Fréttablaðið - 12.06.2021, Blaðsíða 77
Ég hreifst af hljómi
íslenskunnar og var
með veðurfregnir og
morgunleikfimi á
heilanum í heilt ár þar
til ég ákvað að skrá
mig í íslenskunám í
Frakklandi.
Mao Alheimsdóttir fékk
nýlega Nýræktarstyrk fyrir
skáldsögu sína Veðurfregnir
og jarðarfarir. Mao fæddist
árið 1983 í Póllandi.
kolbrunb@frettabladid.is
„Ég er mjög þakklát fyrir að hafa
fengið þennan styrk. Slík viður-
kenning er mikil hvatning til að
halda áfram að skrifa og eltast við
draumana,“ segir Mao, en Nýrækt-
arstyrkir eru veittir árlega fyrir
skáldverk höfunda sem eru að stíga
sín fyrstu skref á ritvellinum.
Veðurfregnir og jarðarfarir er
fyrsta skáldsaga Mao en hún hefur
skrifað ljóð og smásögur. „Þetta er
skáldsaga um ský, loftslagsmál og
veðurfræðing, Lenu, sem reynir að
átta sig á alls kyns náttúrulegum
fyrirbærum, meðal annars tilfinn-
ingum sínum. Þetta er líka kyn-
slóðasaga að því leyti að þarna eru
sögur um ömmu og móður Lenu
og það er farið aftur í tíma til 1970
í kommúníska ríkið.
Í umsögn bókmenntaráðgjafa
um verkið segir meðal annars:
„Afbragðs vald höfundar á samspili
frásagnarháttar og inntaks birtist í
f læðandi texta sem undirstrikar
líkindin með hverfulli náttúrunni
sem Lena kannar og leit hennar að
bæði samastað og sátt milli fortíðar
og nútíðar.“
Mao lærði íslensku í Sorbonne-
háskóla í París og fluttist hingað til
lands árið 2006. Hún lauk MA-gráðu
í ritlist við Háskóla Íslands árið 2020
og er fyrsti nemandinn af erlendu
bergi brotinn sem var innritaður í
námið „Fyrir mörgum árum lang-
aði mig til að verða jarðfræðingur
en mig vantaði örfáar einingar til
að komast í það nám í Póllandi.
Þá ákvað ég að koma til Íslands,
sem er að mörgu leyti mekka jarð-
fræðinga. Í Stafafelli í Lóni, þar
sem ég var í einn mánuð, var alltaf
verið að hlusta á Gufuna. Ég hreifst
af hljómi íslenskunnar og var með
veðurfregnir og morgunleikfimi á
heilanum í heilt ár þar til ég ákvað
að skrá mig í íslenskunám í Frakk-
landi. Ég vildi ekki flytja til landsins
án þess að hafa einhver tök á tungu-
málinu.“
Mao hefur verið í sambandi við
útgefendur sem sýndu handritinu
áhuga. „Ég skrifaði þessa sögu sem
MA-verkefni í ritlist. Nú langar
mig til að setjast niður, fá fjarlægð
á þessa sögu og vinna aðeins meira
í henni.“ n
Skáldsaga um ský
og veðurfræðing
Ég er mjög þakklát, segir Mao um Nýræktarstyrkinn. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR
Menning 41LAUGARDAGUR 12. júní 2021