Bændablaðið - 26.04.2018, Blaðsíða 42
42 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. apríl 2018
MENNING&LISTIR
Veiðivötn á Landmannaafrétti:
Náttúrufar, saga, lífríki, fortíð og framtíð
Út er komið tveggja binda stór-
virki, upp á rúmar 900 blaðsíður,
þar sem sagt er frá sögu og náttúru
Veiðivatna á Landmannaafrétti
eða svæðisins sem liggur milli
Þjósár og Vatnajökuls, norður
fyrir Köldukvísl og suður á afrétti
Staftártungu- og Landmanna.
Gunnar Guðmundsson frá
Heiðarbrún er höfundur meginefnis
beggja binda auk þess sem aðrir eru
höfundar nokkurra kafla.
Í bókinni er jarðsaga svæðisins
rakin frá því er ísa leysir í lok jökultím-
ans og saga þess rakin frá landnámi til
okkar daga. Sagt er frá náttúru veiði-
vatna, gróðurfari og dýralífi og frá
starfseminni sem tengist Veiðivötnum.
Auk þess sem horft er til framtíðar með
tilliti til umhverfismála og verndunar.
Bókin er ríkulega myndskeytt
litmyndum og eldri svart hvítum
myndum sem sýna náttúru svæðisins
og mannlíf því tengdu. Útgefandi er
Bókhlaða Gunnars Guðmundssonar.
Eftirfarandi texti er sýnishorn úr bók-
unum: /VH
Hvað eru Veiðivötn?
Veiðivötn er sameiginlegt heiti á
miklum vatnaklasa og landsvæðinu
þar umhverfis. Heildarstærð allra vatn-
anna er um 26,36 km2 að flatarmáli.
Aðalvötnin eru um 26 að tölu auk 17
minni. Auk þess eru á svæðinu fjöldi
vatnsfylltra gíga ennfremur grunnar
uppistöður er þorna oftast þegar líða
tekur á sumarið. Af þessum sökum
er næstum ógerningur að tilgreina
nákvæmlega fjölda allra „vatnanna“
né nákvæma heildarstærð þeirra.
Meðaltal af dýpi tíu kunnustu aðal-
vatnanna er u.þ.b. 7,4 m. Skyggnisvatn
hefur mesta meðaldýpt eða 15,1 m.
Grynnst mun hins vegar Tjaldvatn með
1,1 m meðaldýpi, Ampapollur innan
við 1 m og hugsanlega eru einhverjar
af Pyttlunum með enn minna með-
aldýpi. Mesta dýpi á Vatnasvæðinu
hefur mælst 32 m og er það nærri
miðju Eskivatni. Gígar í Nýjavatni
(30 m) og í Litla-Skálavatni (28 m)
koma þar fast á eftir.
Á milli vatnanna og umhverfis
Veiðivatna svæðið er gróðursnauður
sandur sem
er hluti af stærstu eyðimörk
í Evrópu þ.e. sandi og hraunum
miðhálendisins. Þeir sem koma í
Veiðivötn í fyrsta skipti í góðu veðri
verða oft undrandi á því sem fyrir augu
ber, því eftir tugkílómetra akstur um
„svörtustu eyðisanda ver aldar,“ (eins
og Árni Hjartarson jarðfræðingur
orðar það), opnast
þeim þessi „vin“
eyðimerkurinnar.
Veiðivatnasvæðið
telst mishæðótt: Í
suður- og suðaust-
ur-hluta svæðisins er
Snjóöldufjallgarður
en þar er hæsta
fjallið Snjóalda
933 m að hæð y.s.
(yfir sjávarmáli), í
vesturjaðrinum eru
Vatnaöldur, sumar
pýramídalagaðar og
aðrar ávalar, en þar
er Skyggnisaldan
hæst (899 m y.s.).
Vatna öldurnar setja
mjög sterkan svip á
Veiðivatnasvæðið og þær eru ásýndar-
fagrar. Segja má að Veiðivatnasvæðið
sé fremur víðáttumikil en mishæðótt
lágslétta. Landslag Veiðivatna sam-
anstendur af óskipulegum marg-
breytileika. Þar eru svartar vikuröldur,
mosa gróin hraun og bakkar sumra vatn-
anna eru gróður grænir. Boga dregnar
hæð irn ar eru brúnir gamalla öskugíga.
Þekktastar þeirra eru Hádegisaldan
(622 m y.s) og Miðmorgunsalda (650
m)3 og af þeim er stórfenglegt útsýni
yfir hraun, öldur og til fjarlægari fjalla.
Hærri öldurnar eru
nokkuð vindsorfn-
ar og því dökkar
að lit, en margar
þær lægri eru all-
grónar og sumar
alþaktar mosa. Á
svæðinu eru mis-
munandi tegundir
h raunmyndana ,
þ.m.t. hraungígar
og eldborgir. Á
h r a u n s v æ ð i n u
vestan Skálavatns
(þess stóra) eru
fáein „vötn,“ sem
eru mjög lítil að
umfangi og nefnast
Pyttlur. Sum þeirra
eru girt lágum „hömrum,“ þar sem
sumar gígskriðurnar búa yfir mikilli
litauðgi; þær geta verið svartar, gular
eða brunarauðar. Á svæðinu eru og
nokkuð víðáttumiklar sandsléttur
sem eru flestar gróðurvana.Þarna inn
á milli liggja sjálf vötnin.
Flest aðalvötnin eru gígvötn, þ.e.
þau eru lægðir og gígar sem myndast
hafa við eldsumbrot og síðan fyllst
af vatni. Yfirborð vatnanna er gróft
sagt, á bilinu í 560- 600 m hæð
yfir sjávarmáli. Ásýnd þeirra getur
breyst frá degi til dags útfrá birtu og
veðurskilyrðum. Mörgum finnst feg-
urð þeirra mest þegar næstu hæðir
og hálsar speglast í vatnsfletinum.
Umgjörð vatnanna er mjög breyti-
leg, bæði hvað strandlínur og gróðri
viðkemur. Umgjörðin er ýmist klett-
ar af mörgum gerðum, sandfjörur
sem sumar eru bogadregnar eða
mýrlendi. Öllu þessu er lýst síðar,
hverju á sínum stað bókarinnar. Víða
meðfram vötnunum og á stökustað á
milli þeirra er talsverður gróður og
er hvönnin þar sumstaðar áberandi
en mosi á öðrum stöðum. Þar má og
sjá litsterkar og litfagrar blómplöntur
sem stinga mjög í stúf við umhverfið
sem víða er gróðurvana.
Náttúrufegurð þykir mikil við
vötnin. Elsa Vilmundardóttir jarð-
fræðingur lýsir því svo: „Náttúra
Veiðivatna á sér enga hliðstæðu á
jörðinni eftir því sem ég best veit,
ekki einu sinni á Íslandi, sem þó
er mjög auðugt af eldgosamynd-
unum.“ Þó er lítt fýsilegt að dvelja
í Veiðivötnum í illviðrum og
mývargurinn er hvimleiður, en hann
gengur yfir tvisvar til þrisvar á sumri
hverju. Og til að verjast mýinu nota
menn flugnapoka.
Góð gistiaðstaða er í Vötnunum
sem nýtt er til fulls út stangveiðití-
mann. (Sjá allt um það í kaflanum
„Hvað hafa Veiðivötn að bjóða þér?“
IV, 1 og 3).
Er þú kemur til að augum líta land
þetta, þá gæti svanurinn tekið á móti
þér með
söng sínum og himbriminn heils-
að þér með „hneggi“ sínu og hann
gæti nálgast þig, því hann á það sam-
eiginlegt með meginhöfundi þessar-
ar bókar, að vera forvitin skepna.
Vissir staðir Veiðivatna eru seið-
magnaðir. Ef þú ert nánast einn þar
að hausti til, prófaðu þá í rökkurbyrj-
un að ganga að Tjarnarkoti og vittu
hvort þú skynjar ekki dulúð (mistík)
staðarins. Það eru líka miklir dular-
töfrar í Grænavatnsbotni, en til að
þú finnir þá sem best, verður þú að
vera þar án nærveru margmennis.
Á bjartri vornóttu eru kyrrðin og
fegurðin sterkustu öflin og kannski
skynjar þú slíka náttúrutöfra best
ofan af Miðmorgunsöldunni og
Miðmundaöldunni.
Útsýnis upplifun þaðan gleymist
ógjarnan.
Frá Veiðivötnum. Mynd / Hörður Kristjánsson
Eftir tugkílómetra akstur um „svörtustu eyðisanda veraldar“ (eins og Árni Hjartarson jarðfræðingur orðar það)
opnast þeim þessi „vin“ eyðimerkurinnar. Mynd / HKr.
Fræðimaðurinn og fyrrverandi
húsbóndi í Veiðivötnum Gunnar
Guðmundsson frá Heiðarbrún.
Hann lagði grunn að meginhluta
þess vegakerfis sem nú er á
Veiðivatnasvæðinu og hann friðaði
þar stórt svæði fyrir allri bílaumferð.
Á starfstíma sínum í Veiðivötnum
beitti hann sér þar fyrir verndun
gróðurs og fuglalífs.