Strandapósturinn - 01.06.1991, Síða 61
gefið hafi frá sér hljóð í hærra lagi. Þýsk (Buchhaven?) frystivél
var sett í frystihúsið, þegar Andrés var þar vélamaður. Kristín
man líka vel eftir þessari vél og leikur hamaganginn í henni inn á
segulbandið af mikilli innlifun. Andrés segist oft hafa vorkennt
Vilhelmínu Gísladóttur, þegar hann var að setja vélina í gang kl. 4
að morgni. Þá fór allt á annan endann í „Steinhúsinu", heimili
hennar og Jakobínu dóttur hennar.
„Um þetta leyti horfði ekki vel með atvinnu fyrir mig á Hólma-
vík. Hreppsnefndin vildi mig hálfpartinn á burt, því að hún
óttaðist sveitarþyngsli af mínum völdum. Hún hafði því ekkert á
móti því, að ég fengi ekkert að gera, og stuðlaði jafnvel að því. En
þá vildi mér til happs, að sænskur maður, sem fenginn hafði verið
til að setja niður vélina í Geir, setti það skilyrði, að ég ynni með sér
að verkinu, og óskaði eftir að ég yrði vélamaður á bátnum, því að
hann hafði kennt mér rækilega á vélina. Þeir losnuðu því ekki svo
glatt við mig! En þetta var nú rnest í góðu og jafnaðist fljótt og til
endanlegrar frambúðar. Stuttu seinna liðsinnti svo hreppsnefnd-
in okkur einróma við húsnæðiskaup, með ábyrgð sinni.
Geir slitnaði úr legufærum og rak upp í Hólmann. Eftir það
held ég hann hafi ekki verið gerður út frá Hólmavík. Hann var
seldur austur á land. Eg fór með honum til Siglufjarðar. Guð-
mundur Sæmundssou réðst á hann vélamaður og fór austur. Geir
var svipaður Skarphéðni að stærð, f2 tonn, en ég hugsa að Geir
hafi borið eitthvað meira“.
Þessir tveir bátar voru lengi mestu skip Hólmvíkinga og einhver
keppni var víst milli þeirra, kannski meira í gamni en alvöru. Lítil
saga um kappsiglingu þeirra til hafnar á Hólmavík var oft sögð á
fjórða áratugnum. Þeir voru að koma drekkhlaðnir úr róðri og
voru næstum hnífjafnir, nema Geir aðeins á undan, ef eitthvað
var. Þá smeygði Hrólfur á Skarphéðni sér gegnum Hólmasundið
og tók af sér krókinn fyrir Hólmann og varð vel á undan að
bryggju. Andrés kannast ekki við þessa sögu, en segist stundum
hafa farið Hólmasundið á Geir. Ekki hefði formaðurinn, Loftur
Bjarnason, verið hrifinn af því uppátæki og hafi sagt við sig: „Guð
almáttugur hjálpi þér, ég ætla að biðja þig að vera ekki að fara
sunclið".
59