Morgunblaðið - 25.04.2020, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 25.04.2020, Blaðsíða 20
20 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. APRÍL 2020 Senn fer að bera á óþoli vegna þeirrar samstöðu og hlýðni semhefur grafið um sig frá því að þríeykið tók við landstjórninni.Mörg horfa öfundaraugum til Bandaríkjanna þar sem fólkkrefst nú víða frelsis til að sýkjast og deyja, og mótmælir – með stuðningi forsetans – varúðarráðstöfunum við farsóttinni þannig að heilbrigðisstarfsfólk kemst ekki til vinnu. Þegar brestir koma í sam- stöðuna hér á landi má búast við að ýmsir byrji aftur að etja lands- mönnum saman, latteliðinu gegn landsbyggðarfólki, háskólamennt- uðum gegn ófaglærðum, konum gegn körlum o.s.frv. Þótt pestin gangi niður er ekki fyrirsjáanlegt að við getum tekið upp fyrri iðju með flugferðum úr landi; við sitjum því uppi hvert með annað fram eftir sumri og þurfum að láta okkur lynda að ferðast innan lands – án þess að rekast á alla út- lendu ferðamennina og far- andverkafólkið. Við munum því neyðast til að tala ís- lensku hvert við annað á tjaldsvæðunum, edduhótel- unum og pylsusjoppunum – svo rifjaðir séu upp helstu möguleikar innlendra ferða- langa til afþreyingar áður en allt fylltist hér af ferðaþjón- ustuaðilum. Sjálfsagt verður það nýmæli fyrir mörg að mega vænta þess að hitta heimafólk á hverjum stað með landshlutabundið málfar á vörum. Höfuðborgarbúar sem ekki vilja fara út af sínu linmælissvæði ættu þá ekki að hætta sér inn í Húnavatnssýslurnar að vestan eða norður fyrir Berufjörð að austan. Þau sem voga sér yfir þessi ystu mörk harðmæl- issvæðisins mega eiga von á stigvaxandi harðmæli þar til komið er austur yfir Héraðsvötn og norður í Vopnafjörð. Þá verða menn að gæta að forsetninganotkun með bæjanöfnum og hlusta grannt eftir því hvort heimamenn séu á eða í sínum bæ. Eina al- menna reglan er sú að staðir sem enda á -vík taka með sér í frá Vík í Mýrdal og að Súðavík. Frá og með Hólmavík erum við á slíkum víkum. Ekki er ráðlagt að hætta sér út í rökræður við staðkunnuga í þessum efnum og nefna að í Landnámu sé talað um að Garðar hafi verið í Húsa- vík á Skjálfanda – þegar Húsvíkingurinn við afgreiðsluborðið segist vera á Húsavík. Ekki eru öll jafn kurteis og Hofsósingar sem voru í Hofsós þar til ferðamenn komu í bæinn og voru á Hofsósi. Ástæðan fyrir því að Bolungarvík er skrifuð með erri er svo sú að þannig er þetta örnefni skrifað í Landnámu þótt sumum þyki nú rökréttara að fella errið burt vegna þeirra bolunga sem víkin hljóti að vera kennd við. Reykvíkingar mega vænta sömu kurteisi af utanbæjarmönnum sem þekkja ekki að hér fyrir sunnan förum við inn í Laugarnes og inn að Elliðaám (sbr. hendinguna í Kleppsförinni: „Inn að Kleppi er óravegur, andskotastu því fljótt af stað“) og út á Seltjarnarnes, eitt Innnesjanna en svo eru nesin kölluð frá Elliðaám að Hvaleyrarholti sunnan Hafnar- fjarðar þar sem Suðurnesin taka við (að tali „fólks í fjarlægum pláss- um“) allt suður í Hafnir, málfræðilegan suðurodda landsins. Örnefni og tungu- tak í sumarleyfinu Tungutak Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir Málfar Hvort varstu á Þórshöfn eða í Þórshöfn? Við lifum nú viðsjárverðari tíma en elztu mennmuna. Hættumerkin fram undan í rekstriþessa litla þjóðarbús okkar hér á hjara ver-aldar eru mörg. Nýjasta grunnstoðin í þeim rekstri er horfin og er þá átt við ferðaþjónustuna. Það eru vísbendingar um djúpstæð vandamál í orkufrek- um iðnaði, sem er önnur grunnstoð, sem varð til fyrir rúmlega hálfri öld. Eftirspurn eftir áli hefur minnkað, verð hefur lækkað og umtal um lokun álversins í Straumsvík. En það sem minnsta athygli vekur en getur verið hættulegast eru áhrif loftslagsbreytinga á lífið í sjón- um. Þær hafa áhrif bæði á hafstrauma og hitastigið í hafinu, sem aftur hefur áhrif á fiskinn, sem er að færa sig norðar. Getur verið að hann eigi eftir að synda út úr lögsögunni? Það má merkja, þegar talað er við ungt fólk sem er að ljúka háskólanámi, að það gerir sér grein fyrir því, að nýjar kynslóðir eru að hefja átök við alvöru lífsins við óvenjulega erfiðar aðstæður. Allt er í óvissu um atvinnumöguleika námsmanna í sumar, hvað þá um framtíðarstörf þeirra, sem eru að ljúka námi. En það er ekki tóm svartsýni, sem einkennir tal þessa unga fólks. Sumir benda á, að þótt stóriðjan kunni að vera að skreppa saman séu mikil tækifæri í annars konar starfsemi sem byggist á raforku, svo sem í gagnaverum, og bæði Össur og Marel séu dæmi um að nýsköpun geti skilað raunverulegum árangri. Þetta eru alvöruspurningar og alvöruvandamál og það þýðir ekki fyrir stjórnmálin að bregðast við þeim með þeirri sýndarmennsku, sem um of hefur einkennt pólitík síðustu áratuga, þegar meiri áherzla hefur ver- ið lögð á „upplifun“ kjósenda en raunveruleg vanda- mál í uppbyggingu samfélaga. Það er ekki endilega víst að núverandi kynslóðir stjórnmálamanna, sem hafa alizt upp í sýndarveröld almannatengla, séu færar um að taka upp breytta starfshætti og þess vegna sé kominn tími á kyn- slóðaskipti í stjórnmálum og að það fólk sem finnur vandamálin á eigin skinni taki við. Það hefur enga þýðingu að tala almennt um það að ferðaþjónustan taki við sér á ný á fáeinum misserum. Við vitum ekkert um, hvers konar veröld er handan við hornið. Hún getur verið allt önnur og gjörbreytt. Veröld, þar sem neyzluæðið hefur horfið í víðum skilningi og þar með stöðug ferðalög milli landa, yfir- fullar flugstöðvar og járnbrautarstöðvar og járnbraut- arlestir og mannþröng hvert sem litið er. Það var orð- ið ljóst fyrir mörgum árum, að átroðningur mannfjöldans var farinn að hafa neikvæð áhrif á vin- sæla ferðamannastaði hér. Það getur meira að segja verið að sá háttur nú- tímans að fólk borði frekar á veitingastöðum en heima hjá sér eins og tíðkaðist í gamla daga, þegar veitinga- staðir voru undantekning en ekki regla, taki grund- vallarbreytingum. Lokun slíkra staða um heim allan á undanförnum vikum hefur þegar haft neikvæð áhrif á sölu fersks fisks frá Íslandi. Í stuttu máli sagt vitum við ekkert hvað fram undan er. Eitt er þó ljóst. Þótt vera megi að það sé hægt að halda þeim atvinnugreinum, sem við þekkjum nú, gangandi um skeið með opinberum fjárframlögum er það ekki hægt til frambúðar. Og út í hött að tala á þann veg, að í þeim efnum sé engin endastöð. Ýmislegt jákvætt hefur þó gerzt undanfarnar vikur, sem líklegt er að festi sig í sessi. Fjarfundir og fjar- nám eru eitt af því. Það er ekki bara Háskólinn við Bifröst, sem hefur leitt fjarnám til vegs. Undanfarnar vikur hafa íslenzkir námsmenn í útlöndum komið heim og hafa héðan að heiman stundað fjarnám við erlenda háskóla. Það er ekki ólíklegt að það fyrirkomulag breiðist út, sem dregur að sjálfsögðu mjög úr námskostnaði. Fjarfundir hafa lengi verið raunhæf leið til samskipta en gamlar venjur í þeim efnum verið lífseigar, ekki sízt hjá opinberum aðilum. Það er mjög líklegt að þegar fólk hefur neyðzt til að taka þá starfshætti upp séu þeir „komnir til að vera“ eins og sagt er og þar á með- al í samskiptum þjóða í milli og jafnvel innan sam- félaga. Fólk úti á landi þarf ekki endilega að ferðast til Reykjavíkur til að eiga samskipti við opinbera aðila eða einkaaðila. Þau samskipti kosta minna með því að nýta nútímatækni til þeirra. Og það á reyndar við inn- an höfuðborgarsvæðisins líka. Af hverju er ekki hægt að endurnýja ökuskírteini með rafrænum hætti? Og undanfarnar vikur hafa fjölmörg fyrirtæki upp- götvað, að það er hægt að halda starfsemi gangandi, þótt fólk vinni heiman frá sér. Það gæti haft þau áhrif að atvinnustarfsemi þurfi ekki á að halda öllu því hús- næði, sem við höfum vanist. Og svo mætti lengi telja. Allt dregur þetta úr kostnaði, sem hingað til hefur verið talinn óhjákvæmilegur. Það getur meira að segja verið að hin nýja tækni í samskiptum leiði í ljós, að sendiráð séu gamalt og úr- elt fyrirbæri! Það er hægt að stunda samskipti við aðrar þjóðir og þjónusta fólk með ódýrari hætti. Hið sama á við um opinberar stofnanir heima fyrir. Það eru hættur fram undan en það eru líka að opn- ast ný tækifæri til að reka samfélagslegan búskap með ódýrari hætti en áður. Og í ljósi þess að við vitum ekki hvað er fram undan er kannski ástæða til að leggja stóraukna áherzlu á þá þætti, sem geta dregið úr kostnaði okkar við rekstur samfélagsins. Þar koma fjarnám og fjarfundir mjög við sögu svo og að nýta tækni nútímans til þess að draga úr þörf atvinnustarfsemi fyrir viðamikið hús- næði. Það er meira að segja hægt að gefa út dagblað í fjarvinnu! Hætturnar fram undan en … Tími „sýndar“stjórn- mála er liðinn. Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Talið er, að um 500 milljónirmanna eða þriðjungur jarðarbúa árið 1918 hafi smitast af spánsku veikinni og af þeim hafi um tíu af hundraði látist, um 50 milljónir manna. Ein skýringin á því, hversu skæð veikin varð, var fátæktin á þeim tíma, vannæring, þéttbýli í lökum húsakynnum og skortur á hreinlæti. Við búum sem betur fer við miklu betri aðstæður. Hagvöxtur er af- kastamesti læknirinn. Á Íslandi létust 484 úr spánsku veikinni, en um skeið lágu tveir þriðju hlutar Reykvíkinga rúmfastir. Thor Jensen var þá umsvifamesti útgerð- armaður landsins. Að beiðni bæj- arstjórnar Reykjavíkur sendi félag hans, Kveldúlfur, togara til veiða, þegar bærinn var að verða matarlaus, og gaf hann fiskinn bæjarbúum endurgjaldslaust. Og hinn 22. nóvem- ber setti Thor upp almenningseldhús. Hann fékk lánað húsnæði undir það, en greiddi allan annan kostnað úr eig- in vasa. Í matskálanum voru samtals framreiddar um 9.500 máltíðir, en rösklega 7.000 máltíðir voru sendar til þeirra, sem ekki áttu heiman- gengt. „Að voru viti hefur enginn höfðingi þessa lands, hvorki fyrr né síðar, sýnt aðra eins rausn,“ skrifaði Morgunblaðið 16. desember 1918. Einnig rak Tómas Jónsson mat- vörukaupmaður eldhús, nokkru minna, og gaf mat og mjólk. Í Barna- skóla Reykjavíkur við Tjörnina var sett upp farsóttarheimili, og var Garðar Gíslason stórkaupmaður yfir- bryti þar. Var hann kallaður „hjálp- arhellan“, því að honum tókst jafnan að útvega nauðsynjar, þegar aðrir stóðu ráðalausir. Í veirufaraldrinum, sem nú geisar, hafa úrræðagóðir framkvæmdamenn líka látið að sér kveða. Kunnast er auðvitað framtak Kára Stefánssonar í Íslenskri erfðagreiningu, en óhætt er að segja, að róðurinn hefði orðið þyngri, hefði hans ekki notið við. Mér er kunnugt um, að forstjórar nokk- urra annarra fyrirtækja hafa lagt nótt við dag við útvegun nauðsynlegs tækjabúnaðar, og hafa fyrirtækin borið kostnaðinn. Hafa þessir menn nýtt sér erlend viðskiptasambönd, sýnt fádæma þrek og sigrast á ótal erfiðleikum. Þotur fullar af marg- víslegum búnaði fljúga ekki ókeypis eða fyrirhafnarlaust frá Kína til Ís- lands. Þessir menn hafa ekki viljað láta nafna sinna getið, en við að heyra um þá rifjuðust upp fyrir mér orð Margrétar Thatcher: „Miskunnsami Samverjinn gat veitt aðstoð, af því að hann var aflögufær.“ Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar Hannes H. Gissurarson hannesgi@hi.is Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð Farsóttir og einkaframtak Hlíðarvegur 54, 260 Reykjanesbæ Nánari upplýsingar á skrifstofu s. 420 6070 eða eignasala@eignasala.is Um er að ræða 4ra til 5 herbergja raðhús ásamt bílskúr, húsið hefur verið mikið endurnýjað á undanförnum mánuðum. Myndir og lýsing á eignasala.is Verð kr. 42.900.000 145,2 m2 Jóhannes Ellertsson Löggiltur fasteignasali – s. 864 9677 Júlíus M Steinþórsson Löggiltur fasteignasali – s. 899 0555

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.