Morgunblaðið - 03.06.2020, Page 15
MINNINGAR 15
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 3. JÚNÍ 2020
✝ Guðbjörg ÓskVídalín Ósk-
arsdóttir fæddist 6.
apríl 1931. Hún
lést 20. maí 2020.
Foreldrar: Dýr-
finna Vídalín, f.
22.6. 1912, d. 29.11.
2003, Óskar Þórð-
arson, f. 15.11.
1906, d. 3.3. 1970.
Systkini: Kristján
Vídalín Óskarsson,
f. 26.1. 1948.
Giftist Lýð Bakkdal Björns-
syni, f. 6.7. 1933, d. 25.2. 2015,
þann 22.6. 1957.
Barn: Valgerður Birna Lýðs-
dóttir, f. 20.6. 1959, maki Har-
aldur Jónasson, f. 21.6. 1958.
Barnabarn: Lýður Óskar Har-
aldsson, f. 26.10. 1980.
Guðbjörg var mikið Reykja-
víkurbarn þótt örlögin flyttu
hana um tíma í
Kópavog. Síðustu
mánuði bjó hún þó
á Grund og lést
þar.
Lilla starfaði
alla sína starfsævi
við verslunarstörf,
lengst af í Bóka-
búðinni Helgafelli
á Laugavegi.
Lilla stundaði
skíði og keppti í
þeirri íþrótt á sínum yngri ár-
um fyrir Ármann. Einnig hafði
hún gaman af hannyrðum. Lilla
var einstakur dýravinur og löð-
uðust þau að henni. Ferðalög
voru henni hugleikin og ferðað-
ist hún mikið, sérstaklega um
Evrópu.
Útförin fer fram frá Digra-
neskirkju í dag, 3. júní 2020,
klukkan 13.
Í dag kveð ég Guðbjörgu,
eða Lillu eins og hún var ávallt
kölluð, eftir áratuga löng kynni.
Við kynntumst fyrir nærri 70
árum þegar við vorum báðar
um tvítugt. Fljótlega stofnuð-
um við saumaklúbb ásamt
þremur öðrum og varð hann
grunnur að ævilangri vináttu,
bæði okkar vinkvennanna en
einnig maka. Hópurinn var ein-
staklega samheldinn og átti
margar og mjög skemmtilegar
stundir saman. Á veturna hitt-
umst við vinkonurnar reglulega
og eiginmennirnir hittust hálfs-
mánaðarlega og spiluðu bridge.
Alltaf var farið út á fyrsta
vetrardegi, það var haldið
þorrablót og á sumrin var oft
leigð rúta og skroppið í helgar-
ferð. Sérstaklega er mér minn-
isstæð ferðin í Þorskafjörð þar
sem Lýður, maður Lillu, var á
sínum bernskuslóðum. Einnig
var farið í tvær eftirminnilegar
utanlandsferðir, til Jersey og á
flakk um Evrópu. Með þeim
einstöku hjónum Lýði og Lillu
fórum við Guðmundur einnig í
ferð til Kanarí sem sérstaklega
var farin til að fagna afmæli
Lillu. Minningarnar eru dýr-
mætar. Hvíl í friði, elsku vin-
kona.
Kæra Valgerður og fjöl-
skylda, ég votta ykkur mína
innilegustu samúð.
Bergdís.
Elsku Lilla, notalegt hefði
verið að fá að heimsækja þig
einu sinni enn á Grund við
Hringbrautina, við hefðum
spjallað, hlegið og auðvitað
fengið hláturskast á upprifjun
úr fortíðinni. Jafnvel hefðum
við spilað gamla tónlist og
sungið aðeins með og rifjað
upp þegar við sungum með
mömmu á Landakoti um árið
þegar stórsöngvarinn gekk hjá
og sagði hvaða gaul er þetta en
við bara hlógum og héldum
áfram. Kannski hefði ég lagað
á þér hárið, spreyjað slatta af
vistvænu lakki yfir og síðan
hefðum við farið fram á kaffi-
stofu, fengið okkur kaffi og
rausnarlega kökusneið með ef í
boði hefði verið og haldið síðan
áfram að spjalla.
Þannig voru líka ferðirnar
sem Lilla fór með mér á
Hrafnistu í Hafnarfirði til að
heimsækja móður mína Ragn-
heiði Stefánsdóttur sem lést
árið 2018 en hún og Lilla voru
miklar vinkonur.
Dýrðfinna mamma Lillu og
Þorgerður móður amma mín
voru vinkonur þannig að
mamma og Lilla höfðu þekkst
frá blautu barnsbeini, bjuggu
nálægt hvor annarri á upp-
vaxtarárunum, líkar í aldri
fæddar hvor á sínu árinu. Þær
göntuðust með það að þar sem
mamma væri eldri mundi hún
kveðja á undan og sú varð
raunin.
Alltaf var kátt í nálægð Lillu
eða Lillu í Kidda eins og hún
var ævinlega kölluð í minni
fjölskyldu til sundurgreiningar
frá öðrum Lillum. Hún hafði
unnið í Kiddabúð á Njálsgötu
og seinna í Helgafelli á Lauga-
vegi 100 en þrátt fyrir þennan
flutning hélst viðurnefni
hennar, það var bara ein Lilla í
Kidda.
Vinkonurnar Lilla, mamma
og Edda Breiðfjörð fóru sem
ungar stúlkur á Als Husholdn-
ingsskole á Suður-Jótlandi í
Danmörku eftir stríð. For-
stöðukona skólans hét Johanne
Hansen, góð, hæglát og trúuð
kona sem reyndist vinkonunum
frá Íslandi vel. Frk. Hansen
hafði lent í fangabúðum Ge-
stapo 1944 fyrir að hjálpa og
fela Gyðinga en var frelsuð af
Sænska Rauða krossinum 1945
sem flutti skandinavíska kven-
fanga heim úr Ravensbrück,
kvenfanga-útrýmingarbúðunum
norður af Berlín.
Ég held að saga frk. Hansen
hafi haft mikil áhrif á vinkon-
urnar og báru þær mikla virð-
ingu fyrir henni. En dvölin á
Als var góð, mikill lærdómur,
gleði og góður tími. Á skól-
anum eignuðust þær vinkonur
sem þær héldu sambandi við
alla tíð og hittu margsinnis
bæði á gömlum slóðum í Dan-
mörku og hér heima.
Ég bjó um árabil erlendis og
þá voru það bréf eða stöku
sinnum símtöl sem maður fékk.
Lilla skrifaði mér stundum og
var ætíð gaman að lesa bréfin
hennar. Ein frásögn frá henni
er mér ofarlega í huga. Fjöl-
skylda Lillu bjó í Safamýrinni
og hundar hafa verið heimilis-
dýr þar í gegnum tíðina.
Hún sagði frá einni göngu-
ferð með heimilishundinn upp
að Klambratúni, hundurinn var
í ól og allt gekk vel, en þegar
hún var búin að ganga ein-
hverja hringi í kringum Klam-
bratún þá fékk hún á tilfinn-
inguna að hundurinn væri
óvenju þægilegur í taumi. Lítur
hún niður og sér að hundinn
vantar í ólina, ég man ekki al-
veg hvernig sagan fór en ég
held að hún hafi farið hundlaus
heim.
Að leiðarlokum kveð ég með
söknuði og þakka Lillu fyrir
allt.
Innilegar samúðarkveðjur,
kæra Valgerður, Haraldur og
Lýður Óskar.
Guðrún Nielsen.
Guðbjörg Ósk Ví-
dalín Óskarsdóttir
✝ Jóhanna Er-lingsdóttir
fæddist 7. janúar
1957. Hún lést á
Landspítalanum 14.
maí 2020.
Foreldrar henn-
ar voru Erlingur B.
Magnússon og Ás-
dís Helga Höskulds-
dóttir, þau eru bæði
látin. Jóhanna var
elst sjö systkina.
Systkini hennar eru: Ragnar, f. 4.
apríl 1958; Höskuldur, f. 7. októ-
ber 1960; Hinrik, f. 23. septem-
ber 1962, d. 23. nóvember 1989;
Guðbjörg, f. 14. nóv-
ember 1964; Ellen
Ásdís, f. 4. ágúst
1970; María Erla, f.
8. janúar 1972.
Jóhanna eign-
aðist tvær dætur,
þær Tanyu Helgu, f.
5. júlí 1983, og Alex-
öndru Guðrúnu, f.
19. nóvember 1989.
Börn Tanyu Helgu
eru Natalía Sif og
Viktor Logi.
Útför Jóhönnu fer fram frá
Fossvogskirkju í dag, 3. júní
2020, klukkan 13.
Elsku fallega systir mín. Ég er
gráti næst að skrifa þessar línur.
Ég skrifa þær því ég trúi og vona
að þú getir lesið þetta.
Elsku Jóhanna mín, mig langar
svo að þakka þér fyrir allt sem þú
hefur gert fyrir mig.
Þegar mamma okkar dó tókst þú
greinilega að þér að vera í móður-
hlutverki fyrir mig.
Þú tókst það hlutverk alvarlega.
Þú studdir mig og dáðir í öllu því
sem ég gerði. Elsku Jóhanna mín,
þú varst sterk og falleg kona og
hafðir þínar sterku skoðanir á líf-
inu. Þú ert fyrirmynd margra.
Ég á erfitt með að trúa að þú
sért farin frá mér. Ég er þér þakk-
lát fyrir svo margt. Þú ert mín
fyrirmynd. Það getur enginn lækn-
ir eða nokkur manneskja skilið og
trúað hvað þú barðist hetjulega við
þennan sjúkdóm og veit ég að
læknar eru orðlausir yfir hvað þú
barðist hetjulega. Enda gátu
læknar lítið sagt þér til, þeir hristu
bara hausinn. Þú varst með lausnir
og skoðanir sem enginn fékk breytt
og þú fórst eftir þeim. En þér tókst
að berjast og sigra margoft og veit
ég að fram á síðustu mínútu ætl-
aðir þú þér heim. En því miður tók
sjúkdómurinn yfir og þú sofnaðir.
Fékkst hvíld frá þessari hörðu
baráttu.
Nú ertu komin á betri stað og
þarft vonandi ekki að berjast þar
eins og hermaður, elsku besti
naglinn minn.
Takk fyrir að prjóna fyrir mig
þó þú værir afar veik. Ég mun
geyma það eins og demant. Takk
fyrir að vera þú og alltaf stóðst þú
á þínu. Takk fyrir öll fínu matar-
boðin, takk fyrir allar Spánarferð-
irnar og bara takk fyrir allt. Ég
mun ávallt hafa í hjarta mínu stað
fyrir þig, elsku engillinn minn. Ég
veit þú ert í góðum höndum þar
sem þú ert.
Ég elska þig og guð varðveiti
þig.
Þín systir,
Ellen Ásdís.
Elsku Jóhanna. Okkur langar
til að þakka þér fyrir árin okkar
saman, þú varst okkur svo kær.
Við litum á þig sem ömmu okkar.
Þegar við vorum litlar hélt fólk að
við værum ömmubörnin þín og við
leiðréttum það aldrei. Það var allt-
af jafn gott að koma til þín í mat,
það var alltaf veisla en bestar voru
þó kjötbollurnar þínar.
Það var alltaf svo fínt heima hjá
þér og þú varst dugleg að breyta
til. Það var eins og maður hefði
labbað inn í jólaheim þegar þú
varst búin að skreyta fyrir jólin.
Endalaust gátum við hlustað á
þig segja okkur sögur frá öllu sem
þér datt í hug, hvort sem það var
frá því þegar þú varst lítil eða frá
einhverju sem hafði gerst fyrr um
daginn. Þú lifðir þig svo inn í sög-
urnar.
Elsku Jóhanna, nú ertu komin á
betri stað þar sem þú þarft ekki að
berjast lengur. Við biðjum að
heilsa fólkinu okkar.
Fósturlandsins Freyja,
fagra vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís.
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár.
Þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár.
(Matt. Joch.)
Þínar frænkur,
Tara Katrín og Lea Rut.
Það var strax ljóst að við Jó-
hanna yrðum vinkonur enda
mömmur okkar bestu vinkonur
þótt langt væri á milli þeirra.
Mamma tók bílpróf til þess að geta
heimsótt Helgu vinkonu sína í
Króksfirði og smalaði okkur systk-
inunum í bílinn. Á Melbæ var tekið
á móti okkur með miklum fagnað-
arlátum. Ég fékk inni í herbergi
hjá Jóhönnu og var systkinum
mínum raðað í herbergi með hinum
börnum heimilisins. Við Jóhanna
náðum vel saman og skemmtum
okkur við alls konar brall og
hrekkjabrögð. Hún sýndi mér
leynistaði hússins og við laumuð-
umst milli herbergja til að njósna,
sem gat verið bráðnauðsynlegt.
Jóhanna var leiðtoginn í hópn-
um enda elst, nokkrum mánuðum
eldri en ég og því bæði klárari og
þroskaðri. Eitt sinn ákvað hún að
við skyldum leika róna niðri við
þjóðveg. Við klæddumst of stórum
fötum, ósamstæðum bomsum og
tróðum heyi undir hatta og húfur.
Lékum við hlutverk okkar af inn-
lifun með tómar vínflöskur og
brúsa. Ekki veit ég hvort vegfar-
endur voru hrifnir en við skemmt-
um okkur stórkostlega. Annan dag
klæddum við köttinn á heimilinu í
föt, tjóðruðum hann niður í kerru
og keyrðum hann um eins og lítið
barn. Jóhanna var potturinn og
pannan í því sem við tókum okkur
fyrir hendur, svo lífsglöð og hreif
mig með sér. Ég hefði vaðið eld og
brennistein með henni því sjálfs-
traustið var svo mikið.
Ég man vel eftir systkinum Jó-
hönnu, til dæmis Guggu litlu, sem
var prinsessan í hópnum. Hún hét
eftir ömmu sinni sem kom árlega í
heimsókn á glæsikerru. Guðbjörg
amma var mikil glæsikona, næst-
um með blátt blóð í æðum. Hún
hafði með bílstjóra með kaskeiti og
í bílnum var plötuspilari. Það var
þvílík upplifun að sitja í bílnum og
hlusta á plötu á leið í kaupfélagið.
Eitt sinn vorum við Jóhanna send-
ar eftir mjólk á næsta bæ, til Kalla
á Kambi. Þá kom í ljós að ég hafði
hvorki keyrt traktor né jeppa,
nokkuð sem Jóhanna hafði marg-
oft gert. Úti á túni fékk ég því að
keyra jeppann hans Kalla en hef
tekið illa eftir leiðbeiningunum eða
verið of glöð á bensínfótinn því allt í
einu stefndum við hraðbyri út í
næsta skurð. Sem betur fer náði
Kalli að kippa í stýrið og sveigja frá
skurðinum. Jóhanna hló og
skemmti sér dásamlega þótt sjálf
væri ég skekin eftir ökukennsluna
Ragnar var næstur Jóhönnu í
aldri, skemmtilegur og sætur
strákur. Svo voru Hössi og Hinni,
prakkarar með dásamlegan gaura-
svip. Ég man þegar þeir hlupu inn
á forugum stígvélum til að sýna
okkur hvernig þeir átu orma og
flugur. Ellen María og María Erla
voru yngstar og gáfu okkur Jó-
hönnu ákveðna ábyrgðartilfinn-
ingu.
Á fallegum sólardögum smurði
Helga nesti og hópurinn rölti niður
í fjöru. Þar breiddi Helga út hand-
klæði í góðu skjóli og lagðist í sól-
bað en við krakkarnir hlupum í
fjörusandinum og fylgdumst með
fótunum sökkva í vatnsmettan
sandinn. Þetta voru yndislegir
dagar og okkur Jóhönnu leið vel. Á
kvöldin töluðu mamma og Helga
saman við eldhúsborðið. Það
fannst okkur Jóhönnu svo spenn-
andi að við földum upptökutæki á
bak við gardínurnar til að hlera
samtalið.
Svo hlupum við skellihlæjandi
upp á loft, vissar um að heyra gríð-
arlega spennandi leyndarmál.
Elsku Jóhanna. Nú er komið að
kveðjustund. Ég er þér svo þakklát
fyrir yndislegar minningar úr
æsku. Þegar þú nú hittir mömmu
mína og mömmu þína þá leggurðu
eyrum eftir því hvað þær eru að
bralla og segir mér af því þegar ég
kem. Góða ferð, kæra vinkona.
Sigríður Arna Arnþórsdóttir.
Meira: mbl.is/andlat.
Kynni mín af Jóhönnu hófust í
Svíþjóð 1976 þegar við Leifur
Steinn fluttum utan til náms,
ásamt eins árs dóttur okkar Elfu
Dögg. Jóhanna var þá í sambúð
með Þórði Valdimarssyni og
bjuggu þau í Malmö. Þau skutu yf-
ir okkur skjólshúsi í tvær vikur á
meðan við biðum eftir íbúð í Lundi.
Við héldum góðu sambandi áfram í
formi heimboða, strand- og skoð-
unarferða. Þau voru orðin kunn-
ugri umhverfinu en við og höfðu þá
eignast bíl í Svíþjóð.
Jóhanna var mjög hugmyndarík
og hún lagði sig alla fram um að
gleðja aðra. Hún spilaði á harm-
onikku, teiknaði og málaði þegar
andinn blés henni í brjóst. Jóhanna
aðstoðaði mig við ýmislegt, m.a. að
sauma gardínur, rúmteppi og fleira
þegar efnahagurinn bauð ekki
annað en að bjarga sér með hag-
kvæmum hætti um það sem van-
hagaði.
Vináttan hélst áfram þegar við
vorum flutt heim. Það var alltaf
mikil upplifun að umgangast Jó-
hönnu, stundum ævintýri líkast.
Gáski, fjör og glettni voru aðals-
merki hennar. Hún dvaldi aldrei
lengi í leiðindum og lét marga af
draumum sínum rætast.
Við skruppum saman í inn-
kaupaferðir fyrir jól, m.a. til Ed-
inborgar og Dyflinnar, og fórum í
frístundahús fyrir austan, festum
okkur í snjóskafli, en komumst á
áfangastað þar sem skrafað var
langt fram á kvöld. Þar kynnti hún
mér þetta ljóð og sagði að það
væri í miklu uppáhaldi hjá sér:
Ég leit eina lilju í holti,
hún lifði hjá steinum á mel,
svo blíð og svo björt og svo auðmjúk,
en blettinn sinn prýddi hún vel.
Ég veit það er úti um engin
mörg önnur sem glitrar og skín.
Ég þræti ekki um litinn né ljómann
en liljan í holtinu er mín.
Þessi lilja er mín lifandi trú.
Þessi lilja er mín lifandi trú.
Hún er ljós mitt og von mín og yndi.
Þessi lilja er mín lifandi trú.
Og þó að í vindinum visni,
á völlum og engjum hvert blóm,
og haustvindar blási um heiðar,
með hörðum og deyðandi róm.
Og veturinn komi með kulda
og klaka og hríðar og snjó,
hún lifir í hug mér sú lilja,
og líf hennar veitir mér fró.
(Þorsteinn Gíslason)
Elsku Jóhanna, vinátta okkar
var mér mikils virði og ég hef til-
einkað mér margt af þinni lífs-
speki.
Dætrum Jóhönnu, systkinum
og öðrum vinum hennar vottum
við Leifur Steinn samúð okkar.
Sveinbjörg Júlía (Böggý).
Jóhanna
Erlingsdóttir
Hjartkær maðurinn minn, faðir okkar,
tengdafaðir og afi,
SIGURJÓN Á. FJELDSTED,
fyrrv. skólastjóri,
lést á líknardeild Landspítalans
laugardaginn 30. maí.
Ragnheiður Óskarsdóttir Fjeldsted
Ragnhildur Fjeldsted Einar Sveinn Þórðarson
Júlíus Fjeldsted Áslaug Salka Grétarsdóttir
Ásta Sigríður Fjeldsted Bolli Thoroddsen
og barnabörn
Okkar ástkæri
ÁRNI BJÖRN JÓNASSON
verkfræðingur,
Skjólbraut 18,
Kópavogi,
lést í Aðaldal 31. maí.
Guðrún Ragnarsdóttir
Ragna Árnadóttir Magnús Jón Björnsson
Páll Árnason Sunna Kristjánsdóttir
Jónas Árnason Guðbjörg Eva Friðgeirsdóttir
Ragna Pálsdóttir Þórmundur Haukur Sigurjóns.
og barnabörn
Elskulegur eiginmaður, faðir, tengdafaðir,
afi og langafi,
INGIMAR SVEINSSON,
fv. skólastjóri,
Djúpavogi,
lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu
Uppsölum föstudaginn 29. maí.
Útförin fer fram frá Djúpavogskirkju laugardaginn
6. júní klukkan 14.
Erla Ingimundardóttir
Sigurður Ingi Ingimarsson
Sveinn Kristján Ingimarsson Íris Dögg Scheving Hákonard.
afabörn og langafabörn