Morgunblaðið - 24.10.2020, Qupperneq 44
44 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. OKTÓBER 2020
Pabbi Når er jeg gammel nok til å
skyte faren min? fjallar um ofbeldi.
AF BÓKMENNTUM
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Barna- og unglingabókmennta-verðlaun Norðurlandaráðsverða afhent í áttunda sinn
þriðjudaginn 27. október. Við sama
tækifæri verða einnig veitt verðlaun
fyrir bókmenntir, tónlist, kvik-
myndir og umhverfismál. Allir verð-
launahafar hljóta verðlaunagripinn
Norðurljós og 350 þúsund danskar
krónur, sem samsvara rúmum 7,7
milljónum íslenskra króna. Til stóð
að afhenda verðlaunin á Íslandi í ár í
tengslum við þing Norðurlandaráðs,
en kórónuveirufaraldurinn kom í
veg fyrir það. Í staðinn fer afhend-
ingin fram í sérstökum sjónvarps-
þætti sem sendur er út á Norður-
löndunum á þriðjudagskvöld, þar á
meðal á RÚV.
Alls eru fjórtán bækur á níu nor-
rænum tungumálum tilnefndar til
Barna- og unglingabókmenntaverð-
launa Norðurlandaráðs árið 2020.
Dómnefndir stóru málsvæðanna
fimm (Danmerkur, Finnlands,
Íslands, Noregs og Svíþjóðar) mega
hver um sig tilnefna tvö verk sem
komið hafa út á síðustu tveimur
árum. Dómnefndir minni málsvæð-
anna (Álandseyja, Færeyja, Græn-
lands og samíska tungumálasvæð-
isins) mega tilnefna eitt verk hver
sem út hafa komið á seinustu fjórum
árum. Þannig geta tilnefndu bæk-
urnar mest orðið fjórtán. Að þessu
sinni komu allar tilnefndu bæk-
urnar, nema ein, út á árinu 2019. Í
blaðinu á mánudag er fjallað um
framlag Álendinga, Dana, Fær-
eyinga, Grænlendinga og Íslend-
inga, en í dag er sjónum beint að
framlagi Finna, Norðmanna, Sama
og Svía. Rýnir las bækurnar á frum-
málinu nema annað sé tekið fram.
Fáar vellíðunarbækur í ár
Við lestur bókanna í ár vekur sér-
staka eftirtekt hversu fáar þeirra
mætti skilgreina sem vellíðunar-
bækur. Áberandi leiðarstef að þessu
sinni eru sorg, missir, einsemd, ótt-
inn við viðbrögð annarra, möguleik-
inn á útskúfun, óhugnaður og ofbeldi
í nánum samböndum. Báðar bæk-
urnar sem eru framlag Norðmanna
þetta árið fjalla um erfið málefni.
Ane Barmen beinir í unglingabók-
inni Draumar betyr ingenting
(Draumar hafa enga merkingu)
sjónum sínum að sorginni meðan
Åse Ombustvedt í Når er jeg gam-
mel nok til å skyte faren min? (Hve-
nær er ég nógu gamall til að skjóta
pabba minn?) skrifar um heimilis-
ofbeldi í ljóðaformi fyrir unglinga.
Ljúfsár reynsla unglings
Draumar betyr ingenting er
fyrsta bókin sem rýnir les á ný-
norsku, ritmálinu sem aðeins um
10% Norðmanna nota. Í þessari
frumraun Barmen segir af hinni 17
ára gömlu Louise,
sem í upphafi sum-
ars fær þær fréttir
að amma hennar sé
látin og snýr aftur í
heimabæ sinn.
Louise hafði ári
áður valið að flytja
burt þegar Tor-
mod, besti vinur
hennar og fyrsta
ástin, lést skyndilega í slysi.
Snemma bókar er ljóst að Louise er
skammt komin í úrvinnslu sinni á því
áfalli, enda er miklu auðveldara að
detta bara í það og beina huganum
að öðru en að tala um vanlíðan sína.
Óþjál samskipti við móður og eldri
systur hjálpa heldur ekki til. Þegar
Louise fær vinnu á dvalarheimili
kynnist hún Karen sem þar býr.
Karen man ekki lengur að besta og
nánasta vinkona hennar til margra
áratuga er dáin og reynir því reglu-
lega að hringja í hana, sem er tilfinn-
ing sem Louise þekkir alltof vel eftir
andlát Tormods. Hér er á ferðinni
ljúfsár skáldsaga sem miðlar sorgar-
ferli með mjög sannfærandi hætti.
Höfundur hefur einstaklega gott
innsæi í reynsluheim unglingsins
með tilheyrandi tilfinningaflækjum
og minnist rýnir þess ekki að hafa
áður lesið jafn trúverðuga frásögn af
fyrsta kossinum og meydómsmissi.
Reiður ungur piltur
Í ljóðabókinni Når er jeg gammel
nok til å skyte faren min?, sem skrif-
uð er á norsku bókmáli, dregur Åse
Ombustvedt upp skýra mynd af því
hvernig ofbeldi erfist milli kynslóða
sé ekkert að gert.
Ljóðmælandinn er
ungur drengur
sem elst upp við
þrúgandi ofríki og
líkamlegt ofbeldi
heimilisföðurins
meðan móðirin
þegir. Vanlíðan
sonarins birtist í
því að hann er
vinalaus, fámáll og einbeitingarlaus í
skólanum. Líkt og titill bókarinnar
ber með sér bíður hann þess eins að
verða nógu gamall og sterkur til að
geta lagt föður sinn að velli. Þetta er
sársaukafull bók þar sem myndlýs-
ingar Skinkeape, sem er listamanns-
nafn Marianne Gretteberg Engedal,
bæta miklu við. Myndirnar eru
ýmist fíngerðar teikningar þar sem
ljóðmælandinn sést í samskiptum
við aðra eða krassmyndir sem
endurspegla vanlíðan drengsins vel.
Í klóm norðurljósanna
Myndabókin Guovssu guovs-
sahasat (Norðurljósin hans
Guovssu) eftir Karen Anne Buljo er
framlag Sama í ár. Rýnir las bókina
á norsku bókmáli í þýðingu höf-
undar, en þetta er annað árið í röð
sem bók eftir Buljo er tilnefnd. Að
þessu sinni vinnur hún með samísku
þjóðsöguna af því hvernig norður-
ljósin fengu lit sinn. Það er ekki síst
áhugavert fyrir Íslendinga að fá inn-
sýn í viðhorf Sama til norðurljós-
anna, sem í þeirra huga eru hættu-
leg enda fanga
þau þrjú ung
systkini í við-
leitni til að öðl-
ast lit. Eina leið-
in fyrir börnin
til að losna úr
klóm norður-
ljósanna er að
losa sig við silf-
urverndargripi
sína og silkislæður sem eru í græn-
um, bláum og gulum lit. Framvindan
er æsispennandi, en allt fer þó að
lokum vel. Myndlýsingar Ingu-
Wiktoriu Påve bjóða upp á tjáning-
arrík andlit og kröftuga liti sem kall-
ast vel á við textann.
Vandmeðfarið umfjöllunarefni
Finnar tilnefna tvær myndabæk-
ur þetta árið. Annars vegar Vi är
Lajon! (Við erum læón!) eftir Jens
Mattsson sem skrifuð er á sænsku
og er frumraun höfundar. Og hins
vegar Sorsa Aaltonen ja lentämisen
oireet (Aaltonen önd og flug-
einkennin) eftir Veeru Salmi sem
skrifuð er á finnsku og rýnir las í
sænskri þýðingu Janinu Orlov.
Frásögnin í Vi är Lajon! er lögð í
munn ungum dreng sem horfir upp á
eldri bróður sinn veikjast alvarlega
af krabbameini með tilheyrandi spít-
alavist. Óljóst er í bókarlok hvort
hann lifir
veikindin af,
sem gefur
foreldrum
tækifæri til
að ræða
þessi erfiðu
mál við börn
sín. Í upp-
hafi bókar, áður en veikindanna
verður vart, sjáum við bræðurna
niðursokkna í uppáhaldsleik sinn
sem gengur út á að þeir ímynda sér
að þeir séu ljón að veiða sér til matar
á sléttunni.
Myndhöfundurinn Jenny Luc-
ander, sem tvisvar áður hefur verið
tilnefnd til verðlaunanna fyrir
myndir sínar, velur bókinni lita-
pallettu sem kallast sterklega á við
sléttuna þar sem heitir, appelsínu-
gulir og fjólubláir litatónar eru
ríkjandi. Sömu litir eru áberandi í
raunheimum bókarinnar, sem undir-
strikar líflegt ímyndunarafl bræðr-
anna. Myndirnar bera stóran hluta
sögunnar áfram og miðla tilfinn-
ingum persóna með áhrifaríkum
hætti á sama tíma og textinn á
hverri opnu er fremur sparsamur.
Litadýrðin gleður augað, en ýmis
smáatriði í myndunum fá lesendur
til að staldra við og íhuga sorgina og
drungann sem undir leikgleðinni
leynist. Vi är Lajon! er bæði falleg
og vönduð bók sem beinir sjónum að
vandmeðförnu umfjöllunarefni.
Ég er eins og ég er
Sorsa Aaltonen ja lentämisen
oireet fjallar um hugrekkið sem þarf
til að yfirvinna ótta sinn, þora að
vera maður sjálfur og stökkva út í
djúpu laugina sem stundum er eina
leiðin til að öðlast þroska. Söguhetj-
an er öndin Aaltonen sem dreymir
bæði um að fljúga og dansa frjáls, en
þorir það ekki. Á sunnudögum laum-
ast hann niður að vatninu til að fylgj-
ast með svönunum dansa og klæðir
sig þá í heimatilbúinn svanskjól sem
hann hefur
saumað sér
úr eldhús-
gardínum og
líkist helst
ballettpilsi úr
tjulli. Eftir
hughreyst-
andi orð
læknis vakn-
ar Aaltonen
við það að hafa flogið í svefni. Ham-
ingja hans leynir sér ekki gagnvart
hinum fuglunum og brátt fær Aalto-
nen hugrekki til að dansa sjálfur. Þá
tekur hann eftir annarri önd sem
feimin fylgist með honum í laumi og
brátt breytist sólóið í dúett.
Myndlýsingar Mattis Pikkujämsä
eru naívar og sprúðlandi fallegar í
litagleði sinni. Afar fínlega er unnið
með samkynhneigð aðalpersón-
unnar og henni aðeins miðlað með
myndum en ekki orðum. Þannig
finnur Aaltonen hamingjuna með
annarri karlkyns önd og saman
fljúga þeir á vit frelsisins í suðri.
Réttindi geta glatast aftur
Samkynhneigð er einnig til um-
fjöllunar í sænsku heimildaskáld-
sögunni Hästpojkarna (Hesta-
strákarnir) eftir Johan Ehn sem
ætluð er unglingum. Höfundur
tvinnar saman tvær sögur sem ger-
ast á ólíkum tímaskeiðum. Í nútím-
anum kynnumst við Anton, 19 ára
Stokkhólmsstrák, sem er ástfanginn
upp fyrir haus af Peter, notar mest-
allan frítímann til að fara á hestbak
og er nýbyrjaður að vinna við heima-
hlynningu aldraðra. Einn skjólstæð-
inga hans er hinn 98 ára gamli Alex-
ander Kovac, sem er lítið fyrir að tjá
sig við starfsfólk heimahlynningar-
innar og þykir afar sérvitur.
Hin saga bókarinnar miðlar upp-
vexti og lífi þeirra Alexanders og
Janeks. Lesendur hitta þá fyrst fyr-
ir í Prag 1926 þar sem þeir, aðeins
tíu ára gamlir, sýna jafnvægislistir á
hestbaki en þeir eru sérstaklega
þjálfaðir í fimleikum á munaðarleys-
ingjahælinu þar sem þeir hafa búið
frá unga aldri. Alexander hefur tekið
Janek undir sinn verndarvæng, þar
sem sá síðarnefndi er bæði feiminn
og sérvitur. Þegar þeir komast að
því að til stendur að stía þeim sund-
ur með því að
ættleiða Alex-
ander burt velja
piltarnir að flýja
hælið. Stuttu síð-
ar ganga þeir til
liðs við sirkus og
sýna vítt og
breitt um Evrópu
næstu sex árin
eða þar til þeir setjast að í Berlín
1932. Þegar þar er komið sögu hafa
Alexander og Janek gert sér grein
fyrir að ást þeirra hvors á öðrum er
ekki aðeins platónsk.
Til að byrja með njóta þeir þess í
Berlín að þurfa ekki lengur að fara
leynt með tilfinningar sínar og kynn-
ast öðru samkynhneigðu og trans
fólki í næturklúbbnum Eldorado. En
fljótlega eftir að Adolf Hitler kemst
til valda fara óvinveittir vindar að
blása. Janek reynir að vinna gegn
hinum myrku öflum, því eins og
hann segir við Alexander: „Ef við
mótmælum ekki fáum við aldrei aft-
ur fyrra frelsi.“ Í nútímanum verður
Anton sjálfur vitni að vaxandi
hægriöfgastefnu í Svíþjóð.
Hästpojkarna er þétt og vel skrif-
uð skáldsaga sem stillir upp hlið-
stæðum ólíkra tímabila í sögunni.
Höfundur byggir verk sitt greini-
lega á mikilli og góðri rannsóknar-
vinnu sem skilar sér í vönduðu verki
sem óhætt er að mæla með.
Sálfræðitryllir í sumarfríi
Hin bókin sem Svíar tilnefna er
unglingabókin Trettonde sommaren
(Þrettánda sumarið) eftir Gabriellu
Sköldenberg, sem jafnframt er eina
tilnefnda verkið í ár sem út kom
2018 en ekki 2019. Hér er um hrein-
ræktaðan
sálfræðitrylli að
ræða þar sem
ofbeldi í nánum
samskiptum og
stjórnsemi hefur
banvænar afleið-
ingar. Systradæt-
urnar Angelica
og Sandra hafa
árum saman eytt sumarfríinu hjá afa
sínum meðan mæður þeirra eru
bundnar í vinnu.
Angelica, sem segir söguna, er ró-
leg og hlýðin. Hún hefur ávallt litið
upp til hinnar óstýrilátu Söndru,
sem er ári eldri, og þráð viðurkenn-
ingu hennar. Sumarið sem Angelica
verður 13 ára hefur eitthvað breyst
því Sandra býr nú yfir óþægilegri
rósemd á yfirborðinu en notar hvert
tækifæri til að gaslýsa Angelicu og
fá hana til að efast um eigin upplif-
anir á því ofbeldi sem hún verður
fyrir af hendi frænku sinnar. Fram-
vindan er bæði óhugnanleg og ein-
staklega vel undirbyggð af hendi
höfundar og ber þess ekki merki að
hér sé um frumraun að ræða.
Ofbeldi, einsemd, ótti og sorg
Fyrri kynningin á tilnefndum bókum til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020
Ljón Bræðurnir í finnsku bókinni Vi är Lajon! ímynda sér að sjúklingarnir á spítalanum séu bráð þeirra á sléttunni.
Frelsi Öndin Aaltonen, sem glímir við flughræðslu, finnur loks hamingjuna
með annarri karlkyns önd og saman fljúga þeir á vit frelsisins í suðri.