Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Page 33

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Page 33
K Í DRAGI ONUR Dragsenan hér á landi hefur vaxið hratt síðustu ár en rætur hennar má rekja til tíunda áratugarins. Undir lok síðustu aldar (samt bara fyrir rétt rúmlega tuttugu árum) var Dragkeppni Íslands haldin í fyrsta sinn og hefur dragmenning á Íslandi þroskast hratt síðan. Einn stærsti vaxtarkippurinn var sjálfsagt árið 2015 þegar Drag-Súgur hóf sínar mánaðarlegu dragsýningar þar sem öllum áhugasömum var gefinn möguleiki á að koma fram og sýna listir sínar. Dragsenan einkennist nú af mikilli fjölbreytni þar sem öll flóran af draglistafólki kemur saman til að skemmta sér og öðrum. Þegar almenningur hugsar um drag er trúlegt að hann sjái fyrir sér karlmann í drottningargervi, en skiptir kyn máli í dragi? Eru til dæmis margar konur í dragi á Íslandi? Við hittum Oddnýju Svövu Steinarsdóttur, dragdrottningu, til þess að heyra hennar upplifun. „Ég hef oft þurft að heyra að ég sé ekki alvöru dragdrottning einfaldlega vegna þess að ég fæddist með píku,“ segir Oddný, sem einnig er þekkt sem Lola Von Heart í dragi. Konan á bak við gervið Oddný er 24 ára draglistamaður og grafískur hönnuður. Hún ólst upp á Ólafsfirði en flutti þaðan sem unglingur. Þegar Oddný hóf framhaldsskólagöngu sína flutti hún til Reykjavíkur þar sem hugmyndaheimur hennar víkkaði og hún eignaðist nýja vini. Oddný áttaði sig líka á eigin hinseginleika og 18 ára kom hún út úr skápnum. „Ég vissi alveg að ég væri „öðruvísi“ sem krakki þar sem ég sótti frekar í stelpur, en ég reyndi að loka á þær hvatir. Ég veit ekki hvort ég hafi verið að afneita sjálfri mér, eða hvað það var. En ég kom ekki út úr skápnum fyrr en ég var 18 ára og það var af því ég átti kærustu. Í dag finnst mér erfitt að skilgreina kynhneigð mína en ég hef verið að hugsa mikið um það síðastliðið ár og finnst pankynhneigð eiga vel við mig. En þar á eftir kemur spurning um kyngervi og kynvitund; hver er ég án væntinga samfélagsins? Stór spurning sem ég á enn eftir ósvarað.“ Eftir að framhaldsskólanum lauk fór Oddný í BA-nám við Listaháskóla Íslands. Lokaverkefni hennar vakti talsverða athygli en Oddný skrifaði og hannaði bók um dragsenuna á Íslandi. Í bókinni beinir hún sjónum sínum að konum í dragi og fjallar þar sérstaklega um sjö konur sem hafa haft áhrif á dragmenningu samtímans hér á landi. Sumar eru drottningar en aðrar kóngar en allar eiga þær sínar sérstöku sögur sem lesandinn fær að skyggnast inn í. Fyrstu skref drottningarinnar Áhugi Oddnýjar á dragmenningu Íslands var ekki sprottinn úr neinu tómarúmi. Fyrsta dragsýningin sem hún sá var sýning á vegum Drag-Súgs árið 2017. „Ég man eftir að fara í fyrsta skipti á Drag- Súg og sjá Jenny Purr uppi á sviði. Á því augnabliki kviknaði á einhverju hjá mér og ég bara þurfti að prófa þetta.“ Oddný steig strax skref í átt að draumnum. Hún hafði heyrt að áheyrnarprufur fyrir Drag-Súg væru virkilega erfiðar, enda var dragsenan í miklum blóma á þessum tíma. Hugmyndir hennar um háskalega senu reyndust sem betur fer ekki réttar og hún fann strax að hún var umkringd fólki sem var eins og hún, og hlýjan og samstaðan í samfélaginu var mikil. „Þegar svona mikið af einstöku fólki með einstaka orku kemur saman, þá myndast töfrandi andrúmsloft og maður upplifir sig sem part af fjölskyldu. Tengingin er engu lík í þessum hóp af því við erum öll einhvern veginn hinsegin, og ef ekki hinsegin þá opin fyrir því og mikill stuðningsaðili.“ Lola verður til - hver er Lola? Það var svo á Hinsegin dögum 2017 sem að Oddný steig inn í dragsenuna, fyrst sem aðstoðarmanneskja á sýningu. Þar kynntist hún fljótlega dragdrottningunum og kóngunum og var í kjölfar þess skráð í Drag-Lab, eins konar dóttur-vettvang Drag-Súgs. Oddný var talsvert stressuð, svona eins og gengur, fyrir sinni fyrstu sýningu sem dragdrottning en eftirvæntingin var þó stressinu yfirsterkari. Það var fullt út að dyrum og stuðningur áhorfenda nær áþreifanlegur og varð þetta, eins og Oddný orðar það: „besta upplifun EVER!“ Þetta var í fyrsta sinn sem Lola Von Heart birtist heiminum. 33

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.