Morgunblaðið - 03.09.2020, Qupperneq 12
12 DAGLEGT LÍF
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. SEPTEMBER 2020
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég var svolítið hissa aðhafa fengið styrkinn, þvíég vissi að við vorumóvenjumörg sem sóttum
um, eða sextíu nemendur,“ segir
Fehima Líf Purisevic sem er fyrsta
árs nemi í læknisfræði við Háskóla
Íslands en hún er ein þeirra ný-
nema við skólann sem hlaut í þess-
ari viku styrk úr Afreks- og hvatn-
ingarsjóði stúdenta HÍ. Styrkina fá
nýnemar sem hafa náð fram-
úrskarandi árangri í námi til stúd-
entsprófs og jafnframt látið til sín
taka á öðrum sviðum, svo sem í fé-
lagsstörfum eða listum og íþrótt-
um. Í hópi styrkþega eru einnig
nemendur sem hafa sýnt seiglu og
þrautseigju og hafa, þrátt fyrir af-
ar erfiðar aðstæður, staðið sig afar
vel í námi. Fehima útskrifaðist frá
Menntaskólanum í Reykjavík í vor
með ágætiseinkunn og hlaut þá
m.a. viðurkenningu fyrir góðan ár-
angur í líffræði og stærðfræði. Fe-
hima er einnig öflug knattspyrnu-
kona og var fyrirliði meistara-
flokks Víkings í Ólafsvík aðeins 16
ára.
Fannst alltaf gaman
að horfa á læknaþætti
Þegar hún er spurð að því
hvers vegna hún valdi að fara í
læknisfræði, segist hún hafa
ákveðið það strax í grunnskóla.
„Mig hefur langað til að verða
læknir alveg frá því ég var í sjö-
unda bekk. Mér fannst gaman að
horfa á læknaþætti og mér fannst
læknar flottir,“ segir Fehima og
hlær, en hún fór í inntökupróf fyrir
læknadeildina í sumar og stóðst
það með sóma.
„Prófið var svolítið erfitt en ég
hafði þrjár vikur til að undirbúa
mig fyrir það. Inntökuprófið var
fljótlega eftir útskrift mína úr MR
sem var ágætt, því ég var þá nýbú-
in að rifja allt námsefnið upp fyrir
stúdentsprófin,“ segir Fehima sem
valdi að fara í MR á sínum tíma því
hún vissi að námið þar í nátt-
úrufræðideild væri góður und-
irbúningur fyrir nám í læknisfræði.
„Við erum níu úr MR sem hóf-
um nám í læknisfræði núna og það
er auðvitað gaman að vera áfram
samferða í námi.“
Pabbi flutti til Íslands
til að spila fótbolta
Fehima hefur ekki getað sinnt
fótboltanum eins mikið og hún
hefði viljað undanfarið, því hún
hefur verið að glíma við langdregin
meiðsl.
„Annað hnéð er eitthvað að
stríða mér,“ segir Fehima sem er
fædd og uppalin í Ólafsvík, mamma
hennar, Elísa Dögg Helgadóttir, er
íslensk en pabbi hennar, Ejub
Purisevic, flutti til Íslands á sínum
tíma til að spila fótbolta. Fehima
byrjaði að æfa fótbolta í Ólafsvík
strax og hún gat, eða þegar hún
var fimm ára.
„Ég byrjaði að æfa fótbolta
með HK Víkingi þegar ég flutti til
Reykjavíkur fyrir þremur árum til
að hefja nám í MR, fór síðan í
Stjörnuna og að lokum í KR.
Meiðslin byrjuðu einmitt hjá mér
eftir að ég flutti í bæinn, svo þetta
hefur verið heldur dapurt hjá mér í
fótboltanum undanfarin þrjú ár,“
segir Fehima og bætir við að það
hafi verið erfitt fyrir hana aðeins
16 ára að flytja ein í bæinn til
höfuðborgarinnar úr litla samfélag-
inu í Ólafsvík.
„Sem betur fer fluttu for-
eldrar mínir í bæinn núna á loka-
árinu mínu í MR.“
Langar í skurðlækningar
Fehima er á þriðju viku í
læknanáminu og líkar vel.
„Þetta er í raun svipað og ég
bjóst við, en reyndar hélt ég að við
myndum læra meiri líffræði í byrj-
un. Við erum mikið í efnafræði, alla
vegana núna. Covid gerir námið
vissulega öðruvísi en venjan er,
okkur er skipt í hópa svo við séum
færri saman í einu í tímum. Í sum-
um fögum eru eingöngu fjarfundir
og þá er boðið upp á tíma tvisvar í
viku ef það er eitthvað sem við vilj-
um spyrja nánar um.“
Framtíðarplönin hjá Fehimu
eru að halda ótrauð áfram í náminu
og hana langar til að sérhæfa sig í
einhvers konar skurðlækningum,
kannski í einhverju tengdu íþrótta-
meiðslum.
„Ég vona að ég geti líka haldið
áfram að æfa fótbolta, ef tekst að
girða fyrir meiðslin hjá mér. Sara
Björk Gunnarsdóttir er klárlega
frábær fyrirmynd fyrir mig og aðr-
ar fótboltastelpur. Mér fannst al-
veg geggjað þegar hún skoraði
með Lyon um daginn og varð fyrst
íslenskra kvenna til að vinna
Meistaradeild Evrópu.“
Ákvað fyrir löngu að verða læknir
Í vikunni tók fjörutíu og einn nýnemi í Háskóla Íslands við styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ. Fehima Líf Purisevic var ein
af þeim, en hún er nýnemi í læknisfræði og hefur æft fótbolta frá því hún var fimm ára stelpa í Ólafsvík, þar sem hún er fædd og uppalin.
Ljósmyndir/Kristinn Ingvarsson
Stór dagur Nýnemarnir við Háskóla Íslands sem fengu styrk úr Afrekssjóði stilltu sér upp með Covid-fjarlægð sín á
milli þegar þeir tóku við styrkjum sínum. Fehima er þriðja aftast í þriðju röð frá vinstri. 41 nemi fékk styrk núna.
Stolt Fehima að vonum ánægð, hér með Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ.
„Norræna húsið ræktar garðinn sinn
– bæði bókstaflega með því að gróð-
ursetja, en um leið efla tengslin við ís-
lenskar jurtir og aðrar sem gætu not-
ið sín í íslenskum aðstæðum,“ segir í
tilkynningu frá Norræna húsinu. „Í
gróðurhúsi og ræktunarkössum við
húsið er núna hægt að fylgjast með
vexti ýmissa tegunda af matjurtum
og öðrum gróðri sem vaxið hefur yfir
sumartímann. Inni á kaffihúsinu
MATR má síðan smakka uppskeruna í
ýmsum réttum og drykkjum. Dagleg
tilboð á réttum gerðum úr uppsker-
unni verða alla uppskerudagana, 1.-6.
september. Hápunktur uppskerudaga
verður sunnudaginn 6. september
með uppskeruhátíð barnanna. Börn
eru hvött til að koma og sjá og
smakka uppskeru þeirra fræja sem
sáð var snemmsumars. Börn sem
tóku þátt í verkefninu munu segja frá
og gefa smakk af uppskerunni ásamt
Ömmu náttúru, garðyrkjufræðingi,
sem leiðbeindi við ræktunina. Á
sunnudeginum verður boðið upp á
vinnustofur fyrir börn undir leiðsögn
Árna Ólafs, sjónvarpskokks og eig-
anda MATR. Þar gefst börnum tæki-
færi til að kynnast hollri og staðbund-
inni matargerð, heimatilbúnu gosi úr
ilmexi, pestógerð o.fl.“ Einnig verður
ratleikur á bókasafninu í tengslum við
sýningu til heiðurs Línu Langsokk 75
ára.
Sáum, sjáum og smökkum – Uppskerudagar 1.-6. september í Norræna húsinu
Uppskeruhátíð barnanna verður á sunnudag
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Girnilegt Nóg var að gera með góða hráefnið í Norræna húsinu.
Nánar á nordichouse.is
Uppskera Gaman er að taka uppp grænmetið við Norræna húsið.