Morgunblaðið - 22.08.2020, Blaðsíða 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. ÁGÚST 2020
Grensásvegur 13 - 108 Reykjavík - Sími 570 4800 - gimli.is - gimli@gimli.is
Bárður
Sölustjóri
896 5221
Elín Urður
Lögg. fast.
690 2602
Elín Rósa
Lögg. fast.
773 7126
Lilja
Viðskiptafr. /
Lögg. fast.
820 6511
Kristján
Viðskiptafr. /
Lögg. fast.
691 4252
Halla
Viðskiptafr. /
Lögg. fast.
659 4044
Ólafur
Sölu- og
markaðsstjóri
690 0811
Ellert
Lögg. fast.
661 1121
Sigþór
Lögg. fast.
899 9787
Hafrún
Lögg. fast.
848 1489
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Aðalsýningarsalur Listasafns
Íslands er rústir einar. Þar vafra um
gestir með undarlegan höfuðbúnað,
eins konar ljósahjálm, gleraugu og
heyrnartól. Úr þessum búnaði, sem
kallast Hololens 2, liggur snúra yfir í
bakpoka. Hér er á ferðinni innsetn-
ingin Solastalgia og blaðamaður er
einn gesta í salnum auk ljósmyndara
Morgunblaðsins sem glímir við erfitt
verkefni, að mynda herlegheitin.
Aðrir gestir virðast, af samtölum að
dæma, franskir.
Skyndilega lýsist upp ferköntuð
súla í miðjum sal, drungalegir tónar
fara að óma og verða sífellt hávær-
ari. Glitrandi rykkorn falla úr lofti og
fólk tekur að birtast í ýmsum stell-
ingum. Það talar íslensku, minnist
liðinnar tíðar og óljósra atburða.
Hljóðið breytist eftir því hvernig
maður snýr í rýminu og verurnar
með. Þær líta út fyrir að vera þrí-
víðar. Ártöl eru á reiki, sumir tala til
okkar frá 22. öld, aðrir frá þeirri 21.
en þó úr framtíðinni.
Af rústunum að dæma hefur eitt-
hvað skelfilegt gerst, einhvers konar
endalok mannkyns er það fyrsta sem
manni dettur í hug og að framliðnir
séu að ávarpa mann. Þegar um 30
mínútur eru liðnar lýkur verkinu og
gestir ganga aftur út í veruleikann,
úr hinum svokallaða aukna veruleika
sem á ensku nefnist augmented rea-
lity. Ekki sýndarveruleiki, nota
bene, því hér birtast tölvuhönnuð
fyrirbæri í raunverulegu umhverfi
en ekki teiknuðu.
Solastalgia er hugarfóstur frönsku
handritshöfundanna og framleiðend-
anna Antoine Viviani og Pierre-Alain
Giraud. Í henni renna saman mynd-
list, talað mál, hljóðhönnun, tónlist
og tölvuhönnuð fyrirbæri. Mynd-
listina skapaði Gabríela Friðriks-
dóttir, rústirnar sem blasa við gest-
um, en um hljóðhönnun og tónlist
sáu þeir Nicolas Becker og Valgeir
Sigurðsson. Forritun og mynd-
sköpun voru í höndum Pierre-Alain
Giraud og Mathieu Denuit og dans-
höfundurinn Erna Ómarsdóttir
samdi hreyfingar fólksins sem
myndað var fyrir verkið. Blaðamað-
ur fékk sér kaffi með þeim Gabríelu
og Pierre-Alain, sem búið hefur og
starfað hér á landi til margra ára,
eftir að hafa upplifað verkið.
Langt samstarf
Pierre-Alain segist hafa fengið
hugmyndina að verkinu með Viviani.
Hún hafi í raun verið framhald á
fyrra samstarfi þeirra, heimildar-
myndinni Dans les limbes frá árinu
2015 sem Viviani leikstýrði og fram-
leiddi en Pierre-Alain klippti. Í henni
er fjallað um tilvistarlegt samband
manna við netið og þörf fyrir að
skapa sameiginlegt minni sem mun
lifa okkur. „Við gerðum aðra útgáfu
af verkinu sem við sýndum í Frakk-
landi áður en við komum með það
hingað og unnum líka með Gabríelu
þar,“ útskýrir Pierre-Alain. Miklar
breytingar hafi orðið við þá yfir-
færslu, íslenskir leikarar kallaðir til
og fleiri breytingar gerðar á innsetn-
ingunni.
Pierre-Alain er spurður að því
hvort þetta heimsendalega umhverfi
sem gestirnir ganga um, húsarúst-
irnar, hafi leitt þá að Gabríelu og
hennar list sem hefur á köflum verið
grótesk og jafnvel ekki fyrir við-
kvæma. Nei, svo er ekki heldur
höfðu þeir félagar áður unnið með
Gabríelu. Í ljós kemur síðar í viðtal-
inu að samstarf Gabríelu og Pierre-
Alain nær mörg ár aftur í tímann og
að þau eru núna að vinna að sinni
þriðju teiknimynd. Sú fjallar um
púðluhund sem heldur í ferðalag,
ótrúlegt en satt. En það er önnur
saga.
Gabríela segir frönsku félagana
hafa notað hennar list sem viðmið
þegar hugmyndin var kynnt í fyrstu
og segist hún kunna vel við að færa
lífrænt efni á borð við sand og steina,
sem eru hluti af verkinu, inn í hið
hvíta og hreina rými listasafns. „Þú
færð þá tilfinningu að þú sért stadd-
ur í þessum heimi, snertir hann með
fótunum og finnur lyktina af honum.
Þú ert umlukinn þessum efnum í
stað þess að horfa á þau í ramma,“
segir hún.
Mikil vinna að baki
Samtalið berst að tækninni að baki
verkinu, hinum aukna veruleika svo-
kallaða sem Hololens 2-búnaðurinn
færir gestum inn um augu og eyru,
tækni sem er ekki algjörlega ný af
nálinni en þó ekki gömul heldur.
„Okkur fannst þetta rétta tæknin til
að segja söguna,“ segir Pierre-Alain.
Með henni leysast vofurnar upp, ef
svo mætti að orði komast, og séu
misgreinilegar. Þær virðast vera á
ólíkum stigum milli þessa heims og
hins ósýnilega, þess sem margir trúa
að bíði okkar eftir dauðann. „Mat-
hieu Denuit bjó til nýjan hugbúnað
fyrir verkið og það er því einstakt að
því leyti,“ bendir hann á.
En hversu langan tíma tók að búa
innsetninguna til, í ljósi flókinnar
tækni og aðkomu margra lista-
manna? Gabríela segir um tvö ár
hafa farið í það að minnsta kosti,
margt hafi þurft að þróa og laga.
Gleraugun sem gestir nota eru
glæný þar sem þau sem á undan
komu virkuðu ekki nógu vel. Gera
þurfti hlé á sýningum á meðan beðið
var eftir betri gleraugum. Denuit og
Pierre-Alain þurftu einnig að búa til
app fyrir búnaðinn, svo dæmi sé tek-
ið um þá miklu vinnu sem býr að baki
þessu óvenjulega listaverki.
Tækni og list haldast í hendur
Sýndarveruleiki nýtur mikilla vin-
sælda og þá sérstaklega í heimi
tölvuleikja. Telja Pierre-Alain og
Gabríela að þessi tækni verði meira
áberandi í listsköpun framtíðar-
innar? „Tæknin og listin hafa alltaf
haldist í hendur og verða ekki að-
skildar. Þær eru eins og líkami og
sál. Tækin sem notuð eru þróast og
listamennirnir með,“ svarar Gabrí-
ela.
„Ég hef unnið mikið með hug-
myndina um endalausa umbreytingu
án upphafs og endis og þessi hug-
mynd færir hana lengra og gerir
hana gagnvirkari fyrir áhorfandann.
Ég hef verið með vídeó sem umlykja
áhorfendur og hljóð en nú er komið
annað svið inn í myndina. Það finnst
mér alltaf spennandi en list verður
samt alltaf líka þetta snertanlega, á
pappír eða í leir t.d. en tæknin færir
manni þennan möguleika á að um-
lykja áhorfandann enn frekar þannig
að hann verði hluti af landslaginu.“
Sálum safnað í ský
Í kynningarefni fyrir innsetn-
inguna segir meðal annars að Sol-
astalgia endurspegli spennu milli
„frelsunarmáttar tækninnar og vís-
indalegra útreikninga um válega
framtíð“. Gestum bjóðist að ganga
inn í innsetninguna með Hololens 2-
höfuðbúnað og kanna jörðina við
endalok mannkyns og eftir standi að-
eins dularfullt, stafrænt ský, knúið af
undarlegri vél. Meðan gestir gangi
um plánetuna innan um steingerv-
inga, brak og rústir þar sem mosi
hafi numið land, birtist vofur og tjái
hin gleðiríku, djúpstæðu og grimmu
augnablik tilverunnar, látlaust, um
alla eilífð.
Ekki beinlínis uppörvandi en
Pierre-Alain segist samt sem áður
ekki trúa á heimsendi. Hann segir að
í verkinu birtist skáldaður staður þar
sem fólk hafi fundið sér leið til að lifa
að eilífu í stafrænu formi. „Og þessi
upplýsingasöfnun er þarna líka,“
skýtur Gabríela inn í, „sálnasöfnun
og spurningin um hvað verður um
allt. Þetta er gömul hugmynd sem
við erum að velta fyrir okkur, hvað
verður um allar upplýsingarnar um
sálirnar. Það eru allir að safna upp-
lýsingunum í einhver ský einhvers
staðar en þarna erum við að reyna að
búa til eitthvað. Manneskjurnar
hverfa líkamlega í einhverjar eindir,
leysast upp, en raddirnar eru þarna
samt og hugurinn. Þetta er þessi
spurning sem mennirnir hafa alltaf
velt fyrir sér, hvað verður um sál-
irnar?“ segir Gabríela.
Eilíf umbreyting
Pierre-Alain segir verkið vissu-
lega líka fjalla um heim í krísu og
hvernig mannskepnan tekst á við þá
hættu sem steðjar að henni. Persón-
urnar í verkinu hugsi sjálfstætt en
séu þó í tengslum hver við aðra. Þeg-
ar hætta steðji að okkur mannfólk-
inu eigum við það til að þjappa okkur
frekar saman og eru það þessi tengsl
á milli manna sem í raun gera okkur
að því sem við erum; manneskjur.
Og hætturnar eru margar sem
steðja að lífríki jarðar og mannkyn-
inu, loftslagshlýnun og nú síðast
heimsfaraldur. Verkið var samið fyr-
ir Covid-19 þó óttinn við heimsfar-
aldur hafi alltaf verið og verði alltaf
til staðar.
Fjöldinn allur af listamönnum hef-
ur velt mögulegum heimsendi fyrir
sér, biblíulegum eða annars konar,
endalokum mannkyns, en Gabríela
bendir á að líta megi á verkið þannig
að hvorki sé á því upphaf né endir,
aðeins hin eilífa umbreyting. „Þá er
þetta ekki „apocalyptic“ heldur eins
og sandurinn sem verður að gleri í
eldingunni, frumefnin umbreytast úr
einu í annað og að vera á slíkum stað
býr til möguleika og er mikill inn-
blástur fyrir listamenn og þá alls
konar listamenn. Og ekki bara lista-
menn heldur líka arkitekta, vísinda-
menn … og bara alla!“ segir Gabrí-
ela, augljóslega innblásin.
Þar sem takmarkaður fjöldi gesta
getur séð innsetninguna hverju sinni
þarf að kaupa miða á hana og bóka
tíma á vef Tix á slóðinni tix.is/is/
event/10216/solastalgia/.
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Samstarfsmenn Gabríela Friðriksdóttir og Pierre-Alain Giraud eiga að baki langt og farsælt samstarf.
Vofa Ljósmyndari náði mynd af einum hinna framliðnu með því að mynda í
gegnum gleraugu höfuðbúnaðar síns á sýningunni í Listasafni Íslands.
Hvað verður um sálirnar?
Listamenn úr ólíkum greinum komu að gerð innsetningarinnar Solastalgia Aukinn veruleiki
„Þú ert umlukinn þessum efnum í stað þess að horfa á þau í ramma,“ segir Gabríela Friðriksdóttir
Framtíðin Gestir virða fyrir sér
innsetninguna Solastalgia.