Morgunblaðið - 28.01.2020, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 28.01.2020, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 28. JANÚAR 2020 Virðing, reynsla & þjónusta Allan sólarhringinn 571 8222 Svafar: 82o 3939 Hermann: 82o 3938 Ingibjörg: 82o 3937 www.kvedja.is svafar & hermann ✝ Smári Ragn-arsson fæddist í Reykjavík 1. júlí 1953. Hann lést á lungnadeild LSH 4. janúar 2020. Foreldrar hans voru Ragnar Björnsson, f. 1923, d. 2009, og Auður Jónsdóttir, f. 1924, d. 1992. Systkini hans eru Ingibjörg Fríða, f. 1947, og Baldur, f. 1960. Eiginmaður Ingibjargar er Sölvi Kjerúlf, f. 1941. Fyrri eiginkona Smára var Margrét Óafsdóttir, f. 1954. Þau eignuðust dæturnar Rúnu Björk, f. 1972, og Arnheiði Björgu, f. 1978. Rúna á börnin Gunnar Smára Jónsson, f. 1992, og Sigrúnu Margréti Gísladótt- ur, f. 2003. Arnheiður á börnin Margréti Lilju Aðalsteinsdóttur, f. 1996, og Ægi Þór Aðalsteinsson, f. 2001. Sambýlis- maður Arnheiðar er Thomas Hansen, f. 1971. Smári og Margrét skildu. Seinni eiginkona Smára var María Welding Magnús- dóttir, f. 1951. Hún á eina dóttur, Karenu Amelíu Jónsdóttur, f. 1979. Karen á börnin Brynhildi Þóreyju Brjánsdóttur, f. 2007, og Hrafn- kel Gauta Brjánsson, f. 2009. Smári starfaði lengst af sem bílstjóri, meðal annars hjá Sláturfélagi Suðurlands og Vífilfelli og frá árinu 1998 hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæð- isins. Útför Smára fór fram í kyrr- þey þann 20. janúar 2020. Elsku pabbi. Nú þegar þú ert farinn kemur margt upp í hugann. Margar minningar, hugsanir og tilfinn- ingar. Þegar ég var lítil var ég mikil pabbastelpa. Í minningunni var alltaf gaman þegar þú varst með mér. Þú kenndir mér á skauta, fórst með mér í bíó og kynntir mig fyrir Bítlunum. Þú varst líka langflottasti pabbinn. Ég man hvað allir krakkarnir í hverfinu öfunduðu mig af því að eiga pabba sem keyrði kókbíl, miklu flottari en allir skrifstofu- pabbarnir. Ég veit ekki hvað ég var gömul þegar ég tók af þér loforð um að koma með kók og spila á gítar í brúðkaupinu mínu en það stóðst þú við, áratugum seinna. Samband okkar var þó ekki alltaf auðvelt. Stundum gleymd- ir þú að vera pabbi minn og stundum gleymdi ég líka að vera dóttir þín. Stundum fannst mér þú fjarlægur og oft tapaði ég fyrir Bakkusi. Þrátt fyrir það náðum við allt- af að halda einhverjum þræði á milli okkar, jafnvel á okkar erf- iðustu tímabilum. Þú varst alltaf tilfinningaríkur og vildir mér vel. Það sýndir þú á svo ótal marga vegu sem ég skildi kannski ekki alltaf þá. Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn. Þú ætlaðir að verða 102 ára og þó að við höfum öll séð í hvað stefndi þá hélt ég samt að þú mundir ná því. Ég bjóst við því að þú mundir rísa upp á hverri stundu, setjast á rúmstokkinn og biðja mig um að rétta þér tóbaksdósina. Kannski er það þess vegna sem ég kvaddi þig aldrei almennilega og sagði aldr- ei þessi orð meðan þú lifðir. Ég segi þau núna út í alheiminn og ímynda mér að þú sért að hlusta. Elsku pabbi minn. Takk fyrir öll skiptin sem þú hentir öllu frá þér til að redda mér þegar bíldruslurnar mínar biluðu út um allan bæ. Takk fyrir hverja skrúfu og hvern nagla sem þú settir upp fyrir mig. Takk fyrir alla músíkina, húmorinn og hlýjuna. Takk fyrir samveruna. Takk fyrir lífið. Rúna. Fyrsta skóladag haustið 1963 birtist nýr nemandi í 4. bekk D í Melaskólanum. Andlit nýju skólafélaganna voru honum ókunn og hann sá bregða fyrir í augnaráði þeirra bæði undrun og eftirvæntingu en líka vott af tortryggni. Einn strákurinn brosti þó breitt og kinkaði kolli til hins nýja. Það var Smári Ragnarsson. Þennan dag hófst með okkur Smára náin vinátta, sem entist okkur meðan báðir lifðu. Báðir vorum við rauðhærð- ir og því fylgdi stundum nei- kvæð athygli einstakra skóla- félaga. Smári var stór og sterkur eftir aldri og gæddur einstakri réttlætiskennd. Hann hafði t.d. ekkert við það að at- huga að ég talaði púra norð- lensku, mitt í bezta vesturbæ Reykjavíkur. Ég hélt mig því nærri honum í frímínútunum og smám saman komst tilveran í eðlilegt horf. Smári bjó á Ægisíðunni þar sem fjaran með iðandi lífi og spennandi sjávarreka bauð upp á nýjungar á hverjum degi. Þeg- ar hungrið svarf að stungum við okkur heim til Smára í mjólk- urglas og brauðsneið – stundum með marmelaði, sem Auður mamma hans bjó til af einstakri snilld. Það er enn það allra bezta sem ég hef smakkað. Það var stutt í flugvöllinn í Skerjafirði til að horfa á flugvélar koma og fara og heyra gný hreyflanna. Ef við gátum ekki verið úti var uppáhaldið baunabyssustríð uppi á háalofti hjá Smára. Við byggðum virki úr dóti og köss- um og æptum „Dauður!“ í hvert skipti sem við hæfðum í mark. „Nei, bara særður!“ hrópaði hinn og skaut til baka. Mamma Smára skildi ekkert í að bauna- pakkinn í eldhússkápnum var nærri tómur þegar grípa átti til hans. Snemma kom í ljós að Smári bjó yfir náðargáfu á sviði tónlist- ar. Gítarinn svo gott sem spilaði á sig sjálfur í höndum hans. Eft- ir að hafa hlustað á lag 2-3svar var Smári búinn að ná því. Seinna meir varð hann vinsæll skemmtikraftur á sínum vinnu- stöðum og tróð upp með gítarinn og frumsamda texta á árshátíð- um. Smári var líka hagmæltur og virtist áreynzlulaust geta kastað fram léttri vísu um mál- efni líðandi stundar. Eitt sinn hófst sendibréf hans til mín á þessum orðum: Af Fróni köldu frétta sóninn flyt ég lýðum – flúinn er snjór úr fjalla hlíðum, svo fáir eru nú á skíðum. Eitthvað þó á Austurlandi alltaf snjóar – rýmið loðnu þrotið þróar, þungar raunir aflaklóar. Smári veiktist á bezta aldri af krabbameini og gekkst undir stóra skurðaðgerð til að bjarga lífinu. Með fylgdi þó varanleg heilsuskerðing. Þegar hann svo líka lifði af flóðbylgjuna miklu á Taílandi 2004 töldu margir að hann hlyti að vera ódrepandi. Með árunum varð hann róttæk- ur forsvari lítilmagnans og sendi valdhöfum tóninn á samfélags- miðlum þegar færi gafst. Hár- beitt kímni og bragarlist nýttist honum vel þar líka. Smári var afar stoltur af dætrum sínum og barnabörnum og vildi gjarnan vera til staðar í lífi þeirra. Nú er þessi góði drengur allur en eftir eru marg- ar góðar minningar, sendibréf, ljóðakver og nokkrar ljósmynd- ir. Þakka þér samfylgdina og góða ferð yfir í Sumarlandið, kæri vinur. Njóttu þess þar að vera laus við kvilla jarðlíkamans. Fjölskyldu og ættingjum Smára votta ég mína dýpstu samúð. Hafsteinn Ágústsson. Smári Ragnarsson ✝ Vilhjálmur ÞórPálsson fæddist 18. mars 1944 á Kirkjulandi í Aust- ur-Landeyjum. Hann andaðist 15. janúar 2020 á Heil- brigðisstofnun Suð- urlands á Selfossi. Foreldrar hans voru Páll Júlíus Pálsson, f. 6. júlí 1916, d. 22. desem- ber 1959, og kona hans Jóhanna Vilhjálmsdóttir, f. 24. október 1915, d. 29. ágúst 1996. Bróðir Vilhjálms, Sigurpáll Karl, f. 26. júní 1947, d. 21. októ- ber sama ár. Systir Vilhjálms, sammæðra, María Friðþjófsdóttir, f. 18. sept- ember 1939. Vilhjálmur kvæntist 10. apríl 1966 Þórunni Þórhallsdóttur, f. 19. febrúar 1948. Foreldrar hennar voru Þórhallur Frið- riksson, f. 4. nóvember 1913, d. frá Barna- og unglingaskólanum á Selfossi og hóf ungur að starfa hjá Kaupfélagi Árnesinga við verslunarstörf. Hóf hann síðan nám í rafvirkjun við Iðnskólann á Selfossi og lauk hann sveins- prófi ásamt meistararéttindum í þeirri grein. Hann vann um ára- bil hjá fyrirtækjunum Rafgeisla og Raflögnum sem þá störfuðu á Selfossi. Hann eignaðist síðan sendibíl og annaðist útakstur á vörum fyrir verslunina Höfn á Selfossi. Árið 1974 hóf hann störf hjá Landsbankanum á Selfossi þar sem hann gegndi ýmsum störf- um, m.a. við afgreiðslu í útibúum bankans sem starfrækt voru í þéttbýlisstöðum Árnessýslu. Eft- ir 30 ár hjá Landsbankanum lét hann af störfum og fór á eftir- laun. Vilhjálmur átti ýmis áhuga- mál. Hann tefldi skák, spilaði bridge og snóker. Hann hóf að leika golf þegar Golfklúbbur Sel- foss hafði komið sér upp aðstöðu og eftir að hann hætti störfum fór hann að iðka þá íþrótt og var virkur félagi í Golfklúbbi Selfoss. Útför Vilhjálms fer fram frá Selfosskirkju í dag, 28. janúar 2020, klukkan 13. 29. janúar 1999, og Elín Þorsteins- dóttir, f. 24. ágúst 1918, d. 11. júlí 2012. Sonur þeirra er Bjarki Þór, f. 28. nóvember 1965. Kona hans er Íris Hödd Pétursdóttir, f. 2. júní 1982. Dætur Bjarka eru tvíburasyst- urnar Jóhanna Ýr og Þórunn Petra, fæddar 19. mars 1993. Móðir þeirra er Fríður Esther Pétursdóttir. Sambýlismaður Jó- hönnu Ýrar er Dennis Kamb- skarð. Sambýlismaður Þórunnar Petru er Gunnar Ellert Peiser. Foreldrar Vilhjálms hófu bú- skap á Kirkjulandi en fluttu síð- an að Eystra-Fróðholti á Rang- árvöllum og bjuggu þar til ársins 1950 þegar þau fluttu ásamt börnum sínum á Selfoss. Vilhjálmur lauk skyldunámi Í dag kveðjum við einstakan mann með hlýju og söknuði. Ég var bara 18 ára þegar ég kom inn í fjölskyldu Villa, þá sem kærasta einkasonarins. Ég man nú ekki eftir okkar fyrstu kynnum neitt sérstaklega, enda leið mér frá fyrsta degi eins og dóttirin sem þau hjón aldrei eignuðust. Villi var yndislegur maður, stríðinn en ákveðinn og þrátt fyrir að við værum ekkert alltaf sammála um allt, þá virti hann skoðanir og talaði aldrei niður til manns. Ég kynntist Villa bæði sem tengdapabba og jafnframt sem vinnufélaga, en það voru ófáar næturnar sem við unnum saman á leigubíla- stöðinni á Selfossi og það var gott að vinna með honum, enda gerði hann allt vel sem hann tók sér fyrir hendur og var alls staðar vel liðinn. Villi var ein- stakur afi og ég leyfi mér að efast um að nokkur afi í heim- inum elski barnabörnin sín meira en hann elskaði dætur mínar. Enda var hann duglegur að minna okkur á að þær væru sko gullmolarnir hans og var hann ófeiminn að sýna ást sína á þeim. Missir þeirra er mikill. Eðlilega þegar við Bjarki slitum okkar sambúð minnkaði samband mitt við þau hjón, en ást mín og væntumþykja í þeirra garð er og mun alltaf vera til staðar og jólin sem við eyddum saman fyrir nokkrum árum þegar Bjarki og Íris voru erlendis, eru núna dýrmæt minning. Yngri börnin mín, Elís Aron, Adríana og Aríella tala um Villa afa og tel ég þau ein- staklega rík að hafa átt svona aukaafa á kantinum. Sárt er vinar að sakna. Sorgin er djúp og hljóð. Minningar mætar vakna, margar úr gleymsku rakna, svo var þín samfylgd góð. Daprast hugur og hjarta, húmskuggi féll á brá. Lifir þó ljósið bjarta, lýsir upp myrkrið svarta vinur þó félli frá. Góðar minningar að geyma gefur syrgjendum fró. Til þín munu þakkir streyma, þér munum við ei gleyma, sofðu í sælli ró. (Höf. ók.) Elsku Tóta, Bjarki, Íris og aðrir aðstandendur, fyrir hönd fjölskyldu minnar færum við okkar dýpstu samúð og sendum hlýjar kveðjur á þessum erfiða tíma. Fríður Esther Pétursdóttir. Í dag kveðjum við einstakan mann og besta afa í heimi, Villa afa! Við hefðum ekki getað verið heppnari með afa. Það er ómögulegt að koma í orð hversu mikið við elskuðum hann en við vonum að hann hafi yfirgefið þessa jarðvist vitandi hversu gríðarleg áhrif hann hefur haft á líf okkar, hversu mikið við elskuðum hann og hversu sárt við munum sakna hans. Þegar við hugsum um afa hugsum við um hvað hann var góður, sérstaklega við okkur, gullmolana sína. Það er ekkert sem hann hefði ekki gert fyrir okkur og gerði hann allt sem hann gat. Okkar bestu minningar í æsku voru að fara í ferðalög með ömmu og afa, leika okkur í bílskúrnum hjá þeim, fá popp og kók og leigja eina mynd. Það var ekkert betra en að vera hjá þeim. Við vorum svo heppnar að þau áttu heima svo nálægt, við gátum alltaf leitað til þeirra og það má segja að við höfum verið hálfgerðir lúðar því við vildum oft fara frekar til ömmu og afa en leika við vini okkar. Uppá- haldsmaturinn okkar var alltaf einfaldur, brúna sósan hans afa og sykraðar kartöflur. Það var ekkert betra en að stappa þessu saman. Afi átti upptökuvél og var hann mjög duglegur að taka upp á hana og erum við mjög þakklátar fyrir það að geta horft á allar þessar skemmti- legu minningar. Við munum hvað okkur fannst alltaf gaman þegar hann tók upp upptökuvél- ina, okkur leið eins og stjörn- um. Þegar við urðum eldri fengu vinkonur okkar að koma í bílskúrinn og við tókum upp allskonar vitleysu. Það var allt- af gaman að fá að nota upp- tökuvélina. Maður gerði aldrei neitt rangt og fékk alltaf stuðning. Það eina sem skipti hann máli var að við værum hamingjusam- ar, okkur fannst hann vera stoltur af öllu sem við gerðum. Hann var frábær fyrirmynd. Við litum mikið upp til hans og hann var alltaf sá fyrsti sem við spurðum ef okkur vantaði ein- hver ráð um að vera “fullorðin“. Afi var líka svo rosalega flottur. Hann var mikill golf- maður, bílskúrinn hans var stútfullur af alls konar bikurum og verðlaunum, við héldum lengi að hann væri besti golfari í heimi. Hann reyndi oft að vekja áhuga á golf en eina sem við höfðum áhuga á var að prufa að keyra golfbílinn, sem við auðvitað fengum að gera. Hann reyndi líka að kenna okkur að tefla og spila snóker, þó að við værum alls ekki góðar eða fylgdum oft ekki reglunum fannst honum samt alltaf gam- an að spila við okkur. Afi elskaði öll dýr. Frá hund- unum okkar í fuglana úti í garði. Hann eyddi tímunum saman að klappa og knúsa hundana okkar þegar við kom- um í heimsókn. Honum fannst jafn gaman að fá þá í heimsókn og okkur, enda elskuðu hund- arnir hann og leið svo vel í kringum hann að þeir vildu varla koma aftur heim með okk- ur. Við þekkjum ekki lífið án hans en við lofum elsku afi að passa ömmu vel. Er sárasta sorg okkur mætir og söknuður huga vorn grætir þá líður sem leiftur úr skýjum ljósgeisli af minningum hlýjum. (H.J.H.) Gullmolarnir þínir, Tóta og Jóka. Jóhanna og Þórunn. Góður drengur hefur gengið sinn síðasta spöl. Fyrir hönd Golfklúbbs Selfoss vil ég votta Þórunni og öðrum aðstandend- um Villa innilega samúð vegna fráfalls hans. Þegar við hjónin fluttum á Selfoss kom ekkert annað til greina en að ganga í Golfklúbb Selfoss og þar kynnt- umst við meðal annarra frábær- um frumkvöðlum sem stóðu að uppbyggingu Golfklúbbsins. Það kom fljótt í ljós að Villi var allt í öllu í starfsemi klúbbsins á þessum tíma og mætti nánast dag sem nótt til að hirða völl- inn, stýra vökvakerfinu, sjá um uppgjör eða hvað annað sem gera þurfti. Hjarta hans sló fyr- ir GOS. Árið 2007 var ég svo lánsöm að fá að sjá um veit- ingasölu golfklúbbsins og gat þá spilað golf að morgni með mörgum eldri meisturum eins og Jóni Bjarna og Villa. Þeir kenndu mér margt og ég mun seint gleyma kennslustundum Villa í stutta spilinu „sláðu bara ofan á rassgatið á henni“, það svínvirkar og ég nota það enn. Villi var mikill grallari í eðli sínu og átti það til að hrekkja skemmtilega. Við hlógum í mörg ár yfir hrekk sem hann lagði fyrir mig á 7. teig þegar hann náði að setja púðurbolta á „tee“ hjá mér og allt var sprengt í loft upp. Hann var einlægur og góður vinur sem lagði mikið af mörkum til GOS. Ég held að það sé óhætt að segja að enginn hafi nýtt völlinn okkar betur á hvaða árstíð sem er og það hefur verið yndislegt að sjá þau hjónin mæta í öllum veðrum til að njóta golfíþrótt- arinnar. Villi var vinur vina sinna og reyndist öðrum for- sprökkum golfklúbbsins ómet- anleg aðstoð þegar á þurfti að halda í þeirra lífi. Slíkan vin er gott að eiga. Talnagleggri manni hef ég aldrei kynnst og að mér skilst var Villi með betri briddsspilurum þjóðarinnar. Það var okkur í GOS mikilvægt að fá að heiðra þá eldri félaga sem mikið hafa lagt til starfsins á síðasta aðalfundi og gladdi það okkur mjög að geta veitt Villa þá vegsemd að verða heið- ursfélagi GOS. Sín síðustu spor tók hann jafnframt til að upplifa opnun nýrrar inniaðstöðu GOS og sýnir það traust hans, trú og von á starfið sem þar er sinnt ásamt von um að geta verið með okkur áfram. Við höldum áfram fyrir þig, Villi. Fyrir hönd Golfklúbbs Sel- foss, Ástfríður Margrét Sigurðardóttir. Góður drengur er genginn. Vilhjálmur Þór Pálsson er allur. Eldri bridsspilarar muna eftir Selfyssingunum Sigfúsi heitn- um Þórðarsyni og Vilhjálmi Þór Pálssyni (Sigfús og Vilhjálmur) sem gerðu garðinn frægan á Selfossi, í Bridsfélagi Reykja- víkur og á landsvísu hér á árum áður. Þeir voru feiknagott par og sigursælt. Ég var svo lán- samur að kynnast Vilhjálmi svolítið síðustu árin í heima- brids og hef ekki spilað við jafn náttúrulega góðan bridsspilara. Hann var yfirburðamaður í brids. Auk þess var Villi dreng- ur góður. Léttur, kvikur og minnugur. Fínn maður. Blessuð sé minning hans og samúðar- kveðjur til eiginkonu, barna og annarra aðstandenda. Baldur Kristjánsson. Vilhjálmur Þór Pálsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.