Morgunblaðið - 24.10.2020, Blaðsíða 26
26 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. OKTÓBER 2020
Málefnaleg og þörf
umræða í fréttaskýr-
ingaþættinum Kveik
hjá RÚV 8. október sl.
varpaði ljósi á mikil-
vægi varðveislu ís-
lenskra menningar-
verðmæta svo ekki fari
illa. Í þættinum kom
fram að víða eru ófull-
nægjandi aðstæður til
varðveislu menningar-
arfsins en aðeins gafst
þar ráðrúm til þess að tæpa á þessu
mikilvæga málefni sem varðar öryggi
menningararfsins um land allt.
Fjallað var um aðstæður fjölmargra
opinberra stofnana sem gegna því
lögbundna hlutverki að varðveita
menningu og sögu þjóðarinnar. Bent
var á að stjórnsýsla safna og menn-
ingarstofnana er dreifð og flókin og
sérhæfing mismunandi. Það kallar á
samræmd viðbrögð stjórnvalda og
aukna áherslu á samhenta stjórn-
sýslu í málaflokknum. Sameiginleg
sýn allra sem að málaflokknum koma
er þó að sjálfsögðu sú að tryggja
örugga og markvissa varðveislu
menningarminja, sem og gott að-
gengi til þekkingarsköpunar og þró-
unar. Safnastefna og ný heildar-
stefnumótun um málefni
menningararfs undirstrikar mikil-
vægi þessa. Verðug verkefni eru
framundan við innviðauppbyggingu á
fagsviðinu. Stjórnvöld hafa þegar
markað stefnu um úrbætur, sem birt-
ist í nýrri áætlun um ríkisfjármál, og
gefur fyrirheit um spennandi og sam-
hent átak á komandi árum. Í því sam-
hengi er þó full ástæða til að minna á
að margt hefur áunnist og mikil-
vægar ákvarðanir til úrbóta verið
teknar í safna- og varðveislumálum í
gegnum tíðina.
Þjóðminjasafn Íslands hefur í ára-
tugi beitt sér fyrir
öruggri varðveislu minja
og býr nú við kjör-
aðstæður til miðlunar og
varðveislu þjóðminja
eins og fram kom í þætti
Kveiks. Á þeirri ára-
tugalöngu vegferð urðu
á hinn bóginn ýmis áföll.
Þannig brunnu 18 bátar
í varðveislu Þjóðminja-
safnsins í apríl 1993 þeg-
ar kveikt var í báta-
geymslu safnsins en þar
skorti á brunavarnir og
annað eftirlit. Þá varð
hin friðaða Krýsuvíkurkirkja íkveikju
að bráð í ársbyrjun 2010, en hún var
ómetanlegur hluti af húsasafni Þjóð-
minjasafnsins sem í eru á sjöunda tug
húsa. Góðu heilli voru til góðar heim-
ildir um kirkjuna og uppmælingar af
henni en hún var byggð árið 1857. Á
grundvelli þeirra heimilda og hand-
verksþekkingar hafa kennarar og
iðnnemar Tækniskólans í Hafnarfirði
endurbyggt kirkjuna í samvinnu
Þjóðminjasafns Íslands og Vinafélags
Krýsuvíkurkirkju. Á dögunum var
svo endurgerðri kirkju komið aftur
fyrir á sínum stað réttum áratug eftir
brunann. Það er ánægjulegur áfangi
og árangur sem er ekki síst fólginn í
menntun fjölmargra iðnnema í við-
gerðum og endurgerð gamalla húsa
sem vonandi verða liðsmenn þjóð-
minjavörslunnar í framtíðinni.
Þjóðminjasafnið er höfuðsafn á
sviði menningarminja samkvæmt
skilgreiningu laga og er ætlað að vera
leiðandi á sínu sviði. Það hefur því
ríku lögbundnu hlutverki að gegna og
starfar náið með viðurkenndum söfn-
um um allt land um varðveislu menn-
ingarminja allt frá landnámi. Því
starfi lýkur þó í raun aldrei og stöð-
ugt þarf að vera á varðbergi því þekk-
ing og nýsköpun á þessu sviði er í sí-
felldri þróun. Á 150 ára afmæli
safnsins árið 2013 markaði mennta-
og menningarmálaráðherra stefnu
um að kjöraðstæður yrðu skapaðar til
varðveislu þjóðminja og safneignar
safnsins. Frá þeirri stefnu hefur ekki
verið hvikað. Ný Varðveislu- og rann-
sóknamiðstöð Þjóðminjasafns Ís-
lands var vígð 5. desember 2019. Með
þeim áfanga var brotið blað í þjóð-
minjavörslu og safnastarfi hér á
landi. Í Varðveislu- og rannsókna-
miðstöðinni eru þjóðminjar varð-
veittar við bestu aðstæður fyrir starf-
semi á sviði þjóðminjavörslu,
fjölbreyttur safnkostur muna og jarð-
fundinna forngripa. Með nýrri sér-
hannaðri aðstöðu varð gerbreyting á
varðveislu og aðgengi að safnkosti
Þjóðminjasafnsins til rannsókna,
menntunar og miðlunar. Fyrir þenn-
an áfanga hlaut
Þjóðminjasafn Íslands hin íslensku
safnaverðlaun 2020. Í umsögn dóm-
nefndar segir að „Varðveislu- og
rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns
Íslands í Hafnarfirði og Kópavogi
ásamt Handbók um varðveislu safn-
kosts sé mikilvægt framlag til minja-
verndar á landsvísu. Samstarf og
miðlun þekkingar er þýðingarmikið
og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð
hefur verið fyrir varðveislu ómetan-
legra minja er til fyrirmyndar og ís-
lensku safnastarfi til framdráttar.“
Flókið tæknirými er í hinu sérhæfða
öryggishúsnæði og búnaður sem ger-
ir kleift að stjórna raka- og hitastigi
fyrir hvern munaflokk. Flokkum er
skipað niður í rými þar sem hita og
raka er stjórnað eftir þörfum. Þær
eru mismunandi eftir því hvort munir
eru úr lífrænum efnum, jarðfundnir
munir úr málmum og þannig mætti
áfram telja. Í Þjóðminjasafninu er nú
aðstaða til að taka við, rannsaka og
varðveita það sem finnst við fornleifa-
rannsóknir. Samtímis hafa varð-
veislumálum safnkosts Ljósmynda-
safns Íslands í Þjóðminjasafni verið
tryggðar sérhæfðar aðstæður fyrir
varðveislu ljósmynda. Eftir mikið
starf og í kjölfar umfangsmikils und-
irbúnings hefur svo bátum og ýmsum
tækniminjum verið komið fyrir í fjar-
geymslu á Eyrarbakka í samstarfi við
Byggðasafn Árnesinga og er nú safn-
eignin í heild komin í örugga höfn.
Margir hafa lagt hönd á plóg og hefur
safneigninni verið komið vandlega
fyrir, m.a. við greiningu, skráningu,
flutning, pökkun, forvörslu og grisj-
un. Í þessu sem öðru þurfti að huga
að forgangsröðun og gaf hið yfir-
gripsmikla verkefni bæði tilefni og
tækifæri til þess að greina hismið frá
kjarnanum í samræmi við fag-
mennsku og sjálfbærni í safnastarfi.
Auk þess ber að geta stuðnings vel-
unnara og vina safnsins sem hafa lagt
málefninu lið og lyft grettistaki, m.a.
með tugmilljóna króna fjárstuðningi
til kaupa á búnaði og mikilvægri að-
stoð við framkvæmd flutninga.
Með þessum áfanga í sögu Þjóð-
minjasafnsins er til orðin aðstaða til
þess að styrkja samvinnu Þjóðminja-
safns og annarra varðveislu- og
menntastofnana. Hér er vettvangur
innra safnastarfs, en ekki síður að-
staða fyrir samstarfsaðila, sjálfstætt
starfandi aðila á fagsviðinu, fornleifa-
fræðinga, sem og aðra fræði- og vís-
indamenn, nemendur, kennara og
fagaðila almennt.
Varðveisla menningararfsins, bæði
áþreifanlegra minja og óáþreif-
anlegra heimilda um sögu þjóð-
arinnar, er grundvöllur þekkingar-
sköpunar og þar með undirstaða
vandaðrar miðlunar til almennings og
safngesta. Áhugaverðri og spennandi
miðlun er ætlað að efla menningar-
læsi og vekja fólk til umhugsunar um
líf fólks í fortíð og nútíð. Sá áfangi
sem hér er til umræðu felur í sér ný-
sköpun í safnastarfi og þjóðminja-
vörslu þar sem haldast í hendur
reynsla og nýstárlegar lausnir. Með
markvissu umbótastarfi hafa verið
stigin stór skref fram á við til að
tryggja að frumheimildir um mannlíf
hér á landi varðveitist og flytjist til
komandi kynslóða, bæði til rann-
sókna og betri miðlunar. Menningar-
arfurinn er ótæmandi brunnur sem
stöðugt má dýpka með rannsóknum
og nýrri þekkingu. Þar eru óþrjót-
andi tækifæri. Varðveislan snertir al-
mannahagsmuni og hefur gildi fyrir
mannlíf og samfélag okkar til lengri
tíma litið. Það er von okkar að fengin
reynsla hjá Þjóðminjasafni Íslands
geti orðið öðrum söfnum og stofn-
unum – sem og auðvitað sveit-
arfélögum landsins og ríkisvaldinu –
fyrirmynd og hvatning í því mikla
starfi sem brýnt er að ráðast í með
samhentu átaki. Það er verk að vinna
um allt land. Ábyrgðin – hvort
tveggja í þjóðlegu sem alþjóðlegu
samhengi – er okkar allra.
Þjóðminjar – ný
viðmið í varðveislu
Eftir Margréti
Hallgrímsdóttur
» Sameiginleg sýn
allra sem að mála-
flokknum koma er þó að
sjálfsögðu sú að tryggja
örugga og markvissa
varðveislu menningar-
minja.
Margrét
Hallgrímsdóttir
Höfundur er þjóðminjavörður.
Varðveisla Munir í vörslu Þjóðminjasafnsins eru vel varðveittir.
Gjörgæsludeild Landspítalans í
Fossvogi fagnar í dag, 24. október,
hálfrar aldar afmæli. Deildin er
fyrsta deild sinnar tegundar hér á
landi og var stofnuð árið 1970. Í dag
eru starfræktar þrjár gjörgæslu-
deildir á landinu, tvær á Landspítala
og ein á Sjúkrahúsinu á Akureyri
(SAk).
Fyrstu árin var talað um gjör-
gæsludeild Borgarspítalans en nafn-
inu hefur í gegnum árin verið breytt í
gjörgæsludeild Sjúkrahúss Reykja-
víkur við sameiningu Borgarspítala
og Landakotsspítala og nú síðast í
gjörgæsludeild Landspítala Háskóla-
sjúkrahúss í Fossvogi. Þrátt fyrir
nafnabreytingar er tilgangur deild-
arinnar ávallt sá sami en þar liggja
alvarlega veikir sjúklingar sem þurfa
á flókinni og sérhæfðri gjörgæslu-
meðferð að halda. Í gegnum árin hef-
ur þekkingu á gjörgæslumeðferð
fleygt fram og með tæknilegri
framþróun hefur geta okkar til að
framkvæma margvíslegar gjörgæslu-
meðferðir aukist til muna. Samhliða
þessu hefur þörfin fyrir gjörgæslu-
rými aukist í samræmi við aukinn
mannfjölda og mikinn fjölda ferða-
manna. Árlega leggjast um 700 sjúk-
lingar inn á deildina, bæði börn og
fullorðnir frá landinu öllu.
Gjörgæsludeildir Landspítalans
skipta með sér sérhæfingu verkefna
og á gjörgæsludeildinni í Fossvogi
liggja skjólstæðingar sem þurfa með-
ferð vegna alvarlegra fjöláverka eftir
slys, brunasára, höfuðáverka og ann-
arra heilaáfalla auk sjúklinga sem
gangast undir flóknar æða- og bækl-
unarskurðaðgerðir auk háls-, nef- og
eyrnaaðgerða. Einnig liggja á deild-
inni sjúklingar með alvarleg lungna-
vandamál, sýkingar og önnur alvar-
leg vandamál. Gjörgæsludeildinni
tilheyrir einnig vöknunardeild en þar
koma sjúklingar eftir skurðaðgerðir
til eftirlits eftir aðgerð. Þangað koma
mörg þúsund manns á öllum aldri á
hverju ári.
Frá því að deildin var stofnuð árið
1970 hafa orðið miklar framfarir í
hjúkrunar- og læknavísindum. Til
dæmis er öll skráning komin á raf-
rænt form og pappír heyrir að mestu
sögunni til. Hér áður fyrr voru allar
skráningar og fyrirmæli handskrifuð
á blöð sem fylgdu viðkomandi áfram í
gegnum sjúkrahúsleguna. Í dag er
tæknin þannig að öll skráning er raf-
ræn og má sem dæmi nefna að öll lífs-
mörk og upplýsingar frá tækjum
flytjast jafnóðum í sérstakt gjör-
gæsluskráningarkerfi. Þessi tækni
eykur öryggi sjúklinga og gerir allt
eftirlit markvissara. Á gjörgæslu-
deildinni liggja lífshættulega veikir
sjúklingar og ástand þeirra getur
breyst á hverri stundu. Því er þetta
stöðuga og nákvæma eftirlit mik-
ilvægt til að geta brugðist við sem
fyrst með viðeigandi meðferð. Með
aukinni tækni og þessum miklu fram-
förum í hjúkrunar- og læknisfræði
eykst krafan um aukna sérhæfingu
og þar með aukna menntun og þjálf-
un. Til að bregðast við þessum auknu
kröfum er í dag boðið upp á sérhæft
meistaranám í gjörgæsluhjúkrun við
Háskóla Íslands. Flestir hjúkrunar-
fræðingar deildarinnar hafa slíka sér-
hæfða framhaldsmenntun eða eru að
stunda slíkt nám. Á gjörgæsludeild-
inni fer einnig fram fyrri hluti sér-
náms deildarlækna í svæfinga- og
gjörgæslulækningum í umsjá sér-
fræðinga deildarinnar.
Á gjörgæsludeildinni starfa fjöl-
margar starfsstéttir sem vinna sam-
an í teymi við umönnun og meðferð
sjúklingsins. Á deildinni starfa hjúkr-
unarfræðingar, læknar, sjúkraliðar,
ritarar og sérhæfðir starfsmenn
ásamt því að deildin fær þjónustu frá
ýmsum stoðsviðum. Þar er meðal
annars um að ræða sjúkraþjálfara og
sjúkrahúspresta sem eru mikilvægur
hluti af starfseminni með daglegri
viðkomu á deildinni.
Þegar horft er til baka síðustu
fimmtíu árin kemur fyrst og fremst
upp í huga okkar þessar miklu fram-
farir í tækni og vísindum og það
hversu dýrmætur mannauðurinn og
reynslan á deildinni er. Það er ekki
hægt að minnast á 50 ára afmæli
gjörgæsludeildarinnar án þess að
nefna einn af okkar elstu og reynslu-
mestu hjúkrunarfræðingum en Anna
Vigdís Jónsdóttir er líklega einn
reynslumesti hjúkrunarfræðingur á
Íslandi sem enn er starfandi. Anna
Vigdís tók þátt í stofnun deildarinnar
árið 1970 og hefur með stuttum
hléum starfað á deildinni alla tíð síð-
an. Auk Önnu Vigdísar eru starfandi
á deildinni fleiri hjúkrunarfræðingar
með starfsaldur sem telst í mörgum
tugum. Það er einn helsti styrkleiki
deildarinnar að búa yfir svo mikilli
reynslu og þekkingu sem miðlað er
áfram til yngri kynslóða.
Covid-faraldurinn
Ekki er hægt að rita grein um
gjörgæsludeild og starfsemi hennar
án þess að minnast á yfirstandandi
heimsfaraldur Covid-19. Önnur eins
áskorun hefur ekki komið upp í öll
þau fimmtíu ár sem deildin hefur ver-
ið starfrækt. Í mars og apríl sl. komu
upp aðstæður þar sem bregðast
þurfti á miklum hraða við nýjum far-
aldri veiru sem enginn þekkti. Þá
kom vel í ljós sú mikla þekking og
reynsla sem býr í starfsfólki deild-
arinnar sem tókst á við þetta verkefni
af æðruleysi og með það að leiðarljósi
að gera sitt allra besta í meðhöndlun
á þessum óþekkta sjúkdómi. Árangur
gjörgæsludeildanna á Landspít-
alanum í baráttunni við Covid-19 hef-
ur vakið eftirtekt á heimsvísu og er
með því besta sem um getur í heim-
inum. Af því getum við öll verið stolt.
Í baráttunni við Covid-19 þrefald-
aðist rúmafjöldi gjörgæsludeild-
arinnar í Fossvogi á örfáum dögum
og starfsmannafjöldi jókst samhliða
um 35%. Að stækka gjörgæsludeild
sem þessu nemur getur aldrei gengið
án viðkomu allra aðila, má þar meðal
annars nefna iðnaðarmenn spítalans
og tæknimenn auk annarra stoð-
deilda. Þetta hefði ekki gengið nema
með samstilltu átaki, sveigjanleika og
samvinnu allra starfsmanna deild-
arinnar og þeirra sem komu til að að-
stoða okkur í þessum faraldri. Á tíma
sem þessum kom bersýnilega í ljós
hvað gjörgæsludeildin á marga vel-
unnara í þjóðfélaginu sem glöddu
okkur og studdu með gjöfum og góð-
um kveðjum á þessum erfiðu tímum í
starfseminni. Kunnum við öllum
þeim bestu þakkir sem stóðu með
okkur og tóku þátt í þessu stóra verk-
efni.
Við horfum bjartsýn til framtíðar
þegar gjörgæsludeildir Landspítala
verða sameinaðar á einn stað í nýjum
meðferðarkjarna á nýjum Landspít-
ala við Hringbraut. Það eru spenn-
andi tímar framundan með nýjum
áskorunum í nýju starfsumhverfi og
tökum við þeim fagnandi.
Til hamingju með daginn!
Gjörgæsludeild Landspítala í
Fossvogi – 50 ár í framlínunni
Eftir Ólöfu S. Sigurðardóttur,
Sigríði Árnu Gísladóttur og
Þóru Gunnlaugsdóttur
» Það er einn helsti
styrkleiki deildar-
innar að búa yfir svo mik-
illi reynslu og þekkingu
sem miðlað er áfram til
yngri kynslóða.
Ólöf Sveinbjörg
Sigurðardóttir
Ólöf er hjúkrunardeildarstjóri,
Sigríður er aðstoðardeildarstjóri
og Þóra er aðstoðardeildarstjóri,
allar á gjörgæsludeild Landspítala
í Fossvogi.
Sigríður Árna
Gísladóttir
Þóra
Gunnlaugsdóttir