Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.11.2020, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.11.2020, Blaðsíða 10
stæður inni á heimilinu en fái líka hjálp alls staðar annars staðar; í skólanum, heilbrigðis- kerfinu eða hvar sem það er statt. Þetta er það sem við sem samfélag þurfum að gera. Börn og fjölskyldur þeirra eiga ekki að þurfa passa í box hinna mismunandi kerfa og bíða eftir að vandinn verði nægilega stór til að fá hjálp. Ég hef trú á því að ef við náum að byggja upp seiglu hjá börnum með því að styðja þau þá taki barnið rétta stefnu þegar það eldist og stendur á gatnamótum í lífi sínu. Við getum gert þetta sem samfélag. Koma með þjón- ustuna til barna og fjölskyldna en ekki öfugt. Staðan er sú að við erum með ótal börn hér á landi sem ganga um með stein í maganum af einhverjum ástæðum. Við þurfum að losa þau við þessa steina,“segir Ásmundur. Opnaði sparibaukinn til að kaupa jólaöl Eitt af því er að veita öllum börnum jafna möguleika á að stunda íþróttir og taka þátt í frístundum. Nokkuð sem Ásmundur gat ekki í þeim mæli sem hann langaði vegna fjárhags- stöðunnar á heimilinu. „En ég vissi að ég gat ekki farið í þær tómstundir sem mig langaði því það kostaði of mikið. Samt reyndi mamma eins og hún gat en aðstæðurnar voru þannig að það var ekki hægt og eftir ákveðinn tíma hætti maður að biðja um það.“ Þrátt fyrir að Ásmundur ítreki að lífið hafi ekki alltaf verið hræðilegt hefur hann upplifað fátækt á eigin skinni og ein af minningum hans úr barnæsku er að hafa opnað sparibaukinn til þess að geta keypt malt og appelsín um jólin. Að hafa grátið yfir því að geta ekki tekið þátt í íþróttaæfingum með félögum sínum vegna þess að æfingagjöld, íþróttabúnaður eða annar kostnaður var of stór biti fyrir heimilið. Kvíðahnútur sem bara stækkaði og stækkaði Engin samskipti voru á milli foreldra Ásmund- ar og þrátt fyrir að hann hafi verið mikið hjá föður sínum eftir skilnað foreldranna var aldr- ei rætt um það hvernig lífið var hjá móður hans. „Þegar ég fór að eldast fór ég að finna fyrir steininum. Kvíðahnútnum innra með mér sem bara stækkaði og stækkaði. Ég var oft með stein í maganum og ég vissi aldrei al- mennilega hvað þetta var. Enda var ekki til siðs í mínu umhverfi að tala um tilfinningar þannig að ég þagði. Út á við var ég kátur og lífsglaður en innra með mér þyngdist steinn- inn hægt og rólega. Alltaf þegar ég fór í sveit- ina hvarf steinninn, en bara tímabundið. Þessi festa og utanumhald sem þar var gerði mér gott. Samt sem áður talaði ég ekkert um mömmu eða lífið heima hjá henni í sveitinni. Ég skipti lífinu upp í þrjú hólf: Sveitina, heima hjá mömmu og myndina sem ég sýndi út á við.“ Þegar Ásmundur og móðir hans fluttu til Noregs var það hans ákvörðun að fylgja móður sinni út. Það þýddi að öryggið um helgar og í fríum hvarf. Á sama tíma jókst áfengisnotkun móður hans og geðheilsa hennar tók meiri sveiflur. „Við vorum húsnæðislaus fyrst eftir komuna til Noregs og bjuggum í hjólhýsi fyrstu mán- uðina. Síðan fékk mamma vinnu og við íbúð til að búa í. Mamma var dugleg í vinnu en drakk mikið um helgar. Hún kynntist fljótt manni sem var vondur maður og beitti hana ofbeldi. Þrátt fyrir að hún hafi einungis verið í sam- bandi við þennan mann í nokkra mánuði finnst mér eins og sá tími hafi verið mörg ár. Það var ekkert óalgengt að hún færi út á lífið á föstu- degi og kæmi ekki heim fyrr en daginn eftir. Stundum var einhver með henni eða ekki. Ég var einn heima og hafði ekki hugmynd um hvar mamma var og svo þegar þau komu heim tók ofbeldið stundum við. Það eina sem ég sem barn gat gert í þessum aðstæðum var að snúa mér á hina hliðina, reyna að loka eyrunum og vona að fljótlega myndu þau deyja áfeng- isdauða,“ segir Ásmundur. Andleg veikindi móður Ásmundar ágerðust að hans sögn á þessum tíma og þau ásamt áfenginu gerðu lífið á heimilinu oft erfitt. Þarna var Ásmundur á fermingaraldri. Bú- ferlaflutningar enn eina ferðina, nú innan Nor- egs, bættu ekki ástandið. „Ég var kominn á ákveðin gatnamót í lífinu og fann að ég gat þetta ekki lengur. Ég hafði kynnst festu og átt mitt skjól í sveitinni en í Noregi átti ég ekkert slíkt skjól.“ Kvíðahnúturinn var orðinn óviðráðanlegur fyrir ungan dreng á við- kvæmu aldursskeiði og Ásmundur tók um miðjan vetur ákvörðun um að flytja heim til Íslands, í sveitina til pabba. Þarna var hann kominn í öruggt skjól en hann segir að sá böggull hafi fylgt skamm- rifi að í sveitinni hjá pabba var ekki venja að bera tilfinningar sínar á torg. Ólíkir heimar og tengslaleysi „Ég átti þessa ólíku heima og tengslaleysið þeirra á milli olli togstreitu innra með mér: Hvers vegna tala mamma og pabbi ekki sam- an? Hjá pabba í sveitinni var mikil festa, allir fengu nóg að borða og maður lærði að vinna, sem er mjög jákvætt. En ég talaði ekki um vanlíðan mína eða eitthvað sem ég hafði upp- lifað heldur beit á jaxlinn og útilokaði þessar tilfinningar,“ segir Ásmundur. Hann lauk grunnskólanámi vestur í Dölum og eignaðist þar góða vini. Námið gekk vel og fór Ásmundur fyrst í fjölbrautaskóla, lauk bú- fræðinámi og síðar háskólanámi á Hvanneyri. Hann kynntist eiginkonu sinni, Sunnu Birnu Helgadóttur, í náminu á Hvanneyri og þau eignuðust sína fyrstu dóttur árið 2006 en alls eiga þau þrjár dætur. Allt gekk vel á yfirborð- inu en undir niðri kraumaði hjá Ásmundi bæði reiði og vanlíðan. „Ég var með ákveðna mynd út á við – þessi glaði kraftmikli strákur sem tekur þátt í öllu. En það varð alltaf erfiðara og erfiðara að halda þessari mynd á lofti. Ég á ekki við að myndin hafi verið fölsuð því hún var sönn en hún sýndi aðeins hluta af mér. Annað var lokað og læst inni í mér. Smátt og smátt jókst andleg vanlíð- an og reiði. Reiði mín beindist að báðum for- eldrum mínum, ekki síst móður minni. Óstjórnleg reiði út í hana og reiði út í föður minn fyrir að hafa að einhverju leyti ekki verið til staðar þegar ég bjó hjá móður minni. Ég held að allir sem fara í gegnum svipaða æsku upplifi tilfinningar sem þessar einhvern tíma á lífsleiðinni og margir oft. Á þessum tíma er mamma flutt aftur Íslands en ég var í mjög litlum samskiptum við hana nema í gegnum bróður minn sem fæddist eftir að ég flutti heim frá Noregi. Alltaf burðaðist ég samt með þetta innra með mér og reyndi að láta ekki á neinu bera. Enda leið mér eins og ég gæti ekki rætt þetta við neinn, ég yrði bara að þegja og keyra mig áfram. Mér fannst eins og enginn væri að upplifa það sama og ég. Eina sem dygði væri að hætta að hugsa um þetta þar sem ekki væri hægt að bæta þetta á nokkurn hátt,“ segir Ásmundur. Bjargaði honum að eiga Sunnu að Ásmundur var kominn vel á þrítugsaldur á þessum tíma og þegar kom að þeim tímapunkti að hann bugaðist varð það honum til bjargar að eiga Sunnu að og segist hann stundum ekki skilja hvernig hún hafi getað búið með honum. „Sem betur fer á ég yndislega konu sem hefur hjálpað mér og ögrað mér um leið við að sleppa þessari mynd sem ég sýndi út á við og vinna frekar í því sem raunverulega skiptir máli – því sem býr innra með mér. Nokkuð sem hafði ekki náðst í uppeldinu; að þroska með mér og ástunda eðlileg tilfinningaleg samskipti,“ segir Ásmundur og bætir við að þetta hefði hann aldrei getað sagt upphátt fyrir tíu árum. Ekk- ert frekar en að ræða þessa vanlíðan opinber- lega. „Á þessum tíma hafði ég á tilfinningunni að allt gæti farið á versta veg en það gerðist ekki því ég var með þéttan og góðan stuðning konu minnar. Ég leitaði mér aðstoðar og fór að upp- götva hvað það er sem skiptir raunverulega máli. Ég tel að við getum öll tekið réttar beygj- ur í lífinu ef við fáum til þess aðstoð og erum tilbúin að fylgja því sem lætur manni líða raun- verulega vel í hjartanu. Það er ótrúleg áskorun að gera það og ég upplifði það svo sannarlega. Stundum heldur maður að hæðin sé auðveld yfirferðar en þetta er sennilega ein stærsta hæð sem ég hef þurft að fara yfir um ævina. Þegar ég var kominn á þann stað, upp hæðina, fann ég að reiðin í garð móður minnar hvarf smám saman og það er ótrúlega góð tilfinning. Á sama tíma fór ég að sjá hana í öðru ljósi, og ég átta mig á því að hún er sennilega að burðast með þennan sama stein í maganum og ég.“ Við erum svo mörg Auk þess að njóta góðs stuðnings heima fyrir hefur Ásmundur farið til sálfræðinga og sótt fundi hjá Al Anon. „Ég viðurkenni að ég varð mjög hissa þegar ég fór að sækja fundi sam- takanna því þar sá ég að ég var ekki einn í þessum sporum og þarna hitti ég marga, þar á meðal þjóðþekkt fólk, sem voru í sömu sporum og ég. Þetta opnaði augu mín fyrir því að ég er ekki einn, við erum svo mörg sem höfum upp- lifað ofbeldi á heimilum, fátækt, andleg veik- indi foreldra og neyslu.“ Nokkuð sem hverfur aldrei Hann segist vita það í dag að lausnin er ekki sú að bíta á jaxlinn og halda áfram eins og hann hélt áður. „Hægt og rólega hef ég náð að losa þennan stein sem hefur fylgt mér svo lengi en hann er ekki horfinn því þetta kemur og fer. Þetta er eilífðarvinna og verkefni sem ég mun takast á við alla ævi,“ segir Ásmundur. Hann segir að það sé ekkert sjálfgefið að rata rétta braut þegar kemur að gatnamótum eins og hann hefur oftar en einu sinni staðið á og hann finni það vel þegar hann ræðir við fólk sem hefur annaðhvort leitað sér aðstoðar vegna neyslu áfengis og annarra vímuefna eða verið vistað í fangelsi. Margt af því á áfalla- sögu úr æsku að baki. „Ég tengi alveg við þeirra lýsingar og þetta hefði alveg getað verið ég. Hvað varð til þess að ég tók rétta beygju við gatnamót, einhver afdrifarík gatnamót á lífsleiðinni – gatnamót sem eru alltaf að koma?“ Fyrsti barnamálaráðherrann Þrjú ár eru síðan Ásmundur tók við embætti fé- lags- og barnamálaráðherra og þegar hann var beðinn að taka að sér starfið óskaði hann eftir því að hann fengi að lyfta sérstaklega málefnum barna og taka fyrstur ráðherra upp titilinn barnamálaráðherra. Fljótlega eftir stjórnar- skiptin hófst samstarf allra þingflokka og ráðu- neyta auk Sambands íslenskra sveitarfélaga við að búa til sameiginlegan vettvang fyrir málefni barna. „Ég var og er sannfærður um að ef við ætlum að grípa börn þá verði allir þeir sem koma að málefnum barna að vera með. Kerfis- breytingin er svo stór að það myndi ekki duga því verkefni einungis einn ráðherra, eitt kjör- tímabil og eitt ráðuneyti að ná utan um það, enda er þetta langtímaverkefni sem vonandi verður komið vel á veg eftir nokkur ár.“ Oft ekki gripið inn fyrr en allt er komið í bál og brand Ásmundur er sannfærður um að það að setja barnið og fjölskyldu þess í miðju allrar þjón- ustu, sama hvaða kerfi og hversu mörg kerfi eiga í hlut, muni breyta gríðarlega miklu í lífi margra fjölskyldna. Oft þurfi ekki mikið til þess að hafa áhrif á aðstæður. „Í langflestum tilvikum vilja foreldrarnir börnum sínum allt hið besta. Foreldrar vilja að börnin fái ákveðna þjónustu þrátt fyrir að þeir séu kannski sjálfir á sínum allra versta stað, hvort sem er fjár- Ásmundur skipti lífinu upp í þrjú hólf; sveitina, heima hjá mömmu og myndina sem hann sýndi út á við. ’Ekkert barn á að þurfaað búa við aðstæður einsog því miður of mörg börnbúa við á Íslandi, ofbeldi og vanrækslu. Þessu vill Ás- mundur Einar breyta. Barnaverndarnefndum bárust 1.550 tilkynningar um vanrækslu barna þar sem foreldrar voru í áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Þetta eru mun fleiri tilkynn- ingar en í sömu mánuðum árin á und- an. Alls bárust barnaverndarnefndum 634 tilkynningar frá áramótum til loka septembermánaðar um líkamlegt of- beldi gagnvart börnum eða þegar grunur vaknar um slíkt og eru það 31,8% fleiri tilkynningar en bárust fyrstu níu mánuði seinasta árs. Vanræksla og ofbeldi VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.11. 2020

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.