Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Side 15

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Side 15
Þegar við erum pínulítil erum við bara við sjálf. Ég hef alltaf verið kynsegin, ég hef alltaf búið yfir hinsegin kyni, en þegar ég var lítið var það ekki í boði. Ég man eftir því að hafa klippt hárið á mér stutt, vegna þess að mér fannst það flott, og fengið hrós fyrir það. Mér var hrósað fyrir að vera stelpa sem þorði að klippa á sér hárið, eins og ég væri með því að fórna kvenleika mínum til þess að ögra kerfinu. Þær samfélagslegu reglur sem valda þessu eru svo inngrónar í kollinum á okkur að flest áttum við okkur ekki einu sinni á því að þær séu skaðlegar. Börnin okkar eru mótuð af umhverfi sínu, þeim kennt hvað henti þeim og hvað ekki án þess að nokkur geri minnstu tilraun til að komast að því hvaða persónu þau geyma. Litlum stelpum er kennt að með því að klippa af sér allt hárið séu þær ekki litlar stelpur lengur, og litlum strákum er kennt að dirfist þeir að klæðast bleiku afsali þeir sér þar með karlmennsku sinni. Ég hef heyrt leikskólabörn segja hluti eins og: „Af hverju ertu stelpa ef þú ert með stutt hár?“ „Hún vill ekki leika sér með þetta, hún er stelpa.“ og „blár er strákalitur.“ Þetta er ekki þeim að kenna, kyn er lærð hegðun. Kyn er eitthvað sem börnum er kennt frá því þau fæðast. Kynjahlutverk og kynjaðir fordómar er eitthvað sem börn læra af umhverfi sínu, þessu eitraða umhverfi sem mótað er af viðhorfinu um „baráttu kynjanna“ sem er viðhaldið af okkur. Þessar lífsreglur og viðhorf sem börnin okkar erfa frá okkur valda kynbundnu ofbeldi, tilfinningalegri bælingu og fordómum gagnvart hinsegin fólki. Afleiðingarnar valda meiri skaða en við getum ímyndað okkur og styrkja grunnstoðir feðraveldisins. Með hverju barni sem elst svona upp bætum við einum múrsteini við uppistöður kynjakerfisins og það verður erfiðara og erfiðara að berjast gegn því. Það er ekki sjálfsagt fyrir nokkurt barn að fá að hvíla í sínu sjálfi í okkar samfélagi. Þetta orsakast af samspili endalausra lítilla hluta sem við tökum varla eftir í daglegu lífi. Ágæt dæmi eru fötin sem við klæðum börnin okkar í, hárgreiðslan sem við veljum fyrir þau og dótið sem við kaupum handa þeim. Áður en við kynnumst barninu okkar höfum við séð fyrir okkur bláa skyrtu, stuttklippt hár og dótabíl eða bleikan kjól, tíkarspena og barbídúkku. Við segjum þeim hver þau eru áður en þau fá ráðrúm til að komast að því sjálf. Réttur okkar til að skoða eigin kynvitund og lifa samkvæmt henni er því tekinn frá okkur. Við fáum aldrei að ákveða hvernig okkur líður best eða hvað hentar okkur sem einstaklingum best, það er búið að ákveða það fyrir okkur um leið og við fæðumst. Ég man eftir því að hafa reynt að streitast á móti og hvað það var sárt og er það enn í dag, þegar fólk hrinti mér aftur ofan í stelpukassann. Ég man eftir því að hafa steytt hnefann í átt að reglunum, en sama hvað ég reyndi þá sigraði kynjakerfið alltaf að lokum. Það er erfitt að losna úr kassanum, því allt okkar líf hefur samfélagið reynt að troða á okkur orðum og skilgreiningum sem henta okkur ekki, sagt okkur að við eigum að haga okkur á ákveðinn hátt, vera einhver sem við erum alls ekki. Það er svo langt síðan ég var trútt sjálfu mér að ég man ekki hver ég er lengur. Ég get ekki lengur greint á milli þess sem samfélagið vill og þess sem ég vil. Við eigum við ofurefli að etja þegar við ögrum samfélaginu með tilvist okkar einni saman. Það er erfitt ferli að leita innra með sér að þeirri manneskju sem hefur orðið undir. Það er erfitt að passa ekki inn í það sem samfélagið kallar venjulegt og það er erfitt að vera þetta hinsegin kyn. Í fullkomnum heimi fengjum við öll að lifa án skilgreininga og nokkurrar hugsunar um hvaða þýðingu okkar tjáning og hegðun hefði fyrir okkar sjálfsmynd. Þá væri ekkert „hefðbundið kyn“ og „hinsegin kyn“. Í slíkum heimi fengjum við að stíga okkar fyrstu skref sem við sjálf, en ekki staðalímyndin af því sem við eigum að vera. Í fullkomnum heimi væri kyni ekki þvingað upp á hvern einasta einstakling sem fæðist. Því þannig erum við öll innst inni. Við erum bara við sjálf, bara fallegar og marglitar mannverur. Við höfum öll okkar kynvitund, og það eru til jafnmargar útgáfur af henni og við erum mörg. Engin kynvitund er eins, enda upplifir engin manneskja heiminn á sama hátt. Ein kona upplifir sitt kyn ekki á sama hátt og önnur, því tilfinningar þeirra og hugar eru svo ólíkir og einstaklingsbundnir. Þrátt fyrir það skiptum við mannkyninu í tvo kassa, sem er langt frá því að vera raunhæft því við þyrftum tæpa átta milljarða kassa til að ná að flokka öll rétt. Í nútímatali og -hugsun eru hugtökin kvenleiki og karlmennska þröngir kassar sem einungis brotabrot fólks sem skilgreinir sig sem karl eða konu passar inn í, fyrir utan allt fólkið sem fellur utan kynjatvíhyggjunnar og finnur sig alls ekki í þessum hugtökum sem samfélagið telur nauðsynleg. Kvenleiki og karlmennska eru gildishlaðin hugtök, þau þarf að víkka og opna, skapa rými fyrir fleira fólk innan þeirra og utan þeirra. Þau eru ekki kassar í eðli sínu, þau eru róf eða landslag, stöðuvatn eða regnbogi. Karlmennska og kvenleiki er alls konar en þau eru ekki einu möguleikarnir, það er alls konar til utan þeirra sem við þurfum að viðurkenna. Kynjakassarnir okkar tveir eru einungis tvö pínulítil sólkerfi í óteljandi stjörnuþokum og vetrarbrautum. Ekkert okkar er eins, og það sem mér finnst fallegast við það að vera kynsegin er að geta viðurkennt það. Kynseginleiki viðurkennir og ýtir undir hugmyndina um að hver kynvitund sé einstök. Við slítum okkur frá kössunum og takmörkunum þeirra og látum okkur fljóta um í þeim endalausa hafsjó sem það að vera kvár er. Kynsegin fólk er lifandi sönnun þess að við erum ekki jafn einföld og við eitt sinn héldum.

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.