Morgunblaðið - 06.05.2021, Side 40
Þjóðleikhúsið ber
nafn með rentu –
næstum þriðjungur
þjóðarinnar sækir sér
þangað skemmtun og
andlega upplyftingu á
hverju ári. Jafnvel á
þessum afleitu Covid-
tímum hefur því tekist
að gleðja gesti sína
með nýju íslensku
verki (Kópavogskrónika), erlendu
samtímaverki (Upphaf), nýju
barnaleikriti (Kafbáturinn), sígildu
nútímaverki í sterkri og ögrandi
uppfærslu (Nashyrningarnir), skil-
að merkilegu innleggi í umræðu
samtímans um andleg veikindi og
ábyrgð þjóðfélagsins (Vertu Úlfur)
og sett á svið uppáhaldsfjölskyldu-
skemmtun Íslendinga með nýjum
þrótti (Kardemommubærinn), og er
þó ekki allt talið; þegar öll sund
virtust bókstaflega lokuð var bara
leikið á tröppunum fyrir framan
húsið.
Í fyrra fagnaði Þjóðleikhúsið 70
ára afmæli og er þó mun lengra síð-
an hafist var handa við bygginguna.
Húsið var að stórum hluta byggt
fyrir röskum 90 árum í miðri
heimskreppu. Það var Íslendingum
til sóma að láta erfiða tíma ekki
aftra sér frá því að gera að veru-
leika þann draum sem Indriði Ein-
arsson og Sigurður Guðmundsson
höfðu fyrst kastað á milli sín fyrir
hálfri annarri öld.
Með sama hætti var það mikil
framsýni að ljúka við byggingu
Hörpu, þess frábæra tónlistarhúss
sem nú fagnar tíu ára afmæli, þrátt
fyrir bankahrunið 2008.
Að nýju hafa stjórnvöld boðað
miklar fjárfestingar í innviðum til
að bregðast við þeirri efnahags-
kreppu sem er fylgifiskur veirufar-
aldursins mikla. Þá er gott að
minna á að innviðir eru ekki bara
vegir og brýr, skólar og sjúkrahús
og allt hvert öðru þarfara; það eru
líka til menningarlegir innviðir og á
því sviði býðst núna al-
veg sérstakt tækifæri
sem snýr að Þjóðleik-
húsinu.
Um áratuga skeið
hefur verið bent á
nauðsyn þess að bæta
aðstöðu Þjóðleikhúss-
ins til sýninga á minna
sviði. Í því sambandi
hefur verið viðraður sá
kostur að byggja við
Þjóðleikhúsið, austan
megin, einfalda við-
byggingu, svokallaðan svartan
kassa, með leiksviði fyrir um það bil
200-300 áhorfendur. Minna svið
hússins hefur lengi verið í hinu
gamla leikfimishúsi Jóns Þorsteins-
sonar sem er einmitt það, gamalt
leikfimishús. Það uppfyllir ekki
kröfur sem eðlilegt er að gera til
aðstöðu helstu sviðslistastofnunar
þjóðarinnar. Svartur kassi sem er
sambyggður leikhúsinu er næsta
stóra skrefið í þróun Þjóðleikhúss-
ins sem leikhúss og samverustaðar,
rétt eins og bygging nýja sviðsins
varð Borgarleikhúsinu mikill vegs-
auki. Í anddyri og á veitingastaðn-
um hittast gestir sem eru að fara að
sjá ólíkar sýningar og ferðin verður
meiri upplifun fyrir vikið. Eins yrði
það í Þjóðleikhúsinu, þar sem góðar
breytingar hafa nú verið gerðar á
framhúsi sem gætu nýst gestum
beggja sviða, þar myndu blanda
geði nashyrningar og ræningjar,
úlfar og Kópavogsbúar.
Með þessari viðbyggingu fengi
Þjóðleikhúsið ekki bara svið sem
sæmir slíkum stað, heldur gæti það
líka leyst ýmiss konar vanda annan.
Íslenski dansflokkurinn, sem hefur
verið á skammarlegum hrakhólum í
mörg ár, gæti fengið aðstöðu í Jóns
Þorsteinssonar húsinu og haft sýn-
ingar ýmist þar eða í Þjóðleikhús-
inu, ef um semdist, svo dæmi sé
tekið. Undanfarið hafa verið mjög
athyglisverðar umræður um nauð-
syn þess að stofna þjóðaróperu.
Yrði það gert, gæti hún átt í góðri
samvinnu við Þjóðleikhúsið, komist
með sýningar á Stóra sviðið vegna
aukins sveigjanleika hjá leikhúsinu
sjálfu, eða sýnt á nýja sviðinu og
auðvitað líka í Hörpu eftir atvikum.
Eðlilegt væri að skoða þann kost að
þjóðarópera yrði sjálfstæð listræn
eining tengd þjóðleikhúsi, eins og
er víða í Evrópu. Þá myndi yf-
irbygging og stoðdeildir samnýtast
vel og stærstur hluti framlags til
óperuflutnings geta farið til list-
sköpunarinnar sjálfrar, eins og vera
ber. Hús eru byggð utan um líf og
viðbyggingin við Þjóðleikhúsið gæti
stuðlað að farsælli lausn á ýmsum
vanda íslenskra sviðslista, sé skyn-
samlega á málum haldið.
Þetta er sannarlega ekki ný hug-
mynd og fyrir fimmtán árum vann
þýskt verkfræðifyrirtæki ítarlega
úttekt á slíkri viðbyggingu sem að
flestu leyti er kórrétt enn þann dag
í dag. Upp úr henni vann Gunnar
Torfason verkfræðingur aðra góða
úttekt nokkrum árum síðar. Alltaf
öðru hverju síðan hafa verið haldnir
líflegir fundir í ráðuneytum um nýj-
ar úttektir og frumathuganir og
minnisblöð og margt eyðublaðið
hefur mátt lúta í gras. En nú er sá
kostur að ganga til verka og leysa
húsnæðismál Þjóðleikhússins, eins
og mennta- og menningar-
málaráðherra lagði til í grein í til-
efni afmælisins (Morgunblaðið, 23.
apríl 2020). Hér skal tekið undir
það, nú þegar stendur til að fjár-
festa í innviðum: Notum tækifærið,
eflum menningarstarf okkar þegar
sverfur að og ráðumst í viðbygg-
ingu við Þjóðleikhúsið og eignumst
um leið það leikhús sem þjóðin á
skilið.
Eftir Halldór Guð-
mundsson »Notum tækifærið,
eflum menningar-
starf okkar þegar sverf-
ur að og ráðumst í við-
byggingu við
Þjóðleikhúsið.
Höfundur er rithöfundur og formaður
þjóðleikhúsráðs.
Eflum menningu á
krepputíma – Ljúkum við
byggingu Þjóðleikhússins
40 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. MAÍ 2021
Við Íslendingar
elskum að syngja. Við
eigum líklegast
heimsmet miðað við
höfðatölu í þátttöku í
kórastarfi, nema ef
vera skyldi að frænd-
ur okkar Færeyingar
standi okkur framar
enda eru þeir líka
kórelskir með af-
brigðum.
En Færeyingar vin-
ir okkar standa okkur langt að
baki í fjölda óperusöngvara, þar
tel ég hundrað prósent öruggt að
við sláum allar þjóðir út, að sjálf-
sögðu miðað við þessa frægu
höfðatölu.
Íslenskir söngvarar úr öllum
geirum vekja hrifningu og aðdáun
um allan heim. Leitun er að betri
fulltrúum fyrir Ísland; vel mennt-
að, menningarsinnað fólk sem hríf-
ur með sér áhorfendur um allan
heim með undurfögrum röddum
sínum og músíkalíteti. Flest hefur
þetta fólk, sama úr hvaða geira,
komið við í tónlistarskólakerfinu.
Úr skólanum okkar, Söngskóla
Sigurðar Demetz, eru nú til að
mynda fimm söngvarar fastráðnir
við virt óperuhús í Evrópu, og
fjöldinn allur af fyrrverandi nem-
endum skólans stundar nám er-
lendis. Þetta hlýtur að teljast land-
kynning sem segir sex.
Einn okkar allra besti mennta-
málaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason,
lagði grunninn að íslenska tónlist-
arskólakerfinu á sjöunda áratug
síðustu aldar. Kerfið er einstakt á
heimsvísu og öfundarefni kollega
okkar um allan heim og við eigum
að hlúa að því fremur en gera því
erfiðara um vik, enda hefur það
margsannað gildi sitt bæði með
blómstrandi menningarlífi hér á
landi og þeirri miklu jákvæðu
landkynningu sem tónlistarmenn
okkar hafa staðið fyrir.
Síðan kerfið komst á í núverandi
mynd hefur söngkennsla hérlendis
blómstrað. Fjöldi barna, unglinga
og fullorðinna stundar söngnám í
Söngskóla Sigurðar Demetz, Söng-
skólanum í Reykjavík, Listaháskól-
anum og í söngdeildum ýmissa
tónlistarskóla um land allt.
En nú eru blikur á lofti í höf-
uðborginni Reykjavík. Hér hefur
nemendum í söngnámi fækkað ansi
mikið frá því að samningur milli
borgar og ríkis tók gildi um tón-
listarkennsluna. Sá samningur fel-
ur í sér að mið- og framhaldsstig í
söngnámi fellur undir ríkið, og
okkur reiknast til að nú séu 120
færri söngnemar við nám í borg-
inni en fyrir 10 árum.
Leita þarf skýringa á
þessari fækkun, enda
er engin vöntun á um-
sóknum um skólavist,
og því er minnkuð að-
sókn ekki fullnægj-
andi skýring á stöð-
unni.
Nú bregður svo við
að enn einu sinni
steðja fjárhagserf-
iðleikar að skólanum
okkar, þar sem í fyrr-
nefndum samningi
milli ríkis og borgar gleymdist að
gera ráð fyrir eðlilegum launa-
hækkunum kennara. Þessi staða,
sem kemur upp ítrekað frá því að
ríkið tók við efri stigum námsins,
er líklegasta skýringin á fækkun
nemenda þar eð skólar þurfa að
bregðast við þessari stöðu með
fækkun nemenda og minnkuðum
stöðugildum kennara.
Víða um land, þar sem tónlistar-
skólarnir eru reknir af sveit-
arfélögunum, hafa þau gripið inn í
og bætt upp þessa skekkju, en því
hefur ekki verið fyrir að fara hjá
borginni hingað til.
Það stefnir því í að ómögulegt
verði að halda úti þessu glæsilega
metnaðarfulla námi eins og við
viljum hafa það og erum svo stolt
af.
Við skólann okkar, Söngskóla
Sigurðar Demetz, starfa söngkenn-
arar sem flestir hverjir eru enn
starfandi söngvarar. Það er erfitt
að horfa upp á að eftir þetta krefj-
andi ár með tilheyrandi tekjufalli
sem við höfum þurft að þola í
skugga heimsfaraldurs þurfi mögu-
lega líka að saxa á þær föstu
tekjur sem fólk hefur haft fyrir
kennslu ef grípa þarf til nið-
urskurðar kennslumagns.
Í kreppunni miklu tóku þáver-
andi stjórnvöld þá djörfu ákvörðun
að efla allt nám, enda er nám for-
senda allra framfara. Mig langar
til að hvetja ríki og borg til að
taka höndum saman og taka aðra
eins ákvörðun varðandi tónlist-
arnám í borginni, menningarlífi
landans og heimsins alls til gæfu.
Íslenskt söngnám
á ögurstundu
Eftir Hallveigu
Rúnarsdóttur
»Höfundur hvetur ríki
og borg til að taka
höndum saman og
standa vörð um blóm-
legt söngnám hér-
lendis.
Hallveig
Rúnarsdóttir
Höfundur er söngkona, formaður FÍT
– klassískrar deildar FÍH og verðandi
aðstoðarskólastjóri Söngskóla Sig-
urðar Demetz.
hallveigrunars@gmail.com
SÓLGLERAUGU
frá Aspinal of London
LAUGAVEGI 24 - REYKJAVÍK - S. 552
SKIPAGÖTU 7 - AKUREYRI - S. 462 4646
Smáralind | Kringlunni | Reykjanesbæ | Akranesi | Sími 511 2022 | dyrabaer.is
Úrval náttúrulegra bætiefna og fóðurs fyrir hunda og ketti.
Nánar á dyrabaer.is
HOLLUSTA OG HEILBRIGÐI FRÁ