Morgunblaðið - 28.11.2020, Side 48
48 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. NÓVEMBER 2020
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Ég fékk þessa hugmynd fyrir fjórum árum,
að skrifa skáldsögu um eina af þeim átján kon-
um sem var drekkt í Drekkingarhyl á Þing-
völlum. Þeirra á meðal var Þórdís Halldórs-
dóttir, sem ég gef mér að hafi verið 27 ára,
þegar henni var drekkt fyrir að eignast barn
með mági sínum,“ segir Þóra Karítas Árna-
dóttir, höfundur nýrrar skáldsögu sem heitir
Blóðberg og segir frá hinni skagfirsku Þórdísi,
fyrstu konunni sem sett var í strigapoka og
haldið niðri með broddstaf böðuls í hylnum í
upphafi sautjándu aldar.
„Ég lagðist í mikið grúsk og heimildarvinnu
um Þórdísarmálið, eins og það var um tíma
kallað, og þótti áhugavert hve málaferlin stóðu
lengi eða í um áratug. Eftir að ég var byrjuð að
skrifa bókina komst ég að því að ýmsar frá-
sagnir og tvær skáldsögur höfðu verið skrif-
aðar áður um málið, annars vegar Jómfrú Þór-
dís eftir Jón Björnsson og hins vegar Maríu-
messa eftir Ragnar Arnalds, en engar af
þessum sögum eru eins og því fannst mér efnið
eiga rétt á sér. Upphafssenan í bókinni Blóð-
bergi er dauðaganga Þórdísar en sagan er
skrifuð í fyrstu persónu út frá sjónarhorni
Þórdísar og við fáum að heyra hennar útgáfu
af sögunni og hvað það var sem leiddi hana á
þennan stað, þannig að úr verður nokkurs kon-
ar málsvörn.“
Konur eru enn grýttar í hel
Þegar Þóra Karítas er spurð hvers vegna
hún vildi draga Þórdísi upp úr hylnum og fram
í dagsljósið eftir rúm fjögur hundruð ár segist
hún hafa viljað gefa Drekkingarhylskonum
rödd, þeim sem ekki gátu sagt sínar sögur
sjálfar.
„Það má lesa ótrúlega mikið í þögn Þórdísar
en hún sver eið um að hún sé hrein mey og vill
svo ekki segja til föður barnsins sem fæðist
henni fimm mánuðum síðar. Við höfum fengið
að sjá það skýrt undanfarið hve margt hefur
fengið að lifa í þögninni og hve margt hefur
verið þaggað. Mikið hugrekki þarf til að rjúfa
þagnarmúra og undanfarin ár hafa margar
sögur komið fram í dagsljósið sem hafa áður
lúrt í skugganum. Þannig get ég rétt ímyndað
mér að ekki hafi allt fengið að koma fram í
dagsljósið sem tengdist Þórdísarmálinu.
Stundum er talað um að þetta hafi verið myrk-
ar miðaldir, en það eru hræringar og atburðir
á öllum tímum í heiminum. Konur eru enn
grýttar í hel fyrir hórdóm með svokölluðum
sæmdarmorðum og enn er dauðarefsingar að
finna í Bandaríkjunum. Fyrir vikið er saga
Þórdísar sem ég segi ekki endilega einvörð-
ungu síðmiðaldasaga.“
Þóra Karítas segir að sér finnist áhugavert
að bera saman fyrirbærið skömm á sautjándu
öld og í nútímanum. „Fólk getur skammast sín
í dag fyrir allt og ekkert í einkalífinu en haldið
svo bara áfram með lífið, en á þeim tíma sem
Þórdís var uppi gátu afleiðingarnar verið
gríðarlegar og skömmin ef til vill ekki eins
yfirstíganleg. Forboðnar ástir á þeim tíma
gátu verið dauðasök. Ef einhver eignaðist barn
utan hjónabands, sem þá var kallað að eignast
lausaleiksbarn, þá rann sektin til konungs en
við þriðja lausaleiksbarn var viðkomandi tek-
inn af lífi. Þannig voru lögin. Hugsa sér fárán-
leikann að taka fólk af lífi fyrir að búa til líf.
Rétt eins og í dag eignuðust margir þrátt fyrir
lögin börn utan hjónabands á þessum tíma og
það var ekki alltaf tiltökumál. Til dæmis er
áhugavert að skoða forréttindastéttirnar í því
ljósi. Guðbrandur biskup, sem var samtíma-
maður Þórdísar og einn af þeim sem létu sig
mál hennar varða, eignaðist lausaleiksbarn
þegar hann var nýtekinn við biskupsembætti,
og það barn varð augasteinn hans, hún Stein-
unn,“ segir Þóra Karítas og bætir við að hún sé
komin af þessu lausaleiksbarni Guðbrands.
„Ég er mjög þakklát fyrir að það barn varð til í
trássi við ríkjandi lög, annars væru mörg okk-
ar hér ekki til.“
Tókust á við sömu tilfinningar
Þóra Karítas segir að sér hafi fundist for-
vitnilegt að skoða hvernig það var að vera
kona á þeim tíma sem Þórdís lifði.
„Þær voru með þröngt afmarkað hlutverk
og engan farveg til að tjá sig um það sem
bærðist í brjóstinu. Konur höfðu ekki heldur
möguleika til að mennta sig og sinna hugðar-
efnum sínum, strákunum stóð það einungis til
boða,“ segir Þóra Karítas. Tilfinningalega
þurftu konur fyrri tíma að takast á við margt
af því sem við nútímakonur þekkjum, en draga
má þá ályktun í bókinni að systir Þórdísar,
Bergljót, glími við fæðingarþunglyndi.
„Í sögunni fær Bergljót ekki að giftast
manninum sem hún vildi, af því að faðir hennar
ákvað annað. Hún gengur í hjónaband og eign-
ast börn með manni sem hún er ekki ham-
ingjusöm með, elskar ef til vill annan úr fjar-
lægð og uppsker þunglyndi í þeim aðstæðum
sem hún býr við. Tómas maður hennar á erfitt
uppdráttar í hjónabandinu en samferðafólk
Þórdísar finnst mér mjög áhugaverðar persón-
ur sem ég hef haft gaman af að glíma við að
spinna sögu út frá.“
Þórdís fær að upplifa fegurð í ást
Þóra Karítas segir að sér hafi fundist gaman
að hugsa Þórdísi ekkert langt frá sjálfri sér.
„Rétt eins og ég hef fengið að upplifa í gegn-
um tíðina ást og ástarsorg, barneignir og
fleira. Ég vel í þessari sögu að gefa Þórdísi
æskuást og að fá að upplifa fegurð í ást. Verk-
efni mitt var að lesandinn gæti horfið inn í sög-
una, en um leið vildi ég gæða Þórdísi lífi. Þetta
er saga um manneskju sem er tekin ung af lífi
og mér finnst mikilvægt að okkur standi ekki á
sama um hana. Við teljum okkur oft trú um að
það hafi orðið svo mikil framþróun, en stönd-
um því miður í miðjum heimsfaraldri núna á
viðsjárverðum loftslagsvártímum frammi fyrir
skuggafaraldri, sem er heimilisofbeldi,“ segir
Þóra og tekur fram að sögunni hennar sé ekki
ætlað að vera bölsýni, en sögupersónan Þórdís
dregur þá ályktun að ljós og skuggar skiptist á
og lifi hvort meðfram öðru á þeim tíma sem
hún lifir og líklega gildir það á öllum tímum.
Heyrði fyrir sér veinin í konunum
Þóra Karítas segist hafa heyrt frá konu sem
hafði selt sumarbústað sinn sem hún átti á
Þingvöllum því hún fann svo áþreifanlega fyrir
konunum sem þar var drekkt.
„Hún sagðist ekki hafa fundið frið á staðn-
um og heyrði alltaf fyrir sér veinin í þeim.
Þessi aftökusaga sem átti sér stað á Þingvöll-
um er síður en svo gleymd. Um svipað leyti og
ég hóf mitt rannsóknarferli mætti ótrúlegur
mannfjöldi á fyrirlestur um aftökustaðina á
Þingvöllum. Þá áttaði ég mig á áhuga þjóðar-
innar á þessum málum. Þetta er hluti af sög-
unni okkar en við stöndum vanmáttug gagn-
vart þessum skelfilega hluta hennar, tíma sem
eins og Bubbi orðar svo vel í lagatexta sínum
Öll þessi andlit af plötunni Átján konur: „Kon-
um sem áttu sér enga vörn. Var drekkt fyrir
það eitt að eignast börn.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þóra Karítas Hún segir að sér hafi fundist gaman að hugsa Þórdísi ekkert langt frá sjálfri sér.
Dregur Þórdísi upp úr Drekkingarhyl
„Ég vil gefa þessum konum rödd, þeim sem ekki gátu sagt sínar sögur sjálfar,“ segir Þóra Karítas
um bók sína Blóðberg Þar setur hún sig í spor fyrstu konunnar sem var drekkt á Þingvöllum
... stærsti uppskriftarvefur landsins!
Vídeódanslistahátíðin Boreal er
haldin í Mjólkurbúðinni á Ak-
ureyri þessa dagana. Vegna
samkomubannsins þurfti að finna
lausn með vörpun verkanna til að
halda hátíðina með tilliti til sótt-
varnaráðstafana. Í tilkynningu
segir að það hafi gengið vel og
stendur hátíðin fram á sunnudag.
Verkin á hátíðinni eru eftir
fjölda listamanna víða að en flestir
eru þó frá Íslandi og Mexíkó og
má þar nefna Helenu Jónsdóttur,
Freyu Olafson, Rakel Jónsdóttur,
Ximena Monroy og Alfredo Sal-
omon.
Þetta er í fyrsta sinn sem Boreal
er haldin. Verkefnastjóri og skipu-
leggjandi er Yuliana Palacios,
nútímadansari og danshöfundur
frá Mexíkóborg, sem hefur verið
búsett á Íslandi um nokkurra ára
skeið. Helstu dansverk Yuliönu
hér á landi eru Never Pink (2017),
Dalalæða (2018) og performance03
(2018) sem öll voru frumflutt í
Hofi á Akureyri og Press Deep
(2019) sem var flutt í Ketilhúsi
Listasafnsins.
Vídeódanslistahátíð á Akureyri
Handan við Úr verkinu Fyrir ofan | Handan
við | Úti eftir Freyu Björgu Olafson.
Menntaskóli í tónlist býður til kammertónleika klass-
ískrar deildar í dag, laugar
dag, kl. 14. Að sögn skipuleggjenda er efnisskráin fjöl-
breytt og áhugaverð, en á tónleikunum verða meðal ann-
ars leikin píanótríó eftir Ludwig van Beethoven, Felix
Mendelssohn og Johannes Brahms og píanókvintett eftir
Dímítríj Sjostakovitsj.
„Menntaskóli í tónlist stendur fyrir kammertónleika-
röð á hverju starfsári, en samspil og samvinna nemenda
er stór þáttur í skólastarfinu. Skólinn stendur alla jafna
fyrir 60-70 opinberum tónleikum á hverju skólaári víðs-
vegar um borgina en nú í ár hefur skólinn farið þá leið
að streyma tónleikum,“ segir í tilkynningu. Tónleikum dagsins er streymt
á slóðinni: https://youtu.be/HxljgI_SvCA.
Kammertónleikar klassískrar deildar
Ludwig van
Beethoven