Iðjuþjálfinn - 01.01.2018, Page 23

Iðjuþjálfinn - 01.01.2018, Page 23
23 þjónustu og/eða heimahjúkrunar. Samþætting heimaþjónustunnar í Reykja- vík, þar sem félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun deilir húsnæði, er mikill styrkleiki og auðveldar samstarfið sem oft er náið og krefst þess að boðleiðir séu stuttar. Þegar einstaklingur innritast í þjónustu hjá endurhæfingarteyminu er COPM-matstækið lagt fyrir í upphafi þjón- ustu og hjálpar það einstaklingnum að setja sér markmið sem hann vill vinna að með því að forgangsraða þeim iðjuvanda sem er honum mikilvægastur. Endur hæfingar- teymið setur upp áætlun út frá þeim markmiðum og er það að miklu leyti í höndum sjúkraliða og félagsliða að sinna daglegri þjálfun í athöfnum daglegs lífs undir leiðsögn og aðstoð iðjuþjálfa og hjúkrunarfræðings ásamt íþróttafræðingi sem hefur umsjón með styrktarþjálfun og hreyfingu. Endurmat á COPM fer fram innan 4-6 vikna ef einstaklingurinn er ekki orðinn sjálfbjarga. Þjónustan getur bæði virkað fyrirbyggjandi með því að styðja einstaklinga sem sækja um heimaþjónustu þegar þeir eru farnir að missa færni sem og eftir veikindi og slys þar sem aðstæður breytast skyndilega hjá einstaklingnum og hann þarf stuðning til að tileinka sér bjargráð í nýjum aðstæðum. Verkefni endurhæfingarteymisins eru mjög fjölbreytt en þau algengustu eru stuðningur við böðun, klæðnað, hreyfingu, félagslega þátttöku og umsóknir um hjálpartæki til að auka sjálfsbjargargetu einstaklingsins. Þjálfunin fer nánast eingöngu fram í gegnum athafnir daglegs lífs og inni á heimili einstaklingsins eða í grennd við það. Þar sem þetta er ný nálgun innan heima- þjónustu þá hafa margir átt erfitt með að átta sig á þjálfuninni og þá sérstaklega aðstandendur sem eru ekki viðstaddir þegar þjálfunin fer fram. Þeir hafa átt betra með að skilja þjónustuna þegar þeir sjá árangurinn sem verður til við þjálfun þeirra nánustu. Á meðan endurhæfingin stendur yfir reynir teymið eftir fremsta megni að stuðla að virkri samfélagsþátttöku skjólstæðinga í þeim tilgangi að sú þátttaka haldi áfram eftir að þjónustu lýkur til að fyrirbyggja mögulega einmanaleika og félagslega einangrun sem getur leitt til vanvirkni. Þrátt fyrir að hugmyndafræðin hafi á sínum tíma myndast út frá þörfum eldri borgara þá á hún ekkert síður við fyrir þá sem yngri eru. Reynsla endurhæfingarteymisins hefur þó verið sú að eldri borgarar eru líklegri til að ná meiri árangri á skemmri tíma en þeir sem yngri eru, sem styður gildi og rök hugmyndafræðinnar. Hópurinn sem nú er í þjónustu spannar um 70 ára aldursbil þar sem sá yngsti er á þrítugsaldri og sá elsti á tíræðisaldri. Hugarfar og nálgun hugmyndafræðinnar er mjög hvetjandi og eflandi fyrir þá sem fá þjónustuna og veitir þátttakendum tækifæri til að auka lífsgæði sín og samfélagsþátttöku óháð aldri. Þjón- ustu á vegum endurhæfingarteymisins lýkur þegar einstaklingur verður sjálfbjarga eða þegar framfarir eru ekki lengur greinanlegar. Í þeim tilfellum þá er einstaklingnum veitt áframhaldandi þjón- usta á vegum heimahjúkrunar og/eða félagslegrar heimaþjónustu í samræmi við hans þarfir. Hugmyndafræðin hefur fengið töluverða athygli síðustu ár á sviði rannsókna. Niðurstöður rannsókna gefa til kynna aukna ánægju meðal þjónustuþega sem upplifa sig við stjórnvölinn í eigin lífi sem og starfsfólks sem upplifir meiri starfsánægju og þverfagleika í daglegu starfi ásamt því að kostnaður sveitarfélaga lækkar og verður hagkvæmari (Vik, 2018; Tuntland og Ness, 2016). Rannsókn sem fór fram í Noregi (Tuntland o.fl., 2017) sýndi fram á áreiðanleika COPM-matstækisins við að greina iðjuvanda og að konur með beinbrot væri sá hópur sem næði mestum árangri með þessari þjónustutegund. Það kom einnig fram að einstaklingar með taugasjúkdóma, svima, geðræna sjúkdóma og króníska verki áttu erfiðara með að ná markmiðum sínum þar sem þeir þurfa lengri tíma en þann sem hugmyndafræðin gerir ráð fyrir og eru þær niðurstöður í samræmi við reynslu endurhæfingar- teymisins. Gaman er samt að segja frá því að þrátt fyrir stuttan starfsaldur þá leynir ávinningurinn sér ekki. Á einungis 4 mánuðum hafa 58 einstaklingar fengið endurhæfingu í heimahúsi. Þar af eru 22 útskrifaðir, 13 sjálfbjarga með sín markmið og 9 til viðbótar með minni þjónustu en áður eða vegna veikinda. Með því að tileinka sér verklag hugmyndafræðinnar að veita hjálp til sjálfshjálpar, að gera athafnir með einstaklingnum í stað þess að gera þær fyrir hann stuðlar starfsfólk heimaþjónustu að auknum bjargráðum og meiri vellíðan hjá notendum þjónustunnar. HEIMILDIR Ásbjörg Magnúsdóttir, Guðrún Friðriksdóttir og Sigurlína Andrésdóttir. (2015). Endurhæfing aldraðra við athafnir daglegs lífs. Heimaþjónusta Reykjavíkur. Iðjuþjálfinn, 36(1), 20-21. Reykjavíkurborg, Velferðarsvið. (2017). Tillaga, dags. 23. mars 2017, um innleiðingu á hugmyndafræði endurhæfingar í heimahúsi, ásamt fylgigögnum (VEL2015060016). Sótt af https://reykjavik.is/sites/default/files/vel_ hugmyndafraedi_endurhaefing.pdf Tuntland, H., Kjeken, I., Langeland, E., Folkestad, B., Espehaug, B., Førland, O. og Aaslund, M.K. (2017). Predictors of outcomes following reablement in community-dwelling older adults. Clinicial Interventions in Aging, 12, 55-63. Tuntland, H. og Ness, N.E. (2016). Hva er hverdagsrehabilitering? Í H. Tuntland og N.E. Ness (ritstjórar), Hverdagsrehabilitering (bls. 21-41). Pólland: Dimograf. Vik, K. (2018). Hverdagsrehabilitering og tverrfaglig samarbeid; en empirisk studie i fire norske kommuner. Tidsskrift for omsorgsforskning, 4(1), 6-15. ENDURHÆFING Í HEIMAHÚSI – NÝTT ÞJÓNUSTUÚRRÆÐI INNAN HEIMA- ÞJÓNUSTU REYKJAVÍKUR

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.