Dagblaðið Vísir - DV - 07.02.2020, Blaðsíða 34

Dagblaðið Vísir - DV - 07.02.2020, Blaðsíða 34
34 FÓKUS - VIÐTAL 7. febrúar 2020 segir útvarpsmaðurinn. „Kannski er þetta erfiðara í dag, þegar allir eru í lopapeysun- um og faðmandi tré vantar alveg gredduna og ágengnina sem við upplifum öll í gegn- um ævina. Þetta er auðvitað alveg geggj- aður tími og það er svo gaman að sjá, með endurkomu vínylsins, að þetta eru verð- mætustu plöturnar sem þú finnur, með þessum listamönnum sem ég taldi upp meðal annars.“ Um ellefu ára aldurinn var Ómar orðinn ágætlega sjóaður í íslenskri tónlist. Áhuginn á mismunandi tónlist og stefnum var kominn til að vera, en þó var ein plata sem breytti öllu á þeim aldri. Aðdragandi þessarar uppgötvunar var þegar móð- ir hans fór með hann í ferðalag til Reykja- víkur frá Hvolsvelli, þar sem hann er upp- alinn. „Það má alveg segja að miklihvellur- inn í mínu tónlistarlífi hafi verið þegar mamma keypti handa mér Nevermind með Nirvana, sem þá var til á kassettu. Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Ég var með blátt Walkman-vasadiskó og ég setti kassettuna í tækið og hlustaði tvisvar á hana alla, á leiðina úr bænum og heim. Þar sem við bjuggum á Hvolsvelli náði ég að renna henni í gegn oftar en einu sinni á leiðinni til og frá,“ segir Ómar. „Þegar ég horfi til baka breytti þessi kassetta alveg lífi mínu. Og þarna á þess- um tíma gat maður ekkert bara spólað til baka eða ýtt á einn takka til að hlusta á Smells Like Teen Spirit. Maður leyfði þessu bara að rúlla í gegn. En á ellefu ára aldrin- um var ég farinn að grúska töluvert í tónlist og menningarheimi hennar, á allt öðrum tíma líka, enda erfitt að leita sér upplýs- inga um tónlist og allt slíkt sem kemur með einni handahreyfingu á símann í dag. Þegar ég fékk Nevermind fyrst í hendurnar hélt ég að Kurt Cobain væri dáinn, þetta var árið 1991. Það var ekkert internet þá og engin leið að kanna hvort það væri rétt.“ „Ég var einu sinni algjör hálfviti“ Ómar segir það ótvírætt vera auðveldara fyrir áhugafólk um tónlist og listir al- mennt að afla sér upplýsinga og nýjunga með tilkomu tækni og sítengingar. Í tengsl- um við umræðuna um samfélagsmiðla og nútímavædda farsíma segist hann þó vera dauðfeginn að hafa alist upp þegar myndavélar voru ekki í hverjum vasa, ekki síst þegar hann stundaði skemmtanalífið af krafti. „Heimurinn er búinn að breytast svo mikið, eins og hefur verið margsagt. Á unglingsárunum ef ég var hrifinn af stelpu, þá þurfti ég að hringja heim til hennar í heimasímann. Í dag eru það samfélags- miðlar sem sjá um megnið af þeirri erfið- isvinnu. Ég segi bara Guði sé lof að ekki voru til myndavélasímar eða samfélags- miðlar þegar ég var sem verstur í mínu djammlífi,“ segir hann. „Sonur minn var heima um daginn í tölvunni með frænda sínum og ég spurði hvað þeir væru að gera. Þeir svöruðu: „Við erum að gúgla foreldra okkar.“ Þá hugsaði ég bara „Djöfull er ég feginn að ekki sé til einhver grein þar sem stendur „Ómar Úlfur hellaður á B5 eða Austur, standandi ber að neðan uppi á einhverju borði.“ Internetið gleymir engu og þarna slapp ég vel.“ Útvarpsmaðurinn sagði skilið við áfengi árið 2009 og sér ekki eftir þeirri ákvörðun. „Það er öllum hollt að skoða sjálfan sig. Ég þekki það sjálfur úr mínu lífi og verð að horfast í augu við að ég var einu sinni al- gjör hálfviti. Það var bara þannig, en ég hef reynt að bæta fyrir þær syndir og laga sjálf- an mig og gera sjálfan mig ánægðari með lífið og tilveruna í leiðinni. Það er miklu orkufrekara að vera í fýlu en að vera já- kvæður,“ segir Ómar. Munur á hroka og sjálfsöryggi „Þetta er svolítið vítt og algengt hjá kolleg- um mínum í útvarpsbransanum og víðar, þessi nagandi sjálfsefi. Það er sama þótt tíu manns komi upp að þér og segi að þú sért æðislegur, það er samt alltaf sjálfsefi til staðar. Ég vil samt hafa þetta svona og vil ekki laga þetta, klára þátt og segja „Djöfull er ég flottur.“ Þá yrði maður gjörsamlega akkerislaus og ruglaður. Þetta er að vísu fín lína. Maður á ekki að vera alltaf að naga sig niður, en ekki heldur detta í hrokann. Það síðasta sem ég vil vera í lífinu er hrokafull- ur, því það færi mér ógeðslega illa. Það er líka mikill munur á hroka og sjálfsöryggi.“ Ómar á tvö börn í dag með eigin- konu sinni, Báru Jónsdóttur. Þau gengu í það heilaga árið 2016 og stefna á að kíkja saman á Marrakesh næstkomandi apríl, í tilefni fjörtíu ára afmælis Ómars, en hann útilokar þó ekki möguleikann á góðum há- tíðarhöldum. „Jú, þrátt fyrir að vera hættur að drekka sjálfur finnst mér óskaplega gaman að veita vín. Brúðkaup okkar hjón- anna er enn í hávegum haft fyrir mikla stemningu, einfaldlega vegna þess að sterku vínflöskurnar voru opnaðar strax eftir matinn. Ég er ekkert ekkert viðkvæm- ur fyrir því,“ segir Ómar. „Ég er fáránlega vel giftur. Ég er hepp- inn með eiginkonu mína og heppinn með alla í kringum mig; börnin, vinnufélaga, yfir mann, vini. Án alls þess í kringum mig væri ég ekki að gera neitt af viti. Miðað við hvernig líf mitt var þegar ég var yngri hefði líf mitt getað farið eina leið, og þá væri ég sennilega á götunni, eða þá leið sem ég fór og er á í dag.“ Aldrei verið jafn gagnslaus Ómar rifjar upp tilfinninguna og ævintýrið sem því fylgdi að verða faðir í fyrsta sinn, sem að hans sögn var gífurlegur rússí- bani, eins og algengt er hjá flestum. „Það var auðvitað ótrúlegt að verða faðir í fyrsta skiptið, en það fór ekki almennilega að síga inn fyrr en eftir nokkur ár. Það munu allar konur hlæja að þessu en ég var gjörsam- lega uppgefinn eftir fæðingu sonar míns,“ segir hann í léttum tón. „Fæðingin var ekki þetta bíó- myndamóment á sjúkrahúsinu. Hún gekk alveg svakalega erfiðlega. Ég get auðvitað ekki ímyndað mér hvernig þetta var fyrir konuna og mér hefur aldrei fundist ég vera jafn gagnslaus nokkurn tímann á ævinni en þegar hann fæddist. Hefði einhver læknir sagt mér að fara út í horn og standa á höndum og reyna að klappa hefði ég tafar laust gert það, bara til að gera eitthvert gagn. Síðan var það ótrúlega dýrmætt þegar ég fékk loksins son minn í fangið. Ég talaði við hann í fjörtíu mínútur, samkjaft- aði ekki og lagði honum lífsreglurnar, tók til dæmis fram hversu mikilvægt væri að koma vel fram við mömmuna.“ Ómar segir flesta foreldra hljóta að tengja sig við þær stöðugu efasemdir og spurningar sem fylgja því að eiga börn, en þá bætir hann við að líka sé mikilvægt að læra af þeim í stað þess að vera einungis að leiðbeina. „Satt að segja hélt ég alltaf að ég yrði miklu betri pabbi en ég er,“ segir hann. „Það er asnalegt að segja, en ég hélt að ég yrði þolinmóðari. Það er svo sem enginn fullkomið foreldri en þetta er enda- laus spurningakeppni um hvort maður sé að gera rétt og hvenær eigi að beyta aga? Hvenær á maður að hlusta og leiðbeina og hvenær leyfir maður þeim að gera eig- in mistök? Þau eru mjög ólík systkinin í háttum. Sonur minn er mjög varfærinn og algjört „copy-paste“ af mér á meðan dóttir mín er svolítið háfleygari, sem er líka svolítið líkt mér, en ég er stöðugt að læra af börnunum mínum og það er líka hollt fyrir foreldra að geta viðurkennt það.“ n Guði sé lof að ekki voru til myndavélasímar þegar ég var sem verstur í mínu djammlífi

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.