Fréttablaðið - 03.09.2020, Síða 10
Öræfajökull er eitt stærsta eldfjall Evrópu en á öskjubarmi hans er að finna þrjá hæstu tinda landsins, Hvannadalshnjúk (2.110 m), Sveinstind (2.044 m) og Snæbreið (2.041 m). Við rætur þessa risaeldfjalls eru annars konar
náttúruperlur og nægir þar að nefna gróðurvinina
Skaftafell og Fjallsárlón með fljótandi ísjökum sem
gefa þeim á Jökulsárlóni lítið eftir. Suðaustur af
Öræfajökli er jafnframt eitt fallegasta bæjarstæði á
Íslandi, Kvísker í Öræfum, en hvergi í byggð er meiri
úrkoma á Íslandi. Þarna bjuggu fram á þessa öld níu
Kvískerjasystkini sem stunduðu búskap en fjórir
bræðranna voru jafnframt sjálfmenntaðir en virtir
náttúrufræðingar. Þeir skildu eftir sig merkilegar
lýsingar á náttúru Öræfa; ekki aðeins á skriðjöklum
heldur einnig á óvenju litríkri f lóru og fuglalífi
svæðisins. Í Kvískerjalandi eru mikilfengleg gljúfur
sem fáir vita af og enn færri hafa heimsótt. Þeirra
helst eru Vattarárgljúfur, Hellisgljúfur og Múlagljúfur
en það síðastnefnda var í sérstöku uppáhaldi Kví
skerjabræðra og var þar til nýlega lítt þekkt.
Nafnið lætur ekki mikið yfir sér og segja má að
Múlagljúfur sé í feluleik þar sem það sést ekki af þjóð
veginum og þangað liggur engin merkt ökuleið. Þó
er auðvelt að komast að því af ómerktum jeppaslóða
um það bil miðja vegu milli Kvískerja og Fjallsárlóns,
sunnan Hrútár. Ekið er stuttan spöl með fram ánni að
varnargarði þar sem leggja má bílum. Síðan tekur við
stórkostleg tæplega 2,5 km ganga upp með gljúfrinu
og er hluti leiðarinnar merktur. Þetta er greiðfær
gönguleið og flestum fær en fara verður varlega því
víða liggur stígurinn nálægt gljúfrinu. Þarna er afar
mikilvægt að ganga ekki utan slóða því mosagróður
inn er viðkvæmur. Smám saman dýpkar gljúfrið uns
Hangandi foss í Fosslæk blasir við en hann er á meðal
hæstu fossa landsins og mældu Kvískerjabræður
hann 117 m á hæð. Stuttu síðar sést inn í enda Múla
gils þar sem Múlakvísl steypist niður Rótarfjallsgil og
kallast neðsti fossinn Múlafoss og er 50 m hár. Þarna
lá skriðjökull fram eftir 20. öld en í staðinn blasir nú
við þverhnípt jökulstálið ofan við bergvegg
inn og enn hærra tveir tignarlegir tindar,
Rótarfjallshnjúkur (1.026 m) og aftar Hellu
tindur (1.142 m). Þarna hefur Skaparinn
átt sérlega góðan dag en grænt gljúfrið
með glæsifossum, skriðjöklum og
fjallstindum, er einfaldlega stöngin
inn.
Gimsteinn
í feluleik
Múlagljúfur er gimsteinn í felum og einn fallegasti staður á Íslandi. MYNDIR/TG
Hangandi foss er 117 metra hár.
Þokustemning við Múlagljúfur.
Tómas
Guðbjartsson
hjartaskurð-
læknir og
náttúruunnandi
og Ólafur Már
Björnsson
augnlæknir og
ljósmyndari
3 . S E P T E M B E R 2 0 2 0 F I M M T U D A G U R10 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð