Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2015, Síða 28

Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2015, Síða 28
Einelti og sáluhjálparinn Tina Turner Viltu byrja á að segja aðeins frá sjálfum þér, æskunni og uppvextinum? Móðir mín var bara 16 ára þegar ég fæddist og faðir minn að verða tvítugur og við mamma bjuggum þess vegna hjá ömmu þangað til ég var þriggja ára. Fyrirmyndir mínar sem krakki voru amma mín og frænkur og ég varð eiginlega svona lítil kerling. Það var ekki séns að fá mig til að leika við hina krakkana inni í herbergi, ég vildi bara sitja við eldhúsborðið og hlusta á kjaftaganginn. Ég apaði mikið eftir þeim og í skólanum varð ég fyrir miklu einelti af því að þetta var mitt norm, ég trúði því að svona hagaði fólk sér. Ég talaði skringilega og var líka þybbinn og ofan á allt annað var ég eldheitur Tinu Turner-aðdáandi. Hún var svona minn sáluhjálpari. Þegar ég kom heim úr skólanum og það var búið að leggja mig í einelti allan daginn fór ég og skellti Tinu Turner í tækið og hélt heilu tónleikana. Það hjálpaði mér rosalega mikið og ég hlusta ennþá á hana daglega. Í uppreisn gegn sjálfum sér Fólk hefur sagt að ég hafi verið fyrirferðarmikill og þurft mikla athygli og ég upplifði mikla óþolinmæði gagnvart mér. Mér fannst ég vera öðruvísi og ég fór að trúa því sem aðrir sögðu við mig þegar ég var lagður í einelti. En um kynþroskaaldurinn tók ég ómeðvitaða ákvörðun um að ég ætlaði að sýna þessu fólki að það væri ekki rétt það sem það var að segja. Ég tók í rauninni ákvörðun um að vera ekki ég sjálfur. Ég fór til að mynda með allt Tinu Turner-safnið mitt niður í Kolaport og seldi það á fimmtíukall. Ég gerði uppreisn gegn því sem ég var og þá byrjaði ég í áfengis- og fíkniefnaneyslu. Ég drakk fyrst 13 ára gamall. Vímuefnin gerðu rosalega mikið fyrir mig, kvíðinn slokknaði og óttinn líka og mér fannst ég loksins falla inn í hópinn. Það komst í rauninni ekkert annað að í mínu lífi en neysla. Framtíðarplön og menntun voru ekki inni í myndinni því það var full vinna að djamma og flýja raunveruleikann. Það var svo mikið tómarúm sem þurfti að fylla – það var svo vont að vera ég. Leit að sjálfsvirðingu Komstu út úr skápnum á þessum tíma? Þegar ég kom út úr skápnum árið 2003 opnuðust himnarnir fyrir mér. Mér fannst það æðislega gaman og ég fór mikið út að skemmta mér. Ég var aðalglamúrpían! Stjórnleysi hefur samt alltaf verið mjög viðloðandi við mig, bæði í hegðun og hugsun og í sambandi við aðra. Ég hef til að mynda aldrei átt kærasta og ég skil það í dag, af því að ég var mjög stjórnlaus, í neyslu og ekki mjög aðlaðandi. Ég fór í meðferð á Vog þegar ég var 19 ára og svo fór ég í Götusmiðjuna í langtímameðferð þegar ég var tvítugur. Þar heyrði ég fyrst talað um orðið „sjálfsvirðing“ og að þá sem dópuðu og drykkju mikið skorti sjálfsvirðingu. Þá fór ég mikið að velta þessum hlutum fyrir mér og hef gert síðan. Ég var edrú í tvö ár eftir að ég kom úr Götusmiðjunni, 2005–2007, en svo datt ég í það aftur. Ég var erlendis í nokkur ár en þegar ég kom heim aftur fór ég inn á Krýsuvík í vímuefnameðferð og þar tókst mér í fyrsta skipti að byggja upp þessa sjálfsvirðingu sem ég hafði verið að velta fyrir mér lengi hvernig ég ætti að eignast. Veikur af alnæmi Ég var alltaf rosalega hræddur við HIV og ef ég fékk blett á húðina hugsaði ég alltaf fyrst um það. Ég vissi samt í rauninni ekki mikið, til dæmis þekkti ég ekki muninn á HIV og alnæmi. Ég vissi bara að fólk dó. Ég smitaðist sjálfur erlendis og varð rosalega veikur. Ég hafði oft farið í test en á meðan ég var úti þorði ég það ekki. Það var ekki fyrr en ég var orðinn fárveikur að ég var settur í test. Ég var á spítala í tvo mánuði af því að ég var í rauninni kominn með alnæmi. Varstu þá búinn að vera lengi með HIV- veiruna? Já. Læknirinn talaði um fimm ár en það var nú ekki svo langt því ég fór í test þremur árum áður og það var neikvætt. En ég hafði verið í mikilli neyslu og það ýfir upp sjúkdóminn. Ég hafði farið til læknis þrisvar eða fjórum sinnum, úrvinda af veikindum, en þeir létu mig bara fá sýklalyfjasprautu í rassinn og vökva í æð og sendu mig svo heim. Það var ekki fyrr en mér var ýtt inn á spítalann í hjólastól að ég var settur í test. Ég var kominn með bletti á húðina og allan pakkann. Ég hef aldrei verið svona veikur, þetta var hræðilegt. Ég var orðinn 70 kíló en mín meðalþyngd er 90 kíló, ég var ekkert nema skinn og bein. Ég var bara að deyja. Veirulaus og fílhraustur Hvernig fór meðferðin fram? Læknarnir úti björguðu mér. Þegar ég kom heim fór ég svo beint í meðferð á A3 á Landspítalanum í Fossvogi. Ég fór á Atripla lyfið en í dag er ég á þremur tegundum af lyfjum af því að ég er með aðra týpu af veirunni sem finnst ekki hér heima af því að ég smitaðist úti. Meðferðin hefur gengið ofboðslega vel og ég svaraði lyfjagjöfinni strax mjög vel. Ég var orðinn nokkuð góður 3-4 mánuðum eftir að ég kom heim og veirulaus eftir aðra 3-4 mánuði. Læknirinn minn, Sigurður Guðmundsson, segist sjaldan hafa séð nokkurn taka svona vel á móti meðferð. Ég finn ekki í dag að ég sé með neinn sjúkdóm. Ég er fílhraustur og spriklandi í ræktinni og finn ekki fyrir neinu! 28

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.