Iðjuþjálfinn - 01.01.2018, Blaðsíða 35

Iðjuþjálfinn - 01.01.2018, Blaðsíða 35
35 Starfsumhverfi er mikill áhrifaþáttur um vellíðan og ánægju í starfi. Á Íslandi starfar aðeins um helmingur menntaðra grunn- skólakennara við fagið og mikil fækkun nemenda hefur verið í kennaranámi við háskólana. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar fyrir þessari þróun, en mikilvægi kennarastarfsins er óvéfengt þar sem hér ríkir skólaskylda frá 6 til16 ára aldurs. Fáar íslenskar rannsóknir hafa skoðað áhrif starfsumhverfis í skólum á kennara og hvaða umhverfisþættir ýta undir eða draga úr vellíðan og ánægju þeirra, við framkvæmd verka í starfi. Markmið þessarar rannsóknar er að bregðast við því og skoða starfsumhverfi í einum grunnskóla, Malarskóla (dulnefni). Til að leiða rannsóknina voru settar fram tvær spurningar: (1) Hvernig móta tilskipanir ríkis og sveitarfélags starfsumhverfi grunnskólakennara við Malarskóla? (2) Hvernig ýtir starfsumhverfi grunnskóla- kennara við Malarskóla undir starfsánægju og vellíðan þeirra og hvernig dregur það úr? Til að svara spurningunum var gerð tilviksathugun þar sem gögnum var safnað með vettvangsathugunum, WEIS viðtölum við þrjá kennara, opnum viðtölum við skólastjóra og skoðun ritaðra gagna. Hugmyndafræðin sem stýrir rannsókninni var Líkanið um iðju mannsins (e. Model of Human Occupation – MOHO) og matstækið Mat á starfsumhverfi (e. Work Environment Impact Scale- WEIS) lagði grunn að stærstum hluta gagnaöflunar. Með WEIS fæst huglæg upplifun einstaklings af því hvaða áhrif starfsumhverfið hefur á ánægju og vellíðan í starfi. Niðurstöður WEIS eru í megindlegu formi, en umhverfisþættir MOHO voru notaðir sem sniðmát fyrir alla eigindlega greiningu. Gögnin voru borin saman hvert við annað. Val skóla tók mið af stærð, stað og hentugleika en val viðmælenda var tilgangsbundið. Við- mælendur voru á aldrinum 27 til 43 ára, þrjár konur og einn karl. Helstu niðurstöður sýndu að skólastjórinn rekur skólann sem fyrirtæki, hann starfar sem rekstrarstjóri og starfsmannastjóri síns skóla. Hann hefur ákveðið frjálsræði innan tilskipana ríkis og sveitarfélaga sem hann getur nýtt sér í þróunarstarfi skólans. Um 30% fjárframlaga skólans fara í annað en laun starfsfólks og er þeim deilt í samræmi við forgangsröðun skjólastjórnar. Það sem ýtir undir ánægju og vellíðan í starfsumhverfi kennara er að þeir telja starf sitt mikilvægt. Til þeirra eru gerðar sanngjarnar kröfu en jafnframt hafa þeir frjálsar hendur með mótun starfshlutverksins og kunna þeir vel að meta það. Það sem einna helst dregur úr ánægju þeirra og vellíðan er að laun eru ekki í samræmi við vinnuframlag og ábyrgð. Lykilhugtök: Starfsumhverfi, starfsánægja, grunnskólakennari, Líkanið um iðju mannsins og WEIS. Höfundar: Silja Margrét Stefánsdóttir og Hafrún Lilja Halldórsdóttir Leiðbeinandi: Kristjana Fenger „ÞAÐ ER GAMAN AÐ VERA KENNARI EN...“ TILVIKSATHUGUN Á STARFSUMHVERFI GRUNNSKÓLAKENNARA Leikur er mikilvægur fyrir þroska og vellíðan allra barna. Þeim er mikilvægt að fá að leika og taka þátt í leik með öðrum börnum, að eiga félagslega hlutdeild jafnt á við aðra og fá að vera með. Fyrir samfélagið í heild skiptir það máli að öll börn geti leikið sér saman og að hönnun sé á þann hátt að hugað sé að félagslegu gildi leiks. Rannsóknir hafa sýnt fram á að sum börn hafi færri tækifæri en önnur til að komast um í samfélaginu og að vera virkir þátttakendur. Að eiga hlutdeild í sam- félaginu getur, jafnt og leikur, haft áhrif á andlega líðan og þroska barna. Rannsóknaráætlun þessi er lokaverkefni til B.Sc. prófs í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri. Tilgangur rann- sóknarinnar sem lýst er í þessari rann- sóknaráætlun er að gera úttekt á leiksvæð- um Mosfellsbæjar og kanna hvort aðgengi sé í samræmi við algilda hönnun, nýlega samþykktan samning Sameinuðu þjóð- anna, lög og reglugerðir. Sú rannsóknar- spurning sem mun leiða verkefnið er „Að hvaða marki eru leiksvæði Mosfellsbæjar aðgengileg börnum til leiks, samkvæmt gátlista um útileik og félagslega hlutdeild?“ Rannsóknin er megindleg lýsandi rannsókn og stuðst er við fyrrnefndan gátlista. Lykilhugtök: algild hönnun, félagsleg hlutdeild, þátttaka, aðgengi, notagildi, leikur, leiksvæði og fötluð börn Höfundur: Sonja Ólafsdóttir Leiðbeinandi: Hólmdís Freyja Methúsalemsdóttir GETA ALLIR VERIÐ MEÐ? AÐGENGI AÐ ALMENNUM LEIKSVÆÐUM MOSFELLSBÆJAR – RANNSÓKNARÁÆTLUN

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.