðan hennar starfsvettvangur; Tjarnarborg, Grænaborg, Barónsborg og lengst starfaði hún á Bakkaborg. Um árabil sinnti hún einnig umferðar- fræðslu fyrir börn á vegum lögreglunnar. Útför Ingigerðar verður gerð frá Áskirkju í dag 11. október 2019, klukkan 15. 1950 Foreldrar hans voru Jón Jóns- son verkamaður á Akureyri, f. 24.12. 1898, d. 17.5. 1969, og Sigurbjörg Magnúsdóttir hús- móðir og sauma- kona, f. 11.8. 1902 á Ólafsfirði, d. 12.9. 1986. Börn Ingigerðar og Steindórs eru: 1) Baldvin Hreinn sálfræðingur, f. 2.5. 1951. Eiginkona hans er Hafdís Engilbertsdóttir flug- freyja og kennari, f. 7.8. 1951. Börn þeirra eru: a) Tinna Björk sálfræðingur, f. 20.9. 1973, b) Ív- ar, doktor í verkfræði, starfar hjá Landsvirkjun, f. 26.4. 1985. c) Fannar flugumferðarstjóri hjá Isavia, f. 13.5. 1989. 2) Snorri bifreiðasmíðameistari, f. 4.7. 1954. Eiginkona hans er Ingibjörg Þóra Ingólfsdóttir kennari, f. 2.6. 1954. Börn þeirra eru: a) Steindór Ingi tölv- unarfræðingur hjá Origo, f. 27.12. 1976, b) Eva Rún sviðs- listafræðingur og ljóðskáld, f. 9.4. 1982, c) Björgvin Atli nem- Elskuleg tengdamamma mín var gleðigjafi. Þegar ég kom fyrst inn í fjölskylduna óharðnaður unglingur dáðist ég fljótt að þess- um eiginleika og þótti mikið vænt um hann alla tíð. Alltaf var stutt í spaug og leik hjá Ingu þegar fjöl- skylda og vinir komu saman og var alltaf af nógu að taka og óþrjótandi hugmyndir. Maður vissi aldrei hvers var að vænta. Hvort úthlutað yrði hlutverkum í leikriti, hvort botna átti ljóð eða leika brandara! Ekki var spennan minni þegar þær systur Inga og Unnur leiddu saman krafta sína með fjölskyldur sínar sem var nokkuð oft á árum áður. Hugsa ég til þessa tíma með þakklæti. Tengdamamma var góðum gáfum gædd og hæfileikarík. Hún hafði lifandi áhuga á mönnum og málefnum og fylgdist vel með fólkinu í kringum sig og aldrei heyrðist hún hallmæla nokkurri manneskju. Hún var óspör á tíma sinn þegar kom að börnum, barnabörnum og frændsystkin- um enda átti hún vísan sess í hugum þeirra. Börn voru reyndar hennar yndi. Hún var menntuð fóstra (leikskólakennari) og starf- aði sem slík til margra ára og hugðarefni barna voru henni allt- af hugleikin. Tengdamamma var skemmti- lega pjöttuð. Alltaf vel klædd, vel tilhöfð og aldrei langt í varalitinn. Tengdaforeldrar mínir nutu hamingjuríks lífs saman og sam- band þeirra einstaklega fallegt. Þau upplifðu margt skemmtilegt saman á langri ævi og ferðuðust mikið, sem þau höfðu unun af. Nú er Inga mín komin til Deida síns en þess hafði hún beð- ið. Ég kveð hana með innilegu þakklæti fyrir allt sem hún var mér. Mikil og góð fyrirmynd. Hafdís. Í dag kveð ég elsku Ingu tengdamóður mína. Með virðingu og þökk vil ég minnast hennar. Inga var einstök kona sem kunni þá list að njóta lífsins. Hún fylgdist vel með málum líðandi stundar og var vel að sér á mörg- um sviðum. Inga hafði góða nær- veru og var hrókur alls fagnaðar með glettni sinni og gamansemi. Hún var gjafmild og góð kona sem hugsaði vel um alla sem næst henni stóðu. Leiðir okkar Ingu lágu saman fyrir margt löngu. Þá var ég á unglingsaldri, rétt að byrja með Snorra. Við fyrstu kynni kom í ljós að við áttum margt sameigin- legt. Má þar nefna áhuga fyrir handavinnu og málefnum barna, mismunandi áherslum í uppeldi og kennslu. Ekki vorum við þó alltaf sammála, en það gerði ekk- ert til. Í dag hugsa ég með þakk- læti til hennar og alls þess sem hún kenndi mér. Betri tengda- móður er vart hægt að hugsa sér. Hvað þá tengdaföður, hann Deida. Saman voru þau hjónin sterk og samstiga. Alltaf tilbúin að aðstoða okkur og leiðbeina á lífsins löngu braut, hvort sem það var vegna íbúðakaupa eða umönnunar barna okkar. Síðustu árin náðum við Inga að tengjast sterkum vináttuböndum sem fylgja mér alla ævi. Ingibjörg Þóra Ingólfsdóttir. Þegar einhver nákomin(n) mér eða áhrifavaldur í mínu lífi kveð- ur í hinsta sinn finnst mér góð lexía að hugsa til jákvæðra gilda sem læra má af viðkomandi. Þeg- ar kemur að ömmu kem ég ekki að tómum kofanum í þeim efnum. Amma á stóran sess í æskuminn- ingum mínum. Æskuminningar uppfullar af hlýju og skilyrðis- lausri væntumþykju hennar í minn garð sem ég verð henni ævinlega þakklátur fyrir. Hún bjó yfir góðu jafnvægi af ljúfu en ákveðnu viðmóti sem mér hefur alltaf þótt til eftirbreytni. Tals- máti hennar og athafnir voru uppbyggilegar og man ég hvað mér brá þegar ég heyrði hana í fyrsta og eina skiptið tala á nei- kvæðan hátt, þá kominn á menntaskólaaldur, þegar hún lét fylgja með efasemdir um fríðleika Þórðar mágs míns eftir að hafa talað svo vel um hann við vinkonu sína. Amma tók sig sjaldan of al- varlega og bjó yfir einstaklega ófyrirsjáanlegu og lúmsku skop- skyni. Allt til síðasta dags átti hún til að slá á létta strengi og mun ég seint gleyma þegar hún fékk mig til að skella upp úr í síð- asta skipti fyrir stuttu síðan. Þá vorum við á gangi um setustofu Skjóls, þar sem hún eyddi síðustu mánuðum sínum, og þegar við göngum framhjá samvistarkonu hennar, vandræðalega gapandi og hrjótandi á stól, lítur amma til hennar og segir hvatvíst en yfir- vegað: „Hæ skvís.“ Ég samgleðst þér, elsku amma, fyrir að vera yndisleg manneskja, fyrir gott líf og fá að kveðja södd lífdaga. Ívar Baldvinsson. „Já, en ekki of lengi,“ sagði Inga amma kímin eftir að afmæl- isgestir í 90 ára afmæli hennar höfðu hrópað „hún lengi lifi!“ og fylgt eftir með ferföldu húrra- hrópi. Elsku Inga amma, nú ertu loksins komin til hans Deida þíns. Sólin er sest og falleg ævi er á enda. Mikið áttirðu fallegt og skemmtilegt líf. Vorin hlý, haust- in köld. Mikið eigum við eftir að sakna þín og ykkar afa. Allar minningarnar úr Víkurbakkan- um, og svo seinna Brekkubæ og Furugerði. Og mikið varstu flott kona. Það kom sko enginn að tómum kofunum hjá henni Ingu ömmu. Alltaf með puttann á púls- inum fram eftir öllum aldri. Og alltaf til í að rétta fram hjálpar- hönd og ganga í málin ef eitthvað bjátaði á. Elsku amma, takk fyrir allar stundirnar og alla umhyggjuna. Við munum alltaf muna þig og allt það sem þú stóðst fyrir. Steindór Ingi, Edda Sif, Esja María og Nína Katrín. Það eru bara tæp tvö ár síðan ég kíkti óvænt til ömmu og var svo heppin að hitta á hana og systur hennar, Unni, á leið á þorrablót. Þær voru glaðar og hressar, að taka sig til og fá sér örlítið í tána. Ég og Unnur vorum að spjalla og amma var að reyna að ná sambandi við Unni, sem hafði farið út í búð fyrir hana á leiðinni og orðið henni út um nýj- ar nælonsokkabuxur, sem amma vildi nú fá. Eftir dálitla stund hækkaði amma röddina: Unnur, sokkabuxurnar eða lífið. Við hlóg- um alveg ferlega mikið. Þetta var amma mín í hnotskurn. Ég var að vona að amma mín yrði ein af þessum konum sem verða hundrað og eitthvað ára. Það fór henni svo vel að eldast. Amma var alltaf með puttann á púlsinum í öllum málefnum. Hún fylgdist með þróun mála í sam- félaginu og lagði sig fram við að skilja stefnur og strauma. Þegar ég var í skiptinámi klippti hún út alla umfjöllun í fjölmiðlum um samkynhneigð og hinsegin mál og sendi mér út með bréfunum sínum. Þannig var amma. Alltaf að setja sig inn í málin. Og auðvit- að alltaf að klippa út úr blöðum. Það var svo gaman að spjalla við ömmu. Hún var alltaf svo opin og jákvæð að ég var svo montin af ömmu minni, sem var þátttakandi í nánast hverju verkefni sem ég gerði með sviðslistahópnum mín- um. Amma ræddi við okkur um hjónabandið, dauðann og söng vísur inn á band. Sýndi stuðning og áhuga á öllu sem ég gerði. Það hófst nýr kafli í vináttu okkar þegar ég var 14 ára, og hún sagði: „Jæja Eva mín, nú fáum við okk- ur kaffi.“ Kaffiboð voru eins og heilagt ritúal. Haldið upp á stund- ina. Hér og nú. Allt dregið fram. Fagnað tilverunni saman. Ég mun alltaf sakna þessara stunda og alltaf sakna Ingu ömmu minnar. Eva Rún Snorradóttir. Drottningin hún amma mín. Það var svo oft sem ég horfði á hana eða skoðaði myndir af henni og hugsaði hvað hún væri mikil drottning. Svo tignarleg kona og virðuleg. Alltaf vel tilhöfð, með krullur, varalit og í hælaskóm. Henni fannst hún hallast aftur á bak ef hún var ekki á hælum sagði hún. Vinskapur okkar Ingömmu var mikill og varð meiri með hverju árinu sem leið. Ég er þakklát fyrir samtalið okkar í gegnum facetime nokkrum dög- um áður en hún kvaddi þennan heim þar sem ég var í Ameríku. Þar minntist hún þess þegar ég var lítil og sat uppi á borði og við vorum eitthvað að bardúsa sam- an, það var minning sem hún rifj- aði oft upp með mér. „Knúsídúllu- stelpan mín,“ sagði hún. Ég man hvað mér þótti gott að knúsa ömmu því hún var svo mjúk og góð lykt af henni. Það var alltaf notalegt að koma til Ingömmu og Kári minn hafði ekki síður gaman af. Þau voru hinir mestu mátar þótt sá stutti hefði nú lítinn tíma til að sitja kyrr í fanginu hennar. Honum fannst sérlega gaman að fá að keyra grindina hennar um eða leyfa ömmu að rúnta með sig á henni, það var mikið sport. Amma vildi alltaf bjóða upp á kaffi, kex og kökur. Ekki mátti nú sleppa þessum rótgróna lið til margra áratuga úr daglegri rút- ínu. Svo iðulega í heimsóknum tíndum við saman úr skápum fram á borð einhverjar kræs- ingar. Alltaf nóg til. Ömmu þótti líka gaman að prufa „nýjan“ mat og komum við því stundum með sushi, pítsu, asískar núðlur og fleira. Allt þótti henni gott enda mikill matarunnandi. Ekki mátti nú neitt fara til spillis og var því síðasta pítsusneiðin borðuð dag- inn eftir með rækjusalati. Nú er hún amma farin til elsku afa. Hún trúði því af öllu hjarta að þau myndu hittast á ný og þráði það heitt, enda mjög ástfangin hjón. Ingamma og Deidafi sam- einuð á himnum, það er afskap- lega fallegt að hugsa til þess. Elsku amma mín, þó svo ég vildi hafa þig lengur þá veit ég að þinn tími var kominn, sjáumst seinna besta Ingamma. Þín Tinna Sigurðardóttir. Ilmur af jólum. Hlátrasköll og gleði. Átta frændsystkin að sýna hvert öðru gjafirnar sínar og síð- an hápunkturinn, „hollinn skoll- inn sitt í hvoru horni“. Enn meiri gleði og skríkir og svolítill æsing- ur. Að lokum er sungið og gengið kringum jólatréð, börn og full- orðnir saman. Við systur kepp- umst um að fá að halda í höndina á Ingu frænku og stundum fáum við á tilfinninguna að hún hafi fimm hendur því einhvern veginn tekst henni að gera okkur öllum til geðs og öllum finnst okkur við vera útvaldar. Þannig var hún Inga móður- systir okkar, hún hafði þann hæfi- leika að láta hvert barn finna að það er einstakt og elskað. Inga var eldri dóttir Gústa á fimmunni og Katrínar heimasætu úr Holtunum. Yngri dóttirin Unnur er móðir okkar systranna fimm. Einstaklega kært var með Unni og Ingu alla tíð. Ef til vill var grunnurinn að kærleika systranna lagður undir eldhús- borðinu á Ránargötunni en þar sváfu þær hlið við hlið um langt árabil enda var húsakosturinn þröngur hjá Gústa og Katrínu eins og hjá mörgum fjölskyldum árin fyrir seinni heimsstyrjöld. Vafalítið hafa systurnar skrafað margt og mikið í kvöldhúminu og báðar minntust þær þessa tíma með hlýju og húmor. Þarna hafa þær ugglaust lagt á ráðin um að hleypa heimdraganum og fara til Svíþjóðar á húsmæðraskóla. Það var mikið ævintýri sem þær rifj- uðu upp með jöfnu millibili sér og öðrum til ánægjuauka og í lok minningastundanna sungu þær oft „Á hörpunnar óma“. Unnur aðalrödd og Inga millirödd. Skopskyn var aðalsmerki Ingu. Henni fannst fátt skemmti- legra en góðlátlegt grín enda not- aði hún það óspart sjálf. Hún kynnti okkur fyrir makalausri fyndni prumpublaðra sem hún laumaði undir bossann á ein- hverri okkar þegar fjölskyldurn- ar hittust eftir að Inga kom úr einni af sínum fjölmörgu sigling- um til Glasgow með heittelskuð- um lífsförunaut, ljúflingnum hon- um Deida. Við krakkarnir höfðum aldrei upplifað neitt jafn fyndið og kútveltumst um af hlátri, ekki síst sú sem fyrir grikknum varð. Upp úr ferða- töskunum komu líka kjólar og skór á okkur systur, allt gullfal- legt og rosalega útlenskt, sem ekki var verra. Ferðatöskurnar hennar Ingu voru eins og hjartað hennar; alltaf nóg rými. Miklir kærleikar voru og eru með börnum Unnar og Ingu. Við erum á svipuðum aldri og höfum fylgst að frá upphafi. Lengi vel voru jóladagsboðin það sem allir hlökkuðu til allt árið. Einnig var farið í útilegur og sumarbústaði og Inga var ætíð gleðigjafi með sína ljúfu lund, hlýju nærveru og elskulega grín. Hún fylgdist vel með okkur öllum fimm, sorgum okkar og sigrum, börnunum okk- ar og barnabörnum. Og þannig var hún alveg fram í andlátið, blíð, kát og sá það besta í öllu og öllum. Við systur erum forsjón- inni óendanlega þakklátar fyrir að hafa verið uppáhaldsfrænkur Ingu. Öllum sem áttu því láni að fagna að vera samvistum við Ingu sendum við samúðarkveðjur. Katrín, Lára, Ingibjörg, Guðrún og Unnur Pálsdætur. Látin er góð og eftirminnileg samstarfskona til margra ára, Ingigerður Ágústsdóttir leik- skólakennari. Við kynntumst á dagheimilinu Bakkaborg, þar fór hún fyrir yngstu barna deild, henni fórst það vel úr hendi svo og samstarf við foreldra. Hún var einstaklega ljúf í samstarfi og ef eitthvað kom upp á var hún oft fyrst til að koma með úrræði til góðs. Hún var heiðarleg, jákvæð og lagði alltaf gott til. Það má segja að hún væri ímynd þeirrar persónu sem þyrfti að vera á öll- um vinnustöðum. Eftir að sam- starfi okkar lauk, hugsaði ég oft til hennar ef eitthvað bjátaði á. Þegar breytingar urðu hjá okkur báðum varðandi starf varð alltof langt á milli samfunda og við hitt- umst of sjaldan. En loks þegar við fundumst var eins og að við hefð- um hist í gær. Ég heimsótti hana í tilefni 95 ára afmælis hennar, þá var hún sama daman, jafn ljúf og fín. Við rifjuðum upp gamla daga og minnið var ótrúlega gott. Ég minnist hennar með virð- ingu og þakklæti. Veri hún kært kvödd. Valgerður Engilbertsdóttir. Ingigerður Ágústsdóttir Elskuð móðir mín, amma okkar og langamma, ARABELLA EYMUNDSDÓTTIR, lést á líknardeildinni 27. september. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Þökkum auðsýnda samúð og kærleika. Sérstakar þakkir til starfsfólks líknardeildarinnar og Heru – heimaþjónustu. Linda Sigríður Baldvinsdóttir Baldvin Arnar Samúelsson Arna María Geirsdóttir Valdís Rán Samúelsdóttir Guðjón Guðjónsson Arabella Ýr Samúelsdóttir Pedro Martins og langömmubörn Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, RAGNHEIÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR frá Sæbóli, Ingjaldssandi, Kópavogsbraut 1a, Kópavogi, lést á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 7. október. Útförin verður auglýst síðar. Guðmundur Pétursson Sigrún Ingibjörg Arnardóttir Anna Bára Pétursdóttir Freysteinn Vigfússon Sigurður Pétursson Guðrún Ólafsdóttir Ingibjörg Pétursdóttir Valtýr Reginsson ömmu- og langömmubörn Ástkær móðir okkar, tengdamóðir og amma, HULDA STEINGRÍMSDÓTTIR, lést á dvalarheimilinu Hornbrekku 6. október. Útförin fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju þriðjudaginn 15. október klukkan 14. Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hennar er bent á Hornbrekku, dvalarheimili aldraðra, Ólafsfirði. Sólrún Pálsdóttir Kent Svensson Sesselja Margrét Pálsdóttir Henrik Lennart Kentsson Ásta Heiður Tómasdóttir Silja Marie Kentsdóttir Daníel Arnar Tómasson Alexandra Kentsdóttir Kristófer Kentsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.