Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Síða 193
Ritdómar
Gunnlaugur Ingólfsson (útg.). 2017. Fjölnisstafsetningin. Hliðarspor í sögu íslenskrar
stafsetningar. Rit 94. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík.
lx + 130.
Róttækustu stafsetningartillögur sem settar hafa verið fram hér á landi eru svo-
kölluð Fjölnisstafsetning sem kynnt var í ársritinu Fjölni árið 1836. Grundvöllur
hennar var framburður samtímamálsins en ekki upprunasjónarmið. Konráð
Gíslason (1808–1891), sem almennt er talinn vera höfundur þessarar stafsetning-
ar, sagði að framburðurinn væri einkaregla stafsetningarinnar (Gunnlaugur Ing -
ólfs son 2017:18). Í þessu fólst m.a. að stafirnir y, ý, ey voru lagðir niður (t.d. þízkur
í stað þýzkur), ei var skrifað eí (t.d. þeír í stað þeir), je var ritað fyrir é (t.d. ljettast í
stað léttast), bl fyrir fl (t.d. ebla í stað efla) o.s.frv.
Í því riti, sem hér er til umfjöllunar, hefur verið safnað saman í eina bók ýmsu
efni sem varðar þessa stafsetningu, bæði greinargerðum Fjölnismanna í Fjölni og
viðbrögðum annarra. Grein Konráðs um nýju stafsetninguna (Þáttur umm staf-
setníng. 1) er birt í ritinu (bls. 3–40) og einnig aðrar greinar Fjölnismanna um
stafsetningu (bls. 55–67, 121–122, 123–125). Stafsetningartillögur Fjölnismanna
féllu í grýttan jarðveg og voru meðal annars gagnrýndar í tveimur blaðagreinum
í Sunnanpóstinum 1836 (í ritinu á bls. 41–43 og 45–53) og í óútgefnum ritgerðum
Sveinbjarnar Egilssonar, Rask og Fjölnir og Nokkrar athugasemdir, vidvíkjandi
íslenzkri stafasetníngu með tilliti til stafsetníngar-þáttarins í Fjölnir 1836 sem hér eru
gefnar út í fyrsta sinn (á bls. 69–92 og 93–119). Frá og með 7. árgangi Fjölnis 1844
var síðan aftur snúið til upprunastafsetningar í ritinu. Framburðarstafsetning
Fjölnismanna átti þó eftir að hafa mikil áhrif á stafsetningarhugmyndir allt fram
á 20. öld.
Það er fengur að því að birtar séu hér á einum stað allar helstu greinar frá
þessum tíma um Fjölnisstafsetninguna þótt þær hafi að vísu birst áður. Hvergi
koma skýrar fram í sögu íslenskrar stafsetningar þessi meginsjónarmið hennar,
þ.e. uppruni og hins vegar framburður. Blaðagreinarnar eru ritaðar af eldmóði
enda deilt í þeim um grundvallaratriði í stafsetningu og margt í þeim á enn við,
sbr. orð Árnabjörns um samhengið í íslensku ritmáli (Gunnlaugur Ingólfsson
2017:42): „Sá sem semja vill ritreglur í módurmálinu ockar, má ecki heldur
frjálsum høndum leika vid stafrófid eptir eigin gédþeckni; því þad er ecki nú
fyrst, ad farið er ad skrifa málid ockar, þad hefir verid bókmál núna upp í margar
aldir.“