Morgunblaðið - 14.09.2020, Side 19

Morgunblaðið - 14.09.2020, Side 19
fyrstu kynnum allt til síðustu vikna Haffíar. Spjall um allt milli himins og jarðar í fjölmörgum göngutúrum, ganga um skosku hálöndin, Edinborgarferðin síð- astliðið sumar og nú fyrir skemmstu ferð vinahópsins á Snæfellsnes þar sem Haffí var í essinu sínu við að leiða okkur um svæðið og njóta. Þá var eins og öll erfiðu veikindin væru á burt um stund. Svona munum við minnast elsku Haffíar, orkumikla gleði- gjafans og dásemdar-vinkonu. Elsku Ármann, Gunnhildur, Tryggvi, Stefanía María, Ólafur, systkini og fjölskylda Haffíar. Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni. Minningin um Haffí lifir með okkur allt um kring. Eydís Franzdóttir, Hildi- gunnur Halldórsdóttir, Kristín Mjöll Jakobsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir. „Ef þú þarft að spyrja mig að einhverju, spurðu og þú munt finna svarið í hjartanu.“ Þessi setning sem þú sagðir við mig fyr- ir stuttu lýsir þér svo vel, elsku Haffí mín. Þú varst alltaf til staðar og ætlar þér að vera það áfram. Þín sýn á lífið var falleg. Þú sást fegurðina í smáu hlutunum. Hlut- um sem aðrir tóku kannski ekki eftir og hreifst aðra með þér inn í fegurðina. Birtan og hlýjan skein úr augunum þínum og brosið lýsti upp allt í kring. Það er skrýtin tilfinning að finna fyrir þakklæti og sorg á sama tíma. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að læra hjá þér og læra af þér. Þú hafðir ein- stakt lag á því að ná því besta fram úr nemendum þínum, á svo áreynslulausan og eðlilegan hátt. Ég er þakklát fyrir okkar vináttu. Hún var traust, falleg og heiðarleg og aldrei bar skugga á hana. Sorgin þarf að fá sinn tíma. Hún er sár og erfið, en eins og við vorum sammála um, þá tengist sorgin ást og kærleika. Þú syrgir af því að þú elskar. Ég ætla að hafa það að leiðarljósi. Takk fyrir okkar tíma saman, elsku Haffí mín. Elsku Ármann, Gunnhildur, Tryggvi og fjölskylda. Guð gefi ykkur styrk á erfiðum tímum. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku hjartans vinkona mín. Þín Berglind. Sumarkveðja Ó, blessuð vertu, sumarsól, er sveipar gulli dal og hól og gyllir fjöllin himinhá og heiðarvötnin blá. Nú fossar, lækir, unnir, ár sér una við þitt gyllta hár, nú fellur heitur haddur þinn á hvíta jökulkinn. (Páll Ólafsson) Elsku Haffí mín. Þú fæddist á þeim tíma árs sem sólin er hvað hæst á lofti og upp frá því stráðir þú sólargeislum í kringum þig. Fyrsta erindi Sumarkveðju, ljóðs Páls Ólafssonar, minnir mig á þig. Framkoma þín var hlý og gleðin sem skein úr fallegu bláu augun- um þínum geislaði sem sólin sjálf til okkar sem vorum svo lánsöm að þekkja þig. Dillandi hlátur þinn var smitandi og sá sem segir með syngjandi og glaðværri röddu að hlutirnir séu dásamlega skemmti- legir yljar samferðamönnum sín- um. Þú sagðir þann kraft sem ís- lenska náttúran færir okkur hafa átt stóran þátt í þeirri ákvörðun að flytja heim til Íslands eftir fram- haldsnám erlendis. Þegar litið var til tónlistargáfu þinnar hafði nátt- úran sem Páll lýsir í ljóðinu meira aðdráttarafl en steypan í stór- borgum erlendis. Ég man að ég hreifst af þeirri birtu sem umlék þig þegar við kynntumst í Kvennó aðeins 13 ára gamlar. Að þriggja ára námi loknu var förinni heitið í MR og eftir að hafa gengið menntaveginn saman í sjö ár hafði verið lagður grunnur að ævilangri vináttu okkar. Við bjuggum báðar erlendis um nokk- urra ára skeið en aldrei hefur þráðurinn á milli okkar slitnað og á hverjum vinkvennafundi verið sem við hittumst í gær. Eins og sönnum vinkonum sæmir þá glöddum við hvor aðra, hvöttum hvor aðra, dáðumst að verkum hvor annarrar og ekki síst nutum við samverustundanna sem gáfust. Þar varst þú einlæg, sönn og gafst alltaf ríkulega af þér. Þú varst í senn heimskona og nátt- úrubarn. Þú varst með afbrigðum hógvær hvað varðar öll þín afrek á sviði tónlistarflutnings og hljóm- sveitarstjórnunar. Það sama átti við um Maxa en þegar þú sagðir frá því einstaka ævintýri birti yfir andliti þínu sem sólin væri. Í gönguferð okkar rétt fyrir af- mælið þitt í júlí höfðum við lengi vitað í hvað stefndi. Það var mjög óraunverulegt, þótt við hefðum rætt það áður. Þarna var hins veg- ar svo komið að við rifjuðum upp fyrstu kynni í Kvennó og vorum því næstum komnar einn stóran hring. Á þessari stundu horfðumst við í augu og grétum yfir því að hringurinn færi senn að lokast. Það var heiður að fá að vera vin- kona þín á meðan við ferðuðumst 43 hringi í kringum sólina en samt fannst okkur tíminn allt of stuttur. Vinátta þín er mér ákaflega dýrmæt og þú munt lifa í hjarta mínu alla tíð. Hafðu þökk fyrir allt, elsku Haffí. Blessuð sé minning minnar elsku vinkonu og mínar dýpstu samúðarkveðjur til Ármanns, Gunnhildar Höllu, Tryggva Pét- urs, Stefaníu, Ólafs, Maríu, Krist- ínar Önnu og fjölskyldunnar allr- ar. Þín Þórunn Elva. Einn undurgóðan veðurdag ár- ið 2006 hafði Hallfríður Ólafsdótt- ir samband og sagðist vera með hugmynd sem hún vildi kynna okkur. Við þekktum til Hallfríðar – ein okkar hafði þekkt hana allt frá því í barnaskóla – og vissum að það sem hún tók sér fyrir hendur gerði hún vel og af brennandi ástríðu. Það kom líka á daginn að hugmyndin var einstök. Verkefnið um músíkölsku músina Maxímús Músíkús varð að stórkostlegu æv- intýri sem átti eftir að vinna hug og hjörtu barna um víða veröld og opna fyrir þeim heim tónlistarinn- ar. Við verðum ætíð stoltar að hafa fengið að taka þátt í þessu ævin- týri, gefa út bækurnar um Maxa og kynna þær íslenskum og er- lendum lesendum. Fyrstu Maxímúsartónleikarnir voru haldnir fyrir mörg hundruð leikskólabörn. Þá komum við okk- ur fyrir í tröppum Háskólabíós og fylgdumst með. Börnin biðu spennt eftir að sýningin hæfist og iðuðu í sætunum, skríktu og skröf- uðu. En jafnskjótt og sagan hófst og fyrstu tónarnir liðu um húsið og teikningar Þórarins M. Bald- urssonar birtust á tjaldinu tóku töfrarnir við. Þá þögnuðu öll börn- in sem eitt og störðu bergnumin upp á svið. Það mátti heyra saum- nál detta í salnum. Þegar tónleik- unum lauk og börnin tíndust út í daginn hljómaði hugljúfa lagið hans Maxa á vörum þeirra og gleðin var við völd. Enda segir í einni bókinni um Maxímús: „Hvar sem tónlist hljómar, þar verða all- ir glaðir.“ Á þessu andartaki feng- um við staðfest hvílíkan fjársjóð Haffí hafði skapað. Við vorum djúpt snortnar. Það eru sannarlega forréttindi að hafa fengið að fylgjast með æv- intýrinu frá byrjun. Frá hugmynd til bóka og viðamikilla sinfóníutón- leika víðs vegar um heim, útgáfu í mörgum heimsálfum og margvís- legra verðlauna, svo sem Fjöru- verðlaunanna, Barnabókaverð- launa Reykjavíkurborgar og Heiðursviðurkenningar útflutn- ingsverðlauna forseta Íslands fyr- ir einstakt framlag til að auka hróður Íslands á erlendri grund. Það eru forréttindi að hafa fengið að starfa með svo hæfileikaríkri konu. Haffí var hlý og góð og hóg- vær og hún var feikilega klár. Ná- kvæm og fagleg, hugsaði alltaf í lausnum og gaf endalaust af sér. Það var bjart yfir henni og hún hló svo dillandi hlátri að hún lýsti upp allt í kringum sig. Hún fylgdi verkefnum sínum eftir af alúð og natni til hinstu stundar. Við hörmum fráfall hennar tak- markalaust. Þökkum fyrir gefandi samstarf og yndislega samfylgd. Hugur okkar er hjá foreldrum hennar, eiginmanni, börnum, systkinum og öðrum ástvinum. Megi kraftur Haffíar og lífsgleði fylgja þeim og umvefja alla tíð. Fyrir hönd Forlagsins, Hólmfríður Matthíasdóttir, Sigþrúður Gunnarsdóttir, Valgerður Benediktsdóttir. Íslenskt tónlistarlíf verður ei samt án Hallfríðar Ólafsdóttur. Sinfóníuhljómsveit Íslands verður ei söm án Hallfríðar. Við kveðjum allt of snemma frumkvöðul og fyr- irmynd, framúrskarandi lista- mann sem flutti okkur tónlist á ógleymanlegan hátt. Hallfríður var leiðandi flautu- leikari Sinfóníuhljómsveitar Ís- lands í rúma tvo áratugi. Hún lék einnig einleikskonserta með hljómsveitinni allt frá árinu 1996, þegar hún lék flautukonsert Carls Nielsens. Auk þess flutti Hallfríð- ur konserta eftir Þorkel Sigur- björnsson, Einojuhani Rauta- vaara og W.A. Mozart. Á Myrkum músíkdögum árið 2019 frumflutti Hallfríður konsert fyrir flautu og fagott eftir Pál Ragnar Pálsson, sem sérstaklega var saminn fyrir hana og eistneska fagottleikarann Martin Kuuskmann. Framlag Hallfríðar til fræðslu- starfs er ómetanlegt og vann hún í nánu samstarfi við hljómsveitina við þróun á fræðsluverkefninu um Maxímús Músíkús. Fyrsta bókin kom út snemma árs 2008 en bæk- urnar urðu alls fimm. Síðasta tón- listarverkefnið um Maxímús Mús- íkús var pantað af SÍ og Fílharmóníusveitinni í Los Angel- es fyrir Íslandshátíð Fílharmóní- unnar árið 2017. Maxi er órjúfan- legur partur af Sinfóníuhljómsveit Íslands og mun halda áfram að gleðja og fræða börn hér heima og erlendis. Hallfríði var umhugað um hljómsveitina sína og starf henn- ar. Hún var öflugur leiðari, skap- andi, metnaðarfull og hæfileika- rík. Við munum njóta framlags hennar til menningar og mennt- unar um ókomin ár. Gleði Hallfríðar, orka og hvatn- ing var einstök. Við þökkum fyrir einstaka samstarfskonu, félaga og vin. Hvíl í friði, elsku Hallfríður. Innilegustu samúðarkveðjur til Ármanns, Gunnhildar Höllu, Tryggva Péturs, fjölskyldu og vina. Fyrir hönd Sinfóníuhljómsveit- ar Íslands, Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri. Haffí var einstök, framúrskar- andi listakona, femínisti og móðir, glöð og hlý. Mörg falleg orð gætu lýst henni, því allt sem hún gerði var uppbyggjandi, gott og vandað. Fyrst heyrðum við af henni sem fyrirmyndarflautunemanda hjá Benna og sem frábærri barn- fóstru hjá þeim Gústu. Svo var hún allt í einu orðin ung kona, þau Ármann luku námi í Tónó og héldu ástfangin til Bretlands og síðan Frakklands til að fullnuma sig í tónlist. Heim komin var Haffí ráðin á flautu og piccoló í Sinfóníuhljóm- sveit Íslands og varð leiðandi flautuleikari frá 1999. Forystu- hlutverkinu sinnti hún af mikilli festu og dugnaði, og naut sín eins og syngjandi fugl á grein. Hún var örugg, hafði dásamlegan flaututón og spilaði af hjartans lyst, sprúð- landi af kunnáttu og tjáningar- þörf. Brahms var hennar maður, sem heyrðist svo greinilega þegar flautan fékk sóló. Þegar óbóleikarinn ég var val- inn sessunautur hennar varð sam- starf okkar bæði náið og ánægju- legt, enda kom Haffí hress til leiks á hverjum morgni og lífgaði ald- eilis upp á daginn. Það var hægt að ympra á túlkun eða jafnvel tónhæð án þess að tilverunni væri veru- lega ógnað. Merkingar orða og þýðingar milli tungumála voru ræddar í þaula og alltaf í vinsemd. Hún tók oft að sér einleikarahlut- verk með hljómsveitinni og skilaði öllu með miklum sóma. Við í Blásarakvintett Reykja- víkur nutum líka krafta hennar í nokkur góð ár, en þar var hún frá- bær liðsmaður bæði á sviði og utan þess, ekki síst á ferðalögum. Sessa og ég vorum svo lánsöm að eignast frekari vináttu hennar þegar Maxímús-verkefnið hófst, en þá þurfti hún oft að reka ýmis erindi í nágrenninu og leit inn þeg- ar smá hlé kom í þéttskipaða dag- skrá hennar. Hún var full af ákefð, orku, sköpunarþörf og framtíðar- áætlunum. Seinni árin var Haffí einnig orðin öflugur hljómsveitar- stjóri og hafði húmor fyrir því að tveir óbóleikarar í Sinfó birtust á sviði Eldborgar í Hörpu í skota- pilsi þegar hún stjórnaði tónleik- um með verkum íslenskra kven- tónskálda. Auðvitað glöddumst við yfir vel- gengni músarinnar músíkölsku og fengum líka að taka þátt í mörgum gleðistundum með þeim Ármanni, Gunnhildi, Tryggva, Stefaníu, Ólafi og allri fjölskyldunni. Líf Haffíar var auðugt, hún starfaði við það sem hún hafði eld- legan áhuga á og var umvafin elsk- andi fjölskyldu og vinum. Það er hörmulegt og óþolandi að missa svona dásamlega konu allt of snemma. Við Sessa sendum Ármanni, börnunum, foreldrum og öðrum ástvinum hennar innilegar samúð- arkveðjur. Blessuð sé minning Haffíar. Daði Kolbeinsson. Veistu að vonin er til hún vex inni í dimmu gili, og eigirðu leið þar um þá leitaðu í urðinni leitaðu á syllunum og sjáðu hvar þau sitja lítil og veikbyggð vetrarblómin lítil og veikbyggð eins og vonin. (Þuríður Guðmundsdóttir) Þótt fregnin af andláti Hallfríð- ar hafi ekki komið á óvart var hún engu að síður þungbær. Sorg yfir ótímabærum örlögum góðrar vin- konu sem var hrifin burt allt of snemma frá eiginmanni, börnum sínum, foreldrum og systkinum. Söknuðurinn er sár. Leiðir okkar Hallfríðar lágu saman í Tónlistarskóla Kópavogs fyrir um 40 árum. Við áttum að spila saman á tónleikum og mætt- um saman í tíma. Í því stutta spjalli sem við áttum þar, blá- ókunnugar og biðum eftir að kom- ast í tímann, komst ég að því hversu skarpgreind Haffí var og hæversk. Þessi spilamennska okk- ar markaði upphafið að vináttu okkar sem aldrei bar skugga á. Stuttu seinna kynntist ég drif- kraftinum í henni þegar hún fékk mig til að spila með sér á kven- félagsfundi í bænum. Unglingsárin liðu með yndisleg- um samverustundum í góðum vinahópi með systrunum Haffí og Kristínu Önnu; útilega í hlíðum Esjunnar og í Borgarfirði, afmæl- isboð og áramótafögnuðir. Í Tón- listarskólanum í Reykjavík hreifst Haffí af strák sem var að læra á klarinett. Hún var ósvikin gleðin þegar hún sagði mér, á lýtalausri dönsku, að hrifningin væri gagn- kvæm. Haffí og Ármann áttu strax svo vel saman, samstillt í tónlist- inni og glæsileg. Annað sem treysti vináttu okk- ar enn betur var þegar við eign- uðumst dætur okkar með stuttu millibili. Þá var gott fyrir okkur nýbakaðar mæðurnar að bera saman bækur okkar þegar við fet- uðum okkur áfram í þessu nýja hlutverki. Móðurást hennar var sterk, hún bar hag Gunnhildar Höllu og Tryggva Péturs fyrir brjósti og bæði hafa þau erft list- ræna hæfileika foreldra sinna. Haffí var gjafmild í list sinni og mikið þótti mér vænt um þegar hún spilaði við skírn dætra minna og einnig ásamt Ármanni í brúð- kaupinu mínu. Mín kæra vinkona hefur þannig spilað á flautuna sína á gleðistundum í lífi mínu, einmitt á hljóðfærið sem ég heillaðist af sem smástelpa. Þá tók Haffí ekki annað í mál en að bæta dóttur minni við í nemendahóp sinn þeg- ar hún byrjaði í Tónlistarskólan- um í Reykjavík. Þrátt fyrir að stundum liði nokkur tími milli funda var alltaf gott að hitta hana, vináttuböndin voru sterk og gleðin við völd. Engum dylst að Hallfríður hef- ur fengið gott veganesti úr for- eldrahúsum enda svo vel gerð og vönduð manneskja, blíð og glaðleg sem skilur eftir sig mikið og fal- legt orðspor. Líf hennar byggðist á traustum og styrkum stofni og þá arfleifð hefur hún veitt börnum sínum. Ég minnist brosmildrar vin- konu af hlýhug og þakka henni samfylgdina í gegnum árin. Kristín Andrea. Fráfall Hallfríðar Ólafsdóttur er okkur hjónum mikið harmsefni. Við urðum þeirrar gæfu aðnjót- andi að kynnast þessari mikilhæfu og yndislegu konu er hún kom ung til náms í London ásamt sínum ljúfa eiginmanni. Þá eins og endranær hafði hún engar vífi- lengjur á hlutunum en gekk þegar til liðs við okkur sem leituðumst við að halda uppi safnaðarstarfi og öðru menningarstarfi meðal landa okkar í borginni. Munaði ekki lítið um framlag þeirra hjóna ekki síst í kórsöng og hljóðfæraleik meðan þeirra naut við í borginni. Vinskapur okkar efldist enn við það að kær vinskapur tókst með Hallfríði og Sigrúnu dóttur okkar, sem þá var einnig við tónlistarnám í London. Hélst sá vinskapur óslit- inn eftir að báðar fluttust heim og á meðan báðar lifðu. Sigrún varð krabbameini að bráð eins og Hall- fríður, þá aðeins 34 ára. Í fram- haldi af því beindist kærleikur Hallfríðar og vinarþel enn frekar í átt til okkar hjóna. Það var okkur afar dýrmætt og getum við seint fullþakkað umhyggju hennar og elskusemi. Merkilegt finnst okkur að dauðsfall þeirra beggja skyldi bera nánast upp á sama mánaðar- dag. Eftir að við komum heim til Hóla varð Hallfríður tíður gestur þar og þá oft ásamt fjölskyldu sinni. Þar eins og áður var hún um- fram allt gefandi. Ófá voru þau skiptin sem hún gaf kost á sér til tónlistarflutnings í Hóladóm- kirkju. Til sumartónleika var stofnað skömmu eftir að ég kom að Hólum. Voru þeir haldnir um hverja helgi sumarmánuðina og leitast við, þrátt fyrir lítil efni, að hafa þá sem vandaðasta. Til þeirra lögðu Hallfríður og Ármann mik- inn skerf sem mér er skylt og ljúft að þakka. Þá gleymist ekki fram- lag hennar til hátíðarhaldanna 2006 í tilefni af 900 ára afmæli bisk- upsstóls á Hólum. Þá lék hún ein- leik við afhendingu fornbókasafns- ins fyrir utan Auðunarstofu og á hátíðarsamkomunni, hvort tveggja af stakri snilld eins og hennar var vandi. Um persónuleg samskipti okk- ar, sem ætíð voru mikið gleðiefni, skal ekki fjölyrt að öðru leyti en því að vænt þótti mér um að fá að ferma Gunnhildi Höllu í Hóladóm- kirkju og Tryggva Pétur í Garða- kirkju. Þær stundir gleymast ekki enda gerði fjölskyldan þær að dýr- legri trúarjátningu, sem hún vafði í umbúðir fagurs söngs og hljóð- færaleiks. Fyrir samverustundirnar mörgu í gleði og sorg og fyrir allt sem Hallfríður veitti okkur með list sinni og mannkostum erum við Margrét innilega þakklát. Við trúum því að Hallfríður hvíli nú í náðarfaðmi Guðs. Blessi hann Ármann, Gunnhildi Höllu, Tryggva Pétur, foreldra Hallfríð- ar, systkini og aðra ástvini og veiti þeim styrk í þeirra miklu sorg. Blessuð sé minning Hallfríðar Ólafsdóttur. Margrét og Jón Aðalsteinn. Ég sit hér í haustbyrjun, með kveikt á kertum í kringum mig og langar að minnast elskulegrar vin- konu og samstarfskonu til margra SJÁ SÍÐU 20 MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 14. SEPTEMBER 2020 Ástkær eiginkona mín, móðir, tengdamóðir, amma, langamma, langalangamma, SOFFÍA KARLSDÓTTIR, leikkona og revíusöngkona, Kópubraut 20, Njarðvík, sem lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 6. september, verður jarðsungin frá Keflavíkurkirkju þriðjudaginn 15. september klukkan 13. Í ljósi aðstæðna verður aðeins nánasta fjölskylda viðstödd. Streymt verður frá athöfninni á https://tinyurl.com/y2kd6gye. Jón H. Jónsson Björg K.B. Jónsdóttir Óðinn Sigþórsson Kristín G.B. Jónsdóttir Þórólfur Halldórsson Jón H. Jónsson Karen H. Jónsdóttir Vilhjálmur S. Einarsson Dagný Þ. Jónsdóttir Halldóra V. Jónsdóttir Ragnheiður E. Jónsdóttir Marco Mintchev ömmubörn og langömmubörn Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, ARNBJÖRG AUÐUR ÖRNÓLFSDÓTTIR, Adda Örnólfs, verður jarðsungin í Háteigskirkju þann 17. september klukkan 13. Þórhallur Helgason Helgi Þórhallsson Edith Hermosura Þóra B. Þórhallsdóttir Malcolm Barrett Ragnhildur D. Þórhallsdóttir Örn Alexandersson barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.