Skessuhorn - 16.01.2019, Side 14
MIÐVIKUDAGUR 16. JANÚAR 201914
Gréta Sigurðardóttir er fædd í
Reykjavík en bjó í Borgarnesi til
sex ára aldurs. Þá flutti hún til
Reykjavíkur þar sem hún ólst upp
fram á unglingsár þegar fjölskyld-
an flutti í Kópavoginn. Á fullorð-
insárum hefur Gréta lengst af búið
í Reykjavík en einnig í Stykkis-
hólmi árin 1972 til 1987 og ól þar
upp börnin sín. Árið 2007 flutti
Gréta að nýju í Stykkishólm og
opnaði gistiheimilið Bænir og
Brauð árið 2009 og árið 2012 opn-
aði hún Hótel Egilsen. Gréta kom
við á skrifstofu Skessuhorns fyr-
ir skömmu og ræddi við blaða-
mann um lífið í Stykkishólmi, hót-
elrekstur og bókahátíðina Júlíönu
sem hún hefur haldið ár hvert í sex
ár og nú er sjöunda hátíðin fram-
undan.
Sterk tenging á
Snæfellsnesið
Gréta hefur allt sitt líf haft ann-
an fótinn á Stykkishólmi en amma
hennar og afi bjuggu á eyjunni
Jónsnesi sem er út af Helgafells-
sveit. Þar dvaldi Gréta gjarnan yfir
vor- og sumartímann þegar hún var
barn og segir hún allar sínar bestu
æskuminningar vera frá Jónsnesi.
„Ég hef alltaf leitað mikið til Jóns-
ness í huganum og það er svo skrýt-
ið en fram undir 25 ára aldur, ef ég
las skáldsögur, var sögusviðið allt-
af Jónsnes,“ segir Gréta. „Ég hefði
viljað dvelja þar öllum stundum ef
ég hefði getað. En foreldrar mínir
voru leiguliðar svo við fluttum oft.
Jónsnes var því alltaf fasti punkt-
urinn í tilverunni hjá mér,“ segir
Gréta og brosir dreymin um leið
og hún hugsar til baka. Eins og fyrr
segir bjó Gréta í Stykkishólmi um
skeið á áttunda og níunda áratugn-
um. Árið 1987 lá leið hennar aft-
ur til Reykjavíkur en Stykkishólm-
ur togaði þó alltaf. Árið 2006 ákvað
hún að kaupa sér þar hús til að nýta
sem sumarhús og var þá Laufásveg-
ur 1 keyptur. Þremur árum síðar
stóð hún á krossgötum í lífinu og
ákvað þá að opna gistiheimili í hús-
inu við Laufásveg. Hugmyndin var
að opna þar lítið gistiheimili sem
hún myndi hafa opið yfir sumarið
en dvelja svo í Reykjavík yfir vet-
urna.
Opnaði Hótel Egilsen
Strax fyrsta sumarið sem gisti-
heimilið var opið var allt fullbók-
að og svo fór að Gréta ákvað að
reka gistiheimilið allt árið. Ári síð-
ar kom á sölu hús í Stykkishólmi
sem ber nafnið Höfðagata gisting
en í því húsi hafði Gréta einmitt
alið upp börnin sín. Á þessum tíma
kom fjölskylda hennar inn í rekst-
urinn og ákveðið var að festa einn-
ig kaup á þessu gistiheimili. „Á
þessum tíma var litla gistiheimilið
mitt orðið fjölskyldufyrirtæki og
Ella Birna systir mín sá um rekst-
ur á Höfðagötu gistingu,“ segir
Gréta. Þarna var ekki látið við sitja
en árið 2011 var sett á sölu hús
sem heitir Egilshús í Stykkishólmi.
Gréta og fjölskylda gátu ekki lát-
ið það framhjá sér fara og keyptu
húsið og opnuðu þar tíu herbergja
bútík hótel, Hótel Egilsen. Gréta
hefur alla tíð lagt mikla áherslu á
að bæði á hótelinu og gistiheim-
ilinu sé boðið upp á fyrsta flokks
gistingu. „Ég ákvað strax frá upp-
hafi að vera aðeins með hágæða
rúm og rúmfatnað og aðeins hvítt
straujað lín fyrir gesti mína. Ég
legg mikið upp úr að gestunum líði
vel og njóti dvalarinnar,“ segir hún
og bætir því við að morgunverð-
urinn hafi alltaf verið sérstaklega
vinsæll. „Gestir sem komið hafa til
okkar hafa allir verið mjög ánægðir
með morgunverðinn en hann hef-
ur fengið góða dóma bæði á Trip
Advisor og booking.com.“
Bókahátíðin Júlíana
Gréta var hótelstjóri á Hótel Eg-
ilsen til ársins 2016 ásamt því að
reka Bænir og Brauð en þá ræður
hún hótelstjóra í starfið. „Í ágúst
á síðasta ári komu svo barnabarn-
ið mitt, hann Arnór Hreiðarsson,
og unnusta hans Sólrún Sigurðar-
dóttir og tóku við og ég steig alfar-
ið til hliðar,“ segir Gréta og bæt-
ir því við að nú taki við ný verk-
efni hjá henni vitandi af gistiheim-
ilinu og hótelinu í góðum hönd-
um. Gréta hefur alla tíð verið mik-
ill bókaunnandi og frá því hún var
ung stúlka hefur henni alltaf þótt
gott að setjast niður og gleyma sér
yfir góðri bók. Ást hennar á bóka-
lestri var kveikjan af bókahátíðinni
Júlíönu sem nú hefur verið haldin
árlega frá 2013 í Stykkishólmi. Er
þetta ein stærsta menningarhátíð
sem haldin er í Hólminum. „Ég var
eina nótt að ganga um Hótel Egil-
sen þegar ég sest niður og hugsa
með mér að mig langi til að gera
eitthvað meira á hótelinu.“ Hún
ákvað því að stofna til bókahátíðar
og fékk hátíðin nafnið Júlíana eft-
ir Júlíönu Jónsdóttur skáldkonu.
Júlíana var fyrst íslenskra kvenna
til að fá útgefna bók þegar hún gaf
út ljóðabókina Stúlku árið 1876.
Bókahátíðinni frestað
vegna kvikmyndatöku
Bókahátíðin Júlíana hefur ver-
ið haldin ár hvert síðustu helgina
í febrúar en í ár verður hátíðinni
frestað um einn mánuð og hún
því haldin 21. - 24. mars. Ástæð-
an fyrir frestun hátíðarinnar eru
upptökur á bíómynd í Stykkis-
hólmi. „Bærinn verður undirlagð-
ur á meðan á tökum stendur og
gististaðir uppbókaðir. Við viljum
ekki falla í skuggann á upptökun-
um og var það því niðurstaðan að
fresta bókahátíðinni,“ segir Gréta.
„En ég er líka full tilhlökkunar fyr-
ir kvikmyndaupptökunum,“ segir
Gréta og rifjar það upp þegar kvik-
myndin „The Secret Life of Wal-
ter Mitty“ var tekin upp í bænum.
„Það er skemmtilegt þegar fallegi
bærinn okkar er valinn fyrir svona
verkefni. Það var mikið líf í bæn-
um og margt indælt fólk sem kom
hingað þegar myndin um Walter
Mitty var tekin upp. Margir þeirra
gistu á Hótel Egilsen og voru þetta
allt alveg einstaklega góðir gestir.
Sem að sjálfsögðu voru allir yfir
sig ánægðir með morgunverðinn,“
segir Gréta og hlær við.
Smásagnasamkeppni
Fyrir bókahátíðina hefur verið efnt
til smásagnakeppni og er þátttaka
öllum opin og vinningarnir hin-
ir glæsilegustu. Fyrir bestu smá-
söguna hlýtur höfundur gjafabréf
í gistingu á Hótel Egilsen fyrir
tvo með morgunverði. Gjafabréfið
tekur strax gildi til 30. apríl og svo
aftur frá 1. október til loka des-
ember. Þá verður einnig í verðlaun
þriggja rétta kvöldverður á Sjávar-
pakkhúsinu og sigling um Breiða-
fjörð með Sæferðum. Það er því
vel þess virði að setjast niður með
skriffærin og skrifa góða sögu. En
þess ber að geta að sögurnar mega
að hámarki vera fjögur þúsund
orð og þær skal merkja með dul-
nefni en rétt nafn skal fylgja í lok-
uðu umslagi. Skilafrestur er til 1.
mars.
Leshópurinn vinsæll
Bókahátíðin verður sett á fimmtu-
dagskvöldinu á Vatnasafninu og
þar verður einn verðugur Hólmari
heiðraður sérstaklega. „Það sem
ég er einna stoltust af er samstarfs-
verkefni hátíðarinnar með grunn-
skólanum þar sem við höfum feng-
ið rappara og höfunda til að koma
og vinna með grunnskólanum til
eflingar móðurmáls og skapandi
skrifa. Í ár mun Ævar Örn vís-
indamaður koma og vinna með 4.
– 7. bekk í grunnskólanum. Börn-
in munu skrifa smásögur þar sem
yfirskriftin er ótti og hugrekki og
á föstudeginum verður árangurinn
sýndur í bókasafninu klukkan 11,“
segir Gréta. Alla helgina verður
fjölbreytt dagskrá þar sem lögð er
áhersla á að hafa eitthvað fyrir alla
aldurshópa. Meðal þess sem verð-
ur í boði á föstudeginum er sögu-
stund fyrir börnin, sögulestur og
sögustundir í heimahúsum. „Það
er nú ekki hægt að halda svona há-
tíð nema vera með viðburð fyrir
börnin, enda bóklestur afskaplega
mikilvægur fyrir þau. Á föstudeg-
inum verður lestur fyrir börnin á
Hótel Egilsen þar sem boðið verð-
ur upp á heitt súkkulaði og eitt-
hvað gómsætt. Það er mikilvægt
að börnin fái að vera þátttakend-
ur í hátíðinni og munu nemend-
ur á yngri deildum Grunnskólans
í Stykkishólmi setja upp sýningu
á verkum sínum á Amtsbókasafn-
inu með yfirskriftinni ótti og hug-
rekki,“ segir Gréta og brosir.
Venja er fyrir því að stofnaður sé
leshópur fyrir hátíðina og er öllum
velkomnir að vera með. Leshópur-
inn mun að þessu sinni lesa bók-
ina Ástin Texas sögur eftir Guð-
rúnu Evu Mínervudóttur. „Les-
hópurinn er mjög vinsæll og ég á
til dæmis von á því að tveir hóp-
ar úr Reykjavík muni lesa sömu
bók og koma á hátíðina,“ seg-
ir Gréta. Laugardagurinn byrjar
með að snædd verður hin marg-
rómaða Júlíönusúpa Hótal Egilsen
þar sem leshópurinn kemur saman
og borðar súpu og hittir Guðrúnu
Evu Mínervudóttur höfund bók-
arinnar. „Ég er alltaf jafn spennt
fyrir hátíðinni en hún hefur alltaf
verið mjög vel sótt. Ekki væri hægt
að halda svona hátíð þar sem frítt
er inn á alla viðburði nema með
góðum styrktaraðilum og er þeirra
allra getið í dagskránni þegar við
auglýsum hátíðina. Einnig er
þetta ógjörningur nema fyrir til-
stilli þeirra ágætu kvenna sem all-
ar hafa lagt sitt á vogarskálina. Í ár
er það auk mín, Þórunn Sigþórs-
dóttir, Dagbjört Höskuldsdóttir
og fyrrnefnd Sólrún Sigurðardótt-
ir. Þetta er allt unnið í sjálfboða-
vinnu og hefur alltaf verið,“ segir
Gréta. Hátíðinni mun svo ljúka í
Norska húsinu þar sem Þorgrímur
Pétursson mun leika tónlist af nýja
disknum sínum, Álög, sem er að
koma út. „Vert er að geta þess að
umræddur Þorgrímur er einmitt
sambýlismaður Vilborgar Davíðs-
dóttur sem tvívegis hefur komið
og verið með okkur á hátíðinni,
þeirri fyrstu og þeirri sjöttu,“ seg-
ir Gréta að endingu.
arg / Ljósm. úr safni
Bókahátíðinni Júlíönu frestað
um mánuð vegna kvikmyndatöku
Rætt við Grétu Sigurðardóttir hóteleiganda í Stykkishólmi um bókahátíðina og sitthvað fleira
Gréta Sigurðardóttir hefur alltaf haft sterka tengingu á Snæfellsnesið.
Svipmynd frá bókahátíðinni Júlíönu á síðasta ári.