Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.11.2020, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.11.2020, Blaðsíða 14
S em hendi væri veifað var þeim breytt í steypusíló. Stríðþjálfuðum mönnum og vöskum. Reid, Butch- er, Fenwick og loks Shilton. Eða var þetta sjónvarpstæknin að stríða okkur? Búið að finna upp aðferð til að sýna kappleik í senn á venjulegum hraða og hægt. Eða á venjulegum hraða og hratt, eftir því hvernig á það er litið. Ef við tökum gömlu góðu eldhúslíkinguna var engu líkara en mat- reiðslumeistarinn hefði hafið arabíska sveðju hátt á loft til að kljúfa smjerstykki í tvennt. Mikið svakalega var þessi leikur ójafn. Þegar boltinn lá í netinu, eftir sprett sem í Argentínu tók örskotsstund en heila eilífð á Englandi, lá það strax fyrir: Enda þótt maður ætti eftir að verða hundrað og þriggja ára myndi maður aldrei sjá annað eins mark. Og þá erum við að taka samhengið út fyrir sviga. En að velja þennan stað, þessa stund til að skora mark aldarinnar, þúsaldarinnar! Átta liða úrslit HM 1986 á sjálfum Azteca- leikvanginum í Mexíkóborg frammi fyrir 114.580 áhorfendum. Ekki einu sinni almættið er þess umkomið að skrifa svona handrit. Þó var það óvænt skrifað inn í handritið fjórum mínútum áður, þegar senuþjófurinn, Diego Armando Maradona, fékk hönd þess lánaða til að koma Argentínu yfir í téðum leik gegn Eng- landi í eins konar framhaldsstríði um Falk- landseyjar. Að hugsa sér, tvö frægustu mörk sparksögunnar gerð á fjögurra mínútna kafla í einum og sama leiknum. Man hvernig stóllinn var á litinn Við munum öll hvar við vorum stödd þegar þessi ósköp gengu á; sjálfur var ég heima hjá Hjalta vini mínum Hjaltasyni í Smárahlíðinni á Akureyri. Man meira að segja í hvaða stól ég sat og hvernig hann var á litinn. Hjalti sat ekki, heldur fór í loftköstum um stofuna enda gallharður aðdáandi goðsins. Gary Lineker klóraði í bakkann fyrir England en allt kom fyrir ekki. Maradona varð ekki stöðvaður. Aumingja Belgum voru engin grið gefin í undanúrslitunum á sama velli; önnur tvö mörk þar og annað þeirra eins konar tilbrigði við undramarkið úr Englandsleiknum. Maðurinn virtist ekki hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir þessu. Belgísku varnarmennirnir reyndu hver um annan þveran að ryðjast út úr mynd, svo niðurlæging þeirra myndi ekki vara um aldur og ævi. Vestur-Þjóðverjum tókst að koma í veg fyrir að Maradona skoraði í úrslitaleiknum en sáu á hinn bóginn ekki við gullsendingu hans, sem sprengdi vörn þeirra í tætlur. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Jorge Burruchaga og Arg- entína vann, 3:2, og fagnaði sínum öðrum heimsmeistaratitli. Auðvitað vinnur einn mað- ur aldrei mót, hvað þá heimsbikarinn, en eng- inn hefur komist nær því í sparksögunni en Maradona í Mexíkó 1986. Ekki einu sinni sjálf- ur Pelé; þótt hann væri vissulega aðalstjarnan í Svíþjóð 1958 og Mexíkó 1970 þá lögðu aðrar kempur gjörva hönd á plóg. Maradona var með heilt lið, heila þjóð, á bakinu allt mótið en bognaði aldrei. Stóð teinréttur uppi með bik- arinn í mótslok og enginn hefði getað sagt neitt hefði hann farið þráðbeint með gripinn heim í stofu. Þar átti hann heima. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rekja feril Maradona í löngu máli; allir fjöl- miðlar í öllum löndum hafa verið barmafullir af því undanfarna daga enda erum við að tala um einn dáðasta og fremsta íþróttamann sög- unnar. Margir telja hann þann besta sem reimað hefur á sig takkaskó í sögunni og flestir geta verið sammála mér um að aðeins þrír aðr- ir verðskuldi að vera nefndir í sömu andrá; téður Pelé, Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Ígrundaður samanburður bíður þó betri tíma. Argentínska undrið Eins og flestir Íslendingar kynntist ég Diego Armando Maradona gegnum markasyrpur sem Bjarni Felixson sýndi í Ríkissjónvarpinu fyrir um fjórum áratugum, þegar kappinn lék ennþá heima í Argentínu, með Argentinos Juniors og Boca Juniors. Hann vantaði enn tíu daga upp á sextán ára afmælið þegar hann hlaut eldskírn sína með fyrrnefnda liðinu, svo bráðger var hann. Svíki minnið mig ekki end- urtók Bjarni þessa syrpu eða syrpur reglulega enda augljóslega um undur og stórmerki að ræða. Bágt var um aðrar upplýsingar en gúgl hljómaði eins og hvert annað rugl á þeim ár- um. Væntingarnar voru að vonum miklar víða þegar kappinn skaut upp kollinum á HM á Spáni sumarið 1982 með liði Argentínu sem hafði titil að verja. Maradona lék sinn fyrsta landsleik sextán ára, í febrúar 1977, en var sem frægt er ekki valinn í lokahópinn fyrir HM í Argentínu 1978. Þjálfaranum, César Lu- is Menotti, þótti hann enn of ungur. Þess vegna tafðist frumraun hans á þessu stærsta sviði heims um fjögur ár. Maradona sýndi leiftur af snilligáfu sinni en fór samt aldrei almennilega á flug og var hálf- partinn sparkað út úr mótinu, í orðsins fyllstu merkingu, af harðsvíruðum varnarmönnum andstæðinganna. Gott ef Claudio gamli Gent- ile, ítalska hörkutólið, elti okkar mann ekki alla leið heim á hótel eftir leik. Svo alvarlega tók hann hlutverk sitt. Í stað Maradona stálu Zico og Sókrates til að byrja með senunni á Spáni og síðar Paolo Rossi. Prinsinn þurfti að bíða í önnur fjögur ár eftir að verða krýndur kóngur. Dró liðið aftur alla leið í úrslitin Ljóst var að Maradona myndi aldrei toppa HM í Mexíkó. Væntingar voru því ekki eins miklar þegar hann mætti til leiks á HM á Ítal- íu 1990; hann var að detta í þrítugt (sem var „hærri“ aldur þá en í dag) og ekki eins dans- andi sprækur og fyrr, auk þess sem ökkla- meiðsli háðu honum og liðið virkaði ekki eins gott og fjórum árum áður. Eins og einhver muni hverjir aðrir voru í því! Eftir erfiða byrj- un og niðurlægjandi tap gegn Kamerún í fyrsta leiknum hökti liðið hins vegar í gang og Maradona dró það alla leið í úrslitaleikinn – aftur gegn Vestur-Þjóðverjum. Þá var bensín- ið hins vegar búið og Andreas Brehme gerði sigurmarkið úr víti undir lokin í leik sem var álíka leiðinlegur og leikurinn fjórum árum áð- ur var skemmtilegur. Þátttaka Maradona á fjórða heimsmeistara- mótinu, í Bandaríkjunum 1994, varð endaslepp en hann var staðinn að notkun örvandi lyfja og Maradona á hátindi ferils síns; með heims- bikarinn á Azteka- leikvanginum 1986. AFP Situr við vinstri hönd Guðs Heimurinn syrgir nú Diego Armando Maradona, einn fremsta knattspyrnumann sem sögur fara af, en hann féll frá í vikunni, aðeins sextugur að aldri. Snilligáfa hans var engu lík og hægt verður að ylja sér við minn- ingarnar svo lengi sem spyrnt verður á byggðu bóli. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is AFP MINNING 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.11. 2020

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.