Skessuhorn - 16.04.2019, Síða 18
ÞRIÐJUDAGUR 16. ApRÍL 201918
Jörfagleði, menningarhátíð Dala-
manna, hefst í næstu viku, síðasta
vetrardag miðvikudaginn 24. apríl.
Hátíðin hefur verið haldin annað
hvert ár síðan 1977. Líkt og venja
er fyrir verður dagskráin með fjöl-
breyttu sniði og ættu allir að finna
eitthvað við sitt hæfi. „Undirbún-
ingur hefur gengið mjög vel og
það er allt að verða tilbúið,“ segir
Bjarnheiður Jóhannsdóttir, ferða-
málafulltrúi Dalabyggðar og skipu-
leggjandi hátíðarinnar, í samtali við
Skessuhorn. „Hátíðin hefst með
leiksýningu frá Leikfélagi Hólma-
víkur í Dalabúð á miðvikudags-
kvöldið. Karlakórinn Söngbræður
verða með tónleika á Sumardaginn
fyrsta í Dalabúð. Á föstudagskvöld-
inu fáum við Kómedíuleikhúsið
með sýningu um Gísla Súrsson, á
laugardagskvöldinu verður söng-
skemmtun á Staðarfelli og á sunnu-
dagskvöldinu verður spurninga-
keppni í Dalabúð en það er sterk
hefð fyrir henni. Fólk keppir í
þriggja manna liðum og það er oft
þannig að fyrirtæki eða vinnuhópar
taka sig saman og mynda lið. Þetta
er mikið fjör og virkilega skemmti-
legt,“ segir Bjarnheiður.
Heimamenn bjóða heim
Alla hátíðina verður opin ljós-
myndasýning Grímu Kristinsdótt-
ur á Vogi og þangað geta gest-
ir komið við og skoðað sýninguna
og fengið sér að borða eða sest nið-
ur með kaffibolla. Þá ætla nokkr-
ir heimamenn að opna heimili sín
fyrir gesti. Á laugardeginum verður
opið hús á tveimur bæjum í Hörðu-
dal; Seljalandi og Hlíð. „Þarna búa
ferðaþjónustuaðilar sem ætla að
opna dyrnar fyrir fólk sem vill koma
og skoða. Í Hlíð er nýlega búið að
byggja bragga þar sem nú er veit-
ingastaður sem er eflaust gaman að
skoða. Helgi Þorgeir Friðjónsson
á Kjarlaksstöðum ætlar að bjóða
fólki að kíkja á vinnustofuna sína á
sunnudeginum og þangað er eflaust
mjög skemmtilegt að koma,“ seg-
ir Bjarnheiður. „Við viljum virkja
skapandi hlið Dalamanna og verð-
um því með tvær mjög skemmtileg-
ar smiðjur á hátíðinni. Það verður
leiksmiðja fyrir börn og unglinga
þar sem Þorgrímur á Erpsstöð-
um mun gera eitthvað skemmtilegt
með krökkunum. Svo verðum við
með skapandi skrif fyrir alla. Þar
mun Davíð Stefánsson aðstoða fólk
við að draga fram skemmtilega og
spennandi texta,“ bætir Bjarnheið-
ur við.
Skorar á fólk að mæta á
hátíðina
Á laugardagsmorgninum verður
kapphlaup/ganga upp að Trega-
steini í Hörðudal. Sögð verður
sagan af því hvernig Tregasteinn
fékk sitt örnefni. Sá sem er fyrstur
upp og aftur niður fær viðurnefn-
ið Tregasteinskóngur/drottning
2019. En gangan/hlaupið hent-
ar vel fyrir alla og hver og einn
fer á eigin hraða. Þá verður Víða-
vangshlaup UDN á Fellsströnd á
sunnudagsmorgninum klukkan
11. Hlaupið verður frá afleggjar-
anum á Dagverðanesi að Vogi og
er hlaupið um 4 kílómetrar. „Þetta
hentar allri fjölskyldunni og svo að
hlaupi loknu er hægt að gæða sér á
súpu á Vogi,“ segir Bjarnheiður. Á
sunnudeginum mun Þórunn Guð-
mundsdóttir sagnfræðingur segja
söguna af láti Kristína Sigurðar-
dóttur, vinnukonu á Sámsstöðum,
sem lést með grunsamlegum hætti
en lát hennar var aldrei almenni-
lega rannsakað. „Það er gaman
þegar svona mál eru rannsökuð
eftirá og við ætlum aðeins að velta
þessu fyrir okkur,“ segir Bjarn-
heiður. „Það er vert að minnast
á að skátafélagið Stígandi verður
með kaffisölu í Dalabúð á Sumar-
daginn fyrsta og er það gott tilefni
til að gera sér ferð í Búðardal þann
dag. Svo verður opnun á örsýningu
myndlistarkvenna í Dölum sem
kalla sig Brennuvarga. Þar verður
opnuð sýning á litlum listaverkum
úr leir sem brenndur var í lifandi
eldi úti í móa. Auk þess verður
sýnd stuttmynd um ferlið hvernig
leirmunirnir voru unnir. Ég skora
á fólk að mæta á hátíðina, taka þátt
og njóta með okkur, bæði heima-
menn og nærsveitunga líka,“ segir
Bjarnheiður að endingu. Þetta er
aðeins brot af því sem í boði verð-
ur á hátíðinni en nánari upplýsing-
ar er hægt að finna á www.dalir.is.
arg
Jörfagleði hefst í Dölum í næstu viku
Svipmynd frá hlaupi í Haukadal á Jörfagleði 2017. Ljósm. úr safni.
Snorrastofa í Reykholti kynnir
viðburðinn; „Var hún á leiðinni?
Svipast um eftir upphafi íslenskr-
ar dægurtónlistar – með fáeinum
tóndæmum“. Þetta er dagskrá í tali
og tónum um upphaf íslenskrar
dægurtónlistar sem Trausti Jóns-
son, veðurfræðingur úr Borgarnesi
og áhugamaður um tónlist, eða
áhugamaður í jaðarfræðum, eins
og hann segir sjálfur, hefur umsjón
með. Dagskráin verður í Bókhlöðu
Snorrastofu þriðjudaginn 30. apríl
og hefst klukkan 20. Að erindi
loknu um efni og höfunda „tón-
listarléttmetis“ áranna frá 1901 til
1926, verður haldið til kirkju þar
sem söngvarar og hljóðfæraleikar-
ar flytja lög frá þessum tíma.
Um efni kvöldsins segir umsjón-
armaður þess: Nokkuð vantar upp
á að íslenskri tónlistarsögu hafi
verið gerð viðhlítandi skil. Upphaf
íslenskrar dægurtónlistar er hul-
ið nokkurri þoku. Henni létti að
mestu í kringum 1930 þegar fyrstu
lögin birtust á nótum og voru gef-
in út á hljómplötum. Fyrir þann
tíma eru áþreifanlegar heimildir
afskaplega óljósar. Dægurlög hafa
þó alveg áreiðanlega verið samin
og flutt af íslenskum höfundum frá
því á 19. öld, því allmikið heyrð-
ist af erlendri tónlist af því tagi og
nótnaeign var allútbreidd. Fjöldi
manna og kvenna lék á harmónik-
ur, gítara, píanó og fleiri hljóðfæri
og öll voru þau notuð á skemmtun-
um. Við gætum sjálfsagt með lagni
og fyrirhöfn endurgert dansleiki
þessa tíma. Hér reynum við þó
ekkert slíkt en einbeitum okkur að
því „tónlistarléttmeti“ sem út kom
á nótum fyrir 1930, eða hefur lifað
af í handriti. Ekki var það mikið,
en þó nægilega mikið til þess að
fylla þessa dagskrá og rúmlega það.
Nútíminn er e.t.v. í vafa um hvort
þetta sé réttnefnd dægurtónlist –
nema þá harmónikulögin. En varla
er þetta ljóða- eða kórsöngur – og
örugglega ekki sálmalög. Dálítið
„lummó“ sumt, en samt hafa höf-
undarnir ábyggilega flestir hverjir
verið bæði ánægðir með afkvæm-
in og stoltir af þeim – þó ekki hafi
þau lifað lengi. Flestir höfundarnir
eru líka illa gleymdir (ekki þó al-
veg allir). Tími til kominn að ein-
hver nútímaeyru fái að heyra og
meðal annars má nefna að flutt
verður fyrsta íslenska dægurlagið
sem birtist á prenti (27. septem-
ber 1901).
Á tónleikum að erindi loknu
verða lög eftir 13 höfunda, úrval
úr safni þriggja tuga verka sem
fundist hafa í þokuheimum, flutt af
söngvurum og hljóðfæraleikurum.
Tónlistarhópurinn, sem unnið
hefur með Trausta að verkefninu,
hefur fengið vinnuheitið Leitar-
sveitin og hún er skipuð tónlistar-
fólki úr héraði. Það eru þau Bjarni
Guðmundsson (söngur og gítar),
Jónína Erna Arnardóttir (píanó),
Olgeir Helgi Ragnarsson (tenór),
Ólafur Flosason (óbó), Theodóra
Þorsteinsdóttir (sópran) og Zsuzs-
anna Budai (píanó).
Fáum dylst að Trausti hefur
ræktað áhuga sinn fyrir tónlistinni
af kostgæfni og áhugavert verður
að fá nú að upplifa með honum
nokkurn hluta þeirrar uppskeru.
Aðgangseyrir er kr. 1000 og boð-
ið verður til kaffiveitinga. Þá er
fólk beðið að athuga breyttan sam-
komutíma.
-fréttatilkynning
Forsíða af nótum valsdægurlags eftir
Halldór Gunnlögsson.
Svipast um eftir upphafi íslenskrar dægurtónlistar
Trausti flytur erindi og tónlistarflutningur í framhaldinu
Trausti Jónsson áhugamaður um tónlist hefur umsjón með dagskrá.