Ljósmæðrablaðið - Aug 2019, Page 33
33LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2019
Mjólkursamsalan
sendir ljósmæðrum
innilegar hamingjuóskir
með 100 ára afmæli
Ljósmæðrafélags Íslands
brjóstagjöf gangi ekki alltaf upp. Kristín ræddi í þessu samhengi um
jákvæða reynslu sína af hjúkrunarfræðingi í heimavitjun sem eyddi
tíma í að ræða brjóstagjöfina við hana og „hennar viðhorf var að það
sem skipti mestu máli væri að barnið fengi að borða, sama hvort það
væri brjóstamjólk eða þurrmjólk, og að mömmunni liði vel“.
Brjóstagjöf sem mælikvarði á mæður
Brjóstagjöfin virðist vera mælikvarði sem sumar mæður nota til þess
að meta aðrar mæður og bera sig saman við. Þær konur sem ná ekki
upp brjóstagjöf eða eru með börn sín stutt á brjósti geta búist við að
þurfa stöðugt að réttlæta það fyrir öðrum konum, jafnvel ókunnugum.
Eins og fræðimenn hafa bent á er hinn mjólkandi líkami, líkt og þung-
aði líkaminn, að mörgu leyti skilgreindur sem almenningseign og því
opinn fyrir athugasemdum frá almenningi (Kukla, 2008; Locke og
Horton-Salway, 2010). Spurningar um brjóstagjöfina, óumbeðin ráð
og reynslusögur, augnatillit eða beinar neikvæðar athugasemdir eru
meðal þeirra atriða sem konurnar urðu fyrir. Agla orðaði þessa algengu
reynslu með eftirfarandi hætti:
Það hvöttu mig allir til að gefa brjóst. Ég fékk að heyra ótal
sögur um að þetta gæti verið erfitt fyrst en það næðu „allar“
konur að gefa brjóst. Kvenfólk í kringum mig talaði um hvað
þær hefðu haft sín börn lengi á brjósti og hvað þetta væru
dásamlegar stundir þegar börnin væru á brjósti. Það jók bara
á vanlíðan mína.
Sumar konurnar lýstu því hvernig þær fundu fyrir augngotum þegar
þær tóku upp pelann, þær földu sig inni í herbergi til þess að gefa barni
sínu pela, sem er í samræmi við niðurstöður rannsóknar frá Bretlandi
á mæðrum sem gefa börnum sínum þurrmjólk (Lee og Furedi, 2005).
Svo virðist sem að innan fjölskyldunnar upplifi konurnar oftast
neikvæð viðbrögð frá tengdamæðrum sínum. Hanna sagðist hafa
fengið eftirfarandi viðbrögð frá tengdamóður sinni: „Hún gerði mér
þarna lífið leitt. Hún benti mér á að börn yrðu fallegri og gáfaðari af
að fá brjóstamjólk og ráðlagði mér að hætta í skóla svo ég gæti verið
í mjólkurvélinni í allavega hálft ár.“ Vinkvenna- og mömmuhópar
reyndust einnig oft erfiðir fyrir konurnar og minntist Guðbjört í því
samhengi á „vandræðalegu þögnina sem fylgdi oft þegar ég sagði
að hún væri ekki á brjósti“. Erla var í mömmuhóp þar sem allar hinar
mömmurnar gáfu brjóst og hennar upplifun var að hún væri dæmd
fyrir að nota þurrmjólk: „Augnaráðin sem ég fékk þegar ég tók fram
pelann, vá, þau gátu drepið mann en ég lét mig hafa það“. Þó að sumar
konur hafi aldrei fengið neikvæðar athugasemdir eða annað af því tagi
þá er eins og að þær séu samt ávallt viðbúnar því að fá slíka neikvæða
athygli og búist jafnvel við henni. Hin neikvæða afstaða sem þær
skynja frá umhverfi sínu hefur þannig verið innbyggð. Það er áhuga-
vert að minnast á að það reynist konunum oft erfitt að brúa bilið á milli
eigin reynslu af því að hafa hætt brjóstagjöfinni, sem getur oft verið
mjög jákvæð og einkennist oft af miklum og djúpstæðum létti, og
svo þeirra tilfinninga sem samfélagið ætlast til þess að þær sýni. Erla
útskýrir þessa togstreitu mjög vel í eftirfarandi tilvitnun:
Ég upplifði þvílíka frelsistilfinningu þegar ég tók þá
ákvörðun að gjörsamlega hætta brjóstagjöf. Ég hætti alveg
með hana á brjósti þegar hún var 8 vikna. Þegar ég segi frá
því núna að kornabarnið mitt sé bara á pela er ég samt full
afsökunar og rek söguna af lélegri mjólkurframleiðslu. Ég er
sátt við ákvörðunina um að hætta að reyna en skammast mín
samt. Vildi að ég gæti bara sagt að barnið mitt væri á pela án
þess að “selja” ástæðurnar og afsakanirnar með í hvert sinn.
Ég hef ekki fengið ljótt augnaráð eða einhver sagt við mig
að þetta sé ekki gott fyrir börnin mín en samt er ég alltaf að
afsaka mig.
UMRÆÐA
Í þessari grein höfum við kynnt niðurstöður úr rannsókn þar sem
til grundvallar voru 77 frásagnir íslenskra kvenna sem upplifðu mikla
erfiðleika við brjóstagjöf. Við höfum sýnt fram á hvers eðlis vandinn