Dagblaðið Vísir - DV - 07.02.2020, Blaðsíða 12

Dagblaðið Vísir - DV - 07.02.2020, Blaðsíða 12
12 FÓKUS - VIÐTAL 7. febrúar 2020 Reykjavik Raincoats LAUGAVEGUR 62, 101 RVK www.reykjavikraincoats.com Sími: 5711177 - info@reykjavikraincoats.com Ú T S A L A Ú T S A L A Ú T S A L A 20 - 50 % AFSLÁTTUR Í VERSLUN OKKAR þó alveg sama hversu mikið við höfðum að gera við misstum aldrei út kvöldstund þar sem við lásum með börnunum. Þá áttum við rólega stund hvort sem við lásum eða sungum og maður taldi sér trú um að það kæmi að góðu gagni, þetta vanræktum við aldrei.“ Tvö barnanna hafa fetað sömu braut og foreldrarnir og segist Þórhildur telja það jafn algengt og þegar börn í öðrum starfsstéttum feti sömu braut og þau alist upp við. „Sólveig hefur sagt að þetta hafi verið skortur á ímyndunarafli en Þorleifur stefndi sömuleiðis alltaf á að verða leikari. Hann, rétt eins og ég, komst þó fljótt að því að hann var sleipari í að fylgjast með öllu í kringum sig heldur en einbeita sér að sjálfum sér svo hann gerðist leikstjóri. Ég held að ég hefði ekkert orðið verri leikari en aðrir, en ég fann fljótt að það var ekki það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf verið svo upptekin af heildarmyndinni. Þorleifur er óumdeilanlega framúrstefnulegur leikstjóri, og það var ég líka á sínum tíma og því fylgja áhyggjur hann hefur upplifað að vera valinn besti leikstjóri Þýskalands yfir í að vera sallaður niður. Ég get þó ekki talað um verkin hans sem heild því ég hef verið mjög hrifin af sumu sem hann hefur gert, miður hrifin af öðru og beinlínis óánægð með annað. Oftast reyni ég að koma út og sjá verkin hans sem og Sólveigar og lengi vel fylgdist ég með Þorleifi á æfingum, en í dag hef ég sleppt af honum hendinni. Hann er farinn að ganga sjálfur, en ég fylgdist grannt með honum fyrstu árin og reyndi að styðja hann og kenna allt sem ég kunni.“ Fámennur fundur leiddi til kvennaframboðs Þórhildur er óneitanlega í stórskotaliði íslenskra listakvenna enda hefur hún barist ötullega fyrir jöfnum réttindum kynjanna, bæði á sviði sem og í samfélaginu öllu. Leið hennar í pólitík var þó talsvert tilviljunarkennd. „Ég var ung kona á mjög pólitískum tímum. Þarna var kalda stríðið í algleymingi og Víetnamstríðið sem og baráttan gegn kjarnorkuvopnum. Hippahreyfingin hristi náttúrlega upp í fólki og leiddi mjög margt gott af sér eins og friðar- og umhverfishreyfingu og kvennahreyfinguna. Misrétti kynjanna hafði alltaf blundað í mér en eins og flestar ungar konur hélt ég að það væri einungis undir sjálfri mér komið – ef ég væri bara nógu dugleg og nógu eitthvað yrði engin mismunun, en svo rekur maður sig á að það er nákvæmlega þetta sem er að. Ungar konur myndu allar gefast upp fyrirfram ef þær viðurkenndu það strax, svo þess í stað telja þær sér trú um að þetta sé allt í lagi og þær þurfi bara að vera rosalega duglegar, þá reddist allt. Þannig hugsaði ég sjálf, en á þessum tíma voru líka að koma út bækur á borð við Kvengeldinginn og Second sex sem maður drakk í sig. Þessi bylting lá í tímanum og fullnægði einhverju hjá manni – eða öllu heldur æsti það upp.“ Þórhildur bjó á þessum tíma norður í landi en sótti fundi hjá Rauðsokkahreyfingunni þegar hún átti erindi í höfuðborgina. „Nokkrum árum eftir að ég flutti suður heyrði ég fyrir tilviljun af fundi í Norræna húsinu og ákvað í kjölfarið að mæta. Þetta reyndist heldur fámennur fundur sem síðar átti eftir að stækka og leiddi að lokum til kvennaframboðs og síðar kvennalista.“ Feðraveldismenningin er að eyðileggja heiminn Spurð hvort pólitíkin sé harðari heimur en leikhúsið segir Þórhildur allt snúast um hversu alvarlega fólk taki hlutunum. „Leikhúsið er harður húsbóndi en jafnframt örlátur. Ég hefði ekki verið að sveitast blóðug í leikhúsi árum saman, því ekki eru launin að trekkja að. Það er gríðarlega erfitt starf að vera leikstjóri, bæði líkamlega og andlega, en áfram heldur kona enda er mikil gæfa að vinna við sköpun og þá skiptir ekki máli í hvaða fagi þú ert. Einungis það að fá að deila dögum með öðrum í sams konar sköpun eru stórkostleg forréttindi. Í Kvennalistanum var líka mikil sköpun, þar voru konur sem köstuðu frá sér öllum viðteknum hugmyndum og spurðu sig hvernig heimi viljum við búa í – það er gríðarlega skapandi. Á þessum tíma var ég að ala upp fimm börn samhliða því að setja upp að meðaltali fjórar leiksýningar á ári og að vinna í stjórnmálaflokki – hvernig fór ég að þessu? Jú, af því sköpun gefur svo mikla orku. Það er ótrúlegt að upplifa hvað maður fær mikla orku úr skapandi orku, en þetta er eins og mylluhjól, vatnið kemur upp aftur og virkjast. Öðruvísi hefði þetta aldrei gengið – ef gleðin og sköpunin hefði ekki verið fyrir hendi. Í mínu tilfelli nærði leikhúsið kvennapólitíkina og öfugt. Auðvitað hafði ég alltaf haft einhverja femíníska sýn, en þarna varð hún miklu skýrari – og þótt það hafi farið framhjá mörgum, hef ég alltaf horft með kvenfrelsisgleraugum á öll verk. Ýmsir kollegar mínir hafa látið í ljós þá skoðun að þetta geti þrengt mitt sjónarhorn sem leikstjóra en engum dettur í hug að þeirra karllægu skoðanir þrengi þeirra sjónarhorn. Ég þekki vel það sjónarhorn enda alin upp í því og samfélagið er þar ennþá, en ég bæti bara kvenlega sjónarhorninu við, svo ég myndi segja að ég hefði víðara sjónarhorn ef eitthvað er.“ Það er ekki hægt að segja það dans á rósum að vera kona í íslensku leikhúsi enda oft og tíðum talið hefðbundið karlasvið. Þórhildur tekur heilshugar undir það og staðfestir að karlar hafi í gegnum tíðina ráðið bæði yfir menningu, trúarbrögðum og samfélagsgerðinni allri. Konum hafi þó tekist með tímanum að rjúfa örlítið skarð á karlamúrinn. „Baráttan hefur auðvitað breyst og í dag eru konur sýnilegri, fleiri sem mennta sig, fá stöður og gera sig gildandi á ýmsum sviðum. Lagaumhverfið hefur sömuleiðis breyst og öll umræða er opnari, en þetta er langtímaverkefni og menning feðraveldisins er það hættulegasta. Hún stendur nánast óhögguð. Feðraveldið er höfundur allra hugmynda sem samfélög byggja á hvort sem það eru trúarbrögð, hagfræðikenningar eða menningin, en hættulegasta og feitasta afkvæmið er óheftur kapítalsimi. Helsta stoð feðraveldisins er ofbeldi sem menn sýna hver öðrum sem og konum börnum og náttúrunni. Það eru þessar hugmyndir, þær verða að láta undan því annars eigum við enga von.“ n „Það er gríðarlega erfitt starf að vera leikstjóri, bæði líkamlega og andlega, en áfram heldur kona

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.