Hinsegin dagar í Reykjavík - aug 2015, Qupperneq 62
Tvær hliðar á sama peningi
Ugla: Það má segja að við séum tvær
hliðar á sama peningnum. Við erum báðar
að berjast við kynjakerfið og hugmyndir
samfélagsins um hvernig karl- og
kvenlíkamar eiga að líta út. Finnst þér það
ekki?
Kitty: Jú, einmitt. Baráttumálin eru samt
gjörólík og þarfirnar mismunandi. Intersex
hópar berjast gegn læknisfræðilegum
inngripum og aðgerðum á líkömum
einstaklinga nema fullt og upplýst samþykki
liggi fyrir.
Ugla: Já, á meðan trans fólk berst
fyrir því að fá yfirhöfuð aðgang að
heilbrigðiskerfinu.
Kitty: Einstaklingar með ódæmigerð
kyneinkenni eru oft settir í ákveðið ferli
áður en þeir eru komnir með aldur til þess
að geta tjáð sig um það sem er verið að
gera við líkama þeirra.
Ugla: Á sama tíma er trans fólk neytt til
að sýna og sanna kynvitund sína fyrir
geðlæknum, skurðlæknum, sálfræðingum
og hormónasérfræðingum áður en það
getur fengið hormóna, komist í aðgerðir og
annað slíkt.
Strengjabrúður
Ugla: Trans fólk hefur bara aðgang að
heilbrigðiskerfinu ef það gengst undir
ströng skilyrði kynjakerfisins. Það þarf að
sanna að það uppfylli ákveðin skilyrði um
hvað er að vera karl eða kona og er jafnvel
sent í „dömuþjálfun“ til iðjuþjálfa, sem
gengur út á að kenna viðkomandi að hegða
sér, hreyfa sig og gera hlutina „eins og
kona“. Þetta er svolítið eins og færiband
þar sem við framleiðum „hina fullkomnu
konu“ og „hinn fullkomna karl“.
Fólk sem upplifir sig hins vegar ekki
eingöngu sem karl eða konu, heldur sem
bæði eða algjörlega utan þessarar tvíhyggju,
hefur lítinn sem engan aðgang að
hormónum, breytingu á kynskráningu eða
nafnabreytingum. Það er svolítið eins og
heilbrigðiskerfið sé strengjabrúðumeistarinn
og við séum brúður sem kerfið spilar með
að vild – eða ekki.
Kitty: Ég tengi algjörlega við þessa
tilfinningu að vera eins og strengjabrúða.
Læknismeðferð mín á fullorðinsárum hefur
einkennst af því að ég þarf að bregðast
„rétt“ við heilbrigðiskerfinu og ég er
hrædd um að ef ég geri eitthvað vitlaust
hafi það áhrif á þá þjónustu sem ég fæ.
Sú þjónusta hefur verið mjög upp og
ofan. Hormónaskammturinn minn hefur til
dæmis verið minnkaður án þess að ég fái
að ræða það við lækninn minn. Í rúm sex
ár hef ég verið að vinna að því að komast
til Bretlands til sérfræðings sem veit hvað
hann er að gera en án árangurs. Alltaf ætla
læknarnir mínir að ráðfæra sig við kollega
sína erlendis – lækna sem hafa aldrei hitt
mig og ég fæ ekki einu sinni vita hvað heita
– og læknisheimsókn eftir læknisheimsókn
líður án þess að staðið sé við það sem mér
er sagt að verði gert. Ég fæ sjaldnast að
vita hvaða læknar hafa áhrif á meðferðina
mína eða hvaða upplýsingar þeim eru
veittar. Í hvert skipti sem ég fer til læknis
er ég skíthrædd um að meira verði krukkað
í meðferðina mína og ég veit aldrei hvaða
spotta verður kippt í.
Það grátbroslega við þetta allt
er að þessi meðferð hefði verið óþörf
ef sá hluti líkama míns sem sér um
hormónaframleiðsluna hefði ekki verið
fjarlægður við þriggja mánaða aldur. Í dag
þarf ég að panta tíma hjá sérfræðingum
til að fá lyfseðil fyrir nauðsynlegum
hormónum, sprauta mig á þriggja vikna
fresti, bera á mig gel daglega og ég þarf að
sjálfsögðu að greiða þetta að hluta til sjálf.
Skortur á þekkingu
Ugla: Trans fólk talar oft um að hafa
upplifað sig sem trans strax í barnæsku, þó
að margir finni það löngu síðar. Á Íslandi
er ekki margt í boði fyrir trans börn og
einstaklingum er ekki treyst til að segja
fyllilega til um eigin upplifun fyrr en þeir
verða 18 ára. Börn og unglingar geta farið
í ákveðið ferli í gegnum BUGL og fengið
stopphormóna sem hægja á áhrifum
kynhormóna, og þar með kynþroska,
þangað til þau verða eldri. Samkvæmt
því sem ég hef heyrt frá trans börnum
og foreldrum þeirra er þessu ferli og
vinnureglunum í kringum það þó verulega
ábótavant.
Sjálf áttaði ég mig á því að ég væri
trans mjög ung en ég rak mig í sífellu á
veggi innan heilbrigðiskerfisins sem ég
gat ekki útskýrt af því að ég hafði ekki
þekkinguna til þess. Ég þurfti, og þarf
enn í dag, að útskýra fyrir læknum og
heilbrigðisstarfsfólki hvað það er að vera
trans og hvernig þetta virkar allt saman.
Maður hefði haldið að fyrst heilbrigðiskerfið
skikkar fólk til að fylgja einhverjum reglum
væri allavega einhver grunnþekking til
staðar. Það er augljóst að upplifun trans
fólks er ekki í fyrirrúmi hér.
Kitty: Ég var ekki talin nógu gömul til að fá
að vita neitt um minn líkama fyrr en ég var
orðin tólf ára. Þá flaug ég til Reykjavíkur
þar sem farið var með mig til sérfræðings. Á
þeim tíma var löngu búið að fjarlægja eistun
mín og því þurfti ég hormónagjöf. Við tóku
reglulegar heimsóknir til læknis, endalausar
blóðprufur og læknirinn minn, eldri maður,
þurfti alltaf að þukla á brjóstunum á mér í
hverri heimsókn. Ég skildi það ekki en mér
var aldrei sagt að ég mætti segja nei. Alltaf
var ég svo minnt á að ég ætti ekki að segja
neinum frá því sem væri að mér. Ég fór
inn á BUGL þrettán ára gömul og meira að
segja þá var mér sagt að það væri óráðlegt
að segja frá því hvað væri í gangi. Ég var
send til geðlæknis sem ég mátti ekki segja
frá sjálfri mér; það var spes upplifun.
Þegar fram liðu stundir fór ég að sækja
mér þekkingu erlendis. Ég fór 22 ára
gömul á mína fyrstu ráðstefnu og komst
þar að því að sú upplýsingagjöf sem ég
hafði fengið frá lækninum mínum væri til
skammar og að nær öll meðferðin sem ég
fór í hefði verið að öllu óþörf. Þekkingin
er bara ekki til staðar hér á landi og það
er verið að vinna eftir löngu úreltum
kenningum sem Sameinuðu þjóðirnar og
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafa meðal
annars gagnrýnt harðlega.
Óþörf inngrip fordæmd
Ugla: Þetta er einmitt áhugavert í sambandi
við skýrslu sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin
gaf út en þar er kallað eftir því að óþarfa
inngrip í líkama intersex fólks verði bönnuð
og ófrjósemisaðgerðir á trans fólki eru
fordæmdar. Það er nefnilega þannig í
mörgum löndum að trans fólk þarf að
undirgangast ófrjósemisaðgerðir til að geta
farið í kynleiðréttingarferli og það er jafnvel
skikkað til að skilja við maka sinn í kjölfarið.
Sum lönd gera einnig þá kröfu að þú þurfir
að fara í kynfæraaðgerð til að geta fengið
nýja kynskráningu og breytt nafni þínu
lagalega.
Kitty: Ýmsar aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa
verið að tala fyrir breytingum á meðferð
intersex einstaklinga. Evrópuráðið gaf út
skýrslu þar sem staða intersex fólks í Evrópu
er rakin og settar eru fram tillögur um hvað
þurfi að bæta. Þar á meðal er að koma í veg
fyrir óþörf læknisfræðileg inngrip og tryggja
líkamlega friðhelgi okkar.
Átti að vera hommi
Kitty: Þótt rannsóknir og skýrslur séu
mikilvægar skiptir upplifun einstaklinganna
sjálfra ekki síður máli. Hvernig upplifðir þú
þitt leiðréttingarferli?
Ugla: Áður fyrr voru allir sannfærðir um
að ég væri samkynhneigður karlmaður
og ég fékk uppnefni í tengslum við það
strax í 2. bekk. Ég var kölluð kelling og
sögð „hommalegur“ í niðrandi merkingu.
Þegar ég varð eldri fóru af stað alls kyns
kjaftasögur um að ég væri hommi þrátt
fyrir að ég hefði aldrei talað um það
eða upplifað mig þannig. Þetta varð svo
alvarlegra og náði hámarki í framhaldsskóla
þar sem þessi þrýstingur kom ekki aðeins
frá bekkjarfélögum og samfélaginu almennt
heldur líka frá hinsegin samfélaginu sem
vildi troða mér í eitthvert mót. Það voru allir
sannfærðir um að ég væri hommi og ætti
bara eftir að átta mig á því.
Kitty: Þannig að allir í kring um þig voru
í raun búnir að ákveða hver þú værir og
efuðust um getu þína til sjálfskilgreiningar?
Ugla: Já, einmitt. Það var eins og mín eigin
upplifun skipti ekki máli vegna þess að
62