Hugur og hönd - 2020, Blaðsíða 5

Hugur og hönd - 2020, Blaðsíða 5
HUGUR OG HÖND 2020  5 Það hafa verið framsæknir einstaklingar sem gáfu ársritinu Hugur og hönd nafn á sínum tíma því klassískara heiti er vart hægt að hugsa sér. Nýlega varð sá merki áfangi að ritið var gert aðgengilegt á vefsíðunni Tímarit.is. Blaðsíðurnar eru myndaðar og birtar á stafrænu formi svo þeir sem hafa snjallsíma eða spjaldtölvu innan seilingar geta notið þess fróðleiks sem þar er að finna. Ritið kom fyrst út árið 1966 og hefur komið út óslitið síðan (fyrir utan árið 1998). Allir árgangar eru aðgengilegir á vefnum að undanskildum þremur nýjustu árgöngunum því þriggja ára birtingartöf er á vefnum. Þrátt fyrir þessa framþróun er rétt að undirstrika að Hugur og hönd verður eftir sem áður gefið út prentað enda jafnast ekkert á við að handfjatla fallegt tímarit. Nú í haust kemur út saga Heimilisiðnaðarfélagsins sem rituð er af Áslaugu Sverrisdóttur sagnfræðingi og gefin er út af Sögufélaginu. Sagan hefur hlotið heitið Handa á milli – Heimilisiðnaðarfélag Íslands í hundrað ár. Áslaug hefur unnið að skrifunum, með hléum, frá því að félagið varð hundrað ára árið 2013 og því ánægjulegt að komið sé að útgáfu. Samstarfið við Sögufélagið hefur verið einstaklega gott og er það mikið lán að sagan skuli koma út í þeirra ritstjórn og umsjón. Það verður spennandi að fá bókina í hendur og víst er að margir félagsmenn munu njóta lesturs hennar. Bókin hlýtur að verða jólabókin í ár! Í ágúst bættist við starfsmaður í hálft starf á skrifstofu félagsins til að sinna námskeiðahaldi og öðrum tilfallandi verkefnum. Aðrir starfsmenn HFÍ eru formaður/framkvæmdastjóri í fullu starfi og starfsmaður í verslun í hálfu starfi. Nú eru því tvö stöðugildi í stað eins og hálfs áður. Þessi viðbót er kærkomin enda eru verkefnin fjölmörg og möguleikar fyrir vexti starfseminnar óþrjótandi. Nú er lokið gerð nýrrar heimasíðu sem aðlöguð er snjallsímum og spjaldtölvum. Á síðunni er hægt að skrá sig og greiða fyrir námskeið sem er mikil framþróun frá því sem áður var. HFÍ tók að sér að miðla til framtíðar því efni um þjóðbúninga sem fram til þessa hefur verið birt á heimasíðunni www. buningurinn.is og er það birt á nýju síðunni. Með nýrri heimasíðu er félagið sannarlega komið inn í 21. öldina. Í vetur var ráðist í það verkefni að endurnýja raflagnir og lýsingu í húsnæðinu í Nethyl. Að auki voru smíðaðir veggir á milli búðarinnar og kennslu- og bókasafnsrýmis. Að auki hefur þjónustudeildin (verslunin) verið endurskipulögð og húsgögn þar endurnýjuð. Velheppnuðum endurbótum á húsnæðinu, sem hófust fyrir rúmum þremur árum, er því lokið. Félagið er einstaklega lánsamt að starfa í eigin húsnæði sem er vel staðsett og hentar starfseminni vel. Árið 2020 mun sennilega lengi verða í minnum haft. Ekki einungis hefur veturinn verið einstaklega harður og erfiður heldur hefur COVID-19 farsóttin sett allt á annan endann hér á landi sem annars staðar í heiminum. HFÍ þurfti eins og aðrir að bregðast við þessum aðstæðum. Öllum námskeiðum var aflýst og þau endurgreidd þegar samkomubann brast á. Auk þess hefur þurft að aflýsa prjónakaffinu sem haldið er mánaðarlega í húsnæði HFÍ, ekki verður af ferð ungmenna í handverksbúðir til Danmerkur þetta árið og erlendir kennarar sem áttu að koma til Íslands í sumar sitja heima. Nú á vordögum þegar þessar línur eru skrifaðar er ómögulegt að segja til um hvernig mál munu þróast en vonir standa þó til og líkur eru á að starfsemin verði með eðlilegu sniði frá hausti. Í þeirri kreppu sem skollin er á í kjölfar faraldurs- ins, þar sem atvinnuleysi eykst, efnahagslegar þrengingar eru fyrirsjáanlegar, ferðlög til fjarlægra landa eru tímabundið útilokuð og fjöldasamkomur eru ekki leyfilegar er óhjákvæmilegt að fólk endurmeti hvaða gildi eru mikilvæg. Við þessar aðstæður hægist á öllu, fólk lítur inn á við og horfir sér nær. Í slíku ástandi sýnir reynslan okkur að áhugi á handverki eflist. Ljóst er að í þeim aðstæðum sem nú ríkja á Heimilisiðnaðarfélag Íslands hér eftir sem hingað til brýnt erindi. Því horfum við bjartsýn fram á veginn! Margrét Valdimarsdóttir, formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands Formannspistill

x

Hugur og hönd

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hugur og hönd
https://timarit.is/publication/1414

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.