Morgunblaðið - 17.11.2020, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 17.11.2020, Blaðsíða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 17. NÓVEMBER 2020 Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þessi viðurkenning vegur mjög þungt, enda einn mesti heiður sem Íslendingi getur hlotnast,“ segir Gerður Kristný sem í gær, á degi íslenskrar tungu, hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Í samtali við Morgunblaðið segir hún viður- kenninguna hafa komið sér ánægju- lega á óvart og tekur fram að gaman sé að bætast í hóp þeirra sem hlotið hafa verðlaunin frá því þau voru fyrst veitt Vilborgu Dagbjartsdóttur 1996 þegar 189 ár voru liðin frá fæð- ingu Jónasar. Aðspurð segir Gerður Kristný að ljóð Jónasar hafi fylgt sér síðan í barnaskóla þegar hún lærði ljóðið „Ísland“, sem prentað var í Skóla- ljóðunum, utan að og þuldi kvæðið upp í heild sinni þar sem hún stóð fyrir aftan stólinn sinn. „Ég er svo heppin að vera af þeirri kynslóð þar sem börn voru látin læra ljóð utan að og flytja fyrir bekkinn.“ Gerður Kristný rifjar upp að löngu síðar hafi hún fengið tækifæri til að dvelja nokkur sumur viku í senn á Hrauni í Öxnadal ásamt eig- inmanni og sonum. „Það var ævin- týri líkast að horfa á tindana frægu meðan ég vaskaði upp,“ segir Gerð- ur Kristný sem nýtti annars tímann á Hrauni til að skrifa og orti þar meðal annars ljóð um Öxnadal sem birtist í Ströndum og ljóð um Jónas sem birtist í Höggstað og sjá má hér til hliðar. „Ég naut ríkulega inn- blástursins sem hlýst af því að dvelja á æskustöðvum Jónasar,“ segir Gerður Kristný og rifjar upp að í húsinu á Hrauni hafi nýyrðunum sem Jónas átti heiðurinn af verið gert hátt undir höfði. Þar gat til dæmis að líta orðin himingeimur, baksund og mörgæs. Gerður Kristný undirstrikar að enginn þurfi að vera með gilt skáldaskírteini til að mega leika sér með tungumálið. Þar megi allir vera með. Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar dags íslenskrar tungu, sem í sátu Ingunn Ásdísardóttir sem var for- maður, Haukur Ingvarsson og Katrín Olga Jóhannesdóttir, segir að við veitingu verðlaunanna að þessu sinni hafi verið tekið mið af fjölhæfni verðlaunahafans. Bent er á að Gerður Kristný hafi skrifað fjölda bóka fyrir bæði börn og fullorðna, verk hennar hafa verið sett upp á leiksviði, ljóð hennar sungin auk þess sem hún hefur haldið fjölmarg- ar ritsmiðjur fyrir börn. Orðin bendi að endingu á það sem er satt og rétt „Rödd Gerðar Kristnýjar er mikil- væg í íslensku samfélagi ekki aðeins vegna þess hvernig hún segir hlutina heldur líka vegna alls þess sem hún hefur að segja,“ segir í rökstuðn- ingnum og sérstaklega á það minnt að Gerður Kristný hafi gegnum tíð- ina gefið þolendum kynferðisofbeld- is rödd. Þannig hafi hún í samtím- anum gefið þolendum færi á að segja sögur sínar á síðum Mannlífs sem Gerður Kristný ritstýrði og bókinni Myndinni af pabba – Sögu Thelmu, en í skáldskapnum megi horfa til ljóðabókarinnar Blóðhófnis. „Mér þykir mjög vænt um þessa umsögn, enda er skýr þráður á milli Myndarinnar af pabba og Blóðhófnis og síðan Drápu og Sálumessu. Tungumálið er oft notað sem kúg- unartæki. Þeir sem ekki hafa aðgang að réttu orðunum verða þá undir. Ég vil berjast gegn þessari skuggahlið tungumálsins og trúi því að orðin bendi að endingu á það sem er satt og rétt; sársauka og þjáningu en líka fegurð og reisn.“ Spurð nánar um fjölbreytnina í höfundarverki hennar segir Gerður Kristný að blaðamennskan hafi kennt sér að víla aldrei fyrir sér að taka að sér spennandi og skemmti- leg verkefni. En auk þess að skrifa bækur fyrir ólíka aldurshópa hefur Gerður Kristný fengist við þýðingar og skrifað greinar um íslenskar bók- menntir fyrir bókablað norska dag- blaðsins Klassekampen. Alltaf jafn vandasamt að orða hugsun sína „Það er ótrúlega skemmtilegt að skrifa fyrir börn. Þar fæ ég útrás fyrir húmor og vitleysisgang sem passa ekki inn í þunga ljóðabálka. Hvorki Iðunn né afi pönk áttu heima í Drápu – sem betur fer fyrir alla aðila. Við búum í mjög skapandi þjóðfélagi,“ segir Gerður Kristný og rifjar upp að hún hafi sem unglingur klippt ljóð eftir Ísak Harðarson út úr Þjóðviljanum sem barst inn á æskuheimilið um helgar og ljóða- bækur Vilborgar Dagbjartsdóttur og Ingibjargar Haraldsdóttur ávallt verið í seilingarfjarlægð uppi í bóka- hillu. Sjálf segist Gerður Kristný sem höfundur vera afsprengi blóm- legrar barnabókaútgáfu hérlendis síðustu áratugi enda hafi hún lesið mikið af góðum barnabókum í æsku. „Öll börn sem lesa góða bók seilast eftir annarri góðri bók. Á undan- förnum árum höfum við fengið fjöldann allan af nýjum og metn- aðarfullum rithöfundum inn í fagið sem sinnt geta starfi sínu vegna þess að barnabókabransinn var sterkur fyrir,“ segir Gerður Kristný og tek- ur fram að hún bíði spennt eftir næstu kynslóð, enda hafi hún í rit- smiðjunum kynnst mörgum hæfi- leikaríkum krökkum sem skrifi bæði af einlægni og hugmyndaauðgi. Aðspurð segist Gerður Kristný þegar byrjuð á næstu bók og tekur fram að glíman við orðið verði ekk- ert auðveldari með aldrinum eða fleiri viðurkenningum. „Það er alltaf jafn vandasamt að orða hugsun sína, en glíman við orðið er einmitt það sem er áhugavert við starfið,“ segir Gerður Kristný og bætir við að hún finni til mikillar ábyrgðar að skrifa á tungumáli sem aðeins 340 þúsund manns noti dagsdaglega. „Þetta er ábyrgð, en ótrúlega skemmtileg ábyrgð.“ Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Viðurkenning sem vegur þungt  Gerður Kristný hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu  „Mesti heiður sem Íslendingi getur hlotnast“  Skáldið berst gegn því að tungumálið sé notað sem kúgunartæki Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hlaut í gær, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, sérstaka viður- kenningu fyrir störf í þágu íslensks máls. Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar viðurkenningarinnar kemur fram að Félag ljóðaunnenda á Austur- landi hafi starfað í á þriðja áratug. „Það hefur vakið verðskuldaða athygli á skáldum og skáldskap landsfjórðungsins með vönduðu útgáfustarfi. Í því sambandi má nefna sýnisbókina Raddir að austan (1999) sem hefur að geyma ljóð eftir 122 þálifandi skáld og rit- röðina Austfirsk ljóðskáld sem hóf göngu sína í upphafi nýrrar aldar en í henni hefur komið út a.m.k. ein ljóðabók á ári síðan. Nú fyrir skömmu gaf félagið út Hugurinn einatt hleypur minn þar sem er birtur og rakinn kveðskapur og æviferill Guðnýjar Árnadóttur, Skáld-Guðnýjar, 1813-1897, en hún var fátæk húskona og ljósmóðir á Fljótsdalshéraði og í Lóni um sína daga. Félag ljóðaunnenda á Austur- landi hefur með félagsstarfi sínu hlúð að grasrótinni í íslenskum skáldskap, aukið við flóru íslenskra góðskálda og haldið í heiðri minn- ingu eldri skálda sem nú eru geng- in. Félag ljóðaunnenda hefur sýnt að á Austurlandi er ekki aðeins, eyja- val, eins og Jónas Hallgrímsson orti, heldur líka skáldaval. Af þeim sökum fær Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sérstaka viðurkenn- ingu fyrir störf í þágu íslensks máls á fæðingardegi Jónasar Hallgríms- sonar,“ segir í rökstuðningnum. Ekki aðeins eyjaval heldur líka skáldaval  Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hlaut í gær sérstaka viðurkenningu Morgunblaðið/Sigurður Bogi Stjóri Magnús Stefánsson, formaður Félags ljóðaunnenda á Austurlandi. Útidyrnar opnast inn í hús þar sem þoka leikur um þrepin og tunglskinið strengist milli veggja Nóttin er þungstíg í þessu húsi reikul í spori en ratar samt heim Bara að nú verði ekki sungið, hugsar fólkið í húsinu og festir aftur blund Í dögun hrekkur það upp við hrafna á þaki þeir teygja sig eins og tindar upp í himininn JónasÁbyrgð „Þetta er ábyrgð, en ótrúlega skemmtileg ábyrgð,“ segir Gerður Kristný um það að skrifa á tungumáli sem aðeins 340 þúsund manns noti dagsdaglega.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.