Dagblaðið Vísir - DV - 19.06.2020, Blaðsíða 26
26 FÓKUS 19. JÚNÍ 2020 DV
BESTU TILBOÐIN
Mímósur á slikk!
Botnlausir brönsar hafa slegið í gegn en fjöldi
veitingahúsa býður nú upp á fast gjald í 2-3 tíma
þar sem viðskiptavinir geta borðað og drukkið að
vild. Slíkt hefur lengi tíðkast erlendis og þá sér-
staklega í Bandaríkjunum með sína „all you can
eat“ stemmingu. Íslendingar hafa verið álitnir of
drykkfelldir fyrir slíkt, en þetta snarvirkar!
FJALLKONAN
Fjallkonan er mjög vinsæll staður, ekki síst
fyrir þær sakir að hún er staðsett við Ing-
ólfstorg og skartar góðu útisvæði sem fátt
toppar þegar vel viðrar. Á Fjallkonunni er
hægt að kaupa „make your own“ pakka um
helgar, sem samanstendur af freyðivíns-
flösku og appelsínusafa fyrir borðið og
kostar 4.500 krónur. Þar er einnig að finna
eina trylltustu eftirrétti miðborgarinnar.
BASTARD
Veitingastaðurinn Bastard er til húsa þar sem Vegamót voru áður. Um
helgar er boðið upp á botnlausan bröns. Viðskiptavinir geta valið eins
marga rétti af sérstökum, botnlausum brönsmatseðli og þá lystir í 2 tíma.
Matseðillinn telur 25 mismunandi rétti sem eru í smáréttaformi. Verðið er
3.990 krónur á mann og ekki spillir fyrir að hægt er að bæta við botnlausum
drykkjum svo sem freyðivíni, mímósu eða bjór í 2 tíma fyrir 2.500 krónur.
PUBLIC HOUSE GASTROPUB
Public House var einn af fyrstu stöðunum sem buðu
upp á botnlausa gleði um helgar. Alla föstudaga til
sunnudaga kostar botnlaus gleði af mat og drykk
aðeins 4.990 krónur, sem hlýtur að vera besta tilboð
í bænum. Viðskiptavinir geta pantað hvað sem er af
brönsmatseðlinum en þó aðeins tvo rétti í einu. Hægt
er að velja af góðu úrvali drykkja svo sem bjór, pro-
secco, Bloody Mary eða Mandarínu Mímósu.
APÓTEKIÐ
Veitingahúsið Apótekið býður einnig upp á svokall-
aðan míníbar líkt og Fjallkonan. Apótekið byrjaði fyrir
stuttu með bröns sem hefur mælst mjög vel fyrir. Hægt
er að panta sérstakan Mímósu-míníbar á borðið sem
telur þrjár tegundir af ávaxtasafa auk bláberja, jarðar-
berja og sítrusávaxta að ógleymdri freyðivínsflösku.
KOL
Alla laugardaga og sunnudaga milli 12 og
15 er boðið upp á Bubblu Bröns. Hægt er
að panta staka smárétti eða fimm rétta
samsettan Lúxus Bröns fyrir aðeins 3.990
krónur. Einnig er hægt að fá Botnlausar
Bubblur með Lúxus Brönsinum á 2.990 á
mann. Þá er byrjað á Aperol Spritz í for-
drykk og síðan færðu ómælt magn af Picc-
ini Prosecco, Mimosa og Bellini í tvo tíma.