Morgunblaðið - 26.08.2020, Blaðsíða 11
FRÉTTIR 11Erlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. ÁGÚST 2020
Álfheimum 74, 104 Rvk, sími 568 5170
Verið velkomin
HAUSTVÖRUR
Glæsilegar
komnar
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Dmitrí Peskov, talsmaður Vladimírs
Pútín Rússlandsforseta, sagði í gær
að engin ástæða væri til þess að
hefja sakamálarannsókn vegna máls
Alexeis Navalní að svo komnu máli,
því að ekki hefði verið gengið úr
skugga um það að eitrað hafi verið
fyrir hann.
Sagði Peskov að læknarnir á
þýska Charite-sjúkrahúsinu í Berlín
hefðu hrapað að ályktunum, en þeir
lýstu því yfir í fyrradag að rannsókn-
ir þeirra gæfu til kynna að eitrað
hefði verið fyrir Navalní, án þess þó
að borin hefðu verið nákvæm kennsl
á hvaða eitur var notað.
Bætti Peskov við að málið yrði
ekki rannsakað af hálfu rússneskra
stjórnvalda fyrr en það lægi fyrir
hvaða efni hefði valdið því að Navalní
féll í dá í síðustu viku.
„Læknisfræðileg greining okkar
lækna og þeirra þýsku er hin eina og
sama, en niðurstöðurnar eru aðrar.
Við skiljum ekki hvers vegna þýsku
kollegarnir eru að flýta sér svona
mikið,“sagði Peskov.
Viðurkenndi hann að eitrun væri
ein möguleg útskýring á ástandi Na-
valnís, en bætti við að ýmsar aðrar
útskýringar gætu legið þar að baki.
Í niðurstöðum læknanna við Cha-
rite-sjúkrahúsið kom fram að þeir
teldu að Navalní hefði orðið fyrir
eitrun af efni sem hindrar eðlilega
starfsemi miðtaugakerfisins. Slík
efni finnast meðal annars í efnavopn-
um, sem og í ýmsum lyfjum og skor-
dýraeitri.
Kallað eftir rannsókn
Helstu stuðningsmenn Navalnís
voru ósáttir við svör Peskovs, en þeir
halda því fram að rússnesk stjórn-
völd standi á bak við eitrunina. „Það
var augljóst að glæpurinn yrði ekki
rannsakaður almennilega og hinn
seki fundinn, þó að við vitum vel hver
það er,“ sagði talskona Navalnís,
Kíra Yarmush, á samskiptamiðlinum
Twitter. Sagði hún jafnframt að svör
Peskovs hefðu reitt sig til reiði.
Nokkur vestræn ríki kölluðu eftir
því í gær að Rússar myndu rannsaka
málið í þaula. Hvatti Evrópusam-
bandið til þess í fyrradag að „óháð og
gagnsæ rannsókn“ á atvikinu færi
fram, og Angela Merkel Þýskalands-
kanslari sagði að þeir sem bæru
ábyrgðina ættu að svara til saka.
Franska utanríkisráðuneytið lýsti
í gær yfir áhyggjum sínum vegna
þess „glæps“ sem hefði verið fram-
inn gegn mikilvægum þátttakanda í
stjórnmálalífi Rússlands og hvatti til
þess að málið yrði rannsakað sem
fyrst.
John Sullivan, sendiherra Banda-
ríkjanna í Rússlandi, tók sömuleiðis
undir þá hvatningu í gær, en hann
sagði að rússnesk stjórnvöld ættu að
hefja gagnsæja og nákvæma rann-
sókn á málinu hið fyrsta og sækja þá
sem hefðu eitrað fyrir Navalní til
saka.
AFP
Eitrun Navalní liggur enn í dái á Charite-sjúkrahúsinu í Berlín.
Hafna ótímabærum ásökunum
Talsmaður Pútíns segir þýsku læknana hafa flýtt sér um of við greiningu Navalnís Munu ekki
hefja rannsókn að svo stöddu Frakkar og Bandaríkjamenn kalla eftir óháðri og gagnsærri rannsókn
Spænsk stjórnvöld tilkynntu í gær
að þau hygðust leita til herafla lands-
ins til þess að hjálpa til við sóttvarna-
aðgerðir gegn kórónuveirunni, en
faraldurinn hefur verið í miklum
uppgangi þar undanfarna daga, líkt
og í nokkrum öðrum ríkjum Evrópu
og Asíu.
Í tilkynningu Spánverja kom
fram, að um 2.000 hermenn yrðu
kallaðir til, og er þeim ætlað að
hjálpa til við smitrakningu. „Við get-
um ekki látið faraldurinn taka aftur
stjórn á lífi okkar […] við verðum að
taka stjórnina og stöðva þessa seinni
kúrfu,“ sagði Pedro Sanchez, for-
sætisráðherra Spánar, þegar hann
tilkynnti ákvörðunina.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
WHO sagði hins vegar í gær, að
merki væru um að farið væri að
hægjast aftur á nýjum tilfellum kór-
ónuveirunnar eftir smitbylgju síð-
ustu vikna.
Þannig greindi stofnunin frá því
að rúmlega 1,7 milljónir nýrra tilfella
hefðu greinst í síðustu viku og um
39.000 dauðsföll hefðu bæst við á
sama tíma. Hvort tveggja var lækk-
un frá vikunni þar á undan. Fækkaði
tilfellum um 5% á milli vikna og
dauðsföllum um 12% á sama tímabili.
Að minnsta kosti 23 milljónir
manna hafa nú smitast af kórónu-
veirunni og rúmlega 814.000 manns
látist af völdum hennar um allan
heim.
Þá greindu hollenskir fjölmiðlar
frá því að læknar í Belgíu og Hol-
landi teldu sig hafa fundið tvö ný til-
felli, þar sem viðkomandi sjúklingur
hefði smitast af kórónuveirunni í
annað sinn, en vísindamenn í Hong
Kong töldu sig geta staðfest fyrsta
tilfellið í fyrradag. Sjúklingurinn í
Belgíu er einungis sagður með væg
einkenni, en sérfræðingar segja flest
benda til þess að sjaldgæft sé að fólk
geti smitast af veirunni á nýjan leik.
Kalla til herinn
gegn veirunni
Tveir í viðbót sagðir hafa smitast á ný
AFP
Skimun Spánverji í Baskalandi fer í
skimun fyrir kórónuveirunni.
Jacob Blake, sem
skotinn var sjö
sinnum í bakið af
lögreglunni í Ke-
nosha í Wiscons-
in-ríki, er mögu-
lega lamaður
fyrir lífstíð. Gefa
læknar hans hon-
um helmings-
líkur á að geta
gengið á ný.
Þetta kom fram á blaðamannafundi
fjölskyldu hans, en óeirðir hafa ver-
ið í borginni undanfarnar tvær næt-
ur vegna atviksins.
Faðir Blake spurði í gær hvers
vegna lögreglan hefði talið réttlæt-
anlegt að skjóta son hans sjö sinn-
um, en lögregluþjónarnir sem voru
viðriðnir atvikið hafa verið settir í
launalaust leyfi meðan rannsókn
fer fram.
BANDARÍKIN
Blake mögulega
lamaður fyrir lífstíð
Mikil reiði ríkir
vegna málsins.
Stjórnvöld í Nígeríu og Alþjóðaheil-
brigðismálastofnunin WHO lýstu því
yfir í gær að mænuveiki í sinni nátt-
úrulegu mynd herjaði ekki lengur á
landið, en fjögur ár eru frá því síð-
asta tilfellið greindist. Þar með eru
öll ríki Afríku sögð vera laus við veir-
una, sem herjar einkum á börn undir
fimm ára aldri.
Áfanginn þykir merkilegur ekki
síst fyrir þær sakir að árið 2012 var
rúmlega helmingur allra tilfella á
heimsvísu í Nígeríu, og mátti telja
fórnarlömb sjúkdómsins í þús-
undum.
Árangurinn er einnig rakinn til
sérstakrar bólusetningarherferðar,
sem Nelson Mandela hleypti af
stokkunum árið 1996, en það ár löm-
uðust 75.000 börn í ríkjum Afríku.
Nú er hins vegar áætlað að um 95%
allra íbúa álfunnar séu bólusett gegn
mænuveiki. Þá áætlar WHO að her-
ferðin hafi forðað 1,8 milljónum
barna frá því að fá sjúkdóminn og
bjargað um 180.000 mannslífum.
Sjúkdómurinn fyrirfinnst nú bara
í Afganistan og Pakistan. Engin
lækning er til við honum, en árið
1952 þróaði Jonas Salk bóluefni
gegn mænuveiki, en bólusetningin
varir að jafnaði alla ævi.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
hefur varað við því að mænuveiki
gæti aftur blossað upp, jafnvel í þeim
ríkjum þar sem henni hefur verið út-
rýmt. Í Angóla tókst til dæmis að út-
rýma sjúkdómnum árið 2001, en ut-
anaðkomandi tilfelli urðu til þess að
hann blossaði upp á ný árið 2005.
Leggur stofnunin því áherslu á að
ríki hafi áfram allan vara á gagnvart
mænuveikinni þar til búið verður að
útrýma henni í öllum ríkjum.
Mænuveiki útrýmt frá ríkjum Afríku
WHO segir mikilvægt að vera áfram
á varðbergi fyrir mænuveikiveirunni
AFP
Bólusetning Mænuveiki hefur nú verið útrýmt í öllum ríkjum Afríku.