Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2011, Page 48
hinsegin fólks og fatlaðs fólks gagnvart
hvort öðru.
Fatlandi viðhorf
Embla undirstrikar að líffræðilegar skerð-
ingar ættu ekki að vera vandamál. Hún
segir fötlun ekki meðfædda heldur sé það
samfélagið sem skapi hana með því að
viðhalda ákveðnum hindrunum og viðhorf-
um. Það sé samfélagið sem fatli fólk: „Ég
tala oft um fatlandi viðhorf gagnvart fötluðu
fólki. Vinir mínir eru t.d. stundum spurðir:
Vill hún fá kaffi? Hvað heitir hún? Hvað er
hún gömul? Þetta er mjög lúmskt því fólk
trúir því að það sé að vera gott en er í raun-
inni að sýna fordóma og forræðishyggju
með ákveðinni hegðun. Það heldur að við
séum börn og alltaf glöð. og þetta háir mér
mjög. Það háir mér ekkert svo mikið að
vera með líkamlega skerðingu. En það háir
mér að geta ekki farið út í búð án þess að
einhver klípi mig í kinnina og segi að ég sé
krúttleg. Það er það sem gerir mig fatlaða.“
Í raun sama baráttan
„Ég finn fyrir því að það eru miklu minni
fordómar gagnvart fötluðu fólki í löndum
þar sem það hefur háð háværa baráttu fyrir
réttindum sínum. Þess vegna er áhugavert
að skoða baráttuna út frá réttindabaráttu
samkynhneigðra. Vandinn er nefnilega sá
sami. Fatlað fólk er álitið vera á lægra plani
en aðrir og það átti einnig við um sam-
kynhneigða. Birtingarmyndirnar eru kannski
ólíkar en það er samt hægt að nota sömu
tæknina í baráttunni. Það væri hægt að
gera svo margt með því að vinna saman.
Við höfum öll reynslu af því að tilheyra
minnihlutahópi eða kúguðum hópi í sam-
félaginu, reynslu sem hægt er að deila.
Einu sinni sagði fólk „kynvillingur“ og það
þótti allt í lagi en það hvarflar ekki að okkur
í dag. Eins viljum við að það sé sagt „fatlað
fólk“, ekki „fatlaðir“, því við viljum náttúr-
lega vera fólk. Sumum finnst það flókið en
þetta er í raun nákvæmlega sama krafa og
sú að hætta að nota orðið „kynvillingur“.
krafa um að vera álitin fólk. mér finnst
mikilvægt að tengja þessa baráttu við aðra
hópa svo að við áttum okkur á því hvers
eðlis hún er og að þetta sé í raun sama
baráttan.
Ég fyllist alltaf orku þegar ég skoða
baráttu kvenna og samkynhneigðra því hún
hefur skilað svo miklum árangri. Fyrir þrjátíu
árum hefði enginn trúað því að ástandið
myndi breytast svona mikið. Það er gagn-
legt að skoða þessa baráttu í samhengi og
nýta hugmyndir og baráttu hvers hóps fyrir
sig því þeir eru í raun svo tengdir. Stundum
stangast markmið okkar á að einhverju
leyti. Femínistar berjast t.d. fyrir því að líf
kvenna sé ekki einskorðað við móðurhlut-
verkið en fatlaðar konur eru einmitt að
berjast fyrir því að fá að vera mæður. Þarna
ríkir ákveðin andstæða í baráttumálum en
grundvallarhugmyndin er sú sama. Við nálg-
Sex ára á Flórída með Guðmundi frænda Felixsyni.
48