Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Side 43

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Side 43
ÖRVIÐTAL Nafn, fornafn, aldur? Felix Bergsson, hann, 54 ára. Hver er þín fyrsta hinsegin minning? Ég man að þegar talað var um homma þegar ég var barn að aldri lækkuðu menn alltaf róminn og fóru að hvísla. Svo sagði einhver stundarhátt: „Æ þetta vesalings fólk.“ Ég held að þetta hafi verið eitt af því sem varð til þess að maður var lengi að sætta sig við kynhneigðina. Ég vildi ekki vera „vesalings fólk“. Svo man ég mjög vel eftir mömmuleikjum með vinum mínum þegar ég hef verið 5-6 ára. Ég vildi alltaf vera mamman og taka á móti pabbanum þegar hann kom heim úr vinnunni með faðmlögum og kossum. Hver er þín helsta hinsegin fyrirmynd? Ég er mjög hrifinn af baráttufólki eins og Peter Tatchell, en hann er Ástrali sem hefur unnið gríðarmikið og óeigingjarnt starf að mannréttindamálum í Bretlandi og um heim allan. Annars sæki ég mínar fyrirmyndir fyrst og fremst í hugrakka vini mína og félaga um heim allan sem þora að standa upp og vera þau sem þau eru þrátt fyrir allar þær hindranir sem verða í vegi, bæði í einkalífi en eins á opinberum vettvangi. Hvað gleymdist að segja þér þegar þú varst ungmenni? Að njóta þess að vera ungur, njóta þess að vera frjáls í námi og festa ekki ráð mitt of snemma, ferðast um heiminn, kynnast mismunandi menningarheimum og eignast vini alls staðar. Já og það gleymdist að segja mér hvað það væri æðislegt að vera samkynhneigður. Eiginlega forréttindi. Hvernig myndir þú vilja hafa elliheimilið? Geggjað skemmtilegt, opið, með góðum mat og drykk (kampavíni), skemmtilegum hinsegin vinum og almennri gleði. Helst myndi ég vilja að Jón Þór Þorleifsson og Eva María og Birna Glimmer yrðu þar líka til að halda partýinu gangandi. Hvernig viltu taka þátt í hinsegin samfélaginu? Ég vil fyrst og fremst vera til staðar til stuðnings góðum málum. Ég vil halda áfram að segja söguna okkar til að tryggja að hún gleymist ekki. Þannig getum við best haldið áfram veginn til mikilvægrar framtíðar þar sem fjölbreytileikinn nýtur skilnings og kemur öllum í heiminum til góða. GLÆNÝ HÝRYRÐI! Texti: Bjarndís Helga Tómasdóttir, hún, 39 ára Árið 2020 blésu Samtökin ´78, í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar, til hýryrðakeppni. Markmiðið var að eignast fleiri orð til þess að við getum öll tjáð okkur um veruleika okkar á íslensku. Sérstaklega var óskað eftir tillögum að kynhlutlausum orðum í stað mágkona/mágur, strákur/stelpa og ekkja/ekkill. Í dómnefnd Hýryrða 2020 sátu Alda Villiljós, Ágústa Þorbergsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, Valgerður Hirst Baldurs og Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Hér má sjá þau orð sem urðu fyrir valinu ásamt rökstuðningi dómnefndar. Kvár (sbr. kona, karl) Dómnefnd var sammála um að orðið kvár væri heppilegast sem ókyngreint nafnorð um fullvaxta manneskju. Orðið hefur þegar hlotið nokkra útbreiðslu meðal hinsegin fólks, en er þó ekki nema nokkurra mánaða gamalt. Orðasmiður er Hrafnsunna Celeste Ross. Stálp (sbr. stelpa, strákur) Orðið stálp er heppilegt að því leyti að það tengist lýsingarorðinu stálpaður og hljómar því kunnuglega ásamt því að byrja á st- líkt og bæði strákur og stelpa. Auk þess hefur orðið -á- líkt og strákur, og -lp- líkt og stelpa. Dómnefnd var sammála um að gagnsæi þessa orðs gæti orðið til þess að það næði útbreiðslu auðveldlega. Orðasmiður er Inga Auðbjörg Straumland. Mágkvár (sbr. mágkona, mágur) og svilkvár (sbr. svilkona, svili) Fyrir frændsemisorðin sem hefjast á mág- og svil- fannst dómnefnd liggja beint við að skeyta aftan við nafnorðinu kvár, en þessi orðmyndun kom einnig fram í tillögum þátttakenda. Þessi aðferð gæti jafnframt reynst vel fyrir fleiri orð í framhaldinu, þá sérstaklega þar sem seinni hluti samsetts orðs er -kona og/eða -maður. Orðasmiður er Regn Sólmundur Evu. Fengið af síðu Samtakanna ´78 Við fögnum þessum frábæru orðum og aukinni notkun þeirra í daglegu tali; þau eru alveg örugglega komin til að vera. Það hafa líka heyrst nýjar og skemmtilegar útgáfur af samsettum orðum, til dæmis þegar Ugla Stefanía var fundarstjóri á aðalfundi Samtakanna ´78 í mars síðastliðnum. Þar stýrði hún kosningu í gegnum Zoom þar sem fundargestir voru beðnir um að kjósa með „broskvári“ í stað „broskalls“. Er hugsanlegt að þess sé ekki langt að bíða þar til almenningur í landinu velur kynhlutlaus orð við hvert tækifæri? 43

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.