Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2011, Page 58

Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2011, Page 58
 g e r Ð u r k r i s T n ý Verksmiðjueigandinn í Dhaka Í fyrra var ég svo lánsöm að vera boðið á alþjóðlega ljóðahátíð í Bangladesh. Ég flaug utan í upphafi aðventu og lenti í hitamollu á flugvellinum í dhaka. Þar tók assís á móti mér, maðurinn sem falið hafði verið að ,,sjá um mig“ meðan á þessari fimm daga hátíð stóð. Þetta var ákaflega alvarlegur maður um sextugt með hárið greitt yfir skallann. assís átti verksmiðju, en á milli þess sem hann stýrði henni orti hann ljóð. auðsætt var að ljóðahátíðin hafði ekki úr djúpum sjóðum að ausa. Sjálf hafði ég orðið mér úti um styrk fyrir fargjaldinu en heimamenn hugðust annast uppihald mitt. Fyrstu nóttinni varði ég í bleiku barnaherbergi sonardóttur assís. Á heimili fjölskyldunnar bjuggu fjórar kynslóðir, öldruð móðir assís, dóttir hans, sonur, tengdadóttir og tvö barna- börn. og assís réði. Hann talaði skipandi rómi við heimilisfólkið og þjónustustúlkurnar fimm sem horfðu stóreygar og þegjandi á mig þegar mér varð á að heilsa þeim. En hvað um það, maturinn var dásamlegur og disneyprinsessurúmið mjúkt. daginn eftir var haldið í rútu út á land með hinum skáldunum sem reyndust koma frá indlandi, myanmar, Pakistan og Bangladesh sjálfu. ljóðahátíðin fór nefnilega fram á Cox’s Bazaar, lengstu sandströnd í heimi. Engin dagskrá hafði verið prentuð og ég áttaði mig á því að ég var algjörlega upp á hann assís komin – ekki aðeins varðandi allar upplýsingar um hátíðina, heldur líka mat og reyndar sitthvað fleira. Í hvert skipti sem rútan var stöðvuð leit assís nefnilega á mig og sagði á sinn hvassa hátt: „Þarftu á klósettið? Þú þarft á klósettið! Það er þarna,“ og benti. Þegar ég kom aftur hafði hann valið einhvern rétt handa mér og keypt hann líka: „gjörðu svo vel. Borðaðu.“ assís vildi ekki að gestir hátíðarinnar gæfu sig að mér í tíma og ótíma og átti það til að banda þeim frá mér eins og flugum. Einhverju sinni varð mér það á að taka undir kveðju drukkins ungs manns úti á götu og þá kreisti assís á mér handlegginn af afli og dró mig í burtu. Ég átti ekki að tala við drukkið fólk, hvæsti hann. Sjálfur reykti assís og drakk bjór en tók fram að það gerðist bara þegar hann væri úti á landi. „Ef ég tæki upp á því að reykja eða drekka bjór svo fjölskylda mín sæi, myndi hún missa alla virðingu fyrir mér,“ sagði hann og hló við. Honum fannst hann algjör villingur. ljóðahátíðin var indæl. Fólk las helstu tíðindi úr eigin sálarkirnum af miklum móð eins og fara gerir. Síðasta deginum í Bangladesh vörðum við síðan í rútu því nú þurftum við að koma okkur aftur til dhaka. Á leiðinni þangað tókum við assís að fræða hvort annað um helstu ráðamenni landa okkar. Ég sagði honum hvað forsetinn okkar héti og forsætisráðherrann. Síðan tók ég það fram að eiginkona jóhönnu, hún jónína leósdóttir, væri líka rithöfundur og skáld – svona eins og við assís. Þá kom á vin minn. „Tvær konur! Tvær konur sem búa saman!“ fussaði hann. „Ekki skil ég hvernig þær bjarga sér!“ „i don’t understand, how they cope!“ Þannig orðaði hann það og eitt andartak sá ég það sem honum flaug fyrir hugskotssjónir: Tvær ringlaðar konur hringsólandi fyrir fram- an baðherbergisdyrnar, svona líka klosslens yfir því hvort þeim væri mál eða ekki. og enginn til að segja þeim það. 58

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.