Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2015, Page 61
Trans
Intersex
Trans (transgender) er regnhlífarhugtak yfir ólíka hópa fólks sem á það
sameiginlegt að kynvitund þess, kyntjáning eða -upplifun er á skjön við það
kyn sem því var úthlutað við fæðingu. Þar undir fellur meðal annars trans fólk
sem upplifir sig sem „hitt“ kynið og fer í kynleiðréttingarferli og kynsegin fólk
(genderqueer, genderfluid, non-binary) sem upplifir sig hvorki sem karl né konu
heldur sem hvort tveggja eða einhvers staðar þar á milli.
Intersex er líka regnhlífarhugtak sem nær yfir fólk með ódæmigerð kyneinkenni,
það er meðfædd líkamleg einkenni sem ekki samræmast stöðluðum hugmyndum
um karl- og kvenkyn. Intersex einstaklingar fæðast sem sagt með kyneinkenni
sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns, sambland af karl- og kvenkyni eða
hvorki karl- né kvenkyns. Sumar algengar intersex formgerðir eru greindar á
meðgöngu og margar eru sjáanlegar við fæðingu. Ýmsir intersex eiginleikar
koma þó síðar í ljós, til dæmis við kynþroska, þegar reynt er að geta barn, eða
fyrir einskæra tilviljun.
Trans fólk og intersex fólk eru þeir hópar innan hinsegin samfélagsins
sem einna mest samskipti þurfa að hafa við heilbrigðiskerfið, ýmist
sökum þess að einstaklingar sækjast eftir því að fá hormónagjöf og
gangast undir skurðaðgerðir eða af því að slíkum aðgerðum hefur verið
beitt og glíma þarf við afleiðingar þess. Báðir hópar eru því að miklu
leyti háðir því hversu vel heilbrigðiskerfið í hverju landi er í stakk búið
að sinna þeirra þörfum og hve mikill vilji er fyrir hendi til að gera það
með þarfir einstaklingsins í fyrirrúmi. Ritstjórn fékk Kitty Anderson,
formann félagsins Intersex Ísland, og Uglu Stefaníu Jónsdóttur,
fjölmiðlafulltrúa Trans Íslands, til að setjast niður og ræða þessi mál og
stöðuna á Íslandi.
61