Vinnan - 01.12.1945, Blaðsíða 46
BÆKUR OG HÖFUNDAR
v___________:------->
ÚR MÖRGU AÐ MOÐA
„Hvar skal byrja, hvar skal standa?“
sagði séra Matthías í hinu snjalla kvæði
sínu ura Skagafjörð. Líkt mætti segja,
þegar geta skal hinna fjölmörgu bóka, sem
koma daglega í bókabúðagluggana. Og
ekki er því láni að fagna, að Bragi sé
manni svo innan handar, að hann leysi
þar úr nokkrum vanda. En á einhverju
verður að byrja og verður þá fyrst fyrir
að hefja messuna á fáeinum línum um
fyrstu bókina, sem kom út í bókaflokkin-
um „Listamannaþing", en eins og mönnum
er kunnugt, er það flokkur erlendra úrvals-
skáldrita, sem valdir menn íslenzka og
Helgafell ber veg og vanda af. Fyrsta bók
þessa flokks, sem barst í hendur lesendum,
er:
NÓA NÓA
ejtir Paul Gaugin
Tómas Guðmundss. íslenzkaði
Flestir menn, sem hafa einhveíja nasa-
sjón af listum og listsögu, hafa vafalaust
einhverntíma heyrt getið um höfund þess-
arar bókar, Gauguin, sem var raunar ekki
sérlega frægur rithöfundur (ég minnist
þess ekki, að hann hafi skrifað fleiri bæk-
ur en þá, sem hér verður getið lítilsháttar),
en varð hins vegar heimsfrægur málari og
er enn talinn meðal fremstu snillinga, sem
uppi hafa verið í þeirri listgrein. A unga
aldri gekk hann margs konar refilstigu og
aflaði sér margvíslegrar lífsreynslu, sem
hverjum listamanni er nauðsynleg, en gerð-
ist seinna ötull fjáraflamaður, kvæntist,
setti bú saman, eignaðist börn, þurfti hvorki
að kvíða atvinnuleysi né fátækt og hafði
„komið sér ágætlega fyrir“ á borgaralegan
mælikvarða.
En því er nú einu sinni þannig farið, að
sannir listamenn eru sjaldnast það, sem
miðlungsmennirnir kalla „góða borgara".
Listhneigð hans krafðist þess, að hann
fórnaði henni öllu: öruggri afkomu, heim-
ili, borgaralegu áliti og allri starfsorku
sinni og áhuga. Og Gauguin reyndist trúr
sjálfum sér og valdi hina þyrnum stráðu
braut listamannsins. Og því fór fjarri, að
hann dansaði á rósum, eftir að hann helg-
aði sig list sinni. Hin ytri saga hans er
samfelld harmsaga, en vel má vera, að á
frjóustu stundum listsköpunar hans, hafi
honum veitzt sú gleði, sem sagt er, að ein-
ungis fáir útvaldir þekki.
Þegar Paul Gauguin var orðin leiður á
hinni úrkynjuðu siðmenningu, var hann
nægilega gáfaður til að leita hins einfalda,
frumstæða og óspillta lífs. Og til að geta
lifað slíku lífi varð hann að fara alla leið
til Tahiti, en þar dvaldist hann árum sam-
an og málaði mörg beztu málverk sín þar.
í bók sinni, Nóa Nóa, skýrir liann meðal
annars frá dvöl sinni á þessari fjarlægu
Kyrrahafsey og siðum og háttum hinna
frumstæðu eyjarskeggja. Lesendum mun
ekki gerður sá bjarnargreiði að rekja efni
hennar hér, en þess skal aðeins getið, að
bókin er skrifuð í fáguðum, ljóðrænum
stíl, og hefur Tómas Guðmundsson sniðið
henni hinn smekklegasta búning í íslenzku
þýðingunni, svo sem hans var von og vísa,
auk þess sem hann hefur skrifað ýtarlegan
formála um höfundinn.
Ekki mun það teljast mikil óprýði á bók-
inni, að í henni eru ljósmyndir af fjölda
málverka eftir höfundinn, og eru sumar
þeirra litmyndir. Orkar það tæplega tví-
mælis, að „Listamannaþing“ fer myndar-
lega og glæsilega af stað.
Önnur bók
„LISTAMANNAÞINGS"
Birtingur, eftir Voltaire
Halldór Kiljan Laxness
snaraði
Ekki stendur önnur bók „Listamanna-
þings" hinni fyrstu að baki, enda hafa tveir
snillingar þar um vélt, þeir Voltaire gamli,
sem var einhver andríkasti og fyndnasti
spekingur og rithöfundur átjándu aldarinn-
ar, þótt hann væri dálítið geðvondur, karl-
hróið — og Halldór Kiljan Laxness, sem
hefur íslenzkað þetta sígilda listaverk á
tólf dögum — að því er þýðandinn segir
sjálfur í formálanum — en eigi að síður
með töfrandi glæsibrag.
Voltaire ritaði þessa bók upp úr miðri
átjándu öld og kallaði hana Candide au
L’Optimisme, eða Birting frá Bjarmalandi
(útlagt með mjög bíræfnu skáldaleyfi -—
samkvæmt orðanna hljóðan: Einlægni (trú-
girni) eða bjartsýni). Var markmið bókar-
innar að draga dár að bjartsýniskenningum
ýmissa heimspekinga og skálda. Þó að bók-
in sé rituð í bráðskoplegum og andríkum
hæðnis- og ádeilustíl og svo virðist, sem
höfundur hennar meti allt „hégómans hé-
góma“, eins og hinn vísi Salómon, boðar
hann sálargöfgandi og lífshollt evangelíum.
Og skyldu enn þá vera til menn, haldnir
þeim lífstrega (Weltsmerz), sem var mjög
í tízku á dögum Göthes gamla — og átti
einkum rætur sínar að rekja til letilífs
manna, sem höfðu ekki áhuga á neinu
nema kvennafari, ásamt tilheyrandi fylliríi
— væri þeim hollt að tileinka sér hina há-
leitu, en óbrotnu lífspeki þeirra Birtings og
Marteins í niðurlagi bókarinnar, þó að
þessar göfugu söguhetjur hafi orðið að
ganga í hinn stranga skóla reynslunnar,
til að öðlast þessi einföldu sannindi. Þegar
lífið virðist hafa svipt þá allri vonarglætu,
og þeir eru að því komnir að örvænta, lýst-
ur þeirri hugsun eins og eldingu niður í
kollinn á þeim, að í starfinu megi finna bót
margra andlegra meina. „Vinnum án þess
að brjóta heilann, sagði Marteinn, það eitt
gerir Iífið bærilegt." Og: „Hitt veit ég líka,
sagði Birtingur, að maður verður að hirða
um garðinn sinn.“
I formálanum lætur þýðandinn þess get-
ið, að hann hafi tekið sér „til fyrirmyndar
aðferðir í því að snara úr latínu og frönsku
á norrænu.“ Svipaða aðferð hafði Jónas
Idallgrímsson, við þýðingu sína á ævintýr-
inu af Eggerti Glóa og frásögninni um
„Rósa-knút, fíblið mitt“, úr „Die Reise-
bilder“, eftir Hæni.
Meðferð erlendra mannanafna og staða-
heita á íslenzka tungu hefur löngum verið
hið mesta vandræða- og deilumál, en í því
efni virðist mér þýðandanum hafa tekizt
afburðavel. Að vísu er mér til efs, að mjög
margir íslenzkir lesendur viti t. d„ hvaða
staður Góðviðra er, eða hvar hann er á
hnettinum, en það er reyndar hvorki meira
né minna en sú margumtalaða og heillandi
borg Buenos Aires. Á sama hátt mætti ef
til vill kalla álíka fræga borg, Montevideo
Fjallasýn (nákvæmar útlagt: Ég sé fjall).
En talsverð þekking er nauðsynleg við slík
vinnubrögð, því að hæglega getur mönnum
orðið á í messunni, svo sem fór fyrir Matt-
híasi gamla Jochumssyni í kvæðinu: „Uti
í Oxnafurðu....“, þar sem hann er að ís-
lenzka enska borgarheitið Oxford. Ef til
vill hefði verið svolítið nær lagi að túlka
Oxford með Yxnavað, því að orðið ford
þýðir raunar vað á læk eða á og er senni-
lega skylt orðinu firth, sem þýðir fjörður
eða flói.
Loks getur þýðandi þess, að hann þekki
270
VINNAN