Skessuhorn - 22.01.2020, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 22. jANúAR 2020 19
Bragi Þór Svavarsson er nýr skóla-
meistari Menntaskóla Borgarfjarð-
ar. Hann var valinn úr hópi níu um-
sækjenda og hóf hann störf í byrj-
un árs. Bragi er fæddur og uppalinn
í Þingeyjarsveit. Eftir grunnskóla-
nám fór hann á Akureyri í mennta-
skóla og því næst í Háskólann á Ak-
ureyri að læra kennarafræði. Bragi
er kvæntur Hrafnhildi Tryggva-
dóttur, verkefnastjóra á umhverf-
is- og skipulagssviði Borgarbyggð-
ar, og saman eiga þau þrjár dæt-
ur. Hrafnhildur kemur af Suður-
landi og saman ákváðu þau að hefja
sambúð í Borgarbyggð þegar Bragi
hafði lokið námi í kennarafræðum,
árið 1999. „Við ákváðum að hittast
á miðri leið og búa saman á nýjum
stað. Okkur þótti þetta spennandi
á sínum tíma en ætluðum kannski
aldrei að búa hér lengi en svo bara
heppnaðist þetta svona vel að hér
erum við enn. Ég er aðfluttur Borg-
firðingur,“ segir Bragi og hlær.
Góð blanda
fyrir skólameistara
Bragi kenndi í tvö ár á Varmalandi
og síðan var hann vefstjóri og um-
sjónarmaður kennslukerfis við Há-
skólann á Bifröst í sex ár. „Hið
fræga ár 2007 ákvað ég að skipta um
starfsvettvang og fór til Reykjavíkur
að vinna,“ segir Bragi en hann hefur
unnið hjá Íslandsbanka síðustu tólf
árin, fyrst sem þjónustustjóri en svo
sem breytingastjóri og deildarstjóri
í tækniþjónustu bankans. En hvers
vegna ákvað hann að snúa til baka í
skólamálin? „Ég ólst upp í sveit þar
sem var heimavistarskóli og á mínu
heimili var mikið rætt um skóla- og
menntamál. Ég hef því alla tíð haft
áhuga á því og fylgst með skóla-
starfi og var það ástæðan fyrir því
að ég ákvað að verða kennari,“ seg-
ir Bragi. „Þegar ég sá starf skóla-
meistara auglýst kviknaði hjá mér
löngun að fara aftur í upprunann,
aftur að sinna þessum áhugamálum
mínum um nám og kennslu og ekki
var verra að geta unnið í heima-
bænum,“ segir hann og bætir því
við að þekking hans úr skólastarfi
auk reynslu hans úr bankanum gefi
honum góða blöndu sem nýtist vel
í starfi skólameistara.
Starfið leggst vel í hann
„Ég hef áður verið stjórnandi en
þetta er vissulega frábrugðið stjórn-
unarstarf. En þar sem ég hef mikið
unnið í tæknimálum hef ég unnið
mikið með ungu fólki og ég held
það hjálpi mér. Þetta er þó vissu-
lega öðruvísi og verður áskorun
fyrir mig, sem ég tel jákvætt,“ seg-
ir Bragi. En hvernig leggst starfið
í hann núna þegar hann er búinn
að kynnast nemendum og starfs-
fólki? „Þetta leggst ótrúlega vel í
mig og það sem ég hef fengið að
kynnast af þessum krökkum hér er
bara jákvætt. Krakkar í dag eru svo
vel upplýstir og upp til hópa yfir-
vegaðir og einhvern veginn svo
mikið þroskaðari en þegar ég var
ungur,“ svarar Bragi og hlær. „Það
er líka svo ánægjulegt að sjá hvað
þessi kynslóð er laus við fordóma.
Þau eru svo opin og ég veit að ég
á eftir að læra mikið af þeim,“ bæt-
ir hann við.
Ekki auglýsingavara
fyrir jólin
Aðspurður segist Bragi ekki hafa
hug á að ráðast strax í stórvægilegar
breytingar í MB heldur ætlar hann
að leggja áherslu á að byggja á því
sem þegar hefur verið gert. Þá seg-
ir hann sína fyrstu áskorun í starfi
vera að kynna skólann betur og
fjölga nemendum. „Það hefur mjög
gott starf verið unnið hér í skólan-
um í gegnum tíðina en við þurfum
að halda haus og sækja fram hvað
varðar nemendafjölda. Það er góð-
ur grunnur að byggja á hér en við
þurfum bara að vera svona hæfilega
montin af því sem við erum að gera,
láta vita af því og kynna starfið bet-
ur, bæði hér heima fyrir og víðar.
Þetta er það fyrsta sem ég ætla að
leggja áherslu á,“ segir Bragi og
bætir því við að ekki liggi fyrir að
bæta við nýrri námsbraut eða neitt
slíkt strax.
„Það er gott námsframboð hér
við skólann og ég vil einbeita mér
að því að byggja upp það sem fyrir
er frekar en að bæta við. Það er samt
ekkert útilokað að í framtíðinni
muni bætast við námsframboðið
en það liggur ekki fyrir núna. Skóli
er ekki „one hit wonder“ heldur er
orðspor skóla eitthvað sem þarf að
byggja upp hægt og rólega. Þetta er
ekki auglýsingavara rétt fyrir jólin
heldur eitthvað sem við þurfum að
halda á lofti alltaf,“ segir Bragi. Þá
segir hann MB standa framarlega í
mörgu sem mætti vekja enn meiri
athygli á. MB var einn af fyrstu
skólum landsins til að fartölvuvæða
nemendur og einn af fyrstu skólun-
um með þriggja ára nám. Þá stend-
ur skólinn framarlega í leiðsagn-
armati og verkefnamiðuðu námi.
„Menningin í skólanum er þannig
að við erum opin fyrir breytingum
og þróun. Við erum tilbúin að prófa
nýja kennsluhætti og nýjar nálg-
anir. Þetta er ungur skóli sem er
ekki fastur í ákveðnu fari af göml-
um vana og ég held það gefi okkur
ákveðið forskot,“ segir Bragi.
Allir geta blómstrað!
Spurður hverjar séu helstu áskor-
anir hans persónulega í nýja starf-
inu segir Bragi það vera að sam-
ræma áhuga sinn á námi nem-
enda og stjórnun og rekstur skól-
ans „Þetta eru í raun tvö störf, ann-
ars vegar að vera skólameistari og
sjá um rekstur og daglegt utan-
umhald og hins vegar að hafa ein-
Bragi Þór er nýr skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar.
„Ég er aðfluttur Borgfirðingur“
- segir Bragi Þór Svavarsson, nýr skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar
lægan áhuga á námi og framvindu
nemenda, að hjálpa nemendum að
ná árangri, þroskast og þróast. Það
væri rosalega gott að geta vakn-
að tvisvar á dag, fyrst til að mæta
í vinnuna sem excel maðurinn sem
þarf að skila af sér skýrslum og svo-
leiðis og svo væri gott að vakna aft-
ur og mæta til vinna og sýna nem-
endunum áhuga og taka þátt í því
sem þeir eru að gera,“ svarar Bragi.
„En ætli stærsta áskorun allra sem
starfa innan skólans sé ekki að vera
á sama stað og krakkarnir, að sam-
sama sig þeim svo þau geti sam-
samað sig okkur. Þessi kynslóð sem
núna er í skólanum er bara allt önn-
ur kynslóð en sú sem er að kenna.
Ég held að þetta kynslóðabil sé
mun sýnilegra núna en kannski fyr-
ir svona 30 árum. Krakkarnir þurfa
að kunna vel við okkur og vera til-
búin að leita til okkar og þá þurfum
við að leggja okkur fram við að ná
til þeirra,“ segir Bragi og bætir því
við að fyrst og fremst vilji hann að
nemendur MB blómstri í skólan-
um. „Þetta er lítill skóli með mikla
nánd og við eigum alla möguleika
á því að hér geti allir nemendur
blómstrað á eigin forsendum. Hér
ætti enginn að hverfa í stórum hópi
heldur ættu allir að hafa kost á að
þroska sig sem einstaklingar og það
er eitthvað sem þessi skóli hefur
fram yfir marga aðra skóla og ég vil
byggja enn frekar á því,“ segir Bragi
að endingu. arg
S
K
E
S
S
U
H
O
R
N
2
02
0
Deiliskipulagstillaga
í landi Eyrar í Svínadal
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann
12.12. 2019 að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir Eyrarás og
Eyrarskjól í Hvalfjarðarsveit sbr. 1.mgr. 41.gr. skipulagslaga nr.
123/2010.
Um er að ræða breytingu á landnotkun í landi Eyrar og tekur til
lóðanna Eyrarás og Eyrarskjól.
Samhliða deiliskipulagi er óveruleg breyting aðalskipulag
sveitarfélagsins 2008-2020 um breytingu á landnotkuna í
landi Eyrar, þar er landnotkun breytt úr frístundarbyggð í
landbúnaðarland.
Eyrarás verður rekið smábýli og Eyrarskjól verður áfram
frístundarbyggð.
Deiliskipulagstillagan liggur frammi á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar
og einnigá heimasíðu sveitarfélagsins www.hvalfjardarsveit.is.
Kynningarfundur verður á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar föstudaginn
7. febrúar frá kl. 10:00–12:00.
Athugasemdum skal skilað til skrifstofu Hvalfjarðarsveitar að Innrimel 3,
301 Akranesi, eða á netfangið skipulag@hvalfjardarsveit.is merkt ”Eyri
Svínadal”. fyrir 6. mars 2020.