Fréttablaðið - 05.12.2019, Blaðsíða 15
Högnhöfði er tignarlegt fjall norður af Brekkuskógi í Biskupstungum en nafnið vekur ekki síður athygli en brattar brekkurnar. Ýmsar kenn-ingar eru um nafngiftina en fjallið minnir óneitanlega á kött sem leggst
á framfæturna og má með góðum vilja sjá glitta í
kattareyru efst. En það hafa verið fleiri kenningar um
nafngiftina, til dæmis táknar orðið hogn á nýnorsku
hvassan fjallshrygg og áður var högn notað á íslensku
um staði sem skera sig úr í landslagi. Kisukenn-
ingin er þó skemmtilegri og þegar gengið er á fjallið
er gaman að ímynda sér risakött sem horfir í átt að
Brekkuskógi. Nágrenni Högnhöfða er ekki síður
spennandi en fjallið sjálft og útsýni af tindinum er
af dýrari gerðinni. Vestur af fjallinu er Rótasandur
en þar á Brúará upptök sín áður en hún steypist
niður hrikaleg gljúfur, Brúarárskörð, og síðan áfram
suður að Brekkuskógi. Þarna hefst fjallahringur sem
nánast umlykur Högnhöfða með Rauðafelli, Skriðu
og Skjaldbreið í broddi fylkingar en líka Fanntófelli,
Þórisjökli, Geitlandsjökli og píramídalaga Klakk í
Langjökli. Mest áberandi eru þó tveir nágrannar í
norðri, stapinn Hlöðufell (1.188 m) sem óneitanlega
minnir á Herðubreið, og torkleifir Kálfstindar (846
m). Í austri sést síðan vel til Heklu og sunnar í Tind-
fjöll, Eyjafjallajökul og Vestmannaeyjar.
Það er auðvelt að ganga á Högnhöfða þótt sumar
brekkurnar séu nokkuð brattar og lausar í sér. Því er
skynsamlegt að hafa meðferðis göngustafi og í vetrar-
ferðum mannbrodda og ísöxi. Skammt frá Brekku-
skógi er bærinn Úthlíð en þaðan er hægt að aka inn
að Högnhöfða. Tilvalið er að leggja bílum og hefja
gönguna við mynni Brúarárskarða við fallegt tjald-
stæði á svokölluðum Höfðaflötum. Fyrst er gengið
upp birkivaxnar hlíðar og síðan áfram meðfram
gljúfurbörmum Skarðanna. Smám saman er komið
að stórfenglegri fossaröð og steypast sumir þeirra
beint út úr gljúfurveggnum. Aðeins ofar er Strokkur
(517 m), lágvaxið fjall sem ber nafn með rentu, en
áður en komið er að honum er sveigt til norðurs upp
suðurbrekkur Högnhöfða. Þar tekur við slétta að
sjálfum tindinum. Hægt er að halda sömu leið til baka
eða velja eystri leið niður að bílastæðinu. Þetta er 14
km ganga fram og til baka en sprækt göngu-
fólk getur lengt gönguna talsvert með því
að hefja hana í Brekku- eða Miðhúsaskógi.
Að sumri til er einnig hægt að hefja
gönguna af Rótasandi en þangað má
komast á fjórhjóladrifnum bifreiðum
frá Laugarvatni.
Lúrir köttur
Tómas
Guðbjartsson
hjartaskurð-
læknir og
náttúruunnandi
og Ólafur Már
Björnsson
augnlæknir og
ljósmyndari
Högnhöfði
líkist liggjandi
ketti. Í fjarska
sést í Þóris-
jökul, Hlöðu-
fell, Langjökul
og Kálfstinda.
MYNDIR/ÓMB
Af Högnhöfða er gríðarlegt útsýni. Hér er horft til suðurs og sést alla leið til Vestmannaeyja.
Horft til
vesturs með
Högnhöfða
í forgrunni. Í
baksýn sést í
Skriðu, Botns-
súlur og sjálfan
Skjaldbreið.
5 . D E S E M B E R 2 0 1 9 F I M M T U D A G U R12 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð