Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.05.2020, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.05.2020, Blaðsíða 14
VERÖLD 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.5. 2020 vegna þess að um er að ræða ákvarðanir sem fólk í arabaheiminum getur og ætti að taka af ábyrgð. Það er líka grundvallarþáttur lýðræðis og sjálfstjórnar að fólk taki sínar mikilvægustu ákvarðanir sjálft og það sé ekki gert fyrir það. Ég trúi því að það sem veiti pólitískum aðgerð- um merkingu og göfgi sé einmitt að þá séum við sjálf að móta örlög okkar. Það er eitt þegar fólk tekur ákvarðanir við aðstæður þar sem það er undir þrýstingi utanaðkomandi afla. Það gæti litið lýðræðislega út, en er það þó ekki að fullu. Þarna sýnist mér hins vegar að um raunveru- lega sjálfsákvörðun hafi verið að ræða víða í löndum hins arabískumælandi heims. Þarna var ekki ákveðið að láta til skarar skríða í skugga heimsvelda. Þverrandi máttur Bandaríkjanna Síðan eru það hinar sögulegu ástæður. Þegar horft er til nútímasögu Mið-Austurlanda aftur til Tyrkjaveldis má segja að rauði þráðurinn sé að þjóðir sem mæla á arabísku hafi ekki haft frelsi til að taka sjálfar ákvarðanir, þær mótuðu ekki eigin sögu. Fyrst kom Tyrkjaveldi, síðan Bretar og Frakkar og svo Bandaríkjamenn og Sovétmenn á kantinum. Þetta takmarkaði póli- tískt frelsi í arabaheiminum. Fólk í Mið- Austurlöndum gat því sagt að það væri ekki við það að sakast að það væri eftir á þegar kæmi að lýðræði og ég held að það hafi lengi vel verið satt. Fyrir því voru margar ástæður, þar á með- al olía, og þær voru raunverulegar. En það hef- ur breyst. Það er að hluta til vegna þess að heimsveldið sem var í áhrifaríkustu stöðunni á þeim tíma, Bandaríkin, fór verulega fram úr sér í Afganistan og Írak. Fyrir vikið hafði það ekki mátt lengur til að gera sig gildandi í þessum heimshluta eins og leiðtogar þess hefðu upp- haflega viljað. Við það opnaðist rými vegna of- þenslu heimsveldisins og hnignunar og áður en nýtt heimsveldi gæti fyllt upp í það nýtti fólkið tækifærið og greip til sinna ráða til að móta eig- in örlög. Þegar spurt er hvað ráði því að fólk fái tækifæri til að móta eigin framtíð getur skipt miklu máli að ekki sé heimsveldi til staðar.“ Feldman segir að nóg sé að nefna fall Sovét- ríkjanna til að útskýra mál sitt. „Það er ekki eins og þjóðir austantjaldsland- anna hafi ekki viljað njóta sjálfsákvörðunar- réttar fyrir það – í þeim efnum nægir að benda á Ungverjaland, Tékkóslóvakíu og Samstöðu í Póllandi,“ segir hann. „Hreyfingarnar þar voru einfaldlega brotnar á bak aftur að undanskilinni Samstöðu. En þegar heimsveldinu hnignaði – það hrundi – opnaðist allt. Í ljósi sögunnar er þetta mikilvægt þegar reynt er að skilja þróun sjálfsákvörðunar í heiminum. Menn þurfa að gera sér grein fyrir að sjálfsákvörðun er ekki algildur eiginleiki sem allir njóta alltaf. Mögu- leikarnir til sjálfsákvörðunar birtast í þeim tækifærum sem eru fyrir hendi. Þar eiga við hin frægu ummæli Marx í Átjánda Brumaire Loð- víks Napóleons um að menn móti sína sögu, en ekki eins og þeir ætli sér.“ Harmleikurinn í Sýrlandi - Þú tekur Sýrland einnig fyrir í bókinni. Þar hefur farið sérlega illa. Landið er í rúst, mann- fallið gríðarlegt og milljónir manna á vergangi. Úr lokaorðum kaflans má nánast lesa þá niður- stöðu að betra sé að reyna ekki að rugga bátn- um. Það er grátleg niðurstaða. „Það er rétt, sú niðurstaða er grátleg. Ég er á því að það hafi ekki verið útilokað fyrir Sýrlend- inga að rísa upp gegn stjórn Assads án þess að það leiddi til borgarastríðs, en það hefði verið gríðarlega erfitt að afstýra því. Ástæðan fyrir því er sú að þannig var komið fyrir stjórninni að hún stjórnaði aðeins í þágu eins minnihlutahóps í landinu eða trúarhóps. Í þeirri stöðu er hættan sú að þeir sem krefjast þess að stjórninni verði steypt séu einnig að krefjast þess að þessum hópi verði steypt af stalli. Þá á þessi hópur ekki annars kost en að berjast til síðasta manns vegna þess að hann hefur enga tryggingu fyrir því að öryggi sínu sé borgið. Þetta eru dæmi- gerðar öryggisógöngur, beggja vegna borðs vita menn að illa mun fara, en verða að gera upp við sig hver muni vernda þá, fjölskyldur þeirra og viðurværi þegar hættan kallar.“ Feldman segir að eitthvað veigamikið hefði þurft til að afstýra slíkri atburðarás, þótt hún hafi ef til vill ekki verið óumflýjanleg, auk þess sem enginn hefði verið tilbúinn að skerast í leikinn. „Hins vegar var hvorugur tilbúinn eða fær um að koma því á framfæri við hinn með trú- verðugum hætti að öryggis yrði gætt og ég er ekki viss um að þeir hefðu getað það. Ég vil hins vegar að það sé alveg skýrt að ég skelli skuld- inni á stjórnina, ekki fólkið sem reis upp.“ Mjög erfitt hefði verið að koma að koma at- burðarásinni í annan farveg eftir að átök hófust. „Það leiddi til borgarastyrjaldarinnar og þá voru til að gera illt verra önnur lönd á svæðinu viljug til að skerast í leikinn,“ segir hann. „Bandaríkjamenn tóku hins vegar afstöðu um að fara bil beggja með skelfilegum afleiðingum. Það var kannski skiljanlegt. Bandaríkjamenn vildu ekki steypa Assad vegna þess að þeir vissu ekki hvað tæki við. Eftir reynsluna í Írak höfðu þeir líka áhyggjur af að þeir myndu þurfa að bera ábyrgð á afleiðingunum. Um leið vildu þeir ekki heldur draga sig í hlé og leyfa Assad að kæfa uppreisnina. Þeir hötuðu Assad, hann var óvinur þeirra. Að auki hefðu Bandaríkja- menn getað styrkt stöðu sína í þessum heims- hluta félli Assad. Þeir vissu ekki hvora leiðina þeir áttu að fara, þannig að þeir völdu að vera í miðjunni, sem varð til þess að stríðið dróst á langinn svo um munaði. Það gerðu þeir með því að láta uppreisnarmenn hvorki fá nægan stuðn- ing til að steypa Assad, né að stíga til hliðar og leyfa Assad að kveða niður uppreisnarmennina. Ég skil vissulega hvers vegna stjórn Obama tók þessa afstöðu og ég átta mig á hvað það var gríðarlega erfitt fyrir hana að fara aðra leið, en ég held að það hafi verið rangt. Betra hefði ver- ið að fara aðra hvora af hinum leiðunum.“ Feldman segir að fórnarkostnaðurinn fyrir Sýrlendinga skipti þar mestu. Helmingur íbúa landsins hafi misst heimili sín, sex milljónir manna flúið úr landi. Afleiðingarnar nái líka langt út fyrir landsteinana. Flóttamannavand- inn hafi á margan hátt verið afdrifaríkur og hann hafi átt stóran – en alls ekki allan – þátt í vanda Evrópusambandsins á þessum árum og sá vandi sé enn óleystur. „Þetta hafði áhrif á Schengen og það sem reyndist goðsagan um samstöðu Evrópu við þessar kringumstæður,“ segir hann. „Það var ekki lítið mál. Þetta skipti fólk um alla Evrópu máli, fólk í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá Sýrlandi.“ Uppgangur Ríkis íslams Feldman leiðir uppgang Ríkis íslams einnig af arabíska vorinu. Hvers vegna náðu þessi hryðjuverkasamtök slíkum árangri og hvaða lærdóm má draga af uppgangi þeirra? „Ég vil gera greinarmun á því hvers vegna Ríki íslams kom fram og hvers vegna því gekk svo vel um skeið,“ segir hann. „Ríki íslams kom fram vegna þess hvað ríkisvaldið í Írak var veikt, sérstaklega á svæðum súnnímúslima vegna mistakanna við hernám Bandaríkja- manna. Atburðarásin í Írak í framhaldi af því skapaði ásamt hruninu í Sýrlandi aðstæður fyr- ir Ríki íslams til að vaxa fiskur um hrygg. Við það skapaðist tómarúm í báðum löndum og Ríki íslams gat starfað þvert á landamæri. Samtök- in, sem urðu að Ríki íslams, höfðu verið til í Írak svo árum skipti, en þau voru nánast horfin. Meira að segja aðrir íslamistar gerðu grín að þeim og kölluðu þau pappírsríkið. Samtökin þurftu því að komast í þá stöðu að geta lagt und- ir sig land. Hrun ríkisvaldsins í Sýrlandi gerði þeim skyndilega kleift að ná undir sig landi.“ Feldman segir að við það hafi orðið kaflaskil. „Um leið og Ríki íslams náði undir sig land- svæði var hægt að segja að þar væri komin fram íslömsk, umbótasinnuð, byltingarkennd útópía. Á þetta legg ég áherslu í bókinni. Ólíkt al-Qaeda, sem helgaði sig því að heyja heilagt stríð, en í raun með neikvæðum for- merkjum, að verja múslima gegn gripdeildum trúvillinganna án þess að reisa útópískt ríki. Ríki íslams var að reisa útópískt ríki. Forsenda þess að samtökin gætu lýst yfir stofnun kalífa- veldis var í fyrsta lagi að búa yfir landsvæði ein- faldlega samkvæmt skilgreiningu og í öðru lagi að geta sagt við múslima um allan heim að þeir væru kraftbirting fyrirmyndar að því hvernig múslimar ættu að lifa með beinni vísun allt aft- ur til spámannsins. Þá gætu þau sagt: „Við er- um að búa þessa útópíu til.““ Feldman bendir í bók sinni á að þetta megi bera saman við stofnun kommúnistaríkja á lið- inni öld og nefnir sem dæmi lönd á borð við Kúbu, sem höfðu aðdráttarafl fyrir ungt fólk víða að. „Með útópíunni verður til hvatning fyrir ungt fólk, sem hefur áhuga á að byggja fyrirmynd- arríkið, til að vera með líkt og ungt fólk vildi fara til Kúbu eftir byltinguna þar, eða þá að fólk víða um heim vildi fara til Sovétríkjanna á fyrstu árum bolsévismans. Fólk fær innblástur, jákvæða framtíðarsýn, ekki bara neikvæða. Þú værir ekki að fara til að deyja, eins og þú hefðir gert ef þú gengir í al-Qaeda, heldur að taka þátt í uppbyggingu. Það skýrir hvers vegna konur fóru á vettvang, hvers vegna svo margir alls staðar að í múslimaheiminum fóru. Þetta skýrir líka að hluta hvers vegna þetta fór svona hræði- lega úrskeiðis og leiddi til öfgakennds ofbeldis. Það verður að kalla morð og nauðganir réttu nafni. Þetta gerist og það er ekki óþekkt fyrir- bæri í útópísku, byltingarkenndu, umbótasinn- uðu samfélagi með fyrirmyndarríkishugmyndir að verknaðir sem þátttakendunum myndi undir venjulegum kringumstæðum þykja siðlausir og brjálaðir verða normalíseraðir. Við sáum út- gáfur af þessu eftir byltingu bolsévika, við sáum þetta í menningarbyltingunni í Kína eftir að kommúnistar tóku völd og meira að segja í af-

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.