Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.11.2020, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.11.2020, Blaðsíða 12
VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.11. 2020 hagslega, vegna neyslu, vegna fyrri áfalla, vegna veikinda, líkamlegra eða andlegra. Eins og staðan er í dag er oft ekki gripið inn fyrr en allt er komið í bál og brand. Þetta skiptir miklu máli og ég hef haft það hugfast allt frá fyrsta degi mínum í félagsmálaráðuneytinu að við þurfum að lækka þröskulda í þjónustu, auka og bæta þjónustuna og láta kerfin okkar tala saman í kringum börnin. Því það er nú bara oft þannig að vandi sem kemur fram á einum stað á orsök annars staðar, kannski í erfiðum að- stæðum á heimili eða öðru. Verkefnið samþætting þjónustu í þágu far- sældar barna gengur meðal annars út á að allir þeir sem eru með snertiflöt við börn og eru í nærumhverfi barnsins, hvort sem það er heilsugæslan í ungbarnaeftirlitinu, leik-, grunn- og framhaldsskólar, félagsþjónustan, íþróttir eða tómstundir, fái aukna ábyrgð. Hún felst eins og áður sagði ekki í því að taka börn- in af heimilum heldur aukna ábyrgð í að koma auga á aðstæður barna þar sem þörf er á að grípa fjölskyldur miklu fyrr en gert er í dag – bjóða markvissa aðstoð fyrr sem vonandi nær að koma í veg fyrir að aðstæður verði verri og íþyngjandi úrræða sé þörf.“ Kerfin tala ekki saman Ásmundur segist telja að nánast hver einasta fjölskylda vilji hjálp en þær séu oft að bugast vegna samskiptaskorts milli kerfa, „að kerfin tali ekki saman“, segir Ásmundur. Auk þess eru foreldrar oft mjög misvel í stakk búnir til að óska eftir hjálp og finna af sjálfsdáðum rétta leið í kerfinu, vita hvaða hurðir eigi að banka á. Meginefni frumvarpsins, sem verður lagt fram á Alþingi í næstu viku, snýr einmitt að þessu; að skilgreina þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra og marka með skýrum hætti samstarf mismunandi þjónustukerfa. Allir að- ilar, meðal annars fulltrúar viðeigandi kerfa hverju sinni, eiga að koma saman að borðinu og teikna upp lausn og leiðir fyrir barn sem þess þarf, fjölskyldan á ekki að þurfa að gera það sjálf. Samhliða þessum stóru breytingum hefur verið unnið að því að þróa ýmis verkfæri sem stutt geta við þessa nýju hugsun. Eitt af verkfærunum er mælaborð sem tryggir betri yfirsýn yfir velferð barna á Íslandi og þróað var af Kópavogsbæ í samvinnu við félagsmála- ráðuneytið og UNICEF á Íslandi. Mælaborðið safnar og greinir tölfræðigögn í þeim tilgangi að fá fram betri mynd af almennri stöðu barna í samfélaginu hverju sinni og beinir sjónum að verkefnum sem brýnt er að takast á við og for- gangsraða. Tekst vonandi að rjúfa keðju áfalla Eitt af því sem fólk hefur ítrekað sagt blaða- manni í tengslum við málefni barna er hversu reiðubúinn Ásmundur er til að hlusta á hvað það hefur fram að færa. Oft eitthvað sem fólk telur að mætti betur fara í velferðarmálum landsins. Ekki síst hjá börnum sem ekki passa í fyrirframgefin hólf. Spurður út í þetta segir Ásmundur að reynsla hans hafi hjálpað honum mikið í starfi félagsmálaráðherra og um leið trú hans á það hversu miklu sé hægt að áorka vinni fólk saman. „Ég trúi því að ef við náum að gera þessar breytingar á lögum varðandi málefni barna þá náum við að bjarga fleirum frá því að lenda á rangri braut. Ég er sann- færður um að á þessu sviði beri okkur skylda sem samfélagi til að leggja til hliðar það sem flokka má sem pólitískt karp og vinna að því í sameiningu að stíga þetta risastóra skref. Því risastórt er skrefið ef okkur tekst að auka möguleika fólks á að rjúfa keðju áfalla og vonandi fengið fleiri öfl- uga einstaklinga út í samfélagið til að takast á við daglegar áskor- anir. Ekkert skiptir efnahag landsins meira máli en að við komum fleira ungu fólki til manns, því líði vel að vera fullorðin og það sé tilbúið til að taka ábyrgð á sínar herðar og sinna sínu hlutverki í gangverki landsins,“ seg- ir Ásmundur. En eru þessar breytingar ekki kostn- aðarsamar? Ásmundur segir að eðli málsins samkvæmt fylgi breytingunum kostnaður í byrjun en rannsóknir og allir útreikningar sýni að hann borgar sig margfalt til baka ef markmiðið næst – börn og fjölskyldur sem þurfi aðstoð séu gripin og fái betri og markvissari þjónustu fyrr. „Í mjög einföldu máli er ljóst að fjárfesting í betri þjónustu við börn og fjölskyldur er arð- bær langtímafjárfesting þar sem björt framtíð barns vegur mun þyngra en útgjaldaaukning vegna bættrar þjónustu síðar á lífsleiðinni.“ Að sögn Ásmundar hefur vinnan að þessu verkefni sem og öðrum sem snerta börn og viðkvæma hópa gefið honum gríðarlega mikið og segja megi að hann sé að finna sjálfan sig betur. Um leið geri hann sér betri grein fyrir því hvað stjórnmálin eru margslungin. „Þau snúast ekki bara um samgöngu- og efnahags- mál eins og ég hélt í upphafi stjórnmálaferils- ins heldur svo miklu meira: Að tryggja undir- stöður samfélags þar sem börnum líður vel. Þetta er verkefni sem hefur breytt mér sem einstaklingi og ég held að ég sé opnari og meyrari en ég var áður. Því þrátt fyrir að hafa komist á þennan stað með sjálfan mig sem ég er á í dag þá er lífið upp og niður og það hafa komið erfið tímabil þar sem mér finnst ég ekki geta meira. Bæði gagnvart sjálfum mér og einnig móður minni, sem ég hef eftir minni bestu getu verið í góðu sambandi við síðustu ár en æskuminningarnar og steinninn í maganum eru sjaldan langt undan,“ segir Ásmundur. Hefur einsett sér að vera til staðar fyrir hana Fyrr á árinu var móðir Ásmundar einmitt á mjög slæmum stað, bæði andlega og gagn- vart áfengisnotkun. Eitt kvöldið er hann var nýkominn heim í Borgarnes úr vinnunni fékk hann skilaboð frá henni um að hún væri búin að missa húsnæðið sem hún bjó í og væri komin á götuna. Eitt af því sem Ásmundur hefur einsett sér er að vera til staðar fyrir móður sína þannig að hann sneri strax aftur til höfuðborgarinnar til að sækja hana þar sem hún beið. „Þegar hún er í þessu ástandi er ekki hægt að taka hana inn á heimilið og hún hefði heldur aldrei fallist á það. Þannig að það voru ekki margir mögu- leikar í stöðunni. Enda vildum við systkinin finna þá aðstoð sem hún þyrfti á að halda og varanlegt húsnæði. Ekki var mögulegt að koma henni inn á geðdeild á þessum tíma- punkti þannig að ég hringdi í viðbragðsteymi félagsmálaráðuneytisins sem sett hafði verið af stað vegna Covid-19 og hluti af aðgerð- unum var að grípa þá sem voru heimilislausir á tímum faraldursins. Ég lýsti aðstæðum og var í framhaldinu bent á að koma með hana tímabundið í Konukot. Ég keyrði hana þang- að og fylgdi henni þar inn að dyrum og hún var mjög þakklát. Síðan legg ég af stað heim aftur og þegar ég er kominn áleiðis gat ég ekki meira enda er þetta með því erfiðasta sem ég hef þurft að gera í seinni tíð. Ég var algjörlega bugaður því þótt því fylgdi léttir að vita að hún væri í góðum höndum þá eru mjög erfiðar tilfinningar sem fylgja því að skilja móður sína eftir í athvarfi fyrir heimilislausar konur. Mér fannst ég hafa fallið á prófinu sem sonur hennar. Þessar til- finningar höfðu ekkert að gera með það góða starf sem unnið er í Konukoti og er full ástæða til að þakka fyrir. Ég hringdi í systur mína og eins og hún sagði: Þú varðst að gera þetta. Við hittum hana á morgun og förum yfir stöðuna og finnum leiðir út úr þessu,“ segir Ásmundur. Eftir ríkisstjórnarfund morguninn eftir fór hann og sótti móður sína og fylgdi henni á geðdeild þar sem hún fékk bæði lyf og góð viðtöl án þess að vera lögð inn. Að sögn Ásmundar er móðir hans komin í íbúð og staða hennar þokkaleg í dag, en fer upp og niður. Hann á ekki von á að það breytist og segist vita að þetta verði aldrei dans á rósum. „En ég finn ekki til reiði gagn- vart henni heldur bara væntumþykju. Við er- um dæmd til þess að fara saman í gegnum þetta. Ég er sonur hennar og verð til staðar fyrir hana ef hún þarf á mér að halda.“ Vildi ekki skipta í dag Ásmundur segir að samband þeirra hafi kennt sér ýmislegt og hann lært að ráða við ýmsar aðstæður og takast á við hluti sem margir aðr- ir hafa ekki reynt. „Allt þetta segi ég við móð- ur mína sem hefur gefið mér svo margt og í dag myndi ég ekki vilja skipta en þegar ég var yngri óskaði ég þess oft að líf mitt væri öðru- vísi. Að mamma væri öðruvísi, að ég væri ekki alltaf að skipta um skóla, að það væri ekki allt- af fyllerí á heimilinu og að við værum fjöl- skylda sem gæti gert eitthvað sem aðrar fjöl- skyldur voru að gera. En í dag er ég ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið þessa lífs- reynslu. Eðlilega á ég mína góðu daga og slæmu en á þeim slæmu hef ég konuna mína við hlið mér sem aðstoðar mig við að rífa mig upp. Þetta hefur gefið mér tækifæri til að geta horfst í augu við sjálfan mig en það er regluleg áskorun og ekki alltaf auðveld. Síðan hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að koma inn í fé- lagsmálaráðuneytið sem ráðherra. Í ráðu- neytið leita margir sem eru að glíma við að- stæður ekki ólíkar þeim sem ég bjó við og móðir mín býr við eða glíma við afleiðingar af svipuðum aðstæðum,“ segir Ásmundur. Hjálpa þeim að velja rétta leið „Ég hef upplifað það á ævi minni að komast í skjól og fá stuðning á réttum tíma. Ég trúi því að það hafi skipt sköpum í mínu lífi og því hvar ég er staddur í dag. Slíkur stuðningur á réttum tíma fyrir börn og fjölskyldur hér á landi má ekki vera tilviljun. Við þurfum mark- visst að taka utan um börn og fjölskyldur þeirra, bjóða hjálp og stíga inn með fullnægj- andi þjónustu. Við getum gert þetta sem sam- félag og þetta eru raunar viðbrögð sem eru okkur Íslendingum vel kunn. Sjáið til dæmis Samhæfingarmiðstöð almannavarna sem er virkjuð ef náttúruhamfarir verða eða farsóttir eins og kórónuveirufaraldur geisa. Þá koma fjölmargir að verkefninu og vinna saman, þvert á kerfi, í baráttunni við vána með ótví- ræðum árangri. Það er það sama og við þurf- um að gera varðandi barn í vanda. Að virkjað sé teymi sem grípur barnið og fjölskyldu þess, finnur út hvað þarf að gera og gerir áætlun um það. Með því getum við vonandi fækkað börnum sem ganga um með stein í maganum og hjálpað þeim sem standa á gatnamótum í lífinu að velja rétta leið. Alveg eins og ég gerði á sínum tíma,“ segir Ásmund- ur Einar Daðason, félags- og barna- málaráðherra. Ásmundur segir að vinnan við verkefnið hafi sýnt sér að stjórnmál snúast ekki bara um samgöngu- og efnahagsmál eins og hann hélt í upphafi stjórnmálaferilsins. Morgunblaðið/Árni Sæberg ’Ég tel að við getum öll tek-ið réttar beygjur í lífinu efvið fáum til þess aðstoð og er-um tilbúin að fylgja því sem lætur manni líða raunverulega vel í hjartanu. Það er ótrúleg áskorun að gera það og ég upplifði það svo sannarlega.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.