Morgunblaðið - 24.07.2020, Síða 17

Morgunblaðið - 24.07.2020, Síða 17
17 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 24. JÚLÍ 2020 Bátar á Breiðafirði Þeim þótti ekki hávaxin aldan, sem lögðu í stutta siglingu við Flatey í blíðviðrinu. Vonskuveðrið síðustu helgi er fljótt að gleymast og það er spáð rólyndisveðri um helgina. Kristinn Magnússon Í danska blaðinu Jyl- lands-Posten birtist sunnudaginn 5. júlí leiðari undir fyrirsögn um að viðvörunar- bjöllur hefðu átt að hringja í Kaupmanna- hafnarháskóla en þar hefði hið gagnstæða gerst. Telur blaðið að stjórnendur háskólans hefðu átt að gæta sín vegna samstarfs danskra vísinda- manna við „kúgunarvél“ Kína- stjórnar. Í stuttu máli er sagan þessi: Sér- fræðingar við Kaupmannahafnar- háskóla hafa rannsakað lífsýni (dna) úr Uighurum og Kasakherum í Xinjiang-héraði í Kína. Uighurar eru minnihlutahópur múslima sem kommúnistastjórnin kúgar með öll- um ráðum. Talið er að um ein og hálf milljón Uighura hafi verið neydd til að fara í endurhæfingarbúðir, það er ríkisrekin heilaþvottahús. Fyrst sögðu kínversk yfirvöld að engar slíkar búðir væru starfræktar en lýstu þeim síðar sem eins konar endurmenntunarstöðvum. Amnesty International birtir upplýsingar um Uighura sem kínversk stjórnvöld láta elta uppi í útlöndum; sumum þeirra eru sendar morðhótanir, aðrir eru sendir til Kína til dæmis af Egyptum. Blaðið segir að Niels Morling pró- fessor fari fyrir rannsóknarhópi í Kaupmannahöfn. Hann hafi frá 2012 verið ráðgjafi erfðavísastofnunar á vegum kínverska öryggismála- ráðuneytisins. Morling segi allt í himnalagi. Uighurarnir hafi sam- þykkt að taka þátt í rannsókninni. Jyllands-Posten er ósammála pró- fessornum og segir danskar mennta- stofnanir alltof opnar gagnvart kínverskum stjórnvöldum og Konfúsíusar-stofnun þeirra. Svar rektors Henrik C. Wegener, rektor Kaupmanna- hafnarháskóla, skrifar langa grein í blaðið miðvikudaginn 15. júlí um alþjóðlega sam- vinnu vísindamanna og segir að ekki sé unnt að krefjast þess að einstakir vísinda- menn starfi auk þess eins og grein- endur við utanríkismálastofnanir. Til að auðvelda þeim þátttöku í al- þjóðasamstarfi hafi mennta- og vísindamálaráðherra Dana ákveðið að skipa með hraði nefnd til að athuga mörkin fyrir danskt vísinda- samstarf við útlendinga með hliðsjón af siðfræði og öryggismálum. Það virðist skynsamleg ákvörðun. Mestu skipti þó að vísindastefna Dana sé í samræmi við kröfur líðandi stundar og falli að skipan heimsmála eins og þau séu á hverjum tíma. Í greininni fjallar rektorinn um nauðsyn þess að vísindamenn hafi svigrúm og frelsi til að stunda rann- sóknir sínar þótt vissulega beri að virða ýmsar siðareglur bæði alþjóð- legar og innlendar. Þær eigi ekki síst við um heilbrigðisvísindi þar sem vísindasiðanefndir eigi að tryggja að rannsóknarverkefni séu unnin innan siðferðilegra marka. Wegener segir að rannsókna- og menntasamstarf Dana við Kínverja hafi þróast á mörgum áratugum. Í fyrstu hafi það borið svip þróunar- aðstoðar en síðan mótast af auknu ríkidæmi Kínverja. Nú hafi Kaup- mannahafnarháskóli myndað sam- starfsvettvang með 11 bestu háskól- um heims, þar á meðal háskólanum í Peking. Kínverjar verji nú á tímum hærri fjárhæð til rannsókna en ESB-ríkin samtals og aðeins í Bandaríkjunum birtist fleiri vísinda- ritgerðir en í Kína. Rannsóknastefna Dana og starf- semi danskra háskóla taki mið af þessu. Danir hafi til dæmis unnið að því að koma á fót dansk-kínversku mennta- og rannsóknasetri í Kína. Þá hafi danska utanríkisráðuneytið stofnað nýsköpunarsetur í Shanghai til að aðstoða dönsk fyrirtæki og vís- indamenn við að sigrast á ýmsum hindrunum í Kína. Henrik C. Wegener lýsir eftir því að nefndin sem danski ráðherrann skipaði fari ekki aðeins í saumana á boðum og bönnum vegna Kína held- ur fjalli einnig um heildarstefnu og markmið alþjóðlegs vísindasam- starfs. Rannsóknum og vísindum hafi um langt árabil verið beitt sem diplómatískum verkfærum. Rætt sé um Science Diplomacy en í hugtak- inu felist að rannsóknasamstarf milli þjóða sé nýtt til að takast á við sam- eiginleg verkefni og stofna til alþjóð- legra bandalaga og vináttu. Nauð- synlegt sé að átta sig á stöðu þessara mála við núverandi aðstæður. Undir lok greinar sinnar bendir rektor Kaupmannahafnarháskóla á að í umræðum um þessi mál verði menn að huga að upplýsingaöryggi samstarfsins. Í því felist að nauðsyn- legt sé að beina enn meiri athygli en áður að net- og upplýsingatækni- kerfum, hvaða far- og tölvubúnað menn hafi með sér í ferðum til út- landa og á alþjóðlegar ráðstefnur. Það verði almennt að sýna mikla aðgæslu við meðferð gagna hvort sem menn eigi þau sjálfir eða háskólastofnanir. Konfúsíusar-setrin Sunnudaginn 19. júlí birti Jyllands-Posten forsíðufrétt um að nú séu að minnsta kosti 10 danskir skólar, menntaskólar og háskólar, aðilar að svonefndu Konfúsíusar- samstarfi og fái þannig fjárstuðning frá Kína. Sé komið á fót Konfús- íusar-stofnun við skóla sé einnig unnt að fá skólanum að kostnaðar- lausu kennara frá Kína. Vitnað er í Luke Patey, Kína- sérfræðing við Dönsku utanríkis- málastofnunina (DIIS), sem segir að hlutverk sendikennaranna sé að draga upp jákvæða mynd af Kína og láta hjá líða að ræða umdeild við- fangsefni eins og fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar í Peking fyrir rúmum 30 árum. Patey gagn- rýnir Konfúsíusar-samstarfið og segir: „Að sjálfsögðu er málfrelsi í Dan- mörku – einnig þegar kínverskar ríkisstofnanir eiga hlut að máli. Þær eiga að hafa heimild til að reka sjálf- stæðar stofnanir í Danmörku en ekki inni í menntaskólum og háskól- um, þar sem virða ber réttinn til opinnar og frjálsrar hugsunar.“ Í svari kínverska sendiráðsins til blaðsins segir að „ásakanirnar“ gegn Konfúsíusar-stofnununum séu „til- hæfulausar“, samstarfið auðveldi tungumálakennslu og stuðli að vin- áttu og samkennd. Undanfarin ár hafa stjórnendur háskóla víða um heim viljað draga úr samstarfi við kínversku Konfús- íusar-stofnunina. Bandarískir pró- fessorar hvöttu þegar árið 2014 til þess að binda enda á eða breyta Konfúsíusar-samstarfinu. Í fyrra var mörgum stofnunum lokað við bandaríska háskóla. Kanadíski McMaster-háskólinn lokaði stofn- uninni hjá sér í fyrra eftir að Konfúsíusar-starfsmaður var rekinn fyrir að iðka falun-gong. Nýlega var skýrt frá því að fyrrverandi forstöðumaður Konfúsíusar- stofnunarinnar við Frjálsa háskól- ann í Brussel fengi ekki Schengen- áritun vegna ásakana um að hann hefði reynt að ráða fólk til starfa fyr- ir kínversku leyniþjónustunnar. Sví- ar hafa bannað allar Konfúsíusar- stofnanir í landi sínu. Norðurljósin heilla Eins og oft áður er gagnlegt að líta til reynslu Dana þegar metin er staða hér á landi. Við Háskóla Íslands er Konfús- íusar-stofnunin Norðurljós. Starf- semi hennar verður stundum að opinberu umræðuefni. Má þar til dæmis nefna sýningu á kínverskum plakötum undir lok árs 2019. Þau voru fjarlægð að kröfu námsmanna við HÍ sem vildu ekki kínverskan áróður á veggjum skólans. Rannsóknastöðin, China-Iceland Arctic Observatory (CIAO), á Kár- hóli í Reykjadal, er miðstöð fyrir vís- indamenn sem rannsaka norður- slóðir í alþjóðlegu samstarfi, s.s. í háloftarannsóknum, rannsóknum á gufuhvolfi og veðurfræði, líf- og vist- fræði, haffræði, jöklafræði, jarð- fræði, rannsóknum á loftslagsbreyt- ingum og umhverfisrannsóknum, fjarkönnun og sjávarútvegsfræði. Upphaflega átti að rannsaka norðurljós frá Kárhóli en síðar varð markmiðið víðtækara. Hafi menn ekki veruleika alþjóða- stjórnmála í huga þegar teknar eru ákvarðanir um vísindalegt samstarf lenda þeir auðveldlega í ógöngum. Eftir Björn Bjarnason »Danir athuga mörkin fyrir danskt vísinda- samstarf við útlendinga með hliðsjón af siðfræði og öryggismálum. Björn Bjarnason Höfundur er fyrrverandi ráðherra. Um mörk alþjóðlegs vísindasamstarfs

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.