Morgunblaðið - 14.09.2020, Blaðsíða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 14. SEPTEMBER 2020
Funahöfða 7, 110 Reykjavík | Sími 577 6666
Kæli- & frystiklefar
í öllum stærðum
Flest könnumst við án efa við
danska skáldsnillinginn H.C. And-
ersen og sögur hans. Ein af hans
þekktari heitir á íslensku „Nýju föt-
in keisarans“.
Hún segir frá keisara nokkrum
sem sífellt reynir að bæta sér upp
lífsleiðann með því að sanka að sér
fallegum og sérstæðum hlutum.
Nokkrir loddarar plata keisarann til
að trúa því að þeir geti saumað
handa honum fínustu og glæsileg-
ustu föt sem nokkur maður hefur
átt. Sá einn galli fylgi þessari snilld,
segja þeir, að heimskingjar og ein-
feldningar geta
ekki séð fötin, að-
eins gáfumenni
og mikilmenni.
Keisarinn bíður
spenntur en þeg-
ar hann loksins
fær að máta fötin
sér hann þau
ekki, enda ekkert
að sjá. En hann
vill ekki láta menn halda að hann sé
heimskur, svo hann hrósar klæð-
skerunum og sprangar um allsnak-
inn í hinum ímynduðu klæðum. Allir
aðrir sem sjá keisarann hugsa eins
og hann, ráðgjafar, hermenn, þjónar
og almenningur. Enginn sér fötin en
allir halda að það sé vegna þess að
þeir séu svo heimskir. Enginn vill
láta komast upp um heimsku sína,
frekar en keisarinn, og allir hrósa
þessum einstöku fötum. Það er svo
ekki fyrr en keisarinn fer um bæinn
í skrúðgöngu að barn hrópar upp:
„Keisarinn er nakinn.“ Fyrst sussa
allir á barnið, en svo taka fleiri og
fleiri undir, uns allir hrópa: „Keis-
arinn er nakinn, keisarinn er nak-
inn.“
Þannig endar yfirleitt endursögn
þessarar smásögu H.C. Andersens.
En oft gleymist að nefna aðalatriðið,
síðustu málsgreinina, sem hljóðar
svo:
„Det krøb i kejseren, thi han syn-
tes, de havde ret, men han tænkte
som så: „Nu må jeg holde processio-
nen ud.“ Og kammerherrerne gik og
bar på slæbet, som der slet ikke
var.“ Eða á íslensku: „Það fóru ónot
um keisarann, því að hann var eig-
inlega á sama máli og allir hinir. En
hann hugsaði samt með sér: „Ég
verð að halda út skrúðgönguna.“ Og
þjónar hans héldu áfram undir fald-
inn sem var ekki til.“
Mér datt þessi gamla saga í hug
fyrir nokkru einn daginn þegar ég
stóð í anddyri kirkju einnar sem ég
þá starfaði við og var að taka á móti
kirkjugestum á sunnudegi. Ég var
klæddur í svörtu, síðu, lútersku
hempuna sem er einkennisbúningur
íslenskra presta, eða var það til
skamms tíma þó að það sé að breyt-
ast eins og annað. Við hlið mér stóð
fermingardrengur og hafði það hlut-
verk að deila út sálmabókum til
kirkjugesta. Þegar við höfðum stað-
ið þarna góða stund og heilsað upp á
fólkið tók ég eftir því að ferming-
ardrengurinn gaut augunum á mig
af og til, eins og hann væri að mæla
út hempuna. Þegar hlé varð á fólks-
straumnum inn í kirkjuna sagði
hann allt í einu við mig: „Heyrðu,
fyrirgefðu, en það er eitt sem ég hef
verið að velta fyrir mér frá því ég
byrjaði í fræðslunni í haust.“ Ég
spurði hann hvað það væri og hélt að
nú kæmi einhver spurning um ferm-
ingardaginn eða eitthvað praktískt
sem biði. En svo var ekki. Strák-
urinn spurði: „Hvernig er það, ertu
nakinn undir hempunni?“
Spurning fermingardrengsins
hefur ekki alveg látið mig í friði.
Fallegar og glæsilegar umbúðir
eins og hempa íslenskra presta,
höklar, ölbur, rykkilín, gullbikarar,
glæsilegar kirkjur, stórkostleg tón-
list, ómetanleg hof hindúa, pagóður
og gullnar Búddhastyttur, ótrúlegar
moskur – allt er þetta dæmi um þá
glæsilegu umgjörð sem trúar-
brögðin hafa búið sér. Sjálfur hef ég
mikla ánægju af að heimsækja
kirkjur og hof og moskur á ferðum
mínum um heiminn og dást að öllu
sem þar er að sjá. Ekki má gleyma
hátíðum á tímamótum lífsins sem
trúarbrögðin annast, við fæðingu,
kynþroska, upphaf sambúðar og
dauða. Eða stórum hátíðum sem all-
ir taka þátt í án þess endilega að
velta fyrir sér innihaldinu, eins og
jólum, hanúkka, jivalí, og nú síðast
halloween sem fer eins og eldur í
sinu um heimsbyggðina.
Á öldum áður réttlættu trúar-
leiðtogar þessa umgjörð og öll sín
tákn, kenningar, hátíðir og helgiat-
ferli með því að veröldinni væri
stjórnað af yfirnáttúrulegum mátt-
arvöldum, en ekki lögmálum náttúr-
unnar. Guðirnir eða Guð hefðu skap-
að heiminn, sett honum reglur og
mörk og hægt væri að skýra heim-
inn út frá hugmyndum átrúnaðarins,
hafa áhrif á vilja guðanna, lesa í
framtíðina, breyta sögunni og svo
framvegis með trúarlegum athöfn-
um, táknum og umbúðum. Þess
vegna þyrfti ákveðna stétt til að
leiða allt þetta helgihald því að ef
það færi fram á rangan hátt myndu
guðirnir reiðast, náttúruhamfarir
dynja yfir, veröldin jafnvel steypast.
Styrjöldum, pestum, eldgosum,
óveðrum, hungursneyðum, upp-
skerum, sólinni, eldingunum, öllu
þessu stýrðu æðri máttarvöld og þau
þurfti að blíðka með trúarlegum at-
höfnum.
Þetta kölluðu Rómverjar hinir
fornu superstitio, eða einfaldlega
hjátrú. Hjátrú er sú trú að hægt sé
að hafa áhrif á náttúrulögmálin með
galdri eða helgiathöfnum. Á fyrri
öldum gátu menn deilt um allt
mögulegt, en flestir voru sannfærðir
um að það sem við köllum hjátrú
væri í raun raunveruleikinn sjálfur.
Það var ekki fyrr en á sautjándu
öld hér á Vesturlöndum sem menn
tóku að efast um að þetta gæti stað-
ist, þetta, að hægt væri að hafa áhrif
á náttúrulögmálin með galdri og
helgihaldi og að æðri máttarvöld
stýrðu heiminum og hinu daglega
lífi. Þetta tímabil í sögunni kallast
upplýsingin og stóð fram á 18. öld.
Smátt og smátt í kjölfar upplýsing-
arinnar leystu raunvísindin hjátrúna
af hólmi sem tæki til að skýra gang
heimsins og náttúrunnar. Vís-
indamenn sönnuðu og sýndu að allt í
náttúrunni ætti sér náttúrulegar
skýringar en ekki guðlegar og að allt
gerðist af einhverri ástæðu. Smátt
og smátt kviknaði ljós í hugum
manna, getum við sagt og þeir fóru
að leita orsakasamhengisins í nátt-
úrunni. Nútímaraunvísindi uxu
hægt og hægt fram. En það var ekki
bara löngunin til að skilja hið nátt-
úrulega samhengi sem rak upplýs-
ingarmenn áfram. Það var líka við-
bjóður þeirra á
trúarbragðastyrjöldunum sem höfðu
tætt í sundur Evrópu á 16. öld í kjöl-
far klofnings kirkjunnar í kaþólska
og mótmælendur. Hjátrúin var
slæm. En styrjaldirnar voru enn
verri. Lúter hafði hvatt til morða á
bændum í nafni Guðs. Kaþólska
kirkjan lét brenna þúsundir í nafni
sama Guðs. Krossferðirnar bæði í
Mið-Austurlöndum og Evrópu voru
hryllingur í nafni Guðs. Og verst,
sáu menn, var ástandið þar sem að-
eins tvær eða þrjár trúarstefnur
bárust á banaspjót í einu og sama
landi, eins og lúterska og kaþólska
kirkjan í Þýskalandi.
Þegar Bandaríki Norður-Ameríku
voru stofnuð árið 1776 voru það upp-
lýsingarmenn sem héldu um stýrið
og þeir beittu þessari hugmynd um
trúfrelsið skilyrðislaust. Þeir sem
skrifuðu stjórnarskrá Bandaríkj-
anna höfðu séð hvernig þúsundir
höfðu neyðst til þess að flýja frá
Gamla heiminum og vestur um haf
undan trúarbragðaofsóknum og
styrjöldum. Þetta skyldi aldrei end-
urtaka sig í þeirra landi. Byggja ætti
múr milli ríkis og trúarbragða.
Bandarísk stjórnvöld skyldu ekki
setja nein lög um trúarbrögðin eða
frelsi manna til að iðka trú sína. Í
stjórnarskrá Bandaríkjanna segir
þess vegna svo um átrúnaðinn og
ríkið:
„Congress shall make no law re-
specting an establishment of reli-
gion, or prohibiting the free exercise
thereof ...“
Eða með öðrum orðum, ríkið á
ekki að blanda sér í trúmál þegn-
anna. Þetta er grundvallarlögmál í
skipan Bandaríkjanna og hefur verið
virt til þessa dags.
Þróunin varð önnur í Evrópu,
enda trú og ríki samtvinnuð þar um
aldir. Hér er ekki tími til að rekja
alla þá sögu en eftir frönsku stjórn-
arbyltinguna 1789 og byltingar 19.
aldar sem fylgdu í kjölfarið, fram-
vöxt kommúnismans, félagshyggj-
unnar, rússnesku byltingarinnar og
átök fyrri og síðari heimsstyrjaldar,
óx fram samfélag í Evrópu sem kall-
ast veraldlegt ríkisvald. Hið verald-
lega ríki ákvað að byggja ákvarðanir
sínar aðeins á veraldlegum for-
sendum en ekki forsendum annars
heims eða trúarbragða, á forsendum
sem byggja á kenningum sem hafa
mótað Vesturlönd allt frá tímum
upplýsingarinnar.
Eitt dæmi um áhrif verald-
arhyggjunnar á líf fólks er breytt
staða samkynhneigðra, sumstaðar,
stundum. Hin stóru trúarbrögð
heimsins hafa ofsótt samkyn-
hneigða. Segjum það bara eins og
það er. Samkynhneigð er sögð synd
gegn skikkan skaparans og vilja
Guðs. Sá sem er samkynhneigður á
jafnvel á hættu að verða dæmdur til
dauða. Þannig er staðan víða. Hið
íslamska kalífadæmi sem náði völd-
um í stórum hluta Sýrlands eftir
2011 stundaði það að kasta samkyn-
hneigðum fram af húsþökum. Nas-
istar gerðu slíkt hið sama eða vörp-
uðu þeim í gasofnana. Lengi fram
eftir 20. öld var samkynhneigð bönn-
uð og litin hornauga á Vesturlöndum
vegna áhrifa trúarbragðanna. En
hægt og bítandi hafa réttindi þeirra
verið viðurkennd í mörgun löndum.
Það var til dæmis gert á Íslandi
fyrst árið 2010 þegar ein hjúskap-
arlög voru samþykkt jafnt fyrir sam-
kynhneigða og gagnkynhneigða. Þá
hafði þjóðkirkjan staðið gegn þeirri
þróun allt frá árinu 1996.
En þótt réttindi samkynhneigðra
og kvenna hafi aukist horfir hið ver-
aldlega ríki oft framhjá framferði
trúarstofnana samfélagsins. En ein-
staklingar láta sig málefni þeirra
varða. Hið veraldlega ríki var nefni-
lega ekki eini ávöxtur upplýsing-
arinnar, heldur einnig hin verald-
lega hugsun, þar sem
einstaklingurinn hugsar um sam-
félagið, án þess að ætla Guði þar
pláss. Æ fleiri á Vesturlöndum hafa
tileinkað sér þessa lífsskoðun og
hafna alfarið tilvist Guðs. Mörgum
finnst þessi þróun sorgleg, jafnvel
þótt þeir trúi ekki á Guð. Þeim finnst
kirkjan og átrúnaðurinn þrátt fyrir
allt standa fyrir eitthvað fallegt, sög-
una, menninguna, tungumálið og all-
ar þessar fallegu athafnir. Deilur
þessara tveggja hópa hafa verið
áberandi, t.d. um fræðslu barna um
trú í skólum, kirkjuheimsóknir á jól-
um, trúarlegan þjóðsöng og fleira og
fleira.
Stöðugt fækkar í kirkjunni, sér-
staklega í Evrópu. Þó að trúarbrögð
sæki fram víða um heim eru þau á
hverfanda hveli í Evrópu. En inn í
tómarúmið hafa stigið svokallaðir
veraldlegir húmanistar sem hafa
tekið að láni margt það besta frá
trúarbrögðunum – en án Guðs.
Orðið húmanismi hefur verið þýtt
sem mannhyggja. Húmanisminn á
sér langa sögu. En eins og nafnið
gefur til kynna reyna húmanistar að
lifa lífinu eins vel og hægt er, án þess
að blanda Guði í málin. Þeir trúa því
að mannkynið hafi þroskast frá Guði
eins og börn sen hætta að trúa á æv-
intýri þegar þau verða fullorðin. Að-
eins mannkyn veit hvað mannkyni er
fyrir bestu. Maður þarf ekki á Guði
eða goðum að halda til að vita hvað
er rétt og rangt, kenna veraldlegir
húmanistar. Veraldlegir húmanistar
hafa séð að það fellur vel að mann-
inum að marka áfanga lífsins með
hátíðum. Þess vegna hafa þeir og
þeirra samtök boðið upp á verald-
legar athafnir eins og nafngift, ferm-
ingu, hjónavígslu og útför. Hér á
landi er það Siðmennt – félag sið-
rænna húmanista sem fer fyrir ver-
aldlegum húmanistum og veitir at-
hafnaþjónustu.
Trúarstofnanirnar svara gjarnan
fyrir sig með tvennskonar hætti.
Sumar hafa hert á kenningunni og
gerst strangtrúaðri, eins og við höf-
um séð gerast bæði í hinu íslamska
kalífadæmi sem og hjá öfgakristnum
í Bandaríkjunum. Þá er stutt í of-
beldið gagnvart öllum þeim sem eru
öðruvísi. Á hinn bóginn hafa margar
kirkjurnar reynt að laga sig að tím-
anum, tala minna um Guð og hið yf-
irnáttúrulega en veðja þess meira á
skemmtunina, tónlistina eða hið fé-
lagslega hlutverk svo að fólk velji að
vera áfram í kirkjunni þó að trúin sé
ekki til staðar vegna þess að kirkjan
er svo flott, stendur sig vel í fé-
lagslegum málum eða býður upp á
svo skemmtilega umgjörð um at-
hafnir lífsins.
En er þá ekki eitthvað mikið að ef
enginn nennir að koma í kirkjuna,
bara til að hitta Guð? Er kirkjan þá
ekki nakin þarna undir hempunni?
Er ekkert eftir nema umgjörðin? Og
hlýtur þá ekki trúin smátt og smátt
að deyja út þegar nýjar kynslóðir
segja, eins og barnið forðum í sögu
H.C. Andersens: „Keisarinn er nak-
inn“? Sjá það ekki allir og meira að
segja kirkjan sjálf og forystumenn
annarra trúfélaga sem hafa leitað á
sömu slóðir? En hvers vegna halda
þeir þá áfram showinu? Ef til vill
hugsa þeir eins og keisarinn nakti í
sögu H.C. Andersen: „Ég sé að ég er
nakinn, ég veit að þetta er búið, ég
trúi ekki lengur á þetta sjálfur, en ég
verð samt að klára skrúðgönguna.“
„Ertu nakinn undir hempunni?“
Bókarkafli | Í Sögu guðanna fjallar Þórhallur
Heimisson um það sem helstu trúarbrögð mann-
kyns hafa sjálf fram að færa, rekur sögu þeirra í
stórum dráttum og lýsir helstu einkennum þeirra.
Ljósmynd/Þórhallur Heimisson
Lífsgleði Á góðri stundu í Egyptalandi. Lífsgleðin brúar öll bil.