Hinsegin dagar í Reykjavík - aug 2015, Qupperneq 57
Það gleður mig mjög að senda kveðju til allra þátttakenda í
Hinsegin dögum í Reykjavík.
Þegar ég kom til Íslands í upphafi þessa árs gladdi það mig að
sjá að Ísland er staður þar sem réttindi hinsegin fólks eru í heiðri
höfð og jafnvel að því marki að samkvæmt nýlegri könnun eru
samkynhneigðir sem búa á Íslandi hamingjusamastir miðað við
samkynhneigða í öðrum löndum. Ísland er innblástur fyrir aðra þar
sem hinsegin fólk mætir mótbyr í mörgum löndum víðs vegar um
heiminn.
Þrátt fyrir að ástandið í Bandaríkjunum sé síður en svo fullkomið
eru framfarir þar mælanlegar. Þann 26. júní síðastliðinn ályktaði
Hæstiréttur Bandaríkjanna að samkynja hjónabönd væru
stjórnarskrárvarin grundvallarmannréttindi. Í meirihlutaáliti sagði
dómarinn Anthony Kennedy: „Eðli óréttlætis er að við komum ekki
alltaf auga á það á okkar eigin tíma. Kynslóðirnar, sem skrifuðu
og lögleiddu réttindaskrána og fjórtándu lagabreytinguna, þóttust
ekki þekkja allt ummál frelsis í öllum sínum víddum, svo þeir settu
kynslóðum framtíðar stefnu til að verja réttindi allra til að njóta
frelsis meðan við uppgötvum merkingu þess.“ Með áliti sínu gerði
Hæstiréttur Bandaríkjanna Bandaríkin að fimmtándu þjóðinni til
að viðurkenna löggildi hjónabanda fólks af sama kyni. Ísland var
meðal fyrstu þjóðanna til að gera slíkt hið sama þegar Alþingi
staðfesti löggildi samkynja hjónabanda árið 2010. Við vonum að
fleiri þjóðir fylgi í kjölfar Íslands, Bandaríkjanna og annarra þjóða
til að hreyfing verði í þessa átt. Hjónabandið er þýðingarmikið
og dæmi um æðstu hugsjónir ástar, hollustu, tryggðar, fórnar og
fjölskyldu. Hjónaband snýst um að verða meiri en hægt er að
verða einn síns liðs.
Staða málefna hinsegin fólks hefur snúist til verri vegar í mörgum
löndum heimsins og það er sorglegt að heyra sögur af ofsóknum,
fangelsun og dauðsföllum vegna mismununar á grundvelli
kynhneigðar. Sum lönd hafa jafnvel sett í gildi lög sem glæpavæða
samkynhneigð. Slík lög voru lögð af á Íslandi fyrir löngu síðan. Í
fyrra sagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, í tilefni
birtingar hinnar árlegu mannréttindaskýrslu ríkisins: „Þessi lög eru
hluti af alþjóðlegri þróun í átt að auknu ofbeldi og mismunun gegn
hinsegin fólki og stuðningsaðilum þeirra, og þau eru móðgun við
skynsamlega samvisku, og Bandaríkin munu áfram standa með
hinsegin bræðrum og systrum þar sem við styðjum frelsi, réttlæti
og jafnrétti fyrir allt fólk í heiminum.“ Réttindi hinsegin fólks eru
mannréttindi og það er mikilvægt að við stöndum sameinuð gegn
mismunun.
Bandaríkin og Ísland: Rétturinn til að
elska, lifa og vera samþykkt eins við
erum í raun.
Skilaboð frá sendiherra Bandaríkjanna, Robert Cushman Barber, til
Íslendinga og allra gesta á Hinsegin dögum í Reykjavík 2015:
Mannréttindi eru aldrei einkamál þjóða og það er mikilvægt
að standa upp og ljá rödd sína þeim sem verið er að mismuna.
Það á við hvort sem mismununin er á grundvelli kyns,
kynhneigðar, kynþáttar, aldurs, trúar eða fötlunar. Verndun
almennra mannréttinda er grundvallaratriði í utanríkismálastefnu
Bandaríkjanna og við höfum skuldbundið okkur til að vinna að
framgangi mannréttinda fyrir alla. Því erum við stolt af að geta
stutt við ýmis mannréttindamál á Hinsegin dögum í ár, ekki
eingöngu með að styrkja dagskrárliði fyrir hinsegin fjölskyldur,
ganga í gleðigöngunni og með framlagi í dagskrárritið, heldur
einnig með því að aðstoða við aðgengiskostnað til að fólk
með fötlun geti tekið þátt í hátíðinni og varpa um leið ljósi
á mannréttindabaráttu þeirra. Hinsegin dagar snúast um
mannréttindi fyrir alla og það er mikilvægt að halda þeirri baráttu
áfram á öllum vígstöðvum.
Frábært er að sjá hve virkir Íslendingar eru í alþjóðlegu
samhengi við að auka meðvitund og hjálpa til í baráttunni fyrir
mannréttindum víðs vegar um heiminn. Alþjóðasamfélagið er
sterkast þegar það rís upp í sameinuðu átaki.
Við munum alltaf þurfa virkt fólk sem er viljugt til að rísa upp og
láta rödd sína heyrast, annars myndi ef til vill ekkert breytast.
Hluttekning eða andspyrna venjulegs fólks, sem hefur upp raust
sína gegn óréttlæti sem hefur fengið að viðgangast of lengi, getur
gert gæfumuninn. Gjörðir þeirra hjálpa okkur að sjá mannúð hvers
annars þrátt fyrir möguleg ágreiningsefni okkar.
Mannréttindi ættu ekki að lúta landamærum. Að tala máli
mannréttinda snýst ekki um að segja: „Ég er fullkominn og þú ættir
að vera fullkominn eins og ég.“ Málið snýst um að sækjast eftir að
ná alþjóðlegum markmiðum, sem við ættum öll að gera. Það er ekki
nauðsynlegt að vera fullkominn til að berjast fyrir mannréttindum
en við þurfum að taka þátt í góðri trú og leggja okkar af mörkum til
að ríkisstjórnir okkar verði fullkomnari.
Við lítum á það sem skyldu okkar að standa með íslenskum
vinum okkar og tökum stolt þátt í gleðigöngunni í ár til stuðnings
hinsegin fólki víðs vegar um heiminn. Við tökum þátt í göngunni
fyrir mannréttindi, fyrir réttinn til að elska, lifa og vera samþykkt
eins og við erum í raun.
„Handan við baráttu og áföll sjáum við sameiginlega stefnu í átt að frjálsara
og réttlátara samfélagi. En við erum líka minnt á að við erum ekki í raun jöfn
fyrr en hver persóna hefur fengið sömu réttindi og tækifæri – að þegar einn
okkar upplifir mismunun hefur það áhrif á okkur öll – og að ferð okkar lýkur
ekki fyrr en komið er fram við lesbíur, homma, tvíkynhneigða og transfólk,
hinsegin bræður okkar og systur, eins og alla aðra samkvæmt lögum.“
Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, 29. maí 2015.
Yfirlýsing forseta – HINSEGIN MÁNUÐUR
57