Hinsegin dagar í Reykjavík - ágú. 2011, Blaðsíða 53
Ég er nefnilega mikill trúmaður. móðir
mín var kirkjurækin og öll hennar ætt og
aldrei þurfti að reka mig í sunnudags-
messuna, ég fór þangað af löngun. Hefði
ég átt þess kost þá hefði ég ábyggilega
lesið til prests. mér liður alltaf vel í kirkju
og ekki spillir fyrir ef presturinn klæðist
einum af höklunum mínum.
Ég var vanur að mæta í hádegisstund
í langholtskirkju á miðvikudögum. Þar
safnaðist eldra fólkið saman til hugvekju
og síðan var boðið upp á súpu og sam-
verustund. Eftir blaðaviðtalið brá svo við
að enginn tók undir þegar ég heilsaði eða
yrti á mig, og þegar ég settist með súpuna
mína við borð stóð fólk upp og færði sig.
nokkru seinna var gamla fólkinu boðið í
jólahlaðborð í kirkjunni og þar mætti ég
auðvitað því ég ætlaði ekki að láta þetta á
mig fá. Samverustundin hófst á hugvekju
og ég hafði sest á bekk í miðri kirkju þegar
tvenn hjón komu og settust þar líka. En
stóðu svo allt í einu upp og ruddust út úr
bekknum til að finna sér annað sæti. Þegar
karlinn sem fór síðastur tróð sér framhjá
mér hvæsti hann á mig: „konurnar vilja ekki
sitja hjá þér.“
Þótt ég nyti stuðnings og velvilja séra
jóns Helga, sóknarprestsins míns sem ég á
margar góðar stundir að þakka, þá var þetta
mál aldrei rætt til fulls, því miður. Samt er
opinská samræða eina leiðin til að vinna á
fordómunum, það verður að draga þá upp
á borð. og eftir þetta fór ég aldrei aftur í
þessar hádegisstundir. Hvað sem hvatningu
guðspjallanna líður þá eru takmörk fyrir því
hvað maður býður oft fram vinstri kinnina
þegar maður er sleginn á þá hægri.
Af annarri kynslóð
auðvitað hafa skipst á skin og skúrir.
Erfiðast var að lifa með þeirri tilhneigingu
mannsins míns að sveipa sambandið þögn
og ósýnileika. Það átti nú ekki við mig að
fela mig og ég get heldur ekki leynt því svo
glatt hver ég er. Uppruninn skipti líka máli,
ég var af alþýðufólki og án bakhjarla sem
mér fannst ég þurfa að taka tillit til. Ég stóð
og féll með sjálfum mér. En guðbrandur
var úr fjölskyldu virtra borgara sem allir
landsmenn könnuðust við, „Socialgrupp i“
kalla þeir það í Svíþjóð, og það hefti hann
mikið hugsa ég. Hann vildi til dæmis ekki
að nafnið mitt stæði á dyrabjöllunni og
síminn var lengst af bara á hans nafni. Það
var hann sem bauð í veislur, ekki við tveir.
Þetta særði mig oft en ég hélt friðinn því
ég þekkti tilfinningar hans til mín þrátt fyrir
allt. nútíminn á kannski erfitt með að skilja
svona lagað, en maðurinn minn var einfald-
lega af annarri kynslóð en ég og nýir tímar
náðu aldrei til hans. Ég varð aftur á móti
fyrir áhrifum af tíðarandanum og fannst
það alveg stórkostlegt þegar unga fólkið
reis upp og gerði hreint fyrir sínum dyrum.
Ég átti eftir að blanda mér í þann hóp og
segja opinberlega frá mínu lífi og af því er
ég stoltur. Ekki grunaði mig átján ára að ég
ætti eftir að feta í fótspor allans Hellmann.
En sannleikurinn er sá að laumuspilið kallar
ekkert yfir okkur nema sársauka.
Ástfangnir og nýtrúlofaðir. Guðbrandur Hlíðar og Herder Andersson í Stokkhólmi árið 1957.
Gerlafræðingurinn Herder.
53