Morgunblaðið - 14.12.2020, Page 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 14. DESEMBER 2020
Nú finnur þú
það sem þú
leitar að á
FINNA.is
„Við“ unnum – „þið“ töpuðuð
Ekki þarf að fjölyrða um vin-
sældir knattspyrnu; hún er einfald-
lega vinsælasta íþrótt í heimi. Ís-
lenska þjóðin er ekkert frábrugðin
öðrum þjóðum hvað það varðar.
Hún svolgrar í sig knattspyrnu af
áfergju. Og hefur lengi gert.
Eins og við þekkjum er knatt-
spyrna til þess fallin að sameina
okkur. Besta
dæmið um það
er þátttaka ís-
lenska karla-
landsliðsins á
Evrópumeist-
aramótinu í
Frakklandi 2016
og Heimsmeist-
aramótinu í
Rússlandi tveim-
ur árum síðar.
Þar stóð þessi þjóð öll saman sem
einn maður og í heilan mánuð í
hvort skipti hverfðist allt líf okkar
um sparkið, líka hjá þeim sem hafa
alls engan áhuga á knattspyrnu.
Enginn komst hjá því að hrífast
með, ekki einu sinni fólk sem í
sínu innsta eðli hefur andstyggð á
hjarðeðli. Fólk kom saman í
heimahúsum, á ölstofum, í
vinnunni og á víðavangi undir ber-
um himni til að fylgjast með hverri
spyrnu, hverjum spretti og styðja
strákana okkar. Og öllum sigrum
var fagnað sem um styrjöld væri
að ræða.
Talandi um styrjaldir er knatt-
spyrnan vitaskuld einnig þeirrar
náttúru að hún getur mjög auð-
veldlega sundrað okkur. Gott
dæmi um það er heimildarþáttur
sem Ríkissjónvarpið sýndi á árinu.
Undirrót haturs kallast hann og
fjallar um það hvers vegna við
mannfólkið hötum.
Yfirferðin hófst nokkuð óvænt á
eyjunni Cayo Santiago, sem til-
heyrir Púertóríkó, en þar er að
finna apaketti, svonefnda rhesus-
apa, sem fæðast inn í tiltekna fylk-
ingu sem hefur ímugust á öðrum
apakattafylkingum þar um slóðir.
Eyða fylkingar þessar svo ævinni í
átökum og deilum sín á milli.
Frá apaköttunum lá leiðin þráð-
beint til Norður-Lundúna, þar sem
á vegi dagskrárgerðarfólksins urðu
áhangendur knattspyrnufélaganna
Arsenal og Tottenham Hotspur. Ef
marka má myndina eru örlög
þeirra sambærileg við örlög apa-
kattanna; þeir fæðast inn í eitt fé-
lag og eru því dæmdir til þess að
hata annað félag um aldur og ævi.
„Hvað kemur fyrst upp í hugann
þegar þú heyrir minnst á Arsen-
al?“ var fylgjandi Tottenham
spurður. Og ekki stóð á svari:
„Hatur.“ Einnig kom fram að
sparkið væri hans trúarbrögð.
Þetta eru svo sem þekktar
stærðir en útskýra ekki með bein-
um hætti hvers vegna enska knatt-
spyrnan hefur svona ofboðslega
þýðingu fyrir sálarlíf íslensku þjóð-
arinnar. Vandfundinn er sá Íslend-
ingur, sem á annað borð hefur
áhuga á knattspyrnu, sem ekki
styður lið á Englandi. Oftar en
ekki er þetta gert af mikilli ástríðu
og jafnvel meiri ákafa en stuðn-
ingur við liðið sem viðkomandi
fylgir að málum hér heima. Öll
þekkjum við fólk sem heldur með
tilteknu liði á Englandi en höfum
ekki hugmynd um hvar það stend-
ur í sparkinu hér heima.
Mögulega hefur lengd keppnis-
tímabilsins eitthvað að segja; Ís-
landsmótið stendur að jafnaði í
fimm mánuði á ári en Englands-
mótið í rúma níu mánuði. Þannig
að menn lifa mun lengur með
Liverpool en KR, nú eða Brentford
en Kormáki. Það eru fleiri leikir að
sjá, velta vöngum yfir, ræða um,
gleðjast eða þjást. Að ekki sé talað
um þvælutímabilið á sumrin, þegar
menn ganga kaupum og sölum
milli félaga. Við þær aðstæður er
enginn afsláttur gefinn af athygl-
inni.
Ekki má heldur útiloka vallar-
skilyrðin. Leikir á Íslandsmótinu
fara gjarnan fram í kulda, rigningu
og trekk en það viðrar alltaf jafn
vel í stofunni fyrir framan túbu-
sjónvarpið og í seinni tíð flatskjá-
inn. Í þessu sambandi ber þó að
hafa í huga að vinsældir ensku
knattspyrnunnar á Íslandi, eins og
fram hefur komið, voru orðnar út-
breiddar og almennar löngu áður
en reglulegar sjónvarpsútsend-
ingar hófust. Og hvers vegna
enska knattspyrnan frekar en til
dæmis sú spænska, ítalska,
franska eða þýska? Þau lönd búa
einnig að vinsælum deildum og
risastórum stjörnum en eigi að síð-
ur heyrir maður ekki að áhangend-
ur Juventus, Real Sociedad eða
RB frá Hlaupsigum komi saman í
stórum stíl á íslenskum ölstofum
til að horfa á leiki. Hverju sætir
þetta?
Ég er ekki fyrsti maðurinn til að
velta vöngum yfir þessari ástríðu
íslensku þjóðarinnar fyrir ensku
knattspyrnunni og örugglega ekki
sá síðasti. Við skulum grípa
snöggvast niður í ríflega fjörutíu
ára gamla greiningu úr fyrsta tölu-
blaði og fyrsta árgangi hins gagn-
merka knattspyrnurits Tuðrunnar,
1. tbl. 1. árg. 1. maí 1977, en útgef-
andi var unglingaráð knatt-
spyrnudeildar Selfoss og ábyrgð-
armaður Björn Gíslason.
„Það fer naumast á milli mála,
að enska knattspyrnan nýtur gífur-
legra vinsælda meðal íslenzks
íþróttaáhugafólks,“ sagði Tuðran.
„Kemur þar margt til, en þó senni-
lega sérstaklega það að fjölmiðlar
hafa sýnt ensku knattspyrnunni
mun meiri áhuga á liðnum árum en
knattspyrnu annarra þjóða og
einnig hafa leikir ensku knatt-
spyrnunnar verið notaðir á get-
raunaseðla íslenzkra getrauna. Þar
af leiðir að allir þeir sem taka þátt
í getraunastarfinu hafa mikinn
áhuga á ensku liðunum, gengi
þeirra og úrslitum leikja.“
Ekki nóg með það.
„Fjölmargir Íslendingar eru
sannkallaðir sérfræðingar í ensku
knattspyrnunni, og er þar bæði um
að ræða unga og aldna,“ hélt Tuðr-
an áfram. „Þeir vita nákvæmlega
hvaða leikmaður leikur með hverju
liði, hver er seldur til þessa liðsins
eða hins og hver er beztur hjá
hinu liðinu eða þessu í þessari og
þessari stöðu á vellinum. Þegar
hlustað er á tal slíkra sérfræðinga,
ber það ósjaldan á góma hver
skoraði fyrir þetta lið eða hitt í
fyrra eða árið þar áður. Vel flestir
þeir sem fylgjast með ensku knatt-
spyrnunni eiga þar sín uppáhalds-
lið. Margir halda með þeim liðum
sem komið hafa í heimsókn til Ís-
lands, en meðal þeirra má nefna
Queens Park Rangers, Bury, Ars-
enal, Liverpool. Everton og Tott-
enham. Aðrir hafa tekið ástfóstri
við ákveðin lið á velgengnitímum
þeirra og fylgja þeim síðan gegn-
um súrt og sætt.“
Fjölmiðlar og getraunir eru hér
nefnd sem helstu orsakir. Gott og
vel. Það er alls ekki ósennilegri
skýring en hvað annað. En hvers
vegna tóku fjölmiðlar á sínum tíma
ákvörðun um að fjalla svona veg-
lega um ensku knattspyrnuna en
ekki þá ítölsku, spænsku eða
þýsku? Og hvers vegna höfnuðu
leikir á Englandi frekar á get-
raunaseðlum? Þessu er ekki auð-
velt að svara, nema þá á þann hátt
að enska deildin hafi einfaldlega
meira aðdráttarafl en aðrar deildir.
Árið 2017 var gerð rannsókn á
íslenskum stuðningsmönnum
enskra knattspyrnuliða í lokaverk-
efni til M.Ed.-prófs í íþrótta-, tóm-
stunda- og þroskaþjálfadeild Há-
skóla Íslands. Þar kemst
höfundurinn, Atli Jóhannesson, að
eftirfarandi niðurstöðu:
„Enska deildin er vinsælasta
sjónvarpsefni í heiminum. Áhuga-
málið er mjög stórt hér í landi og
það er mat höfundar að fleiri
tengja við liðið í Englandi heldur
en liðið sem stuðningsmenn styðja
hér á landi. Höfundur telur að
þessi upplifun eða þessi sterka
tenging við lið og að vera ekki
sama um úrslitin sé þáttur til að
reyna að bæta líf sitt eða sækjast
eftir einhverjum verðlaunum. Þeir
segja hluti eins og „við“ og „þeir“
og telja sig jafnvel vera part af lið-
inu. Stuðningsmenn geta engan
veginn stjórnað eða haft áhrif á
það hvernig liðinu gengur en því
má halda fram að fátt annað í líf-
inu skipti þá eins miklu máli eins
og gengi liðsins.“
Um vinsældir ensku knattspyrn-
unnar segir Atli meðal annars:
„Það liggur kannski beinast við
en þeir [viðmælendur höfundar]
tala allir um að gæðin í enska bolt-
anum séu mikil en síðan strax í
framhaldi að enska deildin sé ekki
besta deild í heimi. Það sem veldur
því að þeim finnst enski boltinn
skemmtilegastur er hversu jöfn
deildin sé. Á meðan boltinn í Skot-
landi, Þýskalandi og á Spáni sé
kannski barátta á milli tveggja liða
þá sé fótboltinn á Englandi þannig
að allir geti unnið alla. Jafnvel
geta lið í neðri deildum unnið A-
deildarlið í bikarnum. Enski bolt-
inn er hraður þar sem allt getur
gerst og það sé það sem er svona
skemmtilegt við þetta. Í enska
boltanum er mikill kraftur þar sem
meira er um löng hopp, tæklingar
og hröð hlaup sem bæði lítur betur
út í sjónvarpi og er líkara íslensku
deildinni. Þó svo að tæknilega sé
betri fótbolti í öðrum deildum þá
er það spennan og óvissan sem er
stór þáttur í skemmtanagildi ensku
deildarinnar.“
Ljóst er að sjónvarpsútsend-
ingar hafa ekki dregið úr vinsæld-
um ensku knattspyrnunnar á Ís-
landi. Öfugt við til dæmis ítölsku
knattspyrnuna. Margar af skær-
ustu stjörnum heims, svo sem
Diego Maradona og Michel Platini,
léku á Ítalíu á níunda áratugnum
þegar íslenskt sjónvarp fór að gefa
henni aukinn gaum, sýna valda
kafla og síðar beint frá leikjum.
Mörgum brá hins vegar í brún
þegar í ljós kom að hraðinn og
ákefðin voru mun minni í leikj-
unum en við áttum að venjast frá
Englandi. Einhverjum fannst eins
og verið væri að sýna ensku knatt-
spyrnuna hægt og ágætur vinur
minn á Akureyri leikgreindi
ítölsku knattspyrnuna ágætlega á
þessum tíma. „Bæði lið eru í vörn.
Síðan fær leikmaður númer 10
boltann og röltir með hann í róleg-
heitunum upp að vítateig hins liðs-
ins. Nemur þar staðar og tilkynnir
hinum leikmönnunum hátt og
snjallt: Nú ætla ég að vippa bolt-
anum!“
Þetta er auðvitað spéspegill en
segir sína sögu um upplifun manns
sem vanist hafði meiri hraða og
spennu og var á tíðum löð-
ursveittur og örmagna eftir að
hafa horft á leiki í ensku knatt-
spyrnunni. Hér hefur mér pottþétt
tekist að móðga allt það góða fólk
sem hefur dálæti á ítölskum fót-
menntum en það verður bara að
hafa það – mig hefur lengi langað
að sjá þessa skeleggu leikgrein-
ingu á prenti.
Gegnum súrt og sætt
Bókarkafli |Íslendingar
gleðjast og þjást yfir
ensku knattspyrnunni
eins og hún væri þeirra
eigin. Í bókinni Í faðmi
ljónsins rekur Orri Páll
Ormarsson það hvenær
og hvernig þessi ástar-
saga hófst og hvað hef-
ur viðhaldið ástinni í
áratugi.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ástríki Ungir stuðningsmenn Liverpool bíða spenntir á Players í Kópavogi eftir að leikur liðsins við Manchester United hefjist í september 2008.
Morgunblaðið/Golli
Orri Páll Ormarsson